mánudagur, 21. mars 2016

Skömm í hattinn fyrir rekstaráætlun

Ég vann fyrstu rekstraráætlunina fyrir nýja flugstöð árið 1981. Niðurstaðan kom rétt í því sem Ragnar Arnalds varð fjármálaráðherra. Yfirmaður minn sagði mér síðar að ástæðan fyrir því að þessi rekstaráætlun hafi komið honum á óvart hafi verið vegna þess að ráðherra veitti honum ekki áheyrn í mánuð, sjálfum ráðuneytisstjóranum. Ragnar skammaðist mikið yfir því að ekki hafi verið reiknað með fjármagnskostnaði, sem hefðu verið háar fjárhæðir og snúið rekstaráætluninni á hvolf. 

Svona ríkisfjárfestingar voru kallaðar stofnfjárfestingar og af þeim var ekki reiknaður fjármagnskostnaður. Plön og helmingur flugstöðvarinnar eða um 75% fjárfestingarinnar var greiddur af Bandaríkjamönnum! Þannig að nær væri að tala um fjármagnstekjur af því framlagi. Þá voru raunvextir á þessum árum neikvæðir, þannig að það var ekkert nema stór plús að fara í þetta verkefni.

 Það var ekki gaman fyrir ungan hagfræðing að fá háðulega umfjöllun í fjölmiðlum af hendi yfirmanns og eiga engan möguleika á að verja sig eða útskýra mál sitt. Enginn reyndi að hafa áhrif á niðurstöðu mína og ég hafði mjög gaman af að vinna þetta verkefni. Rakst á þessa umfjöllun í Tímanum þar sem sjálfur Ólafur Jóhannesson þá utanríkisráðherra og síðar forsætisráðherra varði þessa niðurstöðu.(Tíminn 10. apríl 1981)