fimmtudagur, 30. október 2008

Fyrsti í aðalfundi

Hinn árlegi aðalfundur LÍÚ hófst í dag. Þetta er 24. fundurinn sem ég tek þátt í. Ég var þrjátíu og þriggja ára þegar maður byrjaði á þessum starfsvettvangi. Margir þeirra sem mæta þarna hafa gengið með manni veginn í nær aldarfjórðung. Vel var mætt og fundurinn tókst vel. Mikil samstaða í hópunum. Nú er að hefja viðsnúninginnn og taka slaginn. Allir fullir bjartsýni þrátt fyrir ágjöf undanfarnar vikur. Við gerðum okkur dagamun og borðuðum saman í kvöld. Kveðja.

miðvikudagur, 29. október 2008

Kúnstin að hlusta

Það eru margir sem hlusta sjaldan heldur trana sér fram og tala í síbylju á mannamótum. Þessir aðilar hafa svo gaman af að heyra eigin rödd að þeir eiga erfitt með að stilla sig. Það þarf kunnáttu og hæfileika til þess að geta verið góður hlustandi, ef enginn væri hlustandinn væri ekki þörf fyrir flytjanda. Sá sem hlustar á auðveldara með að taka yfirvegaða ákvörðun. Því miður held ég að skólarnir kenni ekki nemendum þá kúnst að hlusta nógsamlega. Okkur væri ef til vill betur komið hér á landi ef við hefðum hlustað eftir varnaðarorðum á síðustu árum. Kveðja.

þriðjudagur, 28. október 2008

Söngæfing

Tenórinn (Kristinn Kjartansson tenór tók myndina). Það er fátt betra á dimmu kvöldi en að skjótast á söngæfingu og stemma röddina við raddir kórfélaganna og glíma við það að ná samhljómi fjögurra raddsviða í fallegu lagi. Á söngæfingunni hreinsar maður hugann af veraldaramstrinu,leitar á náðir sönggyðjunnar, hvílir sig í skjóli hennar og safnar krafti til að leysa verkefni framundan. Ef til vill svolítið hástemmt en orðræða um tónlist krefst einlægni til þess að fegurð hljómfallsins skili sér. Við byrjuðum að æfa jólalögin í kvöld. Það segir okkur betur en margt annað hvað tíminn líður hratt og hvar við erum stödd í dagatalinu. Kveðja

mánudagur, 27. október 2008

Kyrrt í Fossvogi

Það er gott skyggni hér í Fossvogi í kvöld. Þrátt fyrir myrkrið er útsýni ágætt. Það gerir heiðskír himinn og hvít slikja á jörðu. Flugvitinn á Perlunni lýsir með sínu græna og hvíta ljósi upp í himinhvolfið og leiðbeinir flugvélum. Kórónan á Borgarspítalanum er vel upplýst og rautt ljós á toppinum eins og jarðaber á ískúf. Vonandi að ungmennin hinumegin í dalnum séu ekki alvarlega slösuð eftir gassprenginguna. Sjarminn við Fossvoginn er kvöldkyrrðin, kyrrð í dalnum þótt í nágrenni hans séu miklar umferðaræðar. Dalurinn er stórt útivistarsvæði sem bæði Kópavogsbúar og Reykvíkingar geta notið ríkulega. Nú er svolítið kallt úti líklega - 2°C að minnsta kosti. Kveðja.

sunnudagur, 26. október 2008

Heimboð að Tröð

Helgarferðin austur í Tröð í Hestlandi var yndisleg. Við vorum fimm úr Engihjallagenginu sem komum saman. Það vantaði Kolla en hann var veðurteptur norður í landi.Við fórum austur fyrir fjall eftir að hafa komið við hjá Þórunni Ingibjörgu sem var að útskrifast úr HÍ sem þroskaþjálfi. Við áttum mjög góða kvöldstund í gær og vorum að spjalla langt fram eftir nóttu. Við Sirrý gistum í litla gestahúsinu -litlu Tröð sem Gulla og Biggi byggðu fyrst. Þar var hlýtt og notalegt þótt stríður vindur blési um nóttina. Eftir hádegið fórum við svo aftur í bæinn.

laugardagur, 25. október 2008

IMF aðstoð og fleira

Þá er búið að tilkynna um að leitað verði aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). Vonandi verður það til þess að greiða úr efnahagsmálum okkar og koma flæði gjaldeyris til og frá landinum í lag. Ég held við verðum fljót að vinna okkur út úr þessum vandræðum. Ísland er lítið hagkerfi, sveigjanlegt og með stuttum boðleiðum. Grunnstoðir þjóðfélagsins eru sterkar og vonandi kemst bankakerfið fljótt í gang og nú á heilbrigðari grunni. Var á fundi í Útvegsmanafélagi Reykjavíkur í gær. Í kvöld er útskriftarveisla hjá Þórunni systur sem er orðinn þroskaþjálfi. Síðan förum við í sumarbústað austur í Grímsnesi að heimsækja Bigga og Gullu. Hér voru í gærkvöldi vinnufélagar Sirrýjar í heimsókn. Þetta er það helsta. Kveðja.

miðvikudagur, 22. október 2008

Snúast að nýju

Maður hefur það á tilfinningunni að greiðsluflæðið til og frá landinu sé aðeins farið að snúast að nýju. Stóra frétt dagsins var að Bretar afléttu hryðjuverkalögunum af Landsbankanum. Hef verið á tveimur útvegsmannafundum í vikunni. Annar var í Stykkishólmi á mánudaginn og hinn var í Hafnarfirði í kvöld.Sá þriðji og síðasti verður í Reykjavík á föstudaginn. Annars mest lítið í fréttum. Það er búið að vera vetrarlegt úti í dag enda langt liðið á október og ekki við öðru að búast. Hundurinn Sunna hefur verið hér í heimsókn undanfarna daga. Maður vaknar snemma til þess að fara með hana í sína venjulegu göngutúra. Í gær fórum við í afmæli Stefaníu systur. Þetta er það helsta. Kveðja.

sunnudagur, 19. október 2008

Árið nítján hundruð sextíu og átta

Kynslóðin sem braut upp viðteknar venjur upp úr miðbik síðustu aldar er jafnan kennd við 1968. Samkvæmt skilgreiningum fell ég undir þessa kynslóð eða síðari hluta hennar þótt ég hafi aldrei fundið til neinnar sérstakrar samstöðu með þessum hópi. Maður tilheyrði ört stækkandi kynslóðum eftirstríðsáranna. Að öðru leyti átti maður fátt sameiginlegt með 68 hreyfingunni, enda voru það vinstri menn sem réðu ferðinni. Tvennt er það sem setið hefur í minningunni frá árinu 1968. Í fyrsta lagi var það hin efnahagslegu áföll sem við urðum fyrir þegar síldin hvarf og í öðru lagi innrás Sovétmanna inn í Tékkoslavakíu. Hvorutveggja hafði veruleg áhrif á mig og er mér enn í fersku minni. Efnahagslegu áhrifin vegna þess að þetta sumar var ég atvinnulaus, nokkuð sem ég hafði aldrei upplifað áður. Innrásin vegna þess að ég upplifði í fyrsta skipti hversu smáríki má sín lítils gegn ofríkis stórveldis - frelsi almennings væri ekki sjálfsagður hlutur. Nú nákvæmlega fjörtíu árum síðar steðjar að okkur efnahagsleg vá og breska stórveldið hefur sett okkur í herkví þannig að greiðsluflæði gjaldeyris til og frá landinu hefur verið í lamasessi í tvær vikur! Vafalaust munum við vinna okkur út úr þessum vandræðum en það mun taka tíma.

laugardagur, 18. október 2008

Bullað út í eitt.

,,Myndlistin og tónlistin höfðu þar með vinningin yfir ljóðið." Ég rakst á þessa setningu í listaverkabók um verk Leonardo da Vincis í dag þar sem verið var að lofa karlinn fyrir fullkomnun í myndlist sinni. Lesa mætti fleira en einn ákveðin boðskap úr myndum hans og var þá verið að fjalla um frægasta málverk allra tíma hina einu sönnu Mónu Lísu. Eins væri með tónlistina úr henni mætti lesa margt úr tónaflóðinu.Svona geta fræðingar bullað út í eitt og látið prenta á glanspappír. Eins og í ljóði geti ekki falist fleira en einn boðskapur. Auðvitað getur falist í ljóði margvíslegur boðskapur. Ég neita því ekki að í fyrstu fannst mér gaman að lesa þetta því ég er meira fyrir myndmál og lag. En þetta er bara eins og hvert annað bull að fullyrða um þetta.

föstudagur, 17. október 2008

Stikk frí - þú ert´ann

Muniði eftir eltingarleikjunum í gamla daga út á götu. Hver og einn hljóp eins hratt og hann gat og reyndi með öllum tiltækum ráðum að verða ekki klukkaður. Svo voru ákveðin svæði sem maður gat verið stikk frí - það mátti ekki klukka mann og segja: þú ert´ann. Svona ímynda ég mér að mörgum líði í kvöld. Vikan er búin að vera annarsöm og óvissa og spenna mikil en nú er komið föstudagskvöld - erum stikk frí eitt augnablik. Við erum að passa hér unga dömu hana Lilju, sem segir hæ í símann, horfir í fjórða sinn á BBC þáttinn um Teletubbies á disknum sínum. Það er helst í fréttum að Hilda og Maggi eignuðust stúlku í dag. Við óskum þeim til hamingju með barnið. Þetta eru helstu fréttir héðan. Kveðja.

fimmtudagur, 16. október 2008

Vinarkveðja

Manni hlýnar um hjartarætur þegar maður fær hvatningu frá kunningjum vegna erfiðra aðstæðna okkar. Í dag fékk ég kveðju frá norskum kollega sem sagði að við værum harðduglegt fólk sem mundi vinna sig í gegnum það tímabil sem nú færi í hönd. Ég trúi því líka. Það skiptir mestu að koma greiðsluflæði fjármagns til og frá landinu í lag. Það er númer eitt, tvö og þrjú í efnahagsmálum. Hryðjuverkalög Browns hafa gert okkur það erfiðara vegna þess að greiðslur í útlöndum fara í gegnum London og við eigum svo mikil viðskipti við Breta. Nú þurfum við á öllum vinveittum öflum til þess að greiða úr þessu vandamáli. Kveðja.

miðvikudagur, 15. október 2008

Fiskisúpuafmæli Sveins

Afmælisgestirnir eða þeir sem létu mynda sig. Hér má sjá forelda og systkini og maka í afmælisboðinu. Þetta er búinn að vera fínn afmælisdagur. Í vinnunni fékk ég þessa fínu tertu með vinnufélögunum. Hjörtur hringdi frá Gautaborg og nafni og Jóhannes bróðir (Rói bróðir eins og hann kallar sig) og Ingibjörg hringdu frá Kristianstad. Valdimar hringdi líka en hann er að vinna í dag. Við áttum notanlega stund saman og að sjálfsögðu var mál málanna ofarlega á baugi og sýndist sitt hverjum. Jæja bið að heilsa. Kveðja.

mánudagur, 13. október 2008

Eitt vor enn

Ég las aftur ljóðabókina hans Gylfa Gröndals heitins rótarýfélaga, Eitt vor enn. Síðasta ljóðið í bókinni er svona:

Þótt æ fleiri
feiknstafir séu ristir
í galdur tilverunnar

eins og fífa í mýri
grær enn mitt fallvalta vonarhró

og biður um kraftaverk.

Ég tel það mikil forréttindi að hafa kynnst þessum rótarýfélaga og við mörg tækifæri fengið að njóta upplestra hans úr verkum sínum þau ár sem við vorum saman í Rótarýklúbbi Kópavogs. Ég hvet ykkur til að lesa þessa ljóðabók því hún er mögnuð. Ég þjónaði sem ritari í forsetatíð hans í klúbbnum okkar. Nálgast má mynd af stjórninni hér. Kveðja

sunnudagur, 12. október 2008

Ekvadorsýning

Við fórum á Ekvadorsýninguna í Gerðarsafni í dag enda voru það síðustu forvöð. Áhugaverð menningarbrot frá þessum heimshluta. Mikið um leirmuni, kirkjumuni, myndlist og skartmuni. Í Náttúrufræðisafninu var saman skroppinn haus af töframanni frá Ekvador. Hughrifin af að skoða sýninguna voru um margt lík því sem maður kynntist í heimsókn til Lima í Perú árið 1992 - samofin spænsk/kristin áhrif við menningarheim þeirra þjóðflokka sem byggt hafa S - Ameríku um aldir alda. Annars hefur þetta verið vina- og fjölskyldudagur. Mál málanna er enn fjármálakreppan og hvernig tekst til við að vinna úr henni. Kveðja.

laugardagur, 11. október 2008

Laugardagur til lukku

Það er gott að búið er að ná samningum við Hollendinga og fréttir berast af góðum gangi í viðræðum við Breta líka varðandi innstæðureikninga fólks í viðkomandi löndum. Vonandi verður helgin drjúg og gjaldeyrisviðskipti í landinu komin í samt lag eftir helgi. Það er mikilvægt að starfsemi í landinu verði ekki fyrir miklum áfölluum til viðbótar vegna ástandsins á fjármálamörkuðum. Ég hef fulla trú á að þeir sem stjórna ferðinni nái farsælli lendingu fyrir þjóðina. Við munum sjá það eftir helgina hvort þessi alþjóðlega kreppa eigi enn eftir að versna. Það ræðst af því hvort fundarhöld G7 ríkjanna bera einhvern árangur nú um helgina. Það gæti dregið til frekari tíðinda á alþjóðavettvangi en það veit það enginn. Kveðja.

föstudagur, 10. október 2008

Í tábergsstöðu

Mr. Brown Ég tel að hr. Brown sé maður í tábergsstöðu á hengiflugsbrún. Hann er að reyna að leika stóran karl, en passar augljóslega illa í hlutverkið. Dagar hans í embætti verða vonandi ekki margir til viðbótar. Hafi hann litla þökk fyrir framgöngu sína gagnvart okkur. Kveðja.

fimmtudagur, 9. október 2008

Verndum okkar

Það var sárt að lesa um dapurleg örlög Kaupþings banka í morgun og að breska stjórnin hefði beitt hryðjuverkarlögum okkar menn. Ég vil samt leyfa mér að vera bjartsýnn á framtíðina. Verkefnið verður að byggja upp nýtt bankakerfi sem getur þjónað landsmönnum af öryggi til langrar framtíðar. Maður má ekki láta vandamál líðandi stundar heltaka sig. Við verðum gæta að þeim sem eiga erfitt og fá þau til að horfa til nýrrar framtíðar. Þetta er sameiginlegt verkefni sem við stöndum frammi fyrir og við munum sigrast á því. Kveðja.

miðvikudagur, 8. október 2008

Standa sig vel

Geir H Haarde og Björgvin G Sigurðsson
Forsætisráðherra stóð sig mjög vel á blaðamannafundinum kl. 16.00 í dag þegar hann fór yfir stöðu efnahagsmála vegna fjármálakrísunnar. Það sama á við um viðskiptaráðherra. Þeir voru fumlausir og augljóslega komnir með góða yfirsýn yfir gang mála. Það sem skiptir öllu við svona aðstæður er að fólk finni að þeir sem stjórni ferðinni séu sannfærðir um að þeir séu á rétti leið. Það er mikill fengur að sá sem stýrir málum býr yfir gríðarlegri þekkingu á efnahagsmálum og reynslu sem nýtist vel við þessar aðstæður. Gengur ákveðinn til verks og er trúverðugur. Forgangsatriðin liggja ljós fyrir. Fyrst koma hagsmunir þjóðarinnar, svo verður lögð áhersla á að bjarga þeim fjárhagslegu verðmætum sem hægt er að bjarga. Kveðja.

þriðjudagur, 7. október 2008

Einn góður...

Kona fór í hraðbanka Landsbankans í dag til að taka út peninga. Þegar hún fékk peningana hvað hátt og snjallt í henni, Nei sko rússneskar rúbblúr í stað króna!

mánudagur, 6. október 2008

Viðsjárverðir tímar.

Það eru viðsjárverðir tímar í efnahagslífinu hér og víða um heim. Það er óhætt að segja að í dag hafi kreppan skollið yfir okkur af fullum krafti. Óvissan um framhaldið er enn mikil og vafalaust margt sem ekki er komið fram enn. Margir hafa orðið og munu verða fyrir fjárhagslegum áföllum. Við verðum að ætla að takast megi að vinda bug á þessum ósköpum. Nú gildir að taka einn dag í einu og missa ekki móðinn. Standa saman eins og í öllum áföllum. Okkur leggst vonandi eitthvað gott til. Kveðja.

sunnudagur, 5. október 2008

Helgin

Á föstudagskvöldið var okkur boðið í lokahóf Sjávarútvegssýningarinnar sem haldið var undir stúkuvæng Laugardalsvallarins. Þarna var margt um manninn örugglega yfir 300 manns. Þetta svæði er 100 metra gangur. Maturinn var góður - lamb í aðalrétt og vínið gott frá Jacobs Creek frá Ástralíu. Í gærdag fórum við í skírn Helgu Adlu. Sú litla var sem sé skírð í höfuðið á Helga móðurafa sínum. Adla er líbanískt nafn í höfuðið á föðurömmu hennar. Nú í dag hefur maður annars verið í vinnunni. Kveðja.

föstudagur, 3. október 2008

Sjávarútvegssýningin 2008

Logo sjávarútvegssýningarinnar. Ég var í Smáranum á Sjávarútvegssýningunni í dagslok. Það var sérstök stemning þarna. Efnahagsmálin voru á vörum allra þeirra sem ég hitti. Þetta var nær því að vera á ráðstefnu um kreppuna miklu en ekki sýningu um það sem er helst á döfinni í sjávarútveginum. Niðurstaða allra var að nú væri mikilvægt að halda sjó og fara ekki á taugum. Nú verðum við að treysta því að þeir sem vinna að lausn þess vanda sem við er að etja nái vopnum sínum og takast megi að vinna fram úr þeim alvarlega vanda sem við er að etja. Skuldirnar eru miklar en það eru eignir á móti og framtíðarhorfur góðar. Við verðum að vona að þær dugi til að róa lánadrottna okkar.

fimmtudagur, 2. október 2008

Sjávarútvegssýning við erfiðar aðstæður.

Endaði daginn á því að fara í Turninn í Kópavogi og vera viðstaddur verðlaunaafhendingu í tengslum við Sjávarútvegssýninguna í Kópavogi sem stendur þessa dagana. Kristján Ragnarsson fékk heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til sjávarútvegsins og Bergur Huginn hf í Vestmannaeyjum var valinn framsæknasta útgerðin. Annars hefur mikið af deginum farið í að fyljgast með hremmingum á fjármálamarkaði og ræða við fólk um stöðu mála. Eins og einn viðmælenda orðaði það: "Nú er fárviðri í efnahagslífinu. Það þýðir ekkert annað en halda sig inni við og bíða þess að þessu fárviðri sloti. Þá er fyrst hægt að fara og meta tjónið. Það er of seint að ætla sér að binda og festa hluti úti við núna. Það er of hættulegt að vera útivið."

miðvikudagur, 1. október 2008

Heimsókn í Haraldarhús


Vil benda ykkur sem hafið gaman af sjávarútvegssögu að heimsækja vefsvæði Haraldarhúss á Akranesi með því að smella hér. Þarna má sjá mikið myndasafn sem tekið hefur verið saman um sögu HB á Akranesi.