föstudagur, 7. desember 2018

The smaller the country....

"The smaller the country the longer the speech," sagði Brian Mulroney fyrrverandi forsætisráðherra Kanada að Bush eldri fyrrum forseti USA hafi sagt við sig á fundi NATO, eftir langa ræðu forsætisráðherra Íslands. Það sem meira var hann sagðist eftir þessa ræðu hafa gert sér betur grein fyrir grunnatriðum alþjóða samskipta, sem felast í upphafsorðunum. Þetta kom fram í minningarorðum Kanadamannsins við jarðarför Bush eldri í gær. Hið talaða orð skiptir máli, þótt við eigum engan her og séum fá. Við getum þó allavega látið rödd skynseminnar hljóma og talað máli friðarins. Engin ástæða til að vera með minnimáttarkennd yfir smæð okkar. Þetta er líka áminning um að við eigum að temja okkur hógværð á alþjóðavettvangi. Gaman væri að lesa þessa ræðu líklega Steingríms til þess að gera sér betur grein fyrir hvað það var sem leiddi Bush forseta til þessarar niðurstöðu

þriðjudagur, 4. desember 2018

100 ára fullveldi

Þann 1. janúar 1918 voru Íslendingar 91.368 samtals. Á sama tíma í ár, 100 árum síðar, vorum við 348.450. Það sem fyrst fer um hugann þegar horft er á þessar tölur er í raun spurningin hvað forfeðrunum gékk eiginlega til. Hvernig datt þeim í hug að innan við 100 þúsund manns gætu rekið ein og sér fullvalda ríki á þessari berangurslegu eyju út í miðju Atlantshafi. Fátækasta landið í Evrópu. Dæmið verður enn trylltara þegar haft er í huga að hér var kaldasti vetur í manna minnum, inflúensa sem deyddi fjölda manns og sjálf Katla gaus. Málið hefur líklegast verið of langt gengið til að hætta við allt saman vikunum fyrir 1. desember 1918. Til að gera langa sögu stutta, þá hefur þetta allt samt blessast. Líklegast hefur þjóðin þó aldrei verið eins nálægt því að glata sjálfstæði sínu, alla vega efnahagslegu sjálfstæði og fyrir tíu árum síðan. Þar skall hurð nærri hælum og mikið lán að ekki fór verr. Minnir okkur á að fullveldið er ekki sjálfgefið. En allavega til hamingju með árin 100 og við skulum vona að næstu 100 ár verði jafn farsæl og öldin sem liðin er.

fimmtudagur, 6. september 2018

Góður dagur á Grænlandi

Ég átti nokkra góða daga á Grænlandi fyrir tveimur árum. Tilefnið var þátttaka í vestnorrænni ráðstefnu, sem bar yfirskriftina fiskveiðistjórnun, gagnkvæmur ávinningur fyrir atvinnulíf og samfélag. Þátttakendur voru frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Þó að aðstæður séu um margt ólíkar í löndunum var gott að heyra af þeirri umræðu, sem fram fer í hverju landi um þennan málaflokk. Við Íslendingarnir stóðum fyrir þema sem nefndist fiskveiðistjórnun, byggðapólitík og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja. Farið var yfir þann mikla árangur sem náðst hefur í því að ná tökum á skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu fiskimiðanna. Þar liggur að stórum hluta hin samfélagslega ábyrgð fyrirtækjanna þ.e. að vinna að sjálfbærri nýtingu, ásamt fjölþættri ábyrgð á mörgum sviðum gagnvart starfsfólki og samfélagi. Við erum ekki einir um það að ná góðum árangri á þessu sviði, þótt augljóslega höfum við um margt verið brautryðjendur. Danskur prófessor hélt erindi um hversu langt Danir eru komnir í að bæta samkeppnishæfi sjávarútvegsins og hversu hratt nauðsynleg hagræðing hefur gengið fyrir sig þar í landi. Umræða um veiðigjöld var fyrirferðamikil. Færeysk stjórnvöld eru í umdeildri tilraunarstarfsemi með uppboð á veiðiheimildum, sem ekki sér enn fyrir endann á. Það var sannarlega gaman að koma til Grænlands að nýju, en síðast kom ég þangað fyrir 30 árum. Maður nýtur frábærrar náttúru og gestristni heimamanna og endurnýjar gamlan kunningskap við kollega og kynnist nýju áhugaverðu fólki. Ég ætla að gera orð grænlensks gestgjafa okkar að mínum lokaorðum um þessa ferð, þar sem við sátum í "besta" bátnum í skoðunarferð um Ísfjörðinn eftir ráðstefnuna.(Það var boðið upp á bjór í þessum eina bát.) Hann sagði: "Drengir, við bjóðum ykkur allt það besta í dag, sem landið skartar, í eins góðu veðri og hugsast getur. Pabbi minn sagði, að maður ætti að njóta dagsins, því að enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér, skál."

þriðjudagur, 26. júní 2018

HM í Rússlandi 2018

Þá er þátttöku íslenska landsliðsins lokið á HM í Rússlandi. Vonir okkar um að brjóta nýtt blað í fótboltasögu okkar og komast í 16 liða úrslit urðu ekki að veruleika. Það var mikið afrek þegar við gerðum jafntefli við Argentínu 1:1 með sjálfan knattspyrnumógulínn Messi í argentínska liðinu. Tala nú ekki um þegar Hannes varði vítaspyrnuna hjá Messi. Það var ánægjulegt að Gylfi Sigurðsson skyldi ná að skora úr vítaspyrnunni í leiknum við Króata eftir að hafa mistekist það í leiknum gegn Nígeríumönnum. Framganga liðsheildarinnar hefur verið mikil og góð landkynning fyrir Ísland. Hróður okkar hefur farið víða og fjallað er um okkur af víða af aðdáun og hlutlægni. Slík kynning er ómetanleg. Mikil fagmennska og leikgleði hefur einkennt þessa leika og eru þeir Rússum til mikils sóma. Framundan er áframhaldandi fótboltaveisla, en óneitanlega er spennustigið lægra nú þegar þátttöku okkar er lokið. Áfram Ísland.

laugardagur, 21. apríl 2018

Guðmundur Þorbjörnsson, minning


Í gær var ég við útför Guðmundar Þorbjörnssonar útgerðarmanns, oft nefndur Guðmundur í Gjögri. Ég kynntist Guðmundi í starfi mínu fyrir samtök útvegsmanna. Hann var um áratugi einn af þeim, sem reglulega kom í heimsókn á skrifstofuna í Hafnarhvoli. Guðmundur var hógvær í allri orðræðu, en hann hafði skýra sín og ákveðnar skoðanir. Umræðuefnið var oftar en ekki rekstarskilyrði útgerðar, fiskveiðistjórnun, menn og málefni. Eitt af fyrstu verkefnum mínum í þjónustu útvegsmanna var að fara í gegnum skynsemi þess að kaupa þrjú ný glæsileg skip árið 1986 frá Ulstein í Noregi. Sumum þótti þetta mikið glapræði og höfðu áhyggjur af því að viðkomandi aðilar færu allir lóðbeint á hausinn. Guðmundur var í þessum hópi með nýjan Hákon ÞH 250, Ármann Ármannsson með Helgu II RE 373 og Pétur Stefánsson með Pétur Jónsson RE 69. Minnist sérstaklega orðræðu okkar Guðmundar vegna áhyggju manna af þessum kaupum og glettni hans vegna þess. Til að gera langa sögu stutta áttu þessi skip eftir að reynast mjög vel og er tilkoma þeirra hluti að nýrri framfarasókn í sjávarútvegi eftir gríðarlega niðursveiflu í upphafi níunda áratugar síðustu aldar. Það voru ekki margir í sjávarútvegi sem gátu sýnt jafn glæsilega ársreikninga og Gjögur hf á þessum árum. Fyrirtækið var alla tíð rekið af mikilli ráðdeild á Tómasarhaga, þar sem þau Guðmundur og Auðbjörg eiginkona hans bjuggu. Fyrir þrettán árum vorum við Sirrý ferðafélagar Guðmundar og Auðbjargar í tíu daga ferð um mormónaslóðir í USA. Við áttum þarna nokkra góða daga með þeim hjónum og eftir það góða endurfundi á samkomum útvegsmanna. Fyrir það viljum við þakka. Blessuð sé minning Guðmundar.

mánudagur, 16. apríl 2018

Allir á móti öllum!

Ég viðurkenni það að ég skil lítið í þessari borgarastyrjöld, sem nú hefur staðið sjö ár í Sýrlandi. Sýnist allir vera á móti öllum. Rússar styðja þennan Assad. USA, Bretland og Frakkland styðja andófsmenn að hluta og svo eru Tyrkir að murka líftóruna úr Kúrdum í norðri, sem USA virðist styðja óformlega þó, vegna þess að þeir hjálpuðu til að fella ISIS. Þess á milli koma Ísraelar reglulega í heimsókn og skjóta allt í tælur sem tengist Íran í Sýrlandi og það virðist vera nóg af slíkum skotmörkum. Hisbollah er á kafi í þessu hernaðarbrölti með Assad og Íran. Mega ekki vera að því að berja á Ísrael. Sýnist kominn tími til að allir stigi eitt skref til baka og Assad láti sig hverfa. Af hverju? Maður sem notar eiturgas á eigin þjóð! Það þarf ekki fleiri orð um það. Ég er sammála Trump um að það er nú ekki glæsilegt afspurnar fyrir Pútin að vera mæta á svæðið til að kjassa þennan Assad. Sagan segir að Pútin hafi farið að hjálpa Assad því að honun leist ekkert á blikuna þegar "Arabíska vorið" hófst og fólkið fór að koma út á götur og krefjast breytinga og fella einræðisherra. Allavega, nú eru Bandamennirnir USA, Frakkland og UK búnar að skjóta 120 rakettum á Sýrland. Efast nú um að það muni breyta einhverju öðru en því að fleiri saklausir borgarar á þessu svæði munu láta lífið.

föstudagur, 6. apríl 2018

Sverrir Hermannsson, minning

Ég kynntist Sverri Hermannssyni fyrst sem iðnaðarráðherra. Var í teymi sem ráðið var til þess að fara í gegnum rekstur nokkurra stofnana, sem heyrðu undir ráðuneyti hans. Hann fylgdist náið með framvindu verkefnisins og hlýddi okkur reglulega yfir um frangang þess. Honum var ekki sama hvernig skattpeningum almennings var varið á hans vakt. Þetta var eftirminnilegur tími og lærdómsríkur, sérstaklega áfangafundir með ráðherranum þar sem farið var yfir stöðuna. 
Hann vissi strax hverra manna ég var þegar ég kynnti mig, en þetta voru ekki þannig fundir að við værum að blanda fjölskyldutengslum inn þá umræðu. Sá hluti samskiptanna fór í gegnum föður minn á síðari stigum og þeir höfðu einhver orð um þá tilviljun að ég væri að vinna fyrir Sverri og dóttir hans og pabbi væru vinnufélagar.
Faðir minn og Gréta Lind Kristjánsdóttir eiginkona Sverris voru systkinabörn. Þau voru jafnaldrar og æskufélagar, alin upp á Ísafirði. Milli þeirra var alltaf mikill frændkærleikur, þótt leiðir skildu á unglingsárum og þau færu í sitt hvora áttina.
Síðast hittumst við Sverrir í jarðarför bróður hans Gísla Hermannssonar útvegsmanns. Hann minntist heimsóknar minnar og foreldra minna í sumarhús þeirra hjóna á Grund í Skutulsfirði.
Þessi heimsókn var mér minnisstæð vegna þess að ég sá þá föður minn í svolítið nýju ljósi. Hann sem var oftar en ekki frekar til baka þegar hann heilsaði fólki hafði enga slíka tilburði er hann heilsaði frænku sinni, sem heilsaði „Dengsa frænda“ af mikilli hlýju og væntumþykju.
Minnisstæður er einnig fundur minn með Sverri sem bankastjóra Landsbankans og starfsmönnum hans um stjórn fiskveiða. Það var tekið til þess í höfuðstöðvum LÍÚ að hann skyldi sýna frummælanda þá virðingu að koma á þennan fund og hlýða á og spjalla um þessi mál.
Sverrir Hermannsson var litríkur stjórnmálamaður. Persónutöfrar hans voru miklir og þar sem hann kom var nærvera hans sterk, röddin þróttmikil og mælska hans og orðanotkun kynngimögnuð. Eftir þessum glæsilegu hjónum var tekið hvar sem þau fóru. Blessuð sé minning þeirra beggja.

Háskaleikir

Það hlýtur að vera erfitt að vera fulltrúi dvergríkis út í miðju Atlantshafi og þurfa að sitja í daglegum samskiptum við fulltrúa stærri þjóða, sem þekkja betur til vopnaskaks og 007 bellibragða. Færeyingar okkar góðu enn minni grannar græða núna á tá og fingri því þeir geta selt loðnu, síld, makríl og fleira góðgæti til Rússa á meðan við erum í sjálfskipuðu banni frá viðskiptum við þá. Þeir kunna að leika litla strákinn, sem smeygir sér hjá vandræðum. Við höfðum utanríkisráðherra sem tók upp á þeim á andsk... að leika frelsishetju í Úkraínu. Dettur ykkur í hug að hann hafi fundið upp á þessu sjálfur? Nú eru Bretar æfir af því þeim finnst Rússar hafi haft þá undir í einhverju 007 dæmi. Eins og slíkir háskaleikir sé einhver nýlunda meðal stóru strákana. Ó nei, James Bond leikir og John Lé Carre bækurnar eru skrifaðir af mönnum með mikla reynslu. Af hverju gátum við ekki bara sleppt að mæta á þessa fundi. Það væri í anda þeirrar utanríkisstefnu, sem Thor Thors og hans líkir lögðu í upphafi og fólst í því að skipta okkar ekki af þessu vopnaskaki stóru strákanna/stelpnanna. Það verður erfitt að sannfæra marga að Rússar séu miklir óvinir. Sjálfur Pútín var einn af fáum, ef ekki sá eini meðal forystumanna heimsins, sem talaði um okkur af velvild þegar við glímdum við afleiðingar bankahrunsins 2008. Hafa Bretar beðið okkur afsökunar á sinni framkomu? Ó nei ekki einu orði. Hvað þá bestu vinir okkar í vestri, sem dældu dollurum til að bjarga Dönum sem voru í svipaðri stöðu en létu okku sigla.

sunnudagur, 11. mars 2018

Skaftfellingamessa

Í dag var haldin Skaftfellingamessa. Kirkjukórar frá Vík og úr Skaftárhreppi komu til Reykjavíkur og tóku þátt í messuhaldi í Breiðholtskirkju í Mjóddinni. Við félagar í Söngfélagi Skaftfellinga í Reykjavík tókum þátt í söng í messunni og síðan vorum við með létta söngsyrpu í kaffisamsæti. Að austan komu um 30 manna hópur til þess að eiga þessa stund með okkur. Þetta er þrettánda árið sem Skaftfellingamessa er haldinn. Upphafsmaður hennar er sr. Gísli Jónasson en hann var áður prestur í Vík í Mýrdal. Gaman að minnast þess að pabbi tók þátt í þessu messuhaldi í nokkur, ár en Skaftfellingamessan var fyrst haldin árið 2006 síðasta árið sem hann var sóknarprestur að Ásum í Skaftártungu. Svona stund nærir sálina og gleður, endurvekur gömul kynni við fólk fyrir austan. Fyrir okkur söngfélaganna er ljúft að eiga þess kost að skemmta fólki með söng og er góður ávöxtur vetrarstarfsins nú þegar senn hallar vetri og vorar.

sunnudagur, 11. febrúar 2018

Höfnun er sár

Höfnun er sár í hverri mynd sem hún birtist. Öll eigum við væntanlega minningar um atvik, þar sem við upplifðum höfnun. Minntist þess þegar ég upplifði höfnun í fyrsta skipti. Það eru nú komnir um sex áratugir síðan, þannig að eitthvað hefur þetta sett sitt mark á sálarlifið. Þannig var að fullorðin kona í hverfinu var með tímakennslu fyrir nokkur börn. Það atvikaðist þannig einn daginn slóst ég í hópinn, man ekki lengur á hvaða forsendum. 
Þegar nýneminn mætir með tösku og nesti á staðinn gerist það að ein stúlkan í hópnum fær óstöðvandi grátur yfir nærveru minni, en hún var óttasleginn við ókunnuga, líka jafnaldra sína. Niðurstaðan varð sú að mér var vísað úr tímakennslunni til þess að róa stúlkuna. Þar sem ég er kominn miðja leiðina heim kemur „amma“ hlaupandi á eftir mér og segir að nú sé stúlkan búin að jafna sig og ég megi koma aftur. Ég man að niðurlútur, volandi strákur þurkaði tárin og tók gleði sína að nýju og fór með konunni til baka. Þarna átti maður síðan nokkur ánægjuleg skipti við lestur, leik og sögustundir. Lengst hefur þó reynslan af höfnuninni lifað í minningunni.

mánudagur, 29. janúar 2018

Með hjartað heima.....

Sænskir fjölmiðlar fjalla um Ingvar Kamprad stofnanda IKEA, nú þegar hann er látinn. Þessi frumkvöðull og athafnamaður hefur verið mér oft hugstæður. Fyrsta heimsóknin í IKEA verslun var árið 1975. Við vorum blankir námsmenn í Gautaborg og tókum okkur ferð með strætó inn í Kållered, sem er smábær suður af Gautaborg. Þarna opnaðist fyrir okkur ævintýraheimur IKEA í fyrsta skipti á dimmu vetrarsíðdegi. Uppröðuð húsgögn á skaplegu verði, ýmislegt annað til heimilis, veitingastofa og leikrými fyrir barnið. Minnist þess að við keyptum í þessari heimsókn straubretti sem kostaði 10 krónur sænskar á sérstöku afsláttarverði. Það voru ánægðir og saddir kúnnar, sem fóru með barnakerru og straubretti í strætó heim eftir góðan dag í IKEA. Gaman að segja frá því að straubrettið er enn í fullri notkun og sparað margan skildinginn í straukostnað á t.d. skirtum. Síðan hafa verið reglulegar heimsóknir í þessar verslanir undanfarna áratugi, bæði til að borða og kaupa til heimilis. Ingvar Kamprad var trúr viðskiptavinum sínum. Hann vissi að óánægðir kúnnar koma ekki aftur. Sænsk ráðdeildarsemi var honum í blóð borin og hann sá til þess að alþýðuheimili (folkhemmet, fallegt orð) gætu keypt húsgögn á viðráðanlegu verði. "Með hjartað heima opnaðist fyrir alþjóðleg viðskipti," segir í blaðinu. Það eru orð að sönnu með yfir 400 verslanir í heiminum. Blessuð sé minning hans.