sunnudagur, 27. september 2009

Þykir þeim ekki lengur vænt um okkur?

"Þykir þeim ekki lengur vænt um okkur?" Þetta voru fyrstu viðbrögð vinar míns við því að Hollendingar og Englendingar sendu okkur til baka Icesave samninginn ósamþykktan. "Jú, ég er allveg viss um það," svaraði ég að bragði og hugsaði til breska tryggingasalans, gamals vinar míns sem sagði mér stoltur frá því hér um árið hvernig hann hefði annast tryggingar á varðskipum okkar á Loyds markaði í síðustu landhelgisdeilu við Breta og sótt bætur eftir að bresk herskip voru búin að sigla á þau. Maður á ekki að setja samansemmerki milli fólks og ríkisstjórna. Þótt Gordon Brown sé illur út af Icesave bullinu, sem ég geri ráð fyrir að sé neðarlega á verkefnalista ríkisstjórnar hans, er ekki þar með sagt að Bretum þyki ekki lengur vænt um okkur. Brown er fyrst og fremst illur yfir því að ultra frjálshyggja breskra jafnaðarmanna og svik þeirra við jafnaðarstefnuna er að hrynja. "New Labor" stefnan var sniðin að því að ná völdum í Bretlandi með öllum tiltækum ráðum. Flestum hugsjónum félagshyggjumanna var varpað fyrir róða til þess að ná þessu markmiði. Þeir félagar Blair og Brown töluðu um nýja tíma og yfirbuðu íhaldsmenn og gerðurst kapitaískari en kapítalistarnir í Íhaldsflokknum. Fyrst fékk Blair að njóta sín í forsætisráðherrastólnum. Hann vann það afrek hefja styrjöld í Írak á fölskum forsendum ásamt George Bush vini sínum. Þá fór að fjara hratt undan honum og félagi hans Gordon Brown knúði á og vildi í aðalstólinn. Lagarefurinn Blair vissi að "new labor" var á fallanda fæti enn ein blaðran sem byggði á sviksemi við hugsjónir hlaut að sprynga fyrr en síðar. Tony Blair ákvað að nýta sér metnað mr. Brown til þess að verða númer eitt í Downing Street. Sagnfræðingurinn Brown sá ekki við lögfræðingnum Blair, sá ekki vatnaskilin nálgast og stóð einn eftir á ísilögðu díkinu þegar örþunnur ísinn brast undan honum. Auðvitað er Gordon Brown sár og reiður. Þetta átti aldrei að verða svona. Blair sleppur frá málinu en hann situr í fastur í díkinu og fær dóm sögunnar um að vera sá er klúðraði málum. Í örvæntingu sinni reynir hann að leika mikilvirkan leiðtoga eins og hann hefur vafalaust lesið um í mannkynsögunni. Það sjá það hinsvegar allir að Brown er enginn Churchill og verður það aldrei. Félagshyggjuöflin munu gera "new labor" dæmið upp og sagan mun ekki fara mildilega um þá félaga Blair og Brown. Reiði Browns snýr ekki að okkur frekar en reiði Breta. Það var ekki íslenska þjóðin sem fór til Hollands og Englands og opnuðu þar innlánsreikninga og sólunduðu milljörðum punda af þessum innstæðureikningum. Það sér allt sómakært fólk. Þess vegna höfum við ekkert að óttast þótt að við stöldrum aðeins við spyrnum við fótum og segjum hingað og ekki lengra. Allt fólk sem ég hef kynnst erlendis og þekkir eitthvað til mála hér ber virðingu fyrir okkur sem þjóð, dugnaði okkar og ósérhlífini. Auðvitað gerir það stundum grín að litla Íslandi sem vill vera jafningi þjóða sem telja margfallt fleiri þegna. Nú ertil dæmis talað um að fólk "reikni" eins og Íslendingar í stað þess að segja að það kunni ekki að reikna. Við hinsvegar þurfum að átta okkur á því að við erum örþjóð. Í framtíðinni eigum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Það er ekki sama og láta minnimáttarkenndina taka völdin. Nóg í bili kveðja.

mánudagur, 21. september 2009

Ísland í Agenda

Agenda Fyrst ég er farinn að segja ykkur frá umfjöllun af okkur í Svíþjóð þá greindi rithöfundurinn Hallgrímur Helgason frá því í fréttaþættinum Agenda þann 13. september að búið væri að gera Ísland að kommúnistaríki, þökk sé bönkunum. Ríkið ætti öll fyrirtæki í landinu. Er þetta nú raunsönn mynd af aðstæðum hér á landi? Af hverju er verið að yfirdrífa aðstæður hér með svo öfgafullum hætti? Er þetta landi og þjóð til framdráttar? Ég veit hinsvegar að þessi fréttaflutningur hefur vakið ugg meðal margra landa okkar sem búa í Svíþjóð vegna þess að þeir eru líklega þeir einu sem láta sig stöðu mála varða einhverju, þó ekki væri nema vegna fjölskyldna sinna hér á landi. Síðan var fylgst með æsifréttastöðinni Sögu og hlustað þar á samtal þar sem ekki var alveg ljóst hvort að þáttastjórnandinn eða viðmælandi í síma voru beinlínis að hvetja til uppþota. Hvaða tilgangi þjónar það að vera með svona málflutning í öðru landi? Spyr sá sem ekki veit.

sunnudagur, 20. september 2009

Sofið á vaktinni?

Geir hjá Skavlan Ég er búinn að horfa fjórum sinnum á þátt norska sjónvarpsmannsins Skavlans og viðtal hans við Geir Haarde nú ári frá því fjármálakrísan skall á með tilheyrandi hruni íslenska bankakerfisins. Skýringin sem Geir gaf var að bankakerfið hafi verið orðið of stórt og við fall Lehmann Brothers í USA hefði legið fyrir að í óefni væri komið. Hann var spurður eftir því hvort hann sæi eftir einhverju. Hann nefndi að breyta hefði átt ESS samningnum varðandi tryggingaábyrgð ríkisins á erlendum umsvifum bankanna. Styrkja Fjármálaeftirlitið og krefjast þess af bönkunum að þeir minnkuðu umsvif sín. Geir sagðist vera reiður og sár bönkunum og útrásarvíkingunum hvernig fór. Hann var aðspurður ekki reiðubúinn að taka á sig alla ábyrgð af hruninu. Það væri ekki hægt að gera einn mann ábyrgan fyrir því. Það var satt best að segja hryggilegt að horfa á beygðan fyrrum forsætisráðherra okkar í viðtali í sænsk/norskum skemmtiþætti með hlátrasköllum og skipulögðum klappinnslögum tíunda ógæfu okkar. Enda var undirtónn þáttarins sá að gera grín að litla Íslandi, sem skuldaði 10 falldar "árstekjur" sínar. Geir var einnig spurður hvort hann hafi sofið með hrotum á vaktinni, eini maðurinn í ríkisstjórninni sem var með hagfræðimenntun. Viðskiptaráðherrann hefði verið heimspekingur, fjármálaráðherrann dýralæknir og seðlabankastjórinn ljóðskáld. Hvenær varð það til siðs að gera lítið úr menntun og hæfileikum fólks? Göran Persson fyrrum forsætisráðherra kláraði ekki nám. Annar fyrrum forsætisráðherra Svía og núverandi utanríksráðherra Carl Bildt er "drop out" úr háskóla. Hef ekki orðið var við það að Svíar væru að hæðast af því í skemmtiþáttum sínum. Koma tímar koma ráð. Við munum vinna okkur út úr þessum erfiðleikum og endurheimta vopn okkar. Nauðsynleg forsenda þess er að við gerum sjálf hreint í okkar húsum. Ef einhver brot hafa verið framin þarf að greiða úr þeim. En við verðum líka að horfast í augu við það að við áttum okkur mörg draum um að hér mundu rísa nýjar stoðir undir íslenskt atvinnulíf, öflugt bankakerfi og umsvifamikil verslunar- og þjónustufyrirtæki með starfsstöðvar í nálægum löndum. Við verðum að kannast við þessa draumsýn og þora að viðurkenna að hún hafi ekki gengið eftir eins og vonir stóðu til. Ef við hverfum til baka í tíma og látum minnimáttarkenndina ná tökum á okkur munum við verða lengur að vinna okkur til baka. Við skulum ekkert vera að bjóðast til að koma fram í erlendum skemmtiþáttum til þess að gefa færi á okkur rétt á meðan við erum að ná okkur eftir áfallið. Heldur skulum við muna að sá hlær best sem síðast hlær. Hér má nálgast þáttinn: Skavlan.

þriðjudagur, 15. september 2009

Í minningu forfeðranna.

Tenórinn í Söngfélagi Skaftfellinga
Í dag hefði afi minn Jón Hjörtur Finnbjörnsson (1909 - 1977) orðið 100 ára. Afi var mikill söngvari, bæði sem einsöngvari og í kórum. Lifibrauð hans var prentiðn og söngurinn. Hann var einn af burðarásum í söng- og leikhúslífi á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar vestur á Ísafirði, sinni heimabyggð. Um það vitna ýmsar greinar og umsagnir í vestfirskum blöðum. Hann tók einnig virkan þátt í kórstarfi eftir að hann ásamt fjölskyldu sinni flutti til Reykjavíkur. Um hann segir í blaðinu Vesturlandi þegar hann var kvaddur af Ísfirðingum árið 1948: "Jón Hjörtur er einn af þeim fáu mönnum, sem ég hef aldrei heyrt leggja annað en gott eitt til manna og málefna, þess vegna mun heldur enginn leggja til hans illt orð, en það er gott veganesti." Þetta voru kveðjuorð frá ísfirskum vini sem var að þakka honum fyrir einsöngstónleika og kveðja hann áður en hann fór suður til Reykjavíkur. Í dag hefði Friðrikka Sigurðardóttir (1897 - 1985) amma Sirrýjar einnig átt 112 ára afmæli. Friðrikka var sköruleg kona og eftirminnleg. Sirrý bjó um tíma hjá henni sem barn og afa sínum Ingvari Pálmasyni (1897 - 1985) skipstjóra. Milli Friðrikku og hennar voru alltaf sterk bönd. Við leituðum töluvert í smiðju hjá Friðrikku á fyrstu hjúskaparárum okkar og veitti hún okkur góðan stuðning með ýmsum hollráðum. Þess má geta að elsta barn okkar ber sömu nöfn og afi minn og amma Sirrýjar og heitir Hjörtur Friðrik. Það er svo önnur saga að hann fékk í dag sérfræðingsréttindi sín sem bæklunarlæknir á afmælisdegi þeirra. Það er vonandi að menntun hans nýtist vel þjáðu fólki með stoðverki, en Jón Hjörtur afi hans átti lengi ævinnar við erfiða stoðkerfisverki að glíma. Við óskum Hirti Friðrik til hamingju með nýfengin sérfræðiréttindi. Önnur tíðindi dagsins eru þau að í dag hófust kóræfingar vetrarins hjá Söngfélagi Skaftfellinga og er þetta sjötti veturinn sem ég tek þátt í starfi kórsins. Ég hef haft af því mikla ánægju og góð kynni við söngfélaga og get vel mælt með þátttöku í kórstarfi af þessu tagi. Kveðja.
(Mynd Kristinn Kjartansson.)

sunnudagur, 13. september 2009

Eitt og annað

Byrjaði daginn á að fara í messu í Dómkirkjunni og svaraði þannig kalli prestsins á facebook.Það er tækni sem er til ýmissa hluta nytsamleg. Síðdegis fór ég í síðbúna afmælisveislu hjá Kára Gunnarssyni. Annars hefur maður mest verið heima og hlustað á gnauðið í vindinum aukast með kvöldinu. Annars lítið í fréttum. Kveðja.

miðvikudagur, 9. september 2009

Nýr liðsmaður í frændgarðinum.

Við óskum Isabelle frænku og Bjarna til hamingju með nýja soninn. Hann hefur þegar verið nefndur Alexander. Drengurinn var rúm 4000 merkur og 52 cm og fæddist síðastliðna nótt á Fjórðungsskjúkrahúsinu á Akureyri. Það er vart hægt að hugsa sér flottari fæðingardag 09.09.09. Aðrar helstu fréttir af fjölskyldunni er að Sirrý er stödd í Jönköping. Vetrarstarf í vinnu og skóla er hafið á fullu og mikið að gera framundan.

föstudagur, 4. september 2009

Gangur EITT - gangi ykkur vel

Gangur EITT kallaðist aðstaða mín á spítaladeildinni á Landsspítalanum sem ég mætti á í morgun í rannsókn. Deildin var yfirfull af veiku fólki. Við vorum tveir sem þurftum að nýta okkar ganginn. Ég undirbjó mig glaður á ganginum undir aðgerðina yfir því að taka ekki herbergisrúm frá veiku fólki. Þjónusta var öll eins og best var á kosið þrátt fyrir þröngan húsakost og það truflaði ekki að verið var að kynna starfsfólkinu miklar sparnaðaraðgerðir og niðurskurð þennan dag. Allstaðar mætti maður hlýleik og veljvilja - "gangi þér vel" voru kveðjuorð allra sem ég átti samskipti við. Ég þurfti á þessari hvatningu að halda því ég var kvíðinn yfir því hvað rannsóknin mundi leiða í ljós. Til að gera langa sögu stutta gékk rannsóknin vel fyrir sig og leiddi ekki til frekari aðgerða. Það eru mikil forréttindi að geta kvatt sjúkrahúsið og gengið heilbrigður út í dagsins önn. Það verður með öllum tiltækum ráðum að tryggja að sú mikilvæga þjónusta sem veitt er á Landspítalanum verði til staðar. Það þarf að standa vörð um starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar. Þessvegna segi ég við starfsfólk og stjórnendur Landspítalans gangi ykkur vel í ykkar mikilvægu störfum. Kveðja.