laugardagur, 26. apríl 2008

Austur í Skaftártungu.

Hemra í Skaftártungu. Við skruppum austur í Tungu í dag. Á þessari mynd sést gamla ættaróðalið sem Valdimar Jónsson (1892-1948) afi Sirrýjar átti. Íbúðarhúsið var byggt árið 1930. Fyrir aftan íbúðarhúsið sést að hluta í eldra íbúðarhúsið sem faðir hans Jón Einarsson (1852-1922) hreppstjóri byggði og mun vera elsta bárujárnshúsið sem byggt var austan Mýrdalssands. Það stendur ekki uppi lengur. Næst því er gamalt hlóðaeldhús. Við hlið þess er gamla hlaðan og yst er fjósið. Tók þessa mynd af gamalli mynd sem er í bústað Höllu. Hemran stendur enn þótt lúin sé orðin og kvisturinn hvarf í einu óveðrinu hér um árið. Þessi mynd minnir á þann tíma sem var og vekjur hjá manni pínulitla fortíðarþrá, þótt aldrei hafi maður dvalið þarna. Það er ótvírætt að vora en það var hvasst í Tungunni að þessu sinni. Göggubústaður var í góðu lagi eftir veturinn þar sem hann stendur á bökkum Tungufljóts í Hlíðarlandi.
Sirrý og Halla. Þessi mynd er tekin í stofunni í sumarhúsi Höllu móðursystur Sirrýjar sem stendur í Hemrulandi. Að baki þeim er myndin góða af Hemru.

Austur af Vík. Þessi mynd er tekin upp í kirkjugarðinum í Vík í austurátt og sýnir vel miklu sandströndina. Ágangur hafsins er mikill og sjórinn grefur jafnt og þétt inn í ströndina. Sumir segja að einungis framburður úr Kötlu gömlu geti spornað við vaxandi ágangi hafsins. Kunnugir segja að þegar komi hlaup í Kötlu sem fari niður Mýrdalssand sé flóðaldan allt að 11 metrar að hæð. Þannig að það eru rosaleg náttúruöfl sem leysast úr læðingi þegar hún vaknar og betra að vera þá ekki strandaglópur á Mýrdalssandi.


Reynisdrangar. Þessi mynd er einnig tekin frá kirkjugarðinum af Reynisdröngum. Við höfum reglulega komið við í þessum kirkjugarði síðastliðin 35 ár. Þarna hvíla afi og amma Sirrýjar þau Valdimar Jónsson sem var skólastjóri í Vík og bóndi í Hemru og Sigurveig Guðbrandsdóttir (1898 - 1988). Sigurveigu kynntist ég að sjálfsögðu vel árin frá 1970 er við hittumst fyrst. Eftirminnileg er lýsing hennar á upplifun á Kötlugosinu 1918 þegar hún var útivið og skyndilega varð svarta myrkur. Segir ykkur hana kannski seinna.
Kveðja.


fimmtudagur, 24. apríl 2008

Götuóeirðir á Íslandi.

Götuóeirðir á Íslandi dag eftir dag þar sem menn slást við lögregluna. Þarf ekki að staldra við og greina mótmælin betur. Snúast þau enn um hátt eldsneytisverð eða er eitthvað fleira sem liggur að baki? Eins og þetta kemur fyrir í fjölmiðlum er lagt meira upp úr því að lýsa átökunum sjálfum en minna púðri í að greina ástandið.

miðvikudagur, 23. apríl 2008

Ó blessuð vertu sumarsól...

Lilja. Það er við hæfi að fagna sumri með sumarstúlkunni okkar henni Lilju með Svenna afa. Stúlkan tekur gjarnan þátt í söng ef hún heyrir eitthvað sem henni líkar. Ó blessuð vertu sumarsól eftir Inga T. Lárusson var spilað við skírnarathöfn hennar og er lag sem hún kann vel að meta í framhaldinu. Ánnállinn óskar öllum lesendum sínum gleðilegs sumars. Kveðja.

sunnudagur, 20. apríl 2008

Söngferðalag um Suðurland.

Víkurkirkja, Vík í Mýrdal. Síðasta viðkoma Söngfélags Skaftfellinga á söngferðalagi þess um Skaftafellssýslurnar var að þessu sinni í dvalaheimili aldraðra í Vík í Mýrdal, Hjallatúni. Þar voru sungin nokkur lög fyrir heimilisfólkið. Þetta hefur verið stórkostleg ferð og veðrið lék við okkur allan tímann. Yndislegt vorveður, sól og blíða. Nýkomna farfugla gaf víða að líta og í austur sýslunni stórar hreindýrahjarðir.
Í faðmi fjalla. Við lögðum af stað í ferðalagið á föstudaginn var austur og gistum á Hótel Skaftafelli í Freysnesi í tvær næstur. Ljómandi gott hótel og vel staðstett niður af Vatnajökli. Við komum við á dvalarheimilinu á Klaustri og sungum þar nokkur lög fyrir heimilisfólkið á Klausturhólum. Hér er verið að teyga í sig fjallaloftið og komast í nánara samband við náttúruna og finna aflvakann í landinu.
Skaftafellsjökull. Tignarlegustu fjöll á Íslandi eru í Skaftafellssýslum. Það er svolítið skondið að sýslurnar skulu bera nafn eftir tiltölulega rislitlu felli. Þetta er til marks um margrómað lítillæti Skaftfellinga.
Söngfélag Skaftfellinga 2008. ,,Velkomin til söngs," sagði formaður Skaftfellingafélagsins í upphafi tónleikanna á Höfn. Aðaltónleikar Skaftanna að þessu sinni voru á Höfn í Hornafirði. Hér er kórinn búinn að stilla sér upp í kirkjunni. Tónleikarnir voru vel sóttir og vonandi enginn svikinn af þeim lögum sem flutt voru. Boðið var upp á fína hornfirska humarsúpu fyrir tónleikana. Nú auðvitað sungum við líka á dvalarheimili aldraðra á Höfn.
Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Náttúruöflin á lóninu á Breiðamerkursandi eru hreint ótrúleg. Í hvert skipti sem komið er að því er eins og verið sé að koma að í fyrsta sinn. Jakarnir eru aldrei eins og mismikið af þeim hverju sinni. Að þesssu sinni var einnig mikið af sel í lóninu.
Við Hótel Skaftafell. Sirrý með rútuna okkar og hótelið í bakgrunni á föstudagskvöldið. Það er óhætt að mæla með þessu hóteli og útsýnið til allra átta skaðar ekki. Á laugardagskvöldið var hátíðarkvöldverður á hótelinu eftir vel heppnað söngferðalagið til Hafnar. Mikið var sungið og spilað á nikkuna undir borðum. Í ljós kom að sex ferðalangar kunnu á hljóðfærið þannig að það var lítið um pásur við spilamennskuna.
Sólsetur. Já svona var sólsetrið frá Freysnesi á föstudagskvöldið. Það eru mikil forréttindi að fá að ferðast um Suðurland og njóta náttúrunnar og hlýða á samferðarmenn segja sögur af fólki og lýsa staðháttum þaðan sem það er alið upp.

fimmtudagur, 17. apríl 2008

Litla systir fimmtug.

Við Þórunn Í dag 17. apríl var Þórunn Ingibjörg systir fimmtíu ára og óskum við henni til hamingju með það. Í tilefni af þessum tímamótum hélt hún mikla veislu. Ég man enn eins og það gerst hafi í gær þegar við fórum á sumardaginn fyrsta þ.e. 24. apríl 1958 að sækja hana á fæðingardeildina. Margt manna heiðraði hana á þessum tímamótum í dag. Alfa vinkona hennar hélt flotta ræðu og Júlíus sonur hennar spilaði tvö lög á píanóið. Þessi mynd af okkur er frá því við áttum heima í Víðihvamminum. Þetta er mynd sem tekin er sumarið 1972. Það hefur verið kalt í veðri þar sem ég er bæði í ullarvesti og lopapeysu um hásumar. Þegar farið var að leita að myndum af henni kom í ljós að hún hefur verið einstaklega lagin við að koma sér hjá því að festast á myndum. Með okkur á þessari mynd er ketlingurinn Pusý gæfur og vitur köttur. Kveðja.

þriðjudagur, 15. apríl 2008

Tuttugu og sex.

Við óskum Valdimari Gunnari til hamingju með árin tuttugu og sex. Það er sama blíðu veðrið þennan dag og þegar pilturinn leit heiminn í fyrsta sinn. Kveðja

laugardagur, 12. apríl 2008

Á löngum laugardegi.

Sungið við raust. (Mynd Kristinn Kjartansson) Við lengjum stundum helgarnar með því að gera eitthvað á föstudagskvöldum. Í þeirri viðleitni fórum við út á Seltjarnarnes að gá eftir farfuglum. Fundum aðeins soltnar hálftamdar endur sem voru á höttunum eftir brauði. Í morgun var ég aftur mættur á Nesinu nánar tiltekið í Seltjarnarneskirkju til að syngja með Sköftunum á það sem við köllum löngum laugardegi. Nú styttist í austurferð og eins gott að lögin séu vel slípuð. Æfingin var hin skemmtlegasta og góður hljómur í kirkjunni. Gaman að ryfja það upp að fyrsta haustið sem ég söng með kórnum mætti ég aldrei á þessar æfingar. Því ég hélt að þetta væri söngur á Laugarveginum og var ekki alveg tilbúinn í það - svona er hægt að misskilja hluti. Nú svo klukkan fimm var farið á Tíbrártónleika og hlutstað á einn fremsta og virtasta píanóleikara Tékka, Ivan Klánský spila sónötur eftir Beethoven, þar á meðal Tunglskinssónötuna og nocturnu, barcarollu og þrjá mazurka eftir Fryderyk Chopin. Þessi maður skipar sér í röð helstu snillinga í píanóleik. Hann spilaði í tvo tíma átta verk og tvö aukalög án þess að vera með eina nótu á blaði - og hvílík túlkun wow.
Á laugardagssíðdegi. Tónleikarnir stóðu til að verða sjö. Þá var brunað heim til að grilla matinn. Gestir okkar í dag voru Lilja og Valdimar, Hilda og Vala Birna og Erla Hlín vinkona. Ekki náðist almennileg mynd af ungfrú Lilju hún var of upptekin af að borða með Sigrúnu frænku. Mamma hennar er í París við skyldustörf þannig að hún hefur verið hjá okkur á daginn á meðan pabbi hennar er að lesa. Ekkert frétt af Svíunum okkar. Þetta er nú svona það helsta á þessum degi. Kveðja.

miðvikudagur, 9. apríl 2008

Flottasta raddsviðið.

Tenórinn. (Mynd KK) Sumir segja að tenórar séu svo sjálfhverfir.Það er tómt bull, þetta er bara flottasta raddsviðið. Ég ætla að sína ykkur mynd af tenórunum í Sköftunum sem æft hafa með kórnum í vetur. Að vísu vantar myndasmiðinn hann Kristinn, sem tók þessa mynd. Þarna má sjá Skúla,Svein,Pál, Kjartan, Jón og Hákon. Við höfum lengst af verið átta en nú erum við sjö sem mætum á æfingar. Kunnugir segja að þetta sé hlutfallslega margir tenórar í 27 manna kór. Nú styttist í söngferðalagið um Suðurland sem hefst föstudaginn 18.apríl og verður farið til Hafnar í Hornafirði. Annars lítið í fréttum. Hér komu um helgina Helgi og Ingunn á laugardaginn. Ía vinkona og Sólrún á sunnudaginn og Valdimar, Stella og Lilja á mánudaginn. Þannig að það hefur verið svolítið líf í kringum mann. Ég hélt í gær að það væri komið sumar en það reyndist á misskilningi byggt. Undanfarinn sólarhring hefur verið mikill snjór og vetrarveður, en það er eins og vorið sé að ná tökum á vetrinum. Nú hér er í heimsókn þessa daga hún Sunna hans Björns. Kveðja.

föstudagur, 4. apríl 2008

Gengið um opnar dyr.

Í dag tók ég áskorun í Mbl um að ganga inn um opnar dyr að undrum tónlistarinnar. Ég rakst á grein í lestri blaðsins við morgunverðarborðið um að Robert nokkur Levin kennari við Harvard háskóla mundi halda fyrirlestur í Sölvhól, tónleikasal LHÍ. Í greininni sagði m.a. að ef eitthvað væri að marka orðið sem fer af Robert Levin væri alls ekki ósennilegt að einhverjir áheyrendur yrðu aldrei samir aftur. Þetta stóðst ég ekki og var mættur í hádegisfyrirlesturinn. Þetta var afar fróðlegt og vel flutt erindi um klassíska tónlist, túlkun hennar og flutning í dag. Hann fjallaði um hvernig Beethoven breytti tónlistarhefðum á 19.öldinni með því að túlka sinn innri mann og leyfa okkur að njóta hans með sér. Hann ræddi hvað það væri mikilvægt að tónlistin eins og myndlistin byggðist á skilningi og þekkingu verksins. Flytjandi sem túlkaði verkið einungis eins og nóturnar segðu til um væri ekki túlkandi heldur eins og góður verkmaður. Ein feilnóta og töfrarnir væru horfnir úr flutningi slíkra manna. Hann sagði að Mendelsohn hefði sagt að tónlistin snérist um nákvæmni og aftur nákvæmni. Enda hefði hann verið vísindamaður og frábær vatnslitamyndamálari. Ein vitlaus stroka við slíka málun þýddi að myndin væri ónýt. Sama ætti við feilnótur í flutningi verks. Hann fjallaði töluvert um Bach sem bjó til tónlist fyrir almættið til þess að leyfa mannsandanum að kynnast því. Enda stundum talinn 13 postulinn. Hann var með þann samanburð að tónlistin gæti breytt lífi okkar varanlega eins og trúarbrögðin. Það mætti ekki misnota þennan kraft tónlistarinnar, sérstaklega klassískrar tónlistar. Tónlistin væri tungumál sem allir skyldu sbr. verk Hydns um sjö síðustu orð Krists á krossinum. Hann talaði um að tónlistin væri til að draga fram hughrif hins góða og fagra í mannskepnunni - muninn á réttu og röngu. Hver mínúta í lífinu skipti máli í því að þroska og efla mannsandann. Maður ætti að njóta stundarinnar og leggja áherslu á gæðin eins og í öllu. Leiðin til þess að hrífa áheyrandann með væri að vekja forvitni hans, draga hann inn á sporið og kynna honum í framhaldinu heim tónlistarinnar. Hann gaf iðnaðarpopptónlist að vísu ekki háa einkunn. Hún væri til þess fallinn að slæva mannsheilann. Læt þetta duga að sinni - þetta er einn besti fyrirlestur sem ég hef sótt og snerti við manni. Í kvöld fórum við svo í Háskólabíó til þess að fræðast meira og heyra hann flytja píanókonsert nr.3 í c-moll op. 37 (1800 - 03). Wow hvílíkur snillingur í flutningi og sinfóníuhljómsveitin líka. Tónleikana endaði hann svo á spuna um stef sem áheyrendur lögðu til. Meðal stefa sem lögð voru fram var lag Inga T. Lárussonar, Ó blessuð vertu sumarsól. Þannig getur lestur á greinastúf leitt mann inn á lærdómsbraut sem gefur manni meira en orð fá lýst. Takk fyrir þetta. Læt þetta duga í bili. Kveðja.

þriðjudagur, 1. apríl 2008

Alexander Garðar fermdur.

Það bar helst til tíðinda um síðustu helgi að Alexander Garðar Axelsson bróðursonur minn var fermdur í Hjallakirkju. Við fórum til kirkju og síðan í kaffisamsæti honum til heiðurs enda erum við guðforeldrar hans. Annars er lítið að frétta héðan í bili. Við erum í sömu rútínunni frá degi til dags. Var að koma af söngæfingu með Sköftunum í kvöld. Kórstjórinnn segir prógrammið verða betra og betra. Vonandi að söngförin verði sigurför. Ég er að lesa fróðlega bók þessa dagana um goðafræði eða dulfræði sem fjallar um hversu samspil logos eða þekkingarinnar/rökhyggjunnar og mythos "orð af munni" eða goðsögnin er manninum nauðsynleg til að komast af í henni veröld. Ef til vill meira um það síðar. Kveðja.