sunnudagur, 29. nóvember 2009

Enn eru jól hjá illum

Illum
"Enn eru jól hjá illum." Þetta var viðkvæði sem maður heyrði oft á aðventunni hér á árum áður. Þetta var hluti af Kúrlandshúmor tengdamóður minnar og gæti hann þess vegna verið ættaður úr Glaðheimunum þar sem tvíburasystir hennar býr. Margur verður fyrst forviða við að heyra þetta. Þannig var allavega um mig. Hva eru jól líka hjá illum? Er verið að vísa til orðatiltækis úr íslenskri menningarsögu? Svo er ekki, þessi orð eru orðaleikur íslenskra námsmanna í Danmörku fyrir langa löngu. Tilvísun í að ekki væri búið að taka niður jólaskreytingarnar í gluggunum hjá versluninni Illum á Strikinu í Kaupmannahöfn. Á annan í jólum 1975 vorum við Sirrý og Hjörtur stödd á Strikinu í Kaupmannahöfn. Það situr eftir í minningunni að einmitt þennan dag voru borgarstarfsmenn að taka niður jólaskrautið. Áþreifanleg minning um að jólin eru helsta vetrarvertíð kaupmanna í skammdeginu. Hvað eru jólin? Okkur er sagt að þau séu fæðingarhátið frelsarans. Stórhátið kristinna manna. Fjölskylduhátíð, hátíð barnanna og tilbreyting í skammdeginu. Máttur fjölmiðlunar er svo mikill að þú skalt í það minnsta fá kerti og spil. Enginn sleppur við neysluokið sem tengist því miður þessari hátíð. Hátíðin veitir sem betur fer ýmislegt annað. Hún er tilefni til að upphefja hugann, styrkja fjölskylduböndin. Lyfta sér upp úr hversdagleikanum leita að fegurðinni í lífinu. Kveikja lifandi ljós og njóta augnabliksins þessara örfáu frídaga sem henni fylgir. Hún er síðast en ekki síst hátíð barnanna. Gleðilega aðventu nóg í bili.

laugardagur, 21. nóvember 2009

Máttur skógarins

Síðustu tvo laugardaga hef ég gengið Græna- og Furulundarhring í Heiðmörk með göngufélagi Skálmara. Þetta er um klukkutíma hringur í röskri göngu. Þegar ég fór í fyrri gönguna var ég búinn að vera frekar slappur og kvefaður. Ég fann það fljótt á göngunni að það var eitthvað í stilltu loftinu sem gerði mér gott. Súrefnið er náttúrulega nýendurunnið og tandurhreint. Það voru einhver bætiefni í angan trjánna sem gerðu mér gott. Nú í dag þegar ég fór þennan sama hring fékk ég þessa sömu tilfinningu. Ég var ekki kvefaður eins og síðast en ég fann að skógarloftið gerði mér gott og mér óx styrkur á göngunni af angan trjánna. Nóg í bili.

laugardagur, 14. nóvember 2009

The Annual Juke Joint Festival 2009.

Ég var mættur á Batteríið í gær til þess að hlusta á þrjár hljómsveitir á tónleikum sem nefndir voru þessa flotta enska heiti: The Annual Juke Joint Festival 2009. Tónleikarnir byrjuðu á Hljómsveit Brynjars Jóhannssonar og Tótu Jónsdóttur. Næst tróð á svið Bergþór Smári og Mood og að lokum mættu The Lame Dudes á svið. Það er merkilegt hvað þessi "petit" kona, Tóta Jónsdóttir, hefur djúpa, sterka og hrífandi rödd. Við Birna Hallsdóttir veltum því fyrir okkur hvort hún minnti meira á Edith Pjaf eða enn suðlægari og þá baltneskar söngkonur. Ég var á Pjaf línunni. Ég vil gjarnan heyra meira í þessari konu í framtíðinni. Um hljómsveit Brynjars er það að segja að það var trommarinn, sem ég veit ekki hvað heitir sem barði saman "beatið" í bandið. Næstur kom á svið Bergþór Smári og Mood. Ég segi nú bara Wow.. eða "walk on water." Þarna er mjög góður söngvari og gítarleikari á ferðinni. Hann náði upp stemmningu enda var "beatið" frábært og tónlistin náði góðum tökum á manni, þar sem bryddað var upp á Jimmy Hendrix töktum. Nú síðasta atriðið á dagskránni voru The Lame Dudes. Það fór ekki milli mála að þar var voru aðalkarlarnir að stíga á stokk. Ég þekki nú orðið lögin þeirra og textana þannig að ég velti svolítið fyrir mér flutningi og spili. Það fer ekki milli mála að sólógítarleikarinn Snorri Björn Arnarson er meðal þeirra bestu sem ég hef hlustað á. Hann er náttúrutalent og skaftfellsk ættareinkenni "i ögon fallande" eins og sænskurinn mundi segja, glaðlindur og velviljaður minnir mig á Eric Clapton á sviði. Það fór ekki hjá því að margar konur í kringum mig veltu þessum hljómsveitarmeðlimi mikið fyrir sér. Ég hef þó séð hann í meira stuði og hann mátti gefa aðeins meira í þetta í gær. Ég hafði það svolítið á tilfinningunni að hann væri að segja okkur að hann þyrfti ekkert á þessu að halda. En hann verður að skilja að við viljum aðeins meira og meira. Hannes Birgir Hjálmarsson er góður og þekkilegur söngvari og textasmiður "easy" going", sá sem ljáir bandinu mestan persónulegan karakter eins og söngvarar gera jafnan. "He means business" eins og Ameríkaninn mundi orða það. Sá þriðji sem ég er farinn að fylgjast með er bassaleikarinn hann Jakob Viðar Guðmundsson. Maður vanmetur alltaf bassana, sérstaklega þegar tenórar eiga í hlut. Þetta er traustur bassaleikari sem styrkir vel "beatið" og taktinn í bandinu. Trommarinn, Kristján Kristjánsson var líka mjög góður. Ég er ekki viss en getur verið að þetta hafi verið sami trommarinn sem barði "beatið" í fyrstu hljómsveitina? Staðurinn var svona á mörkunum, en hljómstyrkur var þægilegur. Ég enda þessa umfjöllun á orðum Júlíusar Valssonar vinar míns sem sendi mér skeyti í dag og sagði: The Lame Dudes eru ekkert lame. Ég segi bara áfram strákar gefið í og þið náið alla leið og takk fyrir mig.

sunnudagur, 8. nóvember 2009

Kristianstad

Ingimundur Við höfum átt góða helgi hér í Kristianstad í tvöföldu afmæli. Þetta er afmælisdagur Hjartar Friðriks þ.e. 8. nóvember og afmæli Jóhannesar Ernis var haldið í dag líka en þann 11. nóvember verður kappinn þriggja ára. Þá vorum við að halda upp á það að Hjörtur er orðinn sérfræðingur í sinni grein. Ingimundur Gíslason læknir sem býr hér í Kristianstad bauð okkur Sirrý að koma í Den heliga trefaldighetskyrkan í dag og hlusta á hann spila á orgelið í kirkjunni. Þetta var sérstkök upplifum að sitja upp í stúkunni hjá orgelinu og hlusta á hann spila fúgu eftir Krebs, sem var lærisveinn Bachs. Þessi kirkja er 400 ára gömul vígð árið 1626 og var byggð af Kristjáni fjórða Danakonungi. Þannig að segja má að endur fyrir löngu hafi þetta verið íslensk kirkja. Það má finna skjaldamerki Íslands við einn bekkinn í kirkjunni.

sunnudagur, 1. nóvember 2009

Tvær stjörnur.

Hlustaði í kvöld á Árna Tryggvason og Flosa heitinn Ólafsson tala um lífshlaup sitt á sitthvorri sjónvarpsrásinni. Báðir þessir kunnu gamanleikarar komu inn á þunglyndi sem þeir hafa átt við að stríða, sviðskrekk, sjálfsgagnrýni og fleira. Árni sagði að það hefði ekki verið fyrr en upp úr 1980 sem almennt var farið að viðurkenna þunglyndi sem sjúkdóm. Árni endaði viðtalið á því að hann vildi að fólk mundi minnast síns þannig: "Mikið askoti árans var hann Árni góður leikari." Það var allt og sumt. Flosi kvaddi með því að segjast vera skoðunarlaus maður. Hefði helst enga skoðun á málefnum líðandi stundar. Það fór ekki heldur mikið fyrir stærilæti hjá þessum stórjöfri leiklistarinnar. Eftir þesssi viðtöl situr maður fullur þakklætis fyrir það að hafa fengið að njóta þessara stórleikara um áratugaskeið, hvílíkir snillingar.