fimmtudagur, 28. apríl 2011

Írar heimsóttir á páskum.

Það eru 1700 krár í Dublin. Í nýju umhverfi leitar maður að kunnuglegum kennileitum. Sérstaklega ef maður er á höttunum eftir skyldleika, frændsemi og þvílíku. Eitt af því fyrsta sem ég rak augun í á leiðinni frá flugvellinum inn í Dublin voru löngu sérhljóðarnir "í, á, é" á vegvísum þar sem kennileiti voru rituð á gelísku. Nú þeir eru þá svona skyldir okkur hugsaði ég með mér. Eftir því sem leið á þessa páskaheimsókn varð ég þess fullviss að við værum mikið skyld Írum. Viðmót, fas og útlit var oft æði líkt því sem hér má finna. Þessi ferð til Dublinar nú um páskana reyndist langt umfram væntingar. Yndislegt páskaveðrið með allt að 20°C hita og sólskini var bónus sérstaklega í ljósi þess kalsa og vetrarríkis sem við komum úr að heiman. Dögunum var varið í heimsóknir á sögustaði borgarinnar, gönguferðir, búðarráp, kráarheimsóknir, strætóferðir auk þess sem við fórum dagpart út fyrir borgina í rútu með leiðsögumanni. Miklir efnahagsörðugleikar eru á Írlandi um þessar mundir í kjölfar banka- og fasteignabólu sem sprakk með háum hvelli í kjölfar stóra bankahrunsins. Írar glíma við gríðarlegan skuldabagga og mikið atvinnuleysi. Þeir eru að endurmeta stöðu efnahagsmála í kjölfar hrunsins og uppteknir að því að leita svara við því hverjum sé um að kenna. Ofurlaun bankamanna er umræðuefni sem þeim er hugleikið svo og því hvernig málin gátu farið svona úr böndum. Þetta eru nú dægurmál sem Íslendingur í fríi eyðir ekki miklum tíma í. Augljóslega eru þetta mál málanna í dægurumræðunni og hún fer ekkert framhjá þeim sem kíkir í blöðin eða horfir á sjónvarp. Nóg í bili. Kveðja.

fimmtudagur, 14. apríl 2011

Ári eftir eldgosið.

Í dag er ár síðan gosið í Eyjafjallajökli hófst. Náttúran mínnti í þessu eldgosi á ægimátt sinn og askan var þess valdandi að flugsamgöngur í Evrópu fóru allar úr skorðum. Forleikur þessa mikla eldgoss hófst á Fimmvörðuhálsi með litlu "túristagosi." Maður gleymir aldrei þeirri upplifun þegar við félagar í Söngfélagi Skaftfellinga stóðum við innkeyrsluna að Þorvaldseyri og horfðum upp í fjallið þar sem það þeytti öskunni upp í himininn. Í för með okkur voru sænskir söngfélagar Östergök kórsins í Lundi á leiðinni austur á Klaustur til að halda sameignlega tónleika. Einnig er eftirminnileg þögn ferðafélaganna í rútunni langleiðina í Vík í Mýrdal eftir þessa mögnuðu upplifun. Við erum háðari náttúrunni en við almennt gerum okkur grein fyrir. Allt síðasta ár hefur náttúran minnt okkur á mátt sinn. Ægilegir jarðskjalftar í eða nálægt Chile, Haiti, Japan vitna um mátt náttúrunnar. Hið jákvæða við gosið er að það hætti fljótlega en náði að koma Íslandi á framfæri heimsbyggðarinnar og líklega njótum við þess um tíma í aukningu ferðamanna.

sunnudagur, 10. apríl 2011

Tónleikar Goðalandi í Fljótshlíð

Tenórar Í gær hélt Söngfélag Skaftfellinga tónleika ásamt Hring, kór eldri borgara í Rangárþingi. Tónleikarnir voru haldnir að Goðalandi í Fljótshlíð og var fjölmenni mætt til þess að hlusta á kórana m.a. hópur eldri borgara austan úr Skaftárhreppi. Jón G Kolbrúnardóttir, sópran, ung og ný söngkona söng með kórnum nokkur einsöngslög. Hér er efnileg söngkona á ferðinni sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni. Lagt var af stað austur kl. 10.00 og keyrt upp Landsveit. Leiðsögumenn voru Guðni Olgeirsson og Kolbrún Einarsdóttir en bæði eiga ættir að rekja í Rangárþing. Farið var í hellaskoðun að Hellum í Landsveit. Um er að ræða manngerðan helgan helli, sem upphaflega var byggður af írskum Pöpum. Þá var heimsótt Heklusetrið að Leirubakka. Á báðum þessum stöðum var lagið tekið. Næst var brunað að Goðalandi í Fljótshlið þar sem tónleikarnir voru haldnir. Góður rómur var gerður að söng kóranna og þeir klappaðir upp til að syngja nokkur aukalög. Eftir tónleikana var haldið í heimboð í sumarhús til Kolbrúnar Einarsdóttur kórformanns og eiginmanns hennar Gísla Sigurþórssonar í Ketlubyggð í landi Ketilhúshaga. Þar var borðaður kvöldverður og haldið áfram í söng og gleði. Lagt var af stað í bæinn um ellefuleytið. Góður og eftirminnilegur dagur var að baki í góðra vina hópi.

sunnudagur, 3. apríl 2011

Sjá enga von.

Athygli mín var vakin á því um helgina að við þurfum að gæta vel að unga fólkinu. Það vakti athygli viðmælanda míns að ungir piltar sem hann átti tal við sáu bara svartnætti, sáu enga framtíð. Þeir voru allt að því búnir að gefast upp rétt rúmlega tvítugir. Við sem eldri erum verðum að huga að unga fólkinu og gæta þess að gleyma okkur ekki í svartnættistali. Unga fólkið almennt þekkir ekki umrót af þessu tagi. Veit jafnvel ekki að öll él styttir upp um síðir og lífið heldur áfram. Undanfarnir tveir áratugir hafa um margt óvenjulegir í efnahagslegu tilliti. Unga fólkið hefur margt búið við efnahagslegan stöðugleika sem nú er lokið í bili. Þetta á ekki aðeins við Ísland. Þetta er eins í flestum löndunum í kringum okkur þótt ástandið sé auðvitað misjafnt. Þetta ættum við að hafa í huga þegar við hellum úr skálum reiði okkar og hefjum upp raust okkar um dægurmálin. Líklega hefur maður ekki haft þetta nógsamlega í huga.

laugardagur, 2. apríl 2011

Tvennir tónleikar

Salurinn. Þetta var fínn endir á vinnuvikunni í gær. Fyrst fórum við Sirrý í Salinn í Kópavogi og hlustuðum á frábæra listamenn flytja lögin hans Sigfúsar Halldórssonar í "swing" útgáfu. Þeir spiluðu og sungu nokkur helstu lögin hans fyrir fullum sal s.s. Dagny, Litlu fluguna, Í dag, Íslenskt ástarljóð og fleiri og fleiri. Þarna sungu Egill Ólafsson, Stefán Hilmarsson og Andrea Gylfadóttir. Í hljómsveitinni voru m.a. Vignir Þór Stefánsson á píanói, Jón Rafnsson á bassa, Björn Thoroddsen á gítar. Egill Ólafsson var kynnir á tónleikunum og var stundum full málglaður en það er fyrirgefið. Sigfús er mér kær og minning hans björt. Hann er einn af þessum samferðamönnum sem maður minnist ævinlega með þakklæti og gleði yfir að hafa fengið að kynnast persónulega. Hann var nágranni foreldra minna og mikill vinur fjölskyldunnar. Eftirminnilegast er þegar við höfðum með okkur skiptivinnuna. Ég málaði gluggakarmana á húsinu hans og fékk borgað með málverki í staðinn. Það voru ekki slæm býtti. Næst lá leiðin niður á Hverfisgötu 46 til þess að fara á tónleika "Lame Dudes" félaga á Hverfisbar.
The Lame Dudes með Kyle og félaga. Það er nú nokkuð síðan ég heyrði í þeim félögum síðast og óhætt að segja að þeir verði stöðugt betri. Svíðsframkoma öll fumlaus, söngur og spil með ágætum. Það bar til tíðinda á þessum tónleikum að tveir ungir Ameríkanar tóku nokkur lög með hljómsveitinni. Annar þeirra Kyle og Snorri sólógítarleikari The Lame Dudes eru frændur. Það var ekki að sjá að kynslóðabilið kæmi í veg fyrir að þeir sameinuðust í músíkinni. Það gefst tækifæri á næstu blúshátíð um páskana að heyra í þeim félögum og það verður enginn svikinn af þeirra tónlist ef viðkomandi á annað borð hefur gaman af blús og rokki. Flutningur þeirra eru bæði eigin lagasmíðar og annarra. Hér má heyra eitt af þeirra lögum: Hversdagsblámann.