mánudagur, 31. desember 2007

Áramótakveðja.

Lilja Vestmann Valdimarsdóttir. Við óskum ykkur gleðilegs árs og þökkum árið sem er að líða. Margs er að minnast og þakka. Árið hefur liðið sem örskotsstund enda hefur þetta verið viðburðarríkt og gott ár. Stærsti viðburður ársins er að sjálfsögðu fæðing þessarar fallegu stúlku, hennar Lilju okkar sem fæddist 4. júní á þessu ári. Annállinn stendur fyrir öðrum merkisatburðum. Bestu kveðjur.

sunnudagur, 30. desember 2007

Leiktjaldasmiðurinn tekur til sinna ráða.

Datt þessi fyrirsögn í hug þegar veðurguðinn tók til sinna ráða og svipti jólasnjónum í burtu á einni nóttu eða svo. Hér hefur verið mikið rok og rigning í nótt og dag. Þannig að nú er búið að bleyta vel í jarðveginum og óhætt að skjóta flugeldum í tilefni áramótanna. Er að lesa Minningarbók Sigurðar Pálssonar og er það mjög áhugaverð bók. Annars lítið að frétta héðan. Kveðja.

fimmtudagur, 27. desember 2007

... af lífshlaupinu.

Þá er lokið síðasta vinnudegi ársins, en verkefnin fjölmörg sem teygja sig yfir áramótin. Þó tókst að gera skil á nauðsynlegustu verkefnum áður en þessi síðasta helgi ársins hefst. Eins og alltaf höfum við verið mikið á ferðinni þessa daga og hitt fjölskylduna. Minna hefur verið lesið en til stóð. Náði þó að lesa bók Hrafns Jökulssonar sem ber tiltilinn, Þar sem vegurinn endar. Snotur bók og fljótlesin og skaðar engan að lesa hana eins og frændi hans fornbókasalinn sagði eitt sinn við mig er ég spurði hann um bók sem fjallaði um sjálfshjálp og lífshlaupið. Nú er ég að byrja að lesa aðra bók um lífshlaup, bók Sigurðar Pálssonar, Minnisbókina um dvöl hans í Frakklandi á námsárunum. Það gefur manni alltaf eitthvað að spegla sig í reynslu annarra, þó ekki sé annað. Úr einu í annað. Lenti í því að keyra utan í vegg í dag og skemmdi bílinn minn. Þýðir víst lítið að ergja sig á því. Þakka fyrir að ekki fór allavega verr. Læt þetta duga. Kveðja.

þriðjudagur, 25. desember 2007

Á jóladag.

Hvít jól.Það kyngir niður snjó í Fossvogsdal. Fórum í göngutúr í dalnum um hádegisbilið. Það var svolítið kalt og maður varð rjóður í kinnum. Annars hafa þessi jól verið með hefðbundnu sniði. Endaði kvöldið á því að fyljast með messuhaldi í Péturskirkjunni í Róm, sem var sýnd í beinni viða um heim.

mánudagur, 24. desember 2007

Gleðileg jól

Jólatréð. Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár. Kveðja til allra nær og fjær.

Á Þorláksmessunótt.

Þetta hefur verið um margt líkt og áður. Fórum í skötu á Loftleiðum í hádeginu. Fór svo aftur um kvöldið á Múlakaffi með Hirti. Við hittum vin Sirrýjar hann Einar Þorsteinsson á laugarveginum eins og undanfarna áratugi. Hann sagði þegar hann loks hitti okkur: "Jæja þá er kvöldið fullkomnað. Ég búinn að hitta ykkur og get þá farið heim." Það er nú ekki hægt að fá hlýlegri jólakveðju. Í fyrra fór svo að leiðir okkar lágu ekki saman okkur öllum til leiðinda. Annars verið mest heimavið í dag. Nafni minn kvaddi mig í dag með því að segja: " Bless afi minn, en ég kem aftur." Hann var að fara í jólaheimsókn í Borgarnes og áttaði sig á því að hann mundi ekki vera með mér um tíma.
Kveðja.

fimmtudagur, 20. desember 2007

Unnur Sveinsdóttir stúdent.

Frænkurnar Sigrún og Unnur.
Við óskum Unni Sveinsdóttur til hamingju með stúdentsprófið. Sveini Larssyni til hamingju með meistaranámið og Sunnevu til hamingju með 25 ára afmælið. Með öðrum orðum við vorum í þrefaldri veislu í kvöld að fagna þessum áföngum. Annars allt á fullu við að haka við "to do" listann eins og venjulega á þessum tíma. Kveðja.

þriðjudagur, 18. desember 2007

Í aðdraganda Stóru Brandar jóla.

Við vorum í 25 ára afmæli Stellu í dag. Annállinn færir henni sérstakar hamingjuóskir í tilefni dagsins. Þá fórum við í jólatrésleiðangur með nafna. Það var mikið fjör og mikið gaman, þótt lítill maður væri orðinn þreyttur. Í dag var síðasti fundur í rótarý fyrir jól. Sýndar áhugaverðar myndir úr Frakklandsferð rótarý klúbbanna í október. Þar missti maður af áhugaverðri ferð um slóðir franskra duggusjómanna. Koma tímar koma ráð. Vonandi á maður eftir að heimsækja þessar slóðir. Nú á mánudaginn drattaðist maður loks í leifimitíma eftir nokkuð hlé. Fimleikastjórinn heilsaði manni með handabandi. Hann kann að koma athugasemdum um fjarveruna til skila með ýmsum hætti blessaður. Kveðja.

föstudagur, 14. desember 2007

Að hittast á "julefrukost".

Fór á Hótel Loftleiði í dag á jólahlaðborðið góða. Hitti gamla félaga úr Kópavogi. Við höfum haldið þeim sið að taka frá eitt hádegi í desember ár hvert til þess að koma og borða og spjalla saman. Við höfum gert þetta um fimm ára tímabil. Þetta eru einu formlegu samskiptin sem við höfum á árinu. Eftir þennan hádegisverð förum við hver okkar braut. Eigum það sameiginlegt að hafa þekkst og umgengist nokkuð sem unglingar. Við spjöllum um líf okkar og störf, fjölskyldur, börn og núna barnabörn og svo gamlan tíma frá unglingsárunum. Í dag ræddum við m.a. hvað tjáskipti eru mikilvæg í mannlegum samskiptum en jafnframt um gildi þess að þegja saman. Oft geti það verið góður kostur. Sá okkar sem er sálfræðingurinn minnti okkur á að stundum geti þögnin orðið þrúgandi þegar hún er búin að vara í svona fimmtán ár í sambúð. Við vorum sammála um að það væri ef til vill helst til langt þagnarbindindi.

miðvikudagur, 12. desember 2007

Bjarga heiminum á Balí.

Leiðarvísir á Norðurpólinn.
Fréttir dagsins hafa verið af umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Balí. Alls 120 umhverfisráðherrar voru mættir þar til þess að taka þátt í loftlagsráðstefnunni og þess er vænst að komist verði að samkomulagi um takmörkun á losun gróðurhúslofttegunda. Ein fullyrðingin sem flaut í fréttaflutningi af ráðstefnunni var að ef ekkert yrði að gert myndi ísinn á Norðurpólnum vera horfinn árið 2013. Það er ef til vill auðvelt að telja fólki trú um þetta í 30°C hita á Balí, en í mínum huga vaknaði bara ein spurning: Hvaða bull er þetta? Það er að koma árið 2008 og við höfum samkvæmt fréttinni 5 ár til stefnu til að bjarga Norðurpólnum frá bráðnun og mannkyninu frá glötun. Með jöfnu millibili koma upp svona dómsdagsspádómar. Úr einu í annað. Ég horfði á norsku rásina þegar þeir voru að veita Al Gore jr. friðarverðlauninn í Oslo. Ég skil ekki fyrir hvað hann fékk þessi verðlaun blessaður maðurinn. Nema ef vera kynni fyrir 30 sekunda ræðuna á Óskarshátíðinni í febrúar? Á síðasta ári hlustaði ég hinsvegar með athygli þegar Muhammad Yunus var heiðraður fyrir sitt merka starf í að berjast gegn fátækt í Bangladesh. Jæja læt þetta duga og vona að Balí fararnir eigi góða sólardaga og heimkomu. Þeir samþykki ekki eitthvað sem fækki sólardögum okkar hér norður undir heimskautsbaug. Sú hætta er ávallt til staðar á svona ráðstefnum að fólk sammþykki kvaðir og hömlur. Boðist sé til að greiða sig frá illa skilgreindum vandamálum með fjármunum skattgreiðenda. Það þýðir aftur aðeins beina skerðingu lífskjara. Vonandi hefur einhver vit á að varast slíkar niðurstöður á Balí. Kveðja. (mynd: af veraldarvefnum, höf.: ókunnur.)

þriðjudagur, 11. desember 2007

pom, pom, pom, pompom.

Í kjölfar Simfóníuhljómsveitarinnar. Þá er árlegum jólatónleikum Skaftanna á Landspítalanum lokið. Við sungum við góðar undirtektir á endurhæfingardeild og geðdeild spítalans. Gat ekki stillt mig um að taka þessa mynd af minnistöflu geðdeildarinnar með auglýsingu um tónleikana okkar í Sköftunum við hliðina á auglýsingu Sinfóníuhljómsveitarinnar. Maður spyr sig hvort hægt sé að komast hærra á tónlistarbrautinni en að vera auglýstur við hliðna á svo virðulegri hljómsveit. Söngurinn hreyfir við sálinni þegar samstilltur kór flytur jólalögin það fer ekki milli mála, hvort heldur er um flytjanda eða áheyranda að ræða. Vinsælasta lagið að þessu sinni var án efa Litli trommuleikarinn. Kveðja.

mánudagur, 10. desember 2007

Suðaustan rok og rigning.

Þetta er svona vont Kópavogsveður sagði móðir mín í kvöld þegar hún var að lýsa veðrinu sunnan megin við Kópavogshálsinn - suðaustan rok og rigning og það lemur og skekur húsið. Fyrir þá sem ekki vita það þá er hún Vesturbæingur þ.e. úr vesturbæ Reykjavíkur þótt hún hafi búið yfir 50 ár í Kópavogi. Ég hef aldrei heyrt hana tala um vont vesturbæjarveður. Nú má segja að þetta veður ríki hér á norðanverðum hálsinum einnig svona 25 hnútar. Þetta veðurfar undanfarnar vikur með eilífum lægðarlufsum er að verða þreytandi. Það hefur ekki verið alvöru vetur með drifhvítum snjó í mörg ár. Talaði við Hjört á Akureyri í kvöld hann sagði að kuldinn hefði farið niður í 13 stiga frost í dag. Jæja hef þessar veðurlýsingar ekki lengri. Kveðja.

sunnudagur, 9. desember 2007

Annar í aðventu.

Kaffihlaðborðið hjá Sköftunum.
Þá eru aðventutónleikar Skaftanna yfirstaðnir. Læt hér fylgja mynd af veglegu kaffihlaðborðinu.(Mynd:Kristinn Kjartansson) Sungum nokkur falleg jólalög. Það voru óvenju margir sem komu að þessu sinni á aðventuhátíðna. Þetta reyndist vera hin besta skemmtun og mikið af börnum sem komu og gengu kringum jólatréð. Síðan syngjum við á Landspítalanum í vikunni og svo erum við farin í jólafrí. Í gær vorum við í afmælisveislu hjá pabba. Hann átti 77 ára afmæli. Þau eru nýkomin frá Kanarí en þar dvöldu þau í tvær vikur. Í gærkvöldi vorum við boðin í jólahlaðborð. Þannig að það er mikið borðað þessa dagana. Hjörtur og Sveinn Hjörtur gistu hér nokkra daga í vikunni. Heimasætan er við próflestur þannig að heimilishaldið ber svolítinn keim af því eins og gefur að skilja.

þriðjudagur, 4. desember 2007

Jólatónleikarnir Söngfélagsins.

Nú styttist í jólatónleika Söngfélags Skaftfellinga í Reykjavík. Þeir eru eins og áður hefur komið fram næsta laugardag kl. 15.00 í Skaftfellingabúð við Laugarveg 178 á fjórðu hæð. Hvet alla til þess að koma og njóta stundarinnar. Mörg falleg jólalög á dagskránni og boðið upp á kaffi og með því. Kostar 1000.- inn fyrir þá sem eru eldri en 17 ára. Kveðja.

sunnudagur, 2. desember 2007

Fjörug helgi - 1. í aðventu.

Þetta hefur verið fjörug helgi. Hingað til lands komu í gær Hjörtur og Ingibjörg með drengina sína tvo Svein Hjört og Jóhannes Erni frá Svearíki. Hér hafa ýmsir komið að heilsa upp á fólkið. Af yngri kynslóðinni eru það að sjálfsögðu Lilja og Valgerður Birna. Það var gaman að fyljgast með ungu kynslóðinni treysta frændsemina, þótt sá elsti væri aðeins á þriðja aldursári. Annars höfum við tekið því rólega sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Við afrekuðum að setja upp aðventuskrautið. Satt best að segja trúir maður varla að það sé kominn 2. desember. En dagatalið lýgur ekki. Þetta hefur ekki verið neinn vetur enn sem komið er. Enginn snjór og varla að það hafi komið frost. Einstaka rok kviður nokkra daga svo ekki söguna meir. Nú styttist í að prestshjónin komi frá Kanarí. Við vorum á sameiginlegum rótarýfundi klúbbanna í Kópavogi í gær í hádeginu. Þetta er svona það helsta. Kveðja.