sunnudagur, 5. ágúst 2012

Séra Hjörtur Hjartarson


Sr Hjörtur Hjartarson, fyrrverandi sóknarprestur er látinn, 81 árs að aldri.
Hjörtur var fæddur 8. desember 1930 og ólst upp á Ísafirði. Foreldrar hans voru Jensína Sveinsdóttir húsmóðir frá Gillastöðum í Reykhólasveit og Jón Hjörtur Finnbjarnarson prentari á Ísafirði.
Hjörtur lauk sveinsprófi í prentiðn frá Iðnskólanum í Reykjavík 1954 og hlaut meistararéttindi í iðninni 1972. Hann starfaði við prentiðn framan af starfsævinni og var aðalféhirðir hjá Ferðaskrifstofu ríkisins frá 1976 til 1988.
Þá söðlaði Hjörtur um og hóf nám í guðfræði við HÍ. Hann vígðist til prests að Ásum í Skaftártungu 1990 og einnig þjónaði hann sem prestur í Kópavogi og í Grindavík.
Hjörtur var virkur í félagsmálum í Kópavogi og sat í bæjarstjórn þar frá 1974 til 1978. Hann var félagi í karlakórnum Fóstbræðrum og söng á sínum tíma með Fjórtán fóstbræðrum. Hann var ritstjóri Þjóðmála og Framsýnar, blaðs framsóknarmanna í Kópavogi. Þá ritaði hann greinar í blöð og tímarit um stjórnmál og guðfræðileg málefni.
Eftirlifandi eiginkona Hjartar er Unnur Axelsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn, þrettán barnabörn og átta barnabarnabörn. (Mbl.is 28.7.2012)