sunnudagur, 30. október 2005

Þetta gerðum við.

Við höfum mest verið heimavið í dag við tiltekt enda veitir víst ekki af. Höfum heyrt í strákunum í Svíþjóð. Allt gott af þeim að frétta. Gámurinn með búslóðinni er að sögn kominn til Varberg þannig að það eru góðar líkur á að hann skili sér á réttum tíma. Fórum í göngutúr um Smáralind í dag og enduðum í helgarinnkaupum í Hagkaup. Komum við í OgVodafone og gáfum upp vinarnúmer sem hringja má frítt í. Nú svo fékk ég upplýsingar um að rétt væri að endurhlaða erlendu stöðunum í Digital Ísland. Viti menn ég fékk 31 stöð til viðbótar og stór aukið rými til að hlaða niður af netinu. Í kvöld hittum við nafna og mömmu hans í heimsókn hjá Guðmundi bróður hennar og Gerðu. Foreldrar þeirra voru líka í heimsókn því að kappinn á afmæli í dag. Annállinn óskar honum til hamingju með daginn. Nú annars höfum við ekki gert mikið í dag. Höfum verið að skrolla á milli sjónvarpsstöðva. Á morgun hefst ný vinnuvika og víst er að nóg er að gera við að ganga frá eftir aðalfund. Kveðja.

laugardagur, 29. október 2005

Vikulok.

Jæja kæru vinir. Nú er heldur betur komið vetrarríki í Fossvogsdal. Kunnugir segja að óveðrið í gær hafi verið leifarnar af fellibylnum Wilmu sem fór yfir austurströnd USA í vikunni. Það er kalt og snjór í dalnum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Það er helst í fréttum að Sirrý er komin heim frá London eftir þriggja vikna dvöl þar. Valdimar Gunnar er í Svíþjóð í heimssókn hjá Hirti Friðrik. Hann ætlar að vera þar fram í næstu viku og hjálpa honum að flytja dótið inn í nýju íbúðina. Þeir sendu okkur SMS frá Khöfn í dag. Voru í Nyhöfn og á Strikinu. Sögðust hafa fengið sér þar bjór. Ég segi nú bara: Bröder ackta er för spriten.... Annars er þetta búin að vera annasöm vika. Undirbúningur undir og vera á aðalfundi L.Í.Ú. og svo hóf í gærkvöldi. Við voru að sjálfsögðu á hófinu að venju og skemmtum okkur vel. Það var boðið upp á fjölbreytilega skemmtun í og söngi og tónum. Var upp í útvarpi í þættinum Í vikulok í morgun. Þetta er svona það helsta í fréttum. Hér komu í stutta heimsókn í dag Sigurður og Véllaug. Annars höfum við verið heimavið og lítið í annað í fréttum. Kveðja.

sunnudagur, 23. október 2005

Í fýl með Skaftfellingum.


Ég fór í fýlaveislu hjá Skaftfellingafélaginu í gærkvöldi. Þarna voru samankomin um 150 manns til þessarar veislu. Fyrir þá sem ekki vita það þá er fýllinn sjófugl og verpir hann hér við suðurströndina. Þegar ungarnir eru fullvaxnir eru þeir veiddir til matar. Þá eru þeir oft svo feitir, og svifaseinir og geta ekki flogið. Það er löng hefð fyrir fýlsáti meðal Skaftfellinga. Fýlinn í gær var saltaður og borinn fram með rófum og kartöflum. Þetta er ágætis matur en svolítið sérstakur minnir á vel saltað kindakjöt. Það verður seint settur upp skyndibitastaður sem býður fýl. Lyktin er mjög sérstök, svona lýsiskeimur. Fólkið sem þarna var saman komið var flest af eldri kynslóðinni, þó var þarna eitthvað af yngra fólki. Nokkrir kórfélagar voru mættir og var þetta hin besta skemmtun. Skúli Oddsson formaður félagsins var ánægður með mætinguna og gat þess að ýmsir formenn átthagafélaga teldu að tími þeirra væri að líða undir lok. Það gæti ekki átt við um þetta félag í ljósi þátttökunnar. Ég þekkti nokkra þarna fyrir utan kórfélaga, svo sem Hjört og Vigdísi frá Herjólfsstöðum, Einar Finnbogason og Deddí konu hans sem leigðu hjá okkur í Víðihvamminum á sínum tíma. Pálma Magnússon bróður Guðlaugar Magnúsdóttur kórfélaga og Gautaborgara. Ég gleymdi að geta þess að ég hitti annan Gautaborgara í gær á Rússa ráðstefnunni. Það var hún Ester Magnúsdóttir. Þá hitti ég líka gamlan leikfélaga á Hansadögum úr Hvömmunum, Björgvin Vilhjálmsson son Villa múrara. Við fengum okkur kaffibolla saman og áttum létt spjall um æskudagana. Hann er sögugrúsakari eins og ég. Jæja nú er ég að fara til Laugu og Sigga í heimsókn.

laugardagur, 22. október 2005

Rússnesk mennngarvika og Hansadagar.

Þetta er búinn að vera dagur hinna mörgu fróðleiksmola svo ekki sé meira sagt. Ég byrjaði daginn á því að fara í Salinn í Kópavogi á ráðstefnu sem bar yfirskriftina Rússland og ég. Þar voru mættir fræðimenn íslenskir til þess að fjalla um Rússland frá ýmsum sjónarhornum. Fyrst talaði guðfræðingur um rússneska íkona. Þá fjallaði bókmenntafræðingur um rússneskar bókmenntir, þýðandi um þýðingar úr rússneskum verkum á íslenska tungu, hagfræðingur, Guðmundur Ólafsson, um rússneska sögu og ferðaskrifstofueigandi um ferðir til Rússlands. Allt voru þetta þakkarverð erindi. Það sló mig að hagfræðingurinn sagðist hafa verið búinn eða langt kominn með erindi um rússnesk efnahagsmál, en svo hafi honum þótt það svo leiðinlegt að hann hafi hent því. Í staðinn skautaði hann á nokkrum stórmennum og skálkum rússneskrar sögu allt frá Pétri mikla (myndin hér til hliðar er af honum) til vorra daga og gat þess að það væri ekkert gaman að fjalla um Rússland nema það væru 300 ár undir. Það kom strax í ljós þegar panelumræður hófust að fólk vildi fræðast um stöðu mála og ekki hvað síst stöðu efnahagsmála í Rússlandi í dag. Hvert landið stefndi undir stjórn Pútins, hvort landið væri að ná tökum á sínum málum eftir sovétáratugina skelfilegu, hvort takast mætti að laga þann félagslega og efnahagaslega mismun sem væri í landinu. Af hverju væri svona erfitt að ferðast til Rússlands. Þarna var af hinum almenna þátttakenda á ráðstefnunni komið inn á þá mynd sem blasir við almenningi hér á landi og væntanlega víðar. Í raun var frekar fátt um svör. Vandræði Rússa eru skelfileg og segir það kannski mest um þau að þeim fækkar um 1 milljón manns á ári um 300 þúsund manns deyja árlega af voveiflegum ástæðum þar af 150 þúsund manns af eitrun alkóhóls og vímuefna. Spurning hvort að það standist söguskoðun að umskiptin frá kommunismanum hafi verið án blóðsúthellinga í ljósi þessa. Hagfræðingurinn reyndi að hughreysta áheyrendur með því að vitna í Bismark sem forðum sagði að Rússar væru jafnan seinir til en þegar þeir loks mættu til leiks stoppaði þá ekkert af. Saga Rússlands er að mínu mati dæmi um hvernig þjóðir, já alþýða manna getur verið ofurseld ribböldum sem fara sýnu fram án þess að skeyta nokkru um samferðamenn sína. Þetta á ekkert bara við Rússa. Þetta er því miður saga mannkynsins allt of oft í stóru og smáu í gegnum aldirnar. Þegar ég var búinn að velta þessu fyrir mér fram að hádegi heyrði ég í útvarpinu að kl. 14.00 yrði flutt erindi í Minjasafni Hafnafjarðar um Hansa kaupmenn og Hafnarfjörð. Ég skelti mér þangað og hlustaði á það erindi sem flutt var af mínum gamla sögukennara í gaggó Aust, Gísla Gunnarssyni. Það var fróðlegt erindi um íslenska sögu og tengingu hennar við Hamborg og þýska fiskkaupmenn í gegnum aldirnar. Í þessu erindi fékk maður m.a. nasasjón af því hvernig verslunarveldi verða til og hvernig endalok þeirra verða. Það gildir hið sama um bæði Sóvétríkin og Hansaveldið að þau féllu að lokum innanfrá. Í lok erindis síns kom Gísli inn á það að stríð og viðskipti færu illa saman. Mér finnst það svolítil þversögn í ljósi sögunnar. Já, en ætli það sé ekki eitthvað til í þessu ef grannt er skoðað. Ef einhver vill vera "nastí" þá gæti hann sagt sem svo að Sveinn hafi verið í tímum hjá gömlum allaböllum í dag. Læt hér staðar numið í bili. Kveðja.

fimmtudagur, 20. október 2005

Þetta var helst í fréttum.

Sigrún Huld er farin til helgardvalar í London með Sirrý. Þær mæðgur ætla að strauja kortin á Oxfordstreet ef ég þekki þær rétt. Hún flaug út í dag með Iceland Express og lenti á Standsted flugvelli um kl. 19.00. Sirrý hélt fyrirlestur í London í gær um íslensk öldrunarmál. Fyrirlesturinn gékk mjög vel enda var búið að vanda vel til hans. Það kólnar hratt þessa stundina og verður örugglega frost í nótt. Jæja hef þetta ekki lengra. Kveðja til ykkar allra.

þriðjudagur, 18. október 2005

Sungið með Sköftunum.

Fór á söngæfingu með Sköftunum í gær. Erum að æfa bæði ný og gömul lög. Það er fýlakvöld á laugardaginn kemur. Ég er að hugsa um að skjótast og fá mér saltaðan fýl svona einu sinni. Það er mikið um fýl núna og hann er víðar en oft áður segja Skaftfellingar. Nú svo fór ég í heimsókn til Árna Sveinssonar og Sunnevu í nýju íbúðina þeirra. Þetta er mjög glæsileg íbúð. Það er ekki nema ár síðan ég var í íbúðinni þeirra í Hafnarfirði, þá nýuppgerðri en þau seldu hana. Tíminn líður fljótt. Ég er líka byrjaður í píanótímum að nýju. Bauð kennaranum heim til þess að skoða nýja flygilinn. Honum leyst vel á hann og við spiluðum fjórhent. Ég á píanóið og hann undir á flygilinn. Nú svo er maður á fullu í leikfiminni og reyni að mæta eins og maður á Rótarýfundi. Annars er það helst af veðri að frétta það hefur hlýnað mikið síðustu daga og er hitinn allt að 10°c það léttir sannarlega þennan tíma ársins þegar skammdegið er að hellast yfir. Það þýðir nú ekkert að láta það á sig fá. Hef heyrt bæði frá Sirrý og Hirti. Þau eru bara í góðum gír í útlandinu. Sirrý heldur erindi á morgun fyrir Bretana. Jæja hef þetta ekki lengra að sinni. Kveðja til ykkar allra.

sunnudagur, 16. október 2005

Borgarnes heimsókn.


Frænkurnar tvær.

Við fórum í Borgarnes í dag að heimsækja Svein Hjört jr. sem við höfðum ekki séð í tvær vikur. Það urðu að sjálfsögðu fangaðarfundir og hann var svo glaður að sjá okkur Sigrúnu. Hann hefur aldeilis þroskast á tveimur vikum. Hann er farinn að vínka fólki og svo er hann farinn að skríða áfram. Ýtir sér með öðrum fætinum. Áður var hann farinn að klappa saman höndunum og láta smella í góm. Hann er svo glaðsinna og líkur pabba sínum að þessu leyti. Ingibjörg og Guðmundur bróðir hennar fóru norður og gengu frá dótinu og íbúðinni.

Sigrún frænka og nafni.

Alltaf gaman að láta taka af sér mynd til að senda pabba.

Nafni að skríða.

Nafni fór að skríða í vikunni og gerir það með að spyrna hægri fæti í gólfið. Þegar mamma hans fór norður eina nótt að ganga frá þá flytti minn sér að læra að vinka bless.

Sveinn Hjörtur og mamma hans.

Maður er flottur í fína stólnum hennar Katrínar frænku, sem stór apinn vermir oftast. Maður er orðinn miklu styrkari og það eru bara vikur í það að maður fari að ganga.

Nafni með Margréti ömmu.

Það væsir ekki um unga menn með allan þennan kvennafans í kringum sig.

laugardagur, 15. október 2005

Þann 15. október 2005.


Foreldrarnir.

Já ritstjóri annálsins á afmæli í dag. Honum hafa borist heillaóskir víða að frá Englandsströndum (Sirrý), Svíaríki (Hjörtur), Borgarnesi (Ingibjörg og nafni), Hlíðunum (Lauga), utanríkisráðuneytinu(Valdimar), landsfundi Sjálfstæðisflokksins(Björn) og svo heiðruðu foreldrar og systkini afmælisbarnið með því að koma í þrjú kaffi hér í dag, sem Sigrún sá um. Annars hefur deginum verið skipt milli fundarstarfa á landsfundinum og því að taka á móti heillaóskum. Í Brekkutúninu kom Júlíus Geir ásamt móður sinni og lék á hljóðfæri hússins. Júlíus ber þann tiltil að vera "skærasta von" stjórfjölskyldunnar sem hljómborðsleikari. Hinsvegar var yngsti gesturinn Axel Garðar jr. ekki eins ánægður með sinn hlut við hljómborðið og lýsti því yfir í samkvæminu að þetta væri "leiðinlegt afmæli". Hann hafði að vísu í millitíðinni farið út á götu og boðið þar gangandi vegfaranda sem honum leist vel á að koma inn og lífga upp á samkvæmið. En allir fengu að prófa sig við píanó og flygilinn. Þegar þetta er ritað eru Valdimar og Stellu í kvöldheimsókn.

Hann á afmæli í dag.....

Þórunn Ingibjörg stóð fyrir því að afmælissöngurinn var sunginn afmælisbarninu til heiðurs. Söngurinn endaði sem einsöngur hennar því að þetta sérstaka lag hefur aldrei hlotið hylli innan fjölskyldunnar, þótt oft hafi hann verið raulaður meira í gríni en alvöru. Hún sjálf kemst í ákveðið "mood" við að heyra lagið. Axel Garðar sr. tók nokkur lög á flygilinn og píanóið sem ég flokka sem Kungälvsrokk vegna þess að hann fullnemaði þessa flutningstækni á þeim árum. Fyrir þá sem ekki þekkja til má benda á að hér má líta systkinin frá vinstri til hægri: Axel Garðar, Rannveigu mágkonu, Stefaníu og Þórunni Ingibjörgu. Þess ber einnig að geta að Unnur Jónsdóttir hringdi í frænda sinn og óskaði honum sérstaklega til hamingju með daginn. Hún gat ekki mætt vegna anna við æfingar á söngsviðinu. Af politíska sviðinu er það helst að frétta að umræðan í sjávarútvegsnefnd einkenndist nú meira af málefnalegri yfirvegun en áður. Menn ræddu það að nýr sjávarútvegsráðherra hefði af röggsemi og yfirvegun tekið skilvirkan þátt í störfum nefndarinnar. Hann leggur upp með ályktun sem vonandi mun reynast farsælt veganesti á næstu misserum.

fimmtudagur, 13. október 2005

Nýi flygillinn prófaður.


Pabbi hlustar.

Hér komu í kvöld mamma og pabbi til þess að skoða nýja flygilinn í Brekkutúni. Hann er búinn að vera 8 vikur á leiðinni til landsins frá USA. Loksins er hann kominn og ég verð að segja það að mér líst bara mjög vel á gripinn. Stenst allar mínar kröfur. Ég þarf væntanlega að láta endurstilla hann fjótlega.

Mamma vígir flygilinn.

Það mátti nú ekki minna vera en að hún tæki nokkur Fúsalög. Hann sagði það sjálfur að enginn spilaði lögin sín betur en hún og ég er sammála því.

Nýi flygillinn.
Svo er hér mynd af gripnum fyrir þá sem vilja dást að þessu volduga hljóðfæri.

þriðjudagur, 11. október 2005

Löng helgi í London.


Á "food market" við London Bridge.

Jæja, ég er kominn frá London. Við fórum á fimmtudaginn 6. október og ég kom í gær þann 10.október. Sirrý varð eftir í London en hún mun dvelja þar nokkurn tíma við fræði- og rannsóknarstörf við King´s College sem er rétt hjá Waterloo Bridge. Ferðin gékk í alla staði vel og við áttum mjög góða daga í stórborginni. Það er alltaf gaman að koma til Lundúna og anda að sér stórborgarmenningunni. Fara á kaffihús, bókabúðir, markaði og bara vera til.

Á Portobello Road í Notting Hill.

Við gengum Portobello Road á sunnudaginn. Það var óvenjurólegt og lítið um að vera. Laugardagurinn hlýtur að vera aðaldagurinn. Þetta er ekta túristastaður enda vel þekktur úr myndinni Notting Hill. með Hugh Grant og Julíu Roberts.
f
Covent Garden á sunnudegi.

Það er afskaplega gaman að rölta um Covent Garden um helgar. Horfa á grínistana, töframennina og tónlistarmennina spila. Covent Garden er einn af þessum stöðum sem við heimsækjum jafnan þegar til London er komið.

The London Eye, þinghúsið og Big Ben.

Þessi mynd er tekin af Waterloo Bridge til suðvesturs að ég held. Þarna má sjá útsýnishjólið, þinghúsið og Big Ben. Hjólið er nú ekki enn orðið jafn frægt og Big Ben en hver veit. Við fórum nú ekki hring í hjólinu. En við gengum að venju helling.

Útsýni til St.Pouls kirkju og City.

Þetta er útsýni af Waterloo Bridge til austurs í áttina að City og þarna má greina ýmsar kunnar byggingar ef vel er gáð. Mæli með Waterloo Bridge sem útsýnisstað. Myndirnar tala sýnu máli.
Ef einhver skyldi vera svo ókunnur í London að vita ekki hvaða á þetta er þá er þetta Thames áin nafntogaða. Veðrið lék við okkur og á mánudeginum var 2o stiga hiti. Við ferðuðumst mikið í neðanjarðarlestum. Þóttumst finna fyrir undirliggjandi spennu meðal farþega vegna sprengjutilræðisins sl. sumar. En það þýðir ekkert að láta það á sig fá, vonar bara hið besta.

Sirrý fyrir framan King´s Collige.

Við röltum þarna við á sunnudaginn var. Það er ótrúlegt hvað við göngum mikið á strætum borgarinnar. Enda er margt að skoða og margt að sjá.

sunnudagur, 2. október 2005

Í bröns hjá Gunnari Erni.


Íbúðareigandinn.

Við fórum í þennan fína bröns hjá Gunnari í dag. Fyrst komum við við á Lokastígnum og tókum nokkra poka og pinkla og fórum með í Drápuhlíðina fyrir Hildu. Þetta er alveg að koma hjá henni og Magnúsi. Nýja íbúðin er rúmgóð og flott. Búið að mála allt í hólf og gólf og nú er bara að raða dótinu. Nú við fórum að heimsækja Gunnar Örn í nýja íbúð sem hann var að kaupa í Hlíðunum. Hún er á fjórðu hæð í blokk og er björt og rúmgóð, en það er svolítið plamp upp stigana. Hittum Sigurð, Laugu, Baldur Braga, Maríu Glóð og Bryndísi og svo leit Birna við.

Úr sama stofuglugga.

Hér er horft til suðvesturs í átt til Öskjuhlíðarinnar og Perlunnar.

Úr stofunni hjá Gunnari.


Útsýni úr stofuglugga.

Þetta er útsýnismynd úr stofunni í norðvestur átt í nýju íbúðinni hans Gunnars. Þarna blasir við kirkja Óháða safnaðarins. Fer vel að birta hana á þessari vefslóð með öllum hinum kirkjubyggingunum sem hér má skoða.

Eldhúsumræður.


Í eldhúsinu hjá Gunnari.

Við áttum góða stund í eldhúsinu. Þetta er lítið eldhús og þessvegna kjörinn vettvangur til að taka eina þjóðmálaumræðu í bland við fjölskylduspjallið. Nú ég náði upp svolítilli stemmingu um hugsanlegan Lönguskerjaflugvöll út í særokinu sem sást vel úr stofunni.

laugardagur, 1. október 2005

Á laugardegi.


Í hvíld eftir erfiði dagsins.

Mikið búið að vera að gera hjá Sirrý í dag. Hilda systir að flytja í nýja íbúð með honum Magnúsi sínum. Valdi og Stella hjálparhellurnar ómentanlegu lögðu að vanda vænan skerf að málum og Sigrún var til staðar líka. Sjálfur sat ég heimavið og því miður gat ég ekki orðið að liði. Hjörtur hringdi frá Svíþjóð. Gunnar Örn er líka að flytja í nýja í búð í Hlíðunum og er okkur boðið í "bröns" hjá honum á morgun. Hef verið hér heima við og horfði á myndina Aviator, sem er um líf Howard Hughes þess merka framkvæmdamans. Leonardo de Caprio fer með alaðhlutverkið. Ég var búinn að lesa ævisögu karlsins og hef oft séð myndskeið af lífi hans þannig að það kom mér fátt á óvart í myndinni. Maður fær það mjög á tilfinninguna að hann hafi fengið svona "Holliwoodslikju" yfir lífshlaup sitt miðað við það sem maður var búinn að lesa áður. Við hverju var svo sem að búast frá glamor verksmiðjunni. Engu að síður var þetta hin þekkilegasta afþreying. Þráhyggja HH hefur verið svakaleg og valdið honum miklu hugarvíli. Það var merkilegt að fá innsýn í þann sjúkdóm. Nú skilur maður betur þessa kóngulóafóbíu sumra. Síðan var áhugavert að sjá sérstaka umfjöllun um "special effects" mennina og hvernig ýmsar glæfrasenur í myndinni eru til komnar með þeirra þátttöku. Nú í umfjöllun um HH sem fylgdi myndinni var stöðugt verið að minna á mikilvægi HH í því að fleyta fluginu fram á við og gera almenningsflugið að því sem það er í dag. Það má allt vera satt og rétt. En karlinn fór nú oft fram úr sjálfum sér og komst upp með það. Jæja hef þetta ekki lengra.