föstudagur, 24. júní 2011

Á miðsumarsnóttu.

Í kvöld er einn mesti hátíðardagur Svía. Það sem þeir kalla "midsommarfesten." Þeir fagna miðsumri ávallt helgina eftir lengstan sólargang þ.e. 21. júní ár hvert. Þetta er almennur frídagur í landinu. Fjölskyldur og vinir eiga samverustund. Setið er í kvöldsólinni og á borðum sænskir sumarréttir, síld, nýjar kartöflur, dill, hrökkbrauð og öl og vín. Þetta er stóra sumarhátíðin. Dansað er í kringum maístöngina og yndislegasta tíma ársins fangað. Værð og friður leggst yfir sumarlandið og það hvílir ró og friður yfir borg og bí. Marga yndislega stundina hefur maður átt á þessum árstíma í Svíþjóð, bæði á námsárunum og svo í heimsóknum síðustu áratugi. Æ, nú langar mig yfir hafið. Sendi því bestu kveðjur.

þriðjudagur, 21. júní 2011

Til hvurs?

Ég var eiginlega búinn að ákveða að hætta með þessa heimasíðu. Lokaði henni í sólarhing en svo opnaði ég hana aftur allavega í bili. En til hvurs að vera pára þetta og senda á vefinn. Í rauninni er tilgangurinn frekar óljós. Ef til vill að minna á sig? Æfa sig í textagerð? Geyma eftirminnilega atburði? Deila fréttum? Í dag var félagi minn að grínast með það að annállinn yrði frægur þegar ég væri dauður. En hver segir að þetta pár verði tiltækt á vefslóðinni um alla framtíð. Það þarf aðeins að ýta á einn takka og þá er það farið í gleymskunnar dá. Ég hef svo sem enga brennandi þrá að vera pára þetta lengur. Það sést best á því hvað innslögum hefur fækkað. En til að gera langa sögu stutta er framtíð annálsins til skoðunar. Þetta samskiptaform er í rauninni stórmerkilegt. Maður getur skrifað hugleiðingar sínar og skilaboð og sent út í umhverfið án þess að tala við kong eða prest. En auðvitað bera orð ábyrgð. Þessvegna er líklega best að segja sem minnst. En svo er í því ögrun að tjá sig svona. Það sem eiginlega stoppaði mig í að hætta var að vefurinn upplýsti mig um að 100 manns lesi reglulega annálinn. Svo má ekki gleyma því að síðan er orðin útrásarsíða. Langflestir sem heimsækja þessa síðu eru í USA. Líklega að lesa þetta með Google translator. En spurningunni sem kastað var fram í upphafi er enn ósvarð: Til hvurs? eins og Skaftfellingar mundu segja það.

föstudagur, 17. júní 2011

Gleðilega þjóðhátið

Í Bankastræti. Við fórum að venju á bæjarröltið í gærkvöldi í tilefni dagsins. Það vakti athygli okkar hversu fáir voru á ferli í miðbænum. Man bara ekki eftir jafn fáum í bænum á 17. júni. Nú er minnst 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar forseta, sem fæddist 17. júní 1811. Sjálfstæðisbaráttan er verkefni sem líkur aldrei. Varðstaða um fullveldið er eitt af mikilvægustu verkefnunum sem við stöndum frammi fyrir. Ég er sannfærður um að Íslandi farnist best meðan við höldum sjálf um stjórnartauma í landinu á öllum sviðum þjóðfélagsins. Það er einmitt viðbraðsflyti og snerpa smáþjóðar til að bregðast við aðsteðjandi aðstæðum sem veitir okkur eitt mikilvægasta samkeppnisforskotið gagnvart öðrum stærri þjóðum. Vonandi tekst okkur að halda frelsinu inn í framtíðina. Ef einhver er að velta fyrir sér þeim sem eru með okkur á myndinni þá eru þetta Hjálmar og Anna Gauja börn Hannesar Hjálmarssonar og Höllu Sigrúnar. Hann var að taka mynd af þeim og við smygluðum okkur inn á myndina. Gleðilega þjóðhátíð.

sunnudagur, 12. júní 2011

Eagles tónleikar í Reykjavík.

Frey og Henley. Við Hjörtur Friðrik fórum á Eagles tónleikana í Laugardalshöll á fimmtudaginn var. Þetta var mikil upplifun að loks kynnast þessari stórkostlegu rokkhljómsveit. Það fór ekki milli mála að hér voru músíkjöfrar á ferð. Hver smellurinn á fætur öðrum var leikinn við mikinn fögnuð áheyranda. Áberandi var að karlmenn voru í þó nokkrum meirihluta á þessum tónleikum. Talið er að 10 000 manns hafi verið á tónleikunum. Hljómurinn í nýju höllinni var góður en húsnæðið ræður illa við slíkan fjölda áheyrenda. Loftleysið og hitinn var þrúgandi. Þetta var samt tónlistarveisla sem var hverrar krónu virði.

Sigrún Huld hjúkrunarfræðingur.

Dóttir okkar Sigrún Huld útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands í gær. Það eru viss tímamót þegar yngsta barnaið líkur háskólanámi. Minnir mann á að tíminn flýgur áfram. Við Sirrý mættum á útskriftarhátíð háskólans í Laugardalshöll. Það voru alls 1816 prófskírteini afhent þennan dag. Hákólinn er 100 ára á þessu ári og markaði afmælishátíðin athöfnina. Fyrsta árið voru 45 nemendur í skólanum en í ár voru yfir 14 000 nemendur. Það var gaman að sjá þennan fríða flok útskriftarnema ganga fyrir kennara sína og taka við skírteinum sínum. Hér var svo smá teiti í gær eftir athöfnina. Annállinn óskar Sigrúnu til hamingju með áfangann.

sunnudagur, 5. júní 2011

Á sjómannadaginn

Smáey VE
Óska sjómönnum til hamingju með daginn. Það var ekkert í líkingu við veðurhaminn á þessari mynd veðrið í Skaftártungunni í dag. Við Valdimar Gunnar eyddum deginum við ýmis verkefni við Göggukot í dag ásamt Birni, sem leiddi verkið. Veðrið var yndislegt 15°C hiti og sól lengst af. Allt austur að Hellu var ýmist rigningarsuddi eða skýjað. Við lögðum af stað kl. 8.30 og vorum komnir í bæinn aftur kl. 19.00. Hlustuðum á ræður sem fluttar voru á hafnarbakkanum í útvarpinu og nutum veðurblíðunnar. Umferð var róleg austur í morgun en var þung eftir að komið var að Selfossi á bakaleiðinni.

fimmtudagur, 2. júní 2011

Húsin voru full af börnum

Á æskuslóðum. (Viðtal á finnur.is/mbl)Rætur mínar liggja í Hvömmunum í Kópavogi en þangað fluttist ég aðeins níu mánaða gamall árið 1953. Kópavogur var á þeim tíma að byggjast upp mjög hratt og í bæinn flykktist fólk víða frá, aðallega sakir þess að í bænum fékkst nóg af ódýrum lóðum. Ekki er ofmælt að dæmigerðir Kópavogsbúar þessara tíma hafi verið dugleg ung hjón með fullt hús af börnum,« segir Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ.

Ævintýri við hvert fótmál

Hvammarnir í Kópavogi afmarkast af Reykjanesbraut í vestri og bænum Hlíð í austri, þar sem nú er Digraneskirkja. Að ofan er markalínan við Hlíðaveg og að neðan við Fífuhvamm - sem áður fyrr var reyndar nefndur Fífuhvammsvegur sem lá inn í heiðina þar sem nú eru Smára- og Lindahverfi. Vestast í þessu hverfi eru göturnar Lindarhvammur og Hlíðarhvammur; en við þær standa hús sem á sínum tíma voru mörg byggð af starfsmönnum Sambands íslenskra samvinnufélaga. Fengu þeir þar úthlutaðar lóðir og höfðu með sér ýmsa samvinnu um framkvæmdir. »Milli þessara tveggja gatna er þríhyrndur reitur, Hlíðargarðurinn, sem er fyrsti skrúðgarðurinn í Kópavogi. Þegar ég man fyrst eftir mér voru allar helstu samkomur í bænum, til dæmis 17. júní, haldnar þarna. Og svona var þetta; ævintýrin við hvert fótmál í rauninni. Móinn fyrir neðan Fífuhvammsveginn þar sem nú er íþróttasvæði Breiðbliks var skemmtilegt leiksvæði þar sem við krakkarnir vorum mikið,« segir Sveinn sem ólst upp í Víðihvammi 17. Reyndar hét staðurinn einhverju allt öðru nafni - ef þá nokkru - þegar afi Sveins, Axel Gunnarsson, reisti þar sumarhús á eftirstríðsárunum. Þar fengu foreldrar Sveins, þau Hjörtur Hjartarson prentari og síðar sóknarprestur og Unnur Axelsdóttir inni - og ekki leið á löngu áður en þau hófu þar byggingu myndarlegs íbúðarhúss.

Sungið með Sigfúsi

»Ég hef verið um fjögurra ára þegar við fjölskyldan fluttum inn í húsið, sem er um það bil 60 fermetrar að grunnfleti og er þrjár hæðir, kjallari, hæð og ris. Algengt var að hver hjón væru með fjögur eða fleiri börn og einhverju sinni var því víst fleygt að á þessum uppbyggingarárum hefði meðalaldur í Kópavogi verið um þrettán ár,« segir Sveinn Hjörtur sem minnist margra karla og kvenna sem mótuðu bæjarbraginn á þessum tíma. Nefnir þar Guðmund Benediktsson prentsmiðjustjóra og móðurbróður sinn Gunnar Axelsson, kennara og píanóleikara sem lengi lék fyrir gesti á Hótel Sögu. »Ég kem af miklu tónlistarheimili. Faðir minn söng og móðir mín er góður píanóleikari og milli foreldra minna og Sigfúsar Halldórssonar sem bjó í nálægu húsi var góð vinátta. Sigfús kom oft í heimsókn og spilaði og söng á góðum stundum. Reyndar heyrði ég hann segja að enginn spilaði lögin sín betur en móðir mín. Sigfúsi var margt gott gefið því auk tónlistargáfunnar var hann góður listmálari og einhverju sinni fékk ég mynd að launum frá honum eftir að hafa málað fyrir hann glugga á húsinu, sem hann treysti sér ekki til að mála sakir lofthræðslu. Það þóttu mér fín vinnuskipti. Svo eignaðist ég á þessum tíma góða vini sem hafa fylgt mér í fimmtíu ár, þar á meðal besta vin minn Helga Sigurðsson, krabbameinslækni við Landspítalann og prófessor við Háskóla Íslands. Foreldrar hans eru Sigurður Helgason lögfræðingur sem nú er látinn og Gyða Stefánsdóttir sem bjuggu við um tíma við Hlíðarveginn.«

Í Fossvogsdalinn

Sveinn Hjörtur bjó í Víðihvammi fram yfir tvítugt. Þá höfðu þau eiginkona hans, Sigurveig H. Sigurðardóttir, nú dósent við Háskóla Íslands, nokkurra ára viðkomu hjá foreldrum hennar við Kúrland í Fossvogi. Fluttu svo á Kambsveg í Reykjavík eftir fjögurra ára námsdvöl í Gautaborg. Fjölskyldan flutti aftur í Kópavog árið 1981 í Engihjalla og tók sig til og reisti sér einbýlishús við Brekkutún árið 1985. »Hvammarnir snúa mót suðri, þar hefur fólk morgunsólina enda vorar þar allt að tveimur vikum fyrr en gerist austan megin við Kópavogshálsinn þar sem ég hef búið sl. tuttugu og sex ár. En ég myndi samt ekki vilja skipta enda höfum við margt gott í staðinn í Brekkutúni, svo sem kvöldsólina og aðgengi að frábæru útivistarsvæði í Fossvoginum,« segir Sveinn Hjörtur sem jafnan kveðst líta á sig sem Kópavogsbúa og kynna sig sem slíkan - enda þótt hann eigi rætur víða; t.d. vestur á Ísafirði, á Hornströndum, Borgarfirði og austur á Eyrarbakka. sbs@mbl.is Viðtal í Finnur.is 2. júní 2011.