fimmtudagur, 10. júlí 2014

„Lengi tekur sjórinn við.“


 
Þessi fyrirsögn var fyrir nær þremur áratugum hvatningartexti í átaki útvegsmanna til þess að brýna aðila um að henda ekki rusli fyrir borð.  Það var mál manna að þetta átak hafi tekist vel. Í framhaldi voru lagaðar aðstæður um borð í fiskiskipum til þess að hirða rusl og aðstaða í höfnum til þess að taka á móti því. Í tímans rás hafa verið fleiri svona átök og að sjálfsögðu er markviss umræða nauðsynleg til þess að viðhalda málinu.

Sjálfboðaliðar tína rusl

Því er þetta rifjað upp að nýlega gafst undirrituðum kostur á að taka þátt í hreinsunarátaki í fjörum vestur á Hornströndum. Farið var í Kjaransvík, Hlöðuvík og Hælavík til þess að týna rusl. Þetta átak var á vegum Ísafjarðarbæjar, ferðaþjónustu aðila á svæðinu, björgunarsveita og fleiri. Alls tóku um sextíu manns þátt í verkefninu. Töluvert rusl safnaðist í þessari ferð og töldu menn það geta verið yfir 10 tonn, mest veiðafæraúrgangur og plastílát.

Þetta átak byggði á þátttöku sjálfboðaliða og það stóð ekki á henni því færri komust að en vildu. Fólk kom víða að af landinu, auk heimafólks frá Ísafirði og þó nokkurs hóps erlendra gesta bæði námsfólks í námi hér á landi og ferðamenn sem frétt höfðu af átakinu.

Lifnaðarhættir fyrri tíma

Sérstaklega minnisstætt úr þessari ferð er þegar Eyvindur Eiríksson rithöfundur lýsti mannlífinu í Hlöðuvík en hann bjó þar fram til 1943 þá sjö ára gamall er foreldrar hans fluttu til Ísafjarðar. Á nokkrum árum tókst foreldrum hans að byggja upp fjárstofn með 50 til 60 kindum. Auk þess var á heimilinu ein kýr og einn hestur. Búið var tvíbýli í torfhúsi með timburgöflum og þiljuðu að innan með timbri. Íverustaðurinn var hitaður upp með frumstæðri eldavél. Björgin voru nýtt til eggja- og fuglatekju og róið til fiskjar þegar þess var kostur. Ekki var mikið um gestakomur nema þegar fólk kom til þess að nýta bjargið. Þá var sofið þar sem hægt var. Þegar heimilisfólkið flutti 1943 voru allir innanstokksmunir skildir eftir auk bústofns og heimilisdýra sem var fargað, því óheimilt var að flytja féð til Ísafjarðar.

Sérstæð náttúruperla

Hornstrandir eru í dag friðland og þar býr enginn fastri búsetu. Það er þess vegna á ábyrgð okkar allra að vernda þessa sérstæðu náttúruperlu. Um aldir var búið þarna í flestum víkum allt fram undir miðja 20. öldina.  Nýir atvinnuhættir og vaxandi þörf á auknu vinnuafli í þéttari byggðum kallaði á fólkið af þessu svæði og byggðirnar lögðust tiltölulega hratt af upp úr 1940. En náttúruperlan Hornstrandir hefur fengið nýtt hlutverk í uppbyggingu og atvinnusköpun fyrir Vestfirði vegna þess aðdráttarafls fyrir ferðamenn sem friðlandið hefur.

Frá fátækt til velmegunar

Umbreyting landsins úr einu fátækasta landi Evrópu í byrjun 20. aldarinnar í eitt öflugasta velferðarsamfélag  21. aldarinnar hefur kallað á gríðarlegar breytingar frá því “1000 ára“  sjálfsþurftar samfélagi sem við þekkjum nú aðallega úr sögubókum. Meðalaldur Íslendinga er meðal þess hæsta sem þekkist á byggðu bóli. Menntunarstig þjóðarinnar hefur stóraukist og unga fólkið horfir til nýrra valkosta í atvinnumálum þar sem aukin menntun og nýsköpun er forsenda framfara.

Stöðnun ekki valkostur

Í frumfarmleiðslu greinum eins og sjávarútvegi hafa orðið stór stígar framfarir í tækni sem leitt hefur til þess að færri hendur þarf til þess að veiða og verka þann afla sem berst að landi. Það er nokkuð fyrirsjáanlegt að þessi þróun mun halda áfram í næstu framtíð eins og hingað til verði stefnan um sjálfbæran og hagkvæman sjávarútveg vörðuð áfram. Byggðarlög sem ekki ná að aðlaga sig breyttum aðstæðum geta lent í vandræðum og íbúar þeirra í fátækragildrum sem erfitt getur reynst að komast úr. Þess vegna er stöðnun ekki valkostur á kostnað hagkvæmni og nýsköpunar. Dæmið af Hornströndum er nærtækt dæmi um það hvernig fólk mun bregðast við þegar valkostirnir er óbreytt staða eða breytingar og ný tækifæri til framþróunar. 

Sveinn Hjörtur Hjartarson
Skoðun í Fiskifréttum 10. júlí 2014