föstudagur, 29. desember 2023

Sigurður Ingvarsson minning


Leiðir okkar Sigurðar tengdaföður míns hafa legið saman í rúmlega fimm áratugi. Ég var menntaskólapiltur er ég fór að gera hosur mínar grænar fyrir einkadóttur hans.

Sigurður var einstaklega viðræðugóður og áhugasamur um flest dægurmál hverju sinni. Hann var einstaklega fróður um margt. Hann hafði þann eiginleika að geta dregið fram viðhorf viðmælanda án þess þó endilega að blanda eigin afstöðu til mála. Þá var hann oft í hlutverki greinandans.

Það var gefandi að heimsækja hann og fræðast  og finna stuðning hans í þeim verkefnum sem við fengumst við. Einkennandi fyrir Sigurð var að hann var vakinn og sofinn yfir velferð fjölskyldu sinnar. Hann fylgdist mjög vel með börnum sínum og barnabörnum alla tíð. Alltaf sá hann jákvæð tækifæri á vegferð þeirra og hvatti þau til dáða.

Sigurður varði tíma sínum gjarnan í að afla upplýsinga um ýmsar nýjungar varðandi tæknilegar framfarir. Sérstaklega voru orku- og virkjunarmál honum hugleikin í seinni tíð, sérstaklega virkjun sjávarfalla. Hann var vel að sér í notkun tölva og snjallsíma og var fljótur að losa sig við reiknistokkinn þegar tölvan kom til skjalanna. Veraldarvefurinn gaf honum tækifæri til þess að sinna hugðarefnum sínum og afla nauðsynlegra gagna. Hann horfði til framtíðar, nýrra tækifæra og nýrra verkefna. Þar naut hann sín best.

Sigurður átti fjölbreyttan starfsferil. Hann var stúdent frá MR 1955 og stundaði nám í verkfræði í Þýskalandi. Vann við landmælingar í Persíu og á Íslandi fram til 1962 er hann hóf störf hjá I Pálmasyni hf sem framkvæmdastjóri.

Faðir Sigurðar, Ingvar Pálmason frá Norðfirði, skipstjóri og útgerðarmaður, stofnaði fyrirtækið. Starfsemi þess var fyrstu árin í kringum kraftblökkina, sem leiddi til byltingar í uppsjávarveiðum Íslendinga. Jafnframt sérhæfði fyrirtækið sig í eldvörnum og var um tíma leiðandi á því sviði.

Í þjónustu við sjávarútveginn og eldvarnir nýttust starfskraftar Sigurðar vel.  

 Síðar gékk hann til liðs við Securitas hf sem sölustjori á sviði eldvarna. Eftir að eftirlaunaaldr i var náð starfrækti hann fyrirtæki sem sérhæfði sig í sölu misturkerfa.

Sigurður hafði einstaka ánægju af ferðalögum og fór reglulega í viðskiptaferðir til þess að fylgjast með nýjungum á sínu sviði. Auk þess sem hann hafði ánægju af að ferðast bæði erlendis og innanlands á nýja og áður óþekkta staði. Hann heimsótti bæði börn sín og barnabörn sem búið hafa erlendis og lét sig ekki vanta á tímamótum þegar tvö af börnum hans luku doktorsnámi í USA og Svíþjóð.

Í einni af síðustu ferðum okkar saman til Belgíu í heimsókn til sonar okkar og fjölskyldu, fundum við svo vel þá ánægju sem hann hafði af ferðalögum og samveru með fólkinu sínu. Það minnti okkur á gamla tíma þegar hann heimsótti okkur reglulega til Gautaborgar á námsárunum.

Þetta voru ógleymanlegar stundir sem líða okkur seint úr minni.

Að leiðarlokum vil ég þakka Sigurði fyrir samfylgdina og þann velvilja sem hann ávallt sýndi mér. Blessuð sé minning hans

miðvikudagur, 27. desember 2023

Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár 2024.

 Þá er 20 árið að líða sem ég hef komið hér við og við. Ég held ég láti þetta pár á þessari síðu duga í bili. Ef mér snýst hugur nú þá mæti ég bara aftur. Bestu kveðjur Sveinn Hjörtur

ps. Mættur aftur:-)

þriðjudagur, 11. apríl 2023

Það helsta þessar vikurnar

 Í stuttu máli hefur verið í nógu að snúast  undanfarna mánuði. Í des, jan og febrúar var ég leiðsögumaður ýmist sitjandi eða ökuleiðsögumaður hjá Snæland Grímssyni hf  aðallega í verkefni fyrir ferðaskrifstofuna TUI. Þetta er líklega stærsta ferðaskrifstofa í heimi. Allavega ein af þeim stærstu. Hingað komu Bretar í heimsókn, tvö holl í hverri viku. Farið var Gullna hringinn, Suðurströnd og í Norðurljósaferðir. Í mars fórum við til  Svíþjóðar og höfum að mestu verið í Hässleholm/Malmö. Skelltum okkur eina viku til Tenerife í sólina og áttum þar góða daga. Nóg í bili. 

sunnudagur, 29. janúar 2023

Nýtt ár nýjar væntingar

 Sæl og blessuð öll.

Nýtt ár og nýjar væntingar. Gleðilegt ár. Ég hef verið upptekinn við leiðsögn það sem af er janúar og mun vinna við það í febrúar líka. Framhaldið er frekar óljóst inn í árið. Leyfi ykkur að fylgjast með eftir því sem verkefnum fram vindur. Kveðja.