fimmtudagur, 26. apríl 2007

Á sjávarútvegssýningu í Brussel.

Furðufiskar . Hér má sjá dæmi um fiska sem þeir veiða sér til matar hinum megin á hnettinum. Þetta eru fiskar sem gat að líta á sjávarútvegssýningunni í Brussel í vikunni. Það voru Ný-Sjálendingar sem sýndu þetta úrval fiska sem í mínum augum voru sannkallaðir furðufiskar. Bendi ykkur sérstaklega á risahumarinn í miðri mynd. Það þarf ekki marga svona til að metta svangan maga. Við flugum í beinu flugi á Fokker Friendship til Brussel og vorum rúma 5 tíma á leiðinni og tæpa 5 tíma á bakaleiðinni. Gárungarnir spurðu okkur hvort við hefðum komið með "Ameríkufluginu". Við vorum bara stoltir af því að koma fljugandi á "landsbyggðarflugvél". Þetta var hið þægilegata flug, þótt við værum aðeins lengur í loftinu miðað við hraðskreiðustu þotur. Náðum að spjalla heilmikið og hrista saman hópinn á leiðinni. Nú svo sluppum við við verkfallsvesinið á Kastrup sem varð mörgum til trafala og tímasóunnar. Þetta er að sögn kunnugra orðin aðalsjávarútvegssýningin í heiminum. Það er gaman að koma þarna og sjá þann þrótt sem býr í íslenskum sjávarútvegi og jafnframt kynnast því hversu víða í heiminum fólk er að veiða, verka og selja fiskafurðir.

Sýningarhöllin í Brussel Það er tilkomumikið sýningarsvæðið í Brussel. Eins og þið sjáið á myndinni var veðrið eindæma gott og komið sumar og allt grænt. Fyrir utan að sýna sjávarafurðir og fiskvinnslutæki er svona sýning einnig vettvangur fyrir fólk í sjávarútvegi til að hittast og blanda saman geði. Það er gert við ýmis tilefni. Skemmtilegasta stundin er á kvöldin á Grand Plaz þegar Íslendingarnir koma saman og fá sér bjórglas og hefja upp raust sína og taka nokkur lög. Það eru sannarlega tilkomumiklar stundir. Þarna hittir maður marga kunningja sem maður hefur haft við samskipti og ryfjar upp gömul kynni. Kveðja.

föstudagur, 20. apríl 2007

Smultrånstället

Sigrún Huld á Menam
Snemmsumars í nokkur ár höfum við lagt leið okkar austur á Selfoss og borðað á tælenska veitingastaðnum Menam. Við byrjuðum á þessu einhverju sinni þegar við fórum Þingvallarúnt með Hirti Friðrik. Okkur þótti mikið sport í að geta fengið okkur einn bjór með matnum og hafa bílstjóra til þess að keyra í bæinn. Nú er Hjörtur fjarri góðu gamni og Sigrún Huld tekin við hans hlutverki. Það er óhætt að mæla með matnum á þessum veitingastað. Hann hefur aldrei klikkað. Góður matur á hóflegu verði. Við höfum ekkert verið að auglýsa hann sérstaklega. Þarna er alltaf fullt af fólki að borða þegar við rennnum við. Það er mikil tilbreyting í því að geta fengið sér almennilegan mat utan borgarmarkanna. Hvað þá að geta fengið sér einn bjór með matnum eins og áður sagði.

Á Menam Selfossi . Það var svo sem ekki alveg að ástæðulausu að við gerðum okkur þennan dagamun. Við Sirrý áttum 34 ára trúlofunar afmæli í gær. Það var ágætis tilefni til þess að gera sér dagamun. Veðrið í gær var fallegt en það var ekki hlýtt. Á Hellisheiðinni fór hitinn niður í mínus eina gráðu, en var þetta 2 til 4°C á leiðinni. Jæja þá vitið þið af þessu "Smultrånställe" okkar eins og maður segir á sænsku. Það er svona leyni "berjalundur" sem maður vill helst hafa fyrir sig.

fimmtudagur, 19. apríl 2007

Fáfræði sagt stríð á hendur.

Á rótarýfundi fyrir nokkru var hún Tinna að segja okkur frá tinnunni utan á Þjóðleikhúsinu og starfsemi í húsinu. Í erindi sínu vitnaði hún í bókina Alkemistann eftir Paulo Coelho. Ég man nú ekki lengur í hvaða samhengi það var nema ef ske kynni að það snéri að því að breyta blýi í gull. Hitt man ég að það sló mig sú hugsun að ég væri nú meiri andsk..... plebbinn. Hér væri hún Tinna að vitna í þessa bók sem milljónir manna væru búnir að lesa, en ég vissi ekki einu sinni um hvað hún fjallaði. Hafði þó heyrt viðtal í Kastljósi við höfund verksins. Ég ákvað með sjálfum mér að ég skyldi lesa bókina við fyrsta tækifæri. Þetta skeytingaleysi mitt gagnvart bókmenntum sem sjálfur þjóðleikhússtjóri vitnaði til gengi ekki lengur. Ég bar með mér svolítinn beyg vegna þess að stundum þegar ég hef ætlað að ganga "æðri" bókmenntum á hönd hef ég lent á bókum svo grútleiðinlegum að ég hef gefist upp á fyrstu blaðsíðunum. Til að gera langa sögu stutta þá las ég Alkemistann í nánast einum rykk og hafði mikla ánægju af sögunni. Ég stoppaði ekki við þessa bók. Því í morgun fyrsta sumardag lauk ég við lestur bókarinnar, A man without a country eftir rithöfundinn Kurt Vonnegut. Það verð ég að segja að ég hef haft mjög gaman af því að lesa þessa bók og á örugglega eftir að lesa meira eftir þennan rithöfund, sem er nýlátinn. Hvet ykkur eindregið til að lesa hana líka, en hann segir á einum stað m.a.: " If I should ever die, God forbid, let this be my epitaph: The only proof he needed for the existence of god was music." Nú þriðja bókin býður en hún er eftir Gabriel García Márquez og heitir Minningar um döpru hórurnar mínar. Hvort að sá lestur á eftir að verða tilefni til frekari umfjöllunar á þessari síðu kemur bara í ljós. Nú svo var Glitnir að gefa mér 1000 kr. til þess að kaupa bók. Hver veit nema maður láti verða að því að kaupa nýtt bókmenntaverk á með Glitnisafslætti. Jæja hef þetta ekki lengra að sinni. Kveðja.

miðvikudagur, 18. apríl 2007

Þakka ykkur fyrir veturinn - nú heilsar sumarið.

Það er hægt að segja að það sé vorblíðan lognværa úti á þessum fallega degi, síðasta vetrardag. Tíminn líður sem örskotsstund. Æ annars hef ég ekki sagt þetta allt áður. Tilveran er í sínum föstu skorðum sem betur fer. Þórunn systir átti afmæli í gær 17. apríl. Man alltaf þegar ég var að fara að sækja hana á fæðingardeildina hér um árið. Mamma segir að það hafi verið á sumardaginn fyrsta og árið var 1958. Svona er maður nú orðinn gamall. Nú er bara að sumar og vetur frjósi einhversstaðar saman svo að við getum átt von á góðu og sólríku sumri. Ég verð væntanlega í Brussel í þrjá daga í næstu viku á sjávarútvegssýningunni. Kveðja.

mánudagur, 16. apríl 2007

Valdimar Gunnar 25 ára.

Valdimar Gunnar var 25 ára í gær og óskum við honum innilega til hamingju á þessum tímamótum. Kíktum við hjá honum og Stellu í gærkvöldi. Annars var ég á landsfundinum í gær.
Kveðja.

laugardagur, 14. apríl 2007

Þriðji í landsfundi

Var á landsfundi í dag. Ályktun flokksins um sjávarútvegsmál var samþykkt í dag með yfirgæfandi meirihluta og af mikilli eindrægni. Það er betri sátt núna um stefnuna en nokkru sinni fyrr þau tuttugu ár sem ég hef setið landsfund. Hitti marga gamla félaga og átti þar góðan dag. Við Sirrý fórum í afmæli til Maríu Glóðar hún átti sjö ára afmæli í dag. Fengum að skoða litlu Katrínu Emblu en ég var nú ekki búinn að sjá hana áður. Hún er nýfædd og yngsta barn Baldurs og Fjólu. Þarna voru börn Gunnars og Birnu ásamt þeim, Lauga og Sigurður og fólkið hennar Fjólu. Annars höfum við verið heimavið í dag. Jæja hef þetta ekki lengra. Kveðja.

fimmtudagur, 12. apríl 2007

Á landsfundi.

Ég fór við setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins í dag. Þetta var fjölmennur fundur að venju og ræðu formanns beðið með eftirvæntingu. Hann hélt mjög góða ræðu og var góður rómur gerður að ræðu hans. Á vefsíðunni xD "hér" má nálgast ýmislegt varðandi landsfundinn. Kveðja.

þriðjudagur, 10. apríl 2007

Fríið búið.

Þá er þetta páskafrí búið. Við komum viða við og gerðum margt sem er of langt mál að telja upp. Héðan er allt gott að frétta og lítið nýtt í fréttum í bili. Kveðja.

sunnudagur, 8. apríl 2007

Í Jesú nafni upp stá - Gleðilega páska!

Lagaboðinn með þessum höfuðsálmi páskanna, Sigurhátið sæl og blíð heitir: Í Jesú nafni upp stá.
Í Sálmasöngsbók til kirkju- og heimasöngs sem Sigfús Einarsson og Páll Ísólfsson útbjuggu til prentunar og gefin var út af Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar árið 1936 segir að lagið sé frá 17. öld. Textinn í laginu er eftir sr. Pál Jónsson og kemur fyrst fyrir í Sb. 1871.


Sigurhátíð sæl og blíð
ljómar nú og gleði gefur,
Guðs son dauðann sigrað hefur,
nú er blessuð náðartíð.
Nú er fagur dýrðardagur,
Drottins ljómar sigurhrós,
nú vor blómgast náðarhagur,
nú sér trúin eilíft ljós.
------
Ljósið eilíft lýsir nú
dauðans nótt og dimmar grafir.
Drottins miklu náðargjafir,
sál mín, auðmjúk þakka þú.
Fagna, Guð þér frelsi gefur
fyrir Drottin Jesú Krist
og af náð þér heitið hefur
himnaríkis dýrðarvist.
---
Drottinn Jesús, líf og ljós
oss þín blessuð elska veitir,
öllu stríði loks þú breytir
sæluríkt í sigurhrós.
Mæðu' og neyð þín miskunn sefi,
með oss stríði kraftur þinn.
Sigur þinn oss sigur gefi,
sigurhetjan, Jesús minn.
---
Páll Jónsson
Annars höfum við verið að hofa á Jesus Christ Superstar (1972), eftir Andrew Lloyd Webber og Tim Rice. Alltaf jafn áhrifaríkt að horfa á þennan frábæra söngleik. Í aðalhlutverkum eru Ted Neeley, (Jesús Kristur) Carl Anderson, en hann er látinn (Júdas) og Yvonne Elliman (María Magdalena).

laugardagur, 7. apríl 2007

Líf á hlaupum.

Sirrý hefur gert rannsóknir á mismunandi lífsstílum fólks. Í gær uppgötvaði hún nýjan lífsstíl, líf á hlaupum. Mig minnir að það sé sjöundi lífsstíllinn. Það er svona líf eins og við lifum. Alltaf á útopnu frá einum stað til annars. Merkilegt nokk oftast af fúsum og frjálsum vilja. Líka til þess að sinna hinum og þessum "skyldum". Nú svo heyrðum við af nýju sambúðarformi um daginn. Fólk getur verð í sambúð, fjarbúð, sérbúð og svo framvegis. Aldrei höfðum við hinsvegar heyrt áður af svokallaðri "kjörbúð". Það er þegar fólk tekur aðeins það besta úr hverju sambúðarformi fyrir sig. Jæja hef þetta ekki lengra að sinni. Kveðja.

föstudagur, 6. apríl 2007

Á föstudaginn langa.

Fríkirkjan í Reykjavík. Í kvöld fórum við í annað sinn í kirkju á þessum helga degi. Nú voru það gospel tónleikar á vegum Blúshátíðar, sem haldnir voru í Fríkirkjunni í Reykjavík. Þetta voru einu orði sagt stórkostlegir tónleikar með trúarlegu ívafi. Þeir sem komu fram voru: Brynhildur Björnsdóttir, Andrea Gylfadóttir, KK, Lay Low og Zora Young. Hljómsveitin sem lék undir var mjög góð. Fyrr í dag fórum við í Grafarvogskirkju og hlýddum á lestur passíusálma Hallgríms Péturssonar. Sr. Hjörtur tók þátt í upplestri eldri presta og nokkurra eiginkvenna.


Zora Young. Blues söngkonan Zora Young frá Ameríku kom fram í kirkjunni og söng nokkur gospel lög og var gerður góður rómur að söng hennar.










Andrea og Brynhildur. Þessar íslensku "dívur" tóku undir með Zoru í síðasta laginu hennar "He gots the hole world in his hands". Brynhildur opnaði tónleikana með upphafsversi passíusálmanna: Upp, upp mín sál og allt mitt gerð." Andrea söng nokkur blues lög. KK söng meðal annars: "When I think of engels I think of you". Lay Low söng einnig lög með trúarlegum boðskap.





Sigrún Huld og Halla Sigrún. Þær stórfrænkur skemmtu sér vel á tónleikunum og dilluðu sér í takt við tónlistina.


fimmtudagur, 5. apríl 2007

Skírdagsferð austur.

V ík í Mýrdal. Þetta er að mínu mati eitt fegursta bæjarstæði landsins. Myndin er tekin upp á hæðinnni þar sem kirkjugarðurinn er staðsettur. Úti fyrir Reynisfjalli má sjá skessurnar fjórar, bergnumdar í Reynisdrögum. Þorpið virðist dafna nokkuð. Allavega eru nokkur hús í byggingu um þessar mundir. Töluverð umferð var í þorpinu þennan skírdag. Aðallega í kringum þjóðvegasjoppuna.







Frænkurnar huga að leiðinu. Við komum við í kirkjugarðinum í Vík og settum niður páskaliljur á leiði Sigurveigar Guðbrandsdóttur og Valdimars Jónssonar, foreldra Höllu og afa og ömmu Sirrýjar. Valdimar var skólastjóri barnaskólans í Vík og bóndi á Hemru í Skaftártungu.







Höllubústaður. Hér má sjá Höllu móðursystur Sirrýjar arka upp í bústaðinn sinn til að kanna ástand hans eftir veturinn. Hann reyndist í góðu standi og kom vel undan vetri.












Ekki alltaf sumar. Það er ekki alltaf sumar og sól í Skaftártungu, þótt yndisleg og falleg sé. Þessi mynd sýnir ykkur hvernig veðrið var þarna í dag, skírdag. Þegar við fórum frá Vík keyrðum við fljótlega á Mýrdalssandi inn í kalsaveður og hríðarmuggu. Þannig við ákváðum að þetta yrði aðeins dagsferð.

miðvikudagur, 4. apríl 2007

Forskot.

Við tókum forskot og bættum frídegi við páskahelgina. Svona munað hefur maður aldrei leyft sér áður. Best að njóta þess. Kveðja.

þriðjudagur, 3. apríl 2007

Dagurinn í dag.

Dagurinn í dag á að vera einn af þeim dögum sem ég ergi mig ekki á því hlutirnir ganga ekki alveg eftir mínu höfði. Ég sleppi takinu og ábyrgðinni af öllu sem ég ræð ekki við. Sjáum hvernig það gengur. Kveðja.

mánudagur, 2. apríl 2007

Hvað á að gera?

Hvað á að gera við bæjarstjórnarmenn sem taka ekki ákvarðanir í mikilvægum hagsmunamálum, sem þeir eru þó kosnir til. Þora hvorki að segja já eða nei. Þessu hljóta bæjarstjórnarmenn í Hafnarfirði að vera að velta fyrir sér.

sunnudagur, 1. apríl 2007

Fermingar.

Það er langt síðan hér hefur birst mynd af kirkju. Það er kominn tími til að heimakirkja okkar Hjallakirkja komist á bloggsíðuna. Við vorum við fermingu Júlíusar Geirs Sveinssonar frænda í dag. Hátíðlig stund og fallegur söngur í þessari látlausu hverfiskirkju. Arkitekt hennar er Hróbjartur Hróbjartsson. Síðan var fermingarveisla haldinn í Framsóknarheimilinu. Þar var margt frændfólks sem maður hefur ekki séð lengi. Næst var haldið í fermingarveislu Hjálmars Arnar Hannessonar sonar Höllu Sigrúnar og Hannesar sem haldin var hjá afa hans og ömmu, Erni og Höllu. Þar sömuleiðis hittum við mikinn frændgarð. Af öðrum málum. Það liggur fyrir hvernig atkvæðagreiðslan fór í Hafnarfirði. Ég á eiginlega ekki aukatekið orð um þá niðurstöðu. Hafnfirðingar velja að kjósa burtu störf hundruð manna. Það hlýtur að vera nokkuð ljóst að ekki verður lagt í frekari endurnýjun í álverinu í ljósi þessarar niðurstöðu og núverandi tækjabúnaður keyrður út. Set punktinn hér. Kveðja.





Fermingarsystkin Júlíusar. Þessi mynd var tekin eftir athöfnina eins og hún ber með sér.













Unnur amma og Hjörtur afi. Stolt afi og amma með Júlíusi.














Þórunn systir og Sveinn mágur. Hann er fríður og glæsilegur hópurinn hennar Þórunnar systur minnar.