laugardagur, 26. ágúst 2006

Mýrdalur.

Mýrdalurinn til austurs Á þessari mynd af Mýrdalnum er linsunni beint til austurs í átt að Reynishverfi. Við fórum upp að Brekkum til þess að fá þessa yfirlitsmynd og urðum mjög hrifin að því sem við sáum.

Mýrdalur til suðurs.

Mýrdalurinn Á leiðinni í bæinn keyrðum við upp að Brekkum í Mýrdalnum og tókum þessa yfirlitsmynd af Mýrdalnum. Þarna má sjá baksvip Dyrhólaeyjar.

Hross í heimsókn hjá Höllu.

Höllubústaður Halla var sannfærð um að það væri einhver í sínum bústað. Hún sá hreyfingu við húsið og hélt það væri bíll. Við komum við í hennar bústað á leiðinni heim og viti menn á móti okkur tóku fimm hross sem voru að dunda sér í rólegheitum við bústaðinn hennar.

Nýji sófinn.

Sirrý, Sigrún og Halla Við skelltum okkur austur í Göggubústað í dag til þess að skoða nýja svefnsófann sem búið er að setja upp í bústaðnum. Þvílíkur munur að geta setið í þessum sófa að ég tali nú ekki um að geta lagt sig í honum í framtíðinni. Gæði bústaðarins hafa margfaldast með tilkomu sófans.

Sitt lítið af hverju.

Valdimar og Stella Í dag heimsóttu okkur Valdimar og Stella og var þessi mynd tekin til þess að festa þann viðburð á filmu(eða segir maður í tölvuna). Annars er fátt í fréttum. Góða veðrið heldur áfram og var aftur logn í Fossvogsdal í dag og 14 stiga hiti. Fórum í bíltúr í kvöld og enduðum í heimsókn hjá Íu og Kolla. Sótti jeppann minn í viðgerðina í dag en það fór í honum startarinn í hádeginu í gær. Vona að þessi viðgerð dugi, en þetta er að verða eins og endursmíði á bílnum allir þeir peningar ég hef sett í viðgerðirnar. Heyrðum aðeins í Hirti og Ingibjörgu í kvöld. Annars ekkert sérstakt í fréttum. Kveðja.

miðvikudagur, 23. ágúst 2006

Síðsumarkvöld

Veðrið hefur verið fínt í dag. Fórum í göngutúr í Fossvogsdalnum í kvöld. Yndislegt veður, kyrrtlátt og þægilegt. Við fórum reyndar líka í svona göngutúr í fyrradag með Íu vinkonu. Erum að njóta stundarinnar og veðurblíðunnar. Nú styttist í haustið og voandi spennandi verkefni hjá öllum. Sigrún kom heim frá Lundúnum og byrjaði í Kvennó í dag. Hún lét vel af dvöl sinni í heimsborginni. Lítið fréttist af Valdimar og Stellu þessa dagana. Hilda, Magnús og Valgerður Birna eru í Kristianstad hjá Hirti, Ingibjörgu og nafna. Ég var á fundi í gær þar sem var norski sjávarútvegsráðherrann. Hún er "vinstri græn" í pólitík. Hefur heldur betur aðrar áherslur í atvinnumálum en við sem veðjum á markaðshagkerfið sem farsælustu lausnina fyrir sjávarútveginn. Hún er ung að árum miðað við okkur þessa sem erum búnir að vera tugina tvo í þessu. Hún mun vera fædd árið 1973 jafngömul Hirti Friðrik. Hún hefur mikla jákvæða útgeislun og flutti mál sitt ágætlega.

sunnudagur, 20. ágúst 2006

Telma Þórunn Árnadóttir.

Í dag fórum við í skírn litlu frænku hjá Sunnevu og Árna frænda. Sr. Hjörtur langafi skírði stúlkuna hún heitir Telma Þórunn. Prestfrúin og langamman spilaði skírnarsálminn í kirkjunni. Þetta var falleg og hátiðarstund. Á eftir var boðið til kaffiveislu í safnaðarheimilinu. Telmu nafnið er út í loftið eins og sagt er, en Þórunnar nafnið í höfuðið á systur. Við óskum þeim til hamingju með nafngiftina. Annars lítið í fréttum héðan úr Brekkutúni. Kveðja.

Musikkoret Köbenhavn.

Á föstudagskvöldið fórum við í Langholtskirkju á tónleika sem danskur kór hélt í kirkjunni. Elísabet föðursystir er í kórnum og er hann kominn hingað í tónlistar- og menningarheimsókn. Einnig söng með kórnum einsöng önnur frænka, hún Guðrún Finnbjarnadóttir. Með kórnum spilaði lítil hljómsveit píanóleikari og strokhljóðfæraleikarar. Lagavalið var aðallega úr smiðjum klassískra meistara.Svo sem G.F.Händel, Glæd dig du jord. F.B. Mendelssohn, Hör mein Bitten. A.Vivaldi Landamus te. J. Hayden, Vollendet ist das grosse Werk. Eftir tónleikana buðu systur og mákona Betu kór og ættingum upp á kvöldkaffi. Í gær laugardag vorum við framan af degi við heimilsstörf. Stóra verkefnið var að koma saman vatnslás í baðvaski sem við tókum sundur vegna stíflu. Það gékk á ýmsu en það hafðist að lokum. Seinni partinn í gær fórum við svo í bæinn eins og allir hinir til þess að taka þátt í menningarnótt Reykjvíkurborgar. Þarna voru að sjálfsögðu allir eða hér um bil. Við fórum á stórtónleikana á Klambratúni. Vorum áður búinn að rölta um miðbæinn og horfðum svo á glæsilega flugeldasýningu á sundinu fyrir framan Skúlagötuna kl. 22.30. Hittum Helga og Ingunni og enduðum heima hjá þeim í stuttri heimsókn. Við höfum verið í SMS og MSN sambandi við Sigrúnu í London. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

fimmtudagur, 17. ágúst 2006

Þetta var helst í fréttum...

Sigrún Huld er í Lundúnum með tveimur skólasystrum sínum. Hún er í SMS sambandi og lætur vel að dvöl sinni í heimsborginni. Hilda, Magnús og Valgerður Birna eru í Stockholmi og munu innan tíðar heimsækja Kristianstad. Sirrý er að fara til Stockholms í lok ágúst. Valdimar og Stella eru við próflestur á fullu og vinnu líka. Á sunnudagaginn kemur verður litla dóttir Sunnevu og Árna skírð. Elísabet föðursystir er hér í heimsókn frá Danmörku og með henni í för 50 manna danskur kór. Kórinn mun syngja í Langholtskirkju á föstudagskvöldið og eru allir hvattir til þess að mæta á tónleikana. Axel og Rannveig eru ný komin frá Búlgaríu. Þórunn og Sveinn og sr. Hjörtur og Unnur eru nýkominn frá Köben. Mikið hlýtur að ganga vel hjá flugfélögum þessa lands ef þetta er svona líka í öðrum fjölskyldum. Kveðja.

mánudagur, 14. ágúst 2006

Svenni til Svíþjóðar.

Nafni Ég ætla að deila með ykkur þessari mynd af nafna mínum sem nú er farinn til síns heima í Svíþjóð. Við söknum hans og foreldra hans mikið og þökkum fyrir skemmtilegt sumar bæði hér á landi og í Svíþjóð. Strákurinn hefur stækkað og þroskast mikið í sumar. Jæja hef þetta ekki lengra í að sinni. Kveðja.

sunnudagur, 13. ágúst 2006

"None stop" helgi

Í Krísuvík Þetta er ein af þessum "none stop" helgum. Við fórum í fertugsafmæli hjá Gerði vinnufélaga á föstudagskvöldið. Ég tók að mér að spila tvö lög á píanó sem var frumraun í slíku samkvæmi. Á laugardeginum fórum við í brúðkaup, sem byrjaði í Vídalínskirkju klukkan 16.00. Síðan var veislan haldin heima hjá vinumum okkar Jenný og Mumma. Þau voru að gifta elstu dóttur sína hana Heiðu. Eftir brúðkaupsveisluna gerðum við örstutt stopp hjá vinum okkar Ellu frænku og Júlla í Sogamýrinni. Hér litu við í gær sr. Hjörtur og Unnur og Sigurður og Vélaug til að kveðja Svíþjóðarfarana. Í morgun fóru svo nafni og Ingibjörg til Svíþjóðar. Lagt var af stað til Keflavíkur kl. 4.30 til þess að verða á undan trafíkinni, það tókst. Seinni partinn fórum við svo í smá bíltúr til þess að prufa nýja bílinn hérna í nágrenni Kópavogs. Þannig að það hefur verið í nógu að snúast. Kveðja.

föstudagur, 4. ágúst 2006

Síðasti virki dagurinn í fríinu.

Það er ýmislegt skemmtilegt af okkur að frétta. Við réðumst í það að kaupa okkur nýjan bíl í fríinu. Sjá mynd hér til hliðar. Keyptum okkur Subaru Legacy, hvað annað? Þetta er fjórði nýji Subaru bíllinn sem við kaupum okkur frá 1987. Þetta var ekki erfitt val. Við ætluðum að vísu að kaupa Subaru Impresa en létum leiðast til að prófa Legacy og þá var ekki aftur snúið. Framundan er Verslunarmannahelgin með öllum sínum útihátíðum og skralli. Vonandi verður hún án alvarlegra áfalla að þessu sinni en ég óttast um æsku þessa lands. Ég hvet alla bloggvini mína til þess að lesa pistil Magnúsar Teitssonar. Pistilinn má nálgast hér með því að smella: Árviss viðbjóður.. Við búum í breyttu þjóðfélagi með margfallt meiri hættum vegna ágangs fíkniefnasala og annarra misyndismanna sem vilja eyðileggja líf barnanna okkar. Við eigum ekki að búa til eftirlitslausar veiðilendur fyrir þessa aðila með því að smala æskunni inn á samkomur og láta sem það sé allt í lagi að börn séu ofurölvi á þessum stöðum. Æska þessa lands er það dýrmætsta sem við eigum. Til þess að enda þennan pistil á léttari nótum þá bendi ég ykkur á að grein mína í Lesbók Mbl. þann 26. júlí sl. sem má nálgast hér:Þó þú langförull legðir. Góða helgi og góða heimkomu. Kveðja.