sunnudagur, 24. apríl 2016

Úr grjótinu til Grænlands

Við skulum bara kalla hann Hans. Hann var grænlenskur sjómaður sem hingað var kominn fyir kvart öld eða svo til þess að kynna sér loðnuveiðar ásamt sex öðrum sjómönnum, sem sendir voru með flugvél frá Nuuk. Þeir áttu að verða 14 en seinni vélin komst ekki í loftið í tíma, þannig að þeir urðu sjö. Það gékk á ýmsu við að koma þessum sjómönnum um borð í loðnuskipin meðan grænlenski leigukvótinn var veiddur. Það er of langt mál að segja frá því.

Hans komst um borð í tvo báta og kynntist loðnuveiðum úr stýrishúsinu. Hann tók ekki beinan þátt í veiðunum, en stytti skipstjórnarmönnum stundir á meðan veiðiferðinni stóð. Sagðist hann vera sonur grænlensks útgerðarmanns sem ætlaði að fjárfesta í loðnuskipi og veiða grænlenska kvótann. Hann ávann sér nokkra athygli með þessari sögu og jafnframt vissa tortryggni. Menn vildu nú ekki vera að deila of mikilli þekkingu með hugsanlegum samkeppnisaðila í framtíðinni.

Hvar sem grænlensku sjómennirnir mínir komu voru ströng fyrirmæli af minni hálfu að hvergi yrði haft áfengi í herbergjum og þeim yrði ekki selt áfengi meðan þeir væru í minni umsjón. Þetta hélt að sjálfsögðu ekki og sögurnar og klögur streymdu inn. Hans og grænlenskur félagi hans komust í barinn á hótelherbergi hér í bæ, sem gleymst hafði að fjarlægja. Þetta endaði þannig að barinn var tæmdur og Hans dó áfengisdauða á gangi hótelsins.

Hann var sóttur af lögreglu og farið með hann í Hverfissteininn. Þá var komið að mér að fá hann leystan úr haldi vegna þess að hann átti að fara heim til Nuuk síðar þennan dag. Ég mætti í Hverfissteininn og það var ekkert mál að fá hann lausan. Lögreglan upplýsti að hann hefði í raun ekkert gert af sér annað en að verða öfurölvi og sofnað áfengisdauða.

Hans var hinsvegar ekki sjálfur glaður með frammistöðu sína þegar ég hitti hann niðurlútan í grjótinu. Hefur örugglega brugðið við að vakna þarna. Hann muldraði þráfaldlega kjökrandi á dönsku að nú væri illa fyrir sér komið og hann hefði betur farið að fyrirmælum móður sinnar og látið áfengið eiga sig.

Þegar við erum komnir út úr grjótinu og upp í bílinn minn var hann enn lítill, kjökrandi og niðurlútur. Ég keyrði þegjandi niður á Sæbraut og segi við hann þegar þangað er komð til að uppörva hann: Hans sérðu hvítu fjöllin þarna handa flóans eftir nokkra tíma verður þú aftur kominn heim til Grænlands til þinna hvítu fjalla. Hann breyttist á einu augabragði og varð eitt sólskinsbros í framan og allar hans áhyggjur voru roknar út í veður og vind. Hef ég reyndar aldrei séð mann skipta jafn skjót um skap áður.

Ferðin til Keflavíkurflugvallar gékk vel og þegar þangað var komið bað ég starfsmann fyrir hann þannig að enginn frekari óhöpp kæmu upp. Síðan hef ég ekki frétt af Hans hinum grænlenska. Það fylgdu nokkur símtöl næstu daga frá mönnum til að forvitnast um son grænlenska útgerðarmannsins.

Af hverju er ég að segja ykkur frá þessu? Það er nú einfalt, hefur alltaf fundist þetta skemmtileg saga.

föstudagur, 22. apríl 2016

Flateyrarborðið

Sonur minn og tengdadóttir eru með sameiginlegt áhugamál sem mjög gaman er að fylgjast með. Þau gera upp gömul húsgöng, sem fólk lætur frá sér og gefa þeim nýtt „líf.“  Nú nýlega gerðu þau upp gamalt skrifborð. Það var vægast sagt í mikilli þörf fyrir upplyftingu. Þegar þau voru búin að fara sínum höndum um borðið buðu þau það til sölu með eftirfarandi orðum á netinu:

„Yndislegt gamalt skrifborð sem við fundum ansi illa farið. Það var ekki fyrr en við fórum að ditta að því að við rákum augun í texta undir einni skúffunni þar sem í ljós kom að borðið var árið 1934, sjötugsafmælisgjöf Jóns Guðmundssonar frá Veðrará í Önundarfirði! Við standsettum það og það kemur svona líka ljómandi vel út, bæði sem skrifborð og sem snyrtiborð.“

Það næsta sem gerist er að afkomandi fyrrum eiganda gefur sig fram og kaupir það. Það kemur í ljós að þetta borð var smíðað á Flateyri af sænskum manni sem þar bjó um tíma. Vitað er a.m.k. um eitt borð til viðbótar sem maðurinn smíðaði. Töluverðar vangaveltur voru uppi um hvar borðið hafði lent, en engin skýring hefur fengist á því.


Það sem eftir situr er hversu máttugt netið er til þess að tengja fólk saman. Hitt er svo aftur líka umhugsunarefni hvort það sé hrein tilviljun eða því sé stýrt af ósýnilegum höndum að borðið lendi hjá þessu unga fólki sem fer um það endurlífgandi höndum áður en það fer svo aftur til síns heima. Dæmi hver fyrir sig. Allavega er þessi saga ein af þessum skemmtilegu "anekdotum" hins daglega lífs. 


þriðjudagur, 19. apríl 2016

Tuddinn tekinn

Það var eitt sumarið að ég glímdi við einelti á fótboltavellinum á Smárahvammstúní. Það var strákur sem var aðeins eldri, sem lagði okkur yngri strákana í einelti. Hann var sérstaklega illskeyttur við mig. Maður bjó við þetta og hafði fáar varnir gagnvart óþokkabrögðum hans. Hann sýndi þessa framkomu gagnvart fleiri strákum. Svo gerist það þetta sumar að völlinn koma tveir stálpaðir unglingar, sem eru gestkomandi í hverfinu. Annar þeirra sér fljótt hvernig strákurinn tuddast um völlinn og skeytir skapi sínu á okkur yngri strákunum. Hann blandar sér óvænt í leikinn og stoppar af strákinn með nokkrum hæðnisorðum. Þegar hann sér að orðræða dugir ekki byrjar hann að ögra honum og hrinda til eins og hann hafði gert við okkur yngri strákana. Tuddinn ætlar ekki að gefa sig og það endar með því að þeir rjúka saman. Sá slagur endar skjótt á því að unglingurinn skellir honum í jörðina með þeim orðum að nú viti hann hvernig það sé að níðast á okkur yngri strákunum. Þetta var mikil upplifun að sjá hvernig tuddinn lippaðist niður fyrir framan okkur. Hvernig hann tapaði stöðu sinni sem skelfirinn mikli í það að liggja sem slytti fyrir framan unglinginn. Hver er svo punkturinn með þessari sögu. Jú hann er sá að maður eigi að gæta að því hvernig maður kemur fram við aðra. Tími skelfisins var liðinn. Hann var ekki lengur sú ógn í augum okkar strákanna sem hann hafði verið. Svona tilfelli koma fyrir enn þrátt fyrir alla uplýsinguna og umræðu um eineilti. Það er hlutverk okkar eldri og reyndari að skakka leikinn í tilvikum sem þessum.  

fimmtudagur, 7. apríl 2016

Er alþjóðahyggjan að líða undir lok?

Það voru fréttir af birtingu svokallaðra Panamaskjalanna um eignir fólks í skattaskjólum, sem eru þessa valdandi að forsætisráðherra varð að stíga til hliðar.

Mér finnst áhugavert að velta því upp hvort alþjóðahyggjan varðandi fjármagn sé að líða undir lok. Hvort þjóðríkin munu sameinast um taka á þessum skattaskjólum og koma í veg fyrir að fjármagnið flýi þangað, þar sem eru litlir eða engir skattar og ekki er hægt að spora notkun þess. Eðlilegt er að spurt sé hvort slíkt fjármagn sé notað í samkeppni við fjármagnseigendur sem greiða heiðarlega skatta og skyldur af sínu fé, því það skekkir samkeppnina.

Mannskeppnan er ekki öll þar sem hún er séð. Jón Sigurðsson fyrrum formaður Framsóknarflokksins sagði nýlega á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, að ef teknar væru saman upplýsingar um allt tiltækt fjármagn í heiminum og það væri alls 100, mundi samt vanta a.m.k. 60 til viðbótar. Þannig urðu Rotchildarnir ríkir á sínum tíma vegna þess að þeir földu fé sitt milli þilja og greiddu ekki af því skatta og skyldur segir sagan.



Enn hefur alþjóðahyggjan með frjálsu flæði fjármagns runnið sitt skeið á enda? Það er mjög ólíklegt. Kapitalistar munu áfram leita allra leiða til þess að verja fé sitt ásælni skattmanns. Það er lykilþráður í sögu mannkyns. Þótt forsætisráðherra hafi verið vikið frá störfum vegna skattaskjólspeninga eiginkonu sinnar og kröfu þeirra á föllnu bankanna er ólíklegt að það valdi straumhvörfum á alþjóðavísu. 

Kunnugir segja að nýríkir Kínverjar eigi þvílíkar eignir að þekktir milljarðamæringar á lista Forbes séu hreinir smælingjar í samanburði. Fjármagnseigendur eru sterkir og þeir munu ekki gefast upp úrræðalausir eða án verulega átaka.

Ég tek undir með hagfræðingnum Tómas Piketty í bók sinni Capital að á 21. öldinni verður fókusinn á fjármagn og ójöfnuð milli þjóðfélagshópa helsta umfjöllunarefnið.

föstudagur, 1. apríl 2016

Það sem er öðruvisi vekur athygli

Var boðinn í sænskt páskapartý í gærkvöldi og beðinn að mála páskaegg,sem ku vera siður þar. Ég notaði eingöngu rauðan lit. Fyrst málaði ég indjánaprófíl með fjöður. Svo teiknaði ég karfa, enda með rauðan lit. Þar næst G lykilinn og svo F lykilinn á nótnaskalanum, en hann var eins og broskarl. Setti svo bara mitt egg meðal fagurskreyttra eggja í gylltum litum fagurlega munstruðum. Taldi málið þar með dautt enda eggið allt málað. Náði ekki að snúa mér við áður en Svíarnir tóku upp myndavélina og mynduðu eggið í bak og fyrir. Svo var farið að greina myndirnar. Índjáni með fjöður, borðar fisk, elskar tónlist og brosir mót tilverunni. Ég var eiginlega kjaftstopp. Ég var bara að krota á eggið til þess að það færi ekki hvítt og nakið í bakkann. Svona er lífið. Það sem er öðruvísi vekur athygli.