sunnudagur, 28. mars 2010

Blúshátið í Reykjavík 2010


Blúshátíðin í Reykjavík 2010 stendur nú yfir og um að gera að nýta sér það mikla framboð af tónlist sem þar er á boðstólum. Hátíðinni stýrir eins og áður blúsarinn Halldór Bragason. Við fórum í kvöld í Fríkirkjuna í Reykjavík og hlustuðum á dífurnar fjórar flytja nokkur lög. Fyrst steig á svið Brynhildur Björnsdóttir og söng nokkrar ljúfar vögguvísur. Næst söng Kristjana Stefánsdóttir jass/blús lög. Þá tók við Ragnheiður Gröndal sem bæði söng og spilaði á flygilinn, þar á meðal sín eigin lög og loks tók Deitra Farr nokkur gospel lög. Undirleikari hjá Brynhildi, Kristjönu og Deitru var Davíð Þór Jónsson sem spilaði bæði á flygilinn og á banjó í einu lagi með Deitru. Píanóleikarinn er mikill stuðbolti og átti sinn þátt í að lífga upp á stemninguna á tónleikunum. Allir lögðu listamennirnir sitt í að gera þessa stund í kirkjunni eftirminnilega, hver á sinni forsendu. Stundin var í senn gleðivekjandi og einlæg og við fórum út í hrollkalda nóttina með ljós í sinni. Takk fyrir þetta.

fimmtudagur, 25. mars 2010

Vorar í dal

Það vorar í dalnum okkar, Fossvogsdal. Sólin hækkar ört og dagurinn lengist dag frá degi. Senn líður að páskum og þess skammt að bíða að sumarið vermi okkur aftur. Við erum þegar farin að velta því fyrir okkur hvernig við verjum best þessum fáu sumardögum. Veturinn sem í raun var enginn vetur er að baki nema páskarnir færi okkur páskahretið sem getur verið illskeytt. En það varir aldrei lengur en þýsk Ardennasókn, stutt og dæmd til að tapast fyrir hækkandi sól. Vorið lífgar við gróandann í náttúrunni. Brumhnapparnir eru að sprynga út á trjágróðrinum, þótt birkið þráist aðeins við. Frost er að fara úr jörðu. Það eru komnir fuglar í dalinn. Fjær og austar er annar dalur, Elliðaárdalur sem er engu síðri og tilvalinn til útivistar. Veturinn í vetur hefur verið nýttur til reglulegrar útivistar. Í öllum afbrigðum vetrarríkisins hefur verið gengið um dalina. Það er svo merkilegt að í minningunni hefur veðrið alltaf verið gott á þessum gönguferðum. Það er sérstakt að þegar maður er búinn að klæða sig vel og lagður af stað virðist veðrið alltaf kjörið til útivistar. Það skiptir ekki máli hvort það sé kvöldstilla, frost og stjörnubjartur himinn eða slydda, snjókoma og lítið skyggni. Aðstæður eru alltaf góðar til útiveru. Þessvegna hef ég nú vingast við veturinn. Kveðja.

sunnudagur, 21. mars 2010

Eldgos í Eyjafjallajökli

Eyjafjallajökull. Á miðnætti aðfaranótt sunnudags hófst gos í Eyjafjallajökli sem kemur í raun ekki á óvart miðað við þær jarðhræringar sem verið höfðu á svæðinu um tíma. Annars hefur helginni verið varið við söng og skemmtan á vegum Skaftfellingafélagsins í Reykjavík. Í gærkvöldi var sameiginlegur kvöldverður með kórum frá Vík og Klaustri. Í dag var Skaftfellingamessa í Breiðholtskirkju þar sem kórarnir þrír sungu saman. Að lokinni messu var haldið í félagsheimili Skaftfellingafélagsins og þar voru sungin nokkur lög í kaffisamsæti félagsins. Þetta hafa verið góðir dagar í góðum félagsskap. Fólkið að austan var komið í bæinn fyrir gos. En við vissum af fólki að austan sem var snúið við vegna eldgossins í jöklinum. Nú eru kórfélagarnir að austan á leiðinni heim og keyra framhjá Eyjafjallajökli. Vonandi að leiðin sé greiðfær og þau eigi góða heimkomu.

fimmtudagur, 18. mars 2010

Færsla nr. 999

Þetta er færsla númer 999 á þessari bloggsíðu. Það er engin frétt í sjálfu sér en fyrir þennan bloggara markar hún ákveðin tímamót. Eitt af markmiðum með þessu bloggi hefur verið frá upphafi að halda þessari síðu úti a.m.k. þar til eitt þúsund innslög væru komin á síðuna eða sjö ár liðin frá opnun hennar. Nú liggur fyrir að eitt þúsundasti pistillinn gæti verið nær í tíma en árin sjö. Efni síðunnar hefur byggt á hugleiðingum bloggarans í daglegu lífi. Tæplega fjögur hundruð færslur falla undir fréttir af fjölskyldunni. Vel á annað hundrað segja frá ýmsum ferðum. Veðrið í Fossvogsdal hefur verið hugleikið, menning, tónlist, kórfréttir, hagfræði, sjávarútvegur, íþróttir og ýmis pæling. Líklega hafa um fjörtiu þúsund síður verið skoðaðar á þessu tímabili og rúmlega tuttugu þúsund ip - tölur hafa heimsótt síðuna, ef eitthvað er að marka þessa teljara sem meta heimsóknir á síðuna. Að meðaltali eru um tvö hundruð einstaklingar sem heimsækja síðuna í mánuði. Rúmlega helmingur þeirra hafa heimsótt síðuna oftar en tvö hundruð sinnum. Ýmsir hafa haft samband við bloggarann um efni hennar. Yfirleitt eru það einhverjir úr fjölskyldunni, vinir eða kunningjar. Ef til vill væri ráð að við mundum leggja okkur eftir því að hittast oftar í stað þess að lesa blogg og fésfærslur. Á móti kemur að bloggarinn nær til fleiri aðila en hann gerði áður. Það er uppbyggilegt að setja saman efni á bloggið. Þannig gefst tækifæri til þess að draga saman hugsun sína og forma hana og birta. Það er einhver ögrun í því að birta bloggið með þessum hætti. Auðvitað ritskoðar bloggarinn sig, velur það sem hann birtir. Allt í allt er það þó svo að þegar bloggarinn nær að vera einlægur og opinn í máli snertir hann helst við lesendum. Það er allavega reynsla þessa bloggara. Jæja þetta er nóg í bili. Enn og aftur er lesendum síðunnar þökkuð samfylgdin og jákvætt áreiti á liðnum árum. Nóg í bili. Kveðja.

þriðjudagur, 16. mars 2010

Erindi dagsins

Ég var að koma af fundi í Rótarýkúbbi Kópavogs þar sem Ögmundur Jónasson alþingismaður hélt erindi dagsins og fjallaði um stjónrmál líðandi stundar og Icesave málið. Ég var ánægður með umfjöllun hans um Icesave málið og sammála honum um að þau kjör sem Bretar og Hollendingar buðu okkur eru óásættanleg, sérstaklega vextirnir. Tíminn vinnur með okkur og þjóðaratkvæðagreiðslan og viðsnúningur erlendis gagnvart sjónarmiðum okkar virðist líka vinna með okkur. Hann lagði á það áherslu að í þessu máli yrðum við að koma fram sem ein samstæð breiðfylking. Þetta væri hagsmunamál allra Íslendinga hvar í flokki sem þeir væru. Því er nauðsynlegt að stjórn og stjórnaraðstaða komi sameiginlega að þessu máli. Í stað þess að eyða öllum tímanum í að karpa innbyrðis hverjum sé um að kenna. Þetta er kosturinn við að vera í rótarý. Maður fær beinan aðgang að fyrirlesurum, fólki víða að úr samfélaginu sem í stuttu máli fjallar um það sem er efst á baugi á þeirra vettvangi hverju sinni. Kveðja.

mánudagur, 15. mars 2010

Hreyfing dagsins

Hreyfing dagsins í dag var í leikfimishópnum hjá Gauta fimmleikastjóra AGGF. Nú gildir að hafa hreyfistigin sem flest svo maður verði félögunum ekki til skammar í innbyrðis keppni milli hópa. Það sem maður lætur plata sig á gamals aldri allt til þess að halda uppi mætingunni. Til að bæta við punktum hef ég einnig verið duglegur að ganga með Skálmhópnum í skammdeginu bæði umm Elliðaárdal og Heiðmörkina. Allt telur þetta á punktaskala AGGF hópsins. Kveðja.

laugardagur, 13. mars 2010

Austurferð

Loksins gafst tækifæri til að skjótast austur í Skaftártungu. Lagt var af stað úr bænum strax eftir vinnu klukkan sex í gær og vorum við komin austur rétt fyrir níu. Kvöldhimininn var stjörnubjartur og við vörðum dágóðri stund við stjörnuskoðun og reyndum að ráða í heiti stjarnanna. Því miður valda borgarljósin því að maður missir oft af stjörnubjörtum kvöldum. Setið var fram eftir með rauðvínsdreitil og franska osta og spjallað um glaðar og góðar stundir. Í dag var svo skotist yfir í bústað Höllu, Kambsgil og borðaður þar hádegisverður. Við lögðum af stað áleiðis í bæinn um tvö leytið með viðkomu í hér og þar. Yndislegur dagur og góð tilbreyting að skjótast út fyrir borgarmörkin í þessu sannkallaða vorveðri. Hitastigið í Skaftártungu var um níu gráður í plús um hádegisbilið, stilla og hið fallegasta veður. Kveðja.

mánudagur, 8. mars 2010

Móðurbróðir 80 ára afmælisminning.

Gunnar Axelsson
Móðurbróðir minn Gunnar Axelsson píanóleikari og kennari hefði orðið 80 ára í dag. Hann dó langt um aldur fram aðeins 54 ára að aldri. Gunni frændi eins og ég kallaði hann dagsdaglega kenndi mér á píanó einn vetur í Tónlistarskóla Kópavogs. Hann var þekktur í bæjarlífinu sem píanóleikari á Mímisbar í fjöldamörg ár. Minnisstætt þegar ég kom þangað einu sinni og heilsaði upp á hann með kærustunni. Hann heilsaði mér og sagði svo: "Hvað langar þig að heyra Svenni minn?" Ég bað hann að spila þemalagið úr Love story. Hann gat spilað hvað sem var af fingrum fram. "Ég spila þetta fyrir ykkur og svo skulið þið fara. Þetta er enginn staður fyrir ykkur." Önnur samskipti eru mér líka minnisstæð. Það var þegar hann var að skamma mig fyrir að vera ekki nógu æfður í spilatíma: "Svenni minn hvernig getur þú gert mér þetta og ég sem er frændi þinn." Svona eru nú eftirminnileg gömul uppeldisáhrif þessa ágæta móðurbróður míns sem var nágranni foreldra minna í áratugi. Blessuð sé minning Gunna frænda.

laugardagur, 6. mars 2010

Viðburðarríkur dagur.

Þetta er búinn að vera viðburðarríkur dagur. Byrjaði daginn kl. 8.00 í morgun á því hjálpa einkadótturinni að flytja að heiman. Vöktum upp að því er virðist heila sendibílastöð áður en við fengum bíl. Þegar bílstjórinn mætti nuddandi stírurnar úr augunum skyldi hann ekkert í því hvað við værum árrisul. Ég spurði nú bara hvort hann hefði aldrei heyrt málsháttinn morgunstund gefur gull í mund. Þetta eru tímamót þegar síðasta barnið flýgur úr hreiðrinu. Eftir flutningana var mætt á söngæfingu hjá Sköftunum og sungið fram eftir degi. Vetrarprógram kórsins er að taka á sig skemmtilega mynd. Nú í kvöld liggja fyrir niðurstöður í þjóðaratkvæðagreiðslunni um lögin um afgreiðslu Icesave bankareikninganna. Niðurstaða þeirra kom ekki á óvart. Í fyrstu tölum voru 93,1% taldra atkvæða á móti þessum lögum. Nú liggur allavega fyrir að leita verður nýrrar og sanngjarnari niðurstöðu. Maður hefur það einhvern veginn á tilfinningunni að tíminn vinni frekar með okkur í þessu máli.

fimmtudagur, 4. mars 2010

Ég segi nei og aftur nei.

Við Sirrý fórum í dag og greiddum atkvæði utankjörstaðar í Laugardalshöll. Helgin framundan er annasöm og við drifum okkur í að kjósa.Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að segja álit okkar á þessu Icesavemáli með því að greiða atkvæði um lögin. Ég hafði miklar áhyggjur af því á sínum tíma þegar forsetinn neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin eins og fram kemur í þessum gamla pistli. Nú segja lögspekingar að í ljósi þess að hann hafi beitt þessu valdi og það hafi ekki verið véfengt á sínum tíma sé ljóst að embættið hafi ótvírætt þetta vald. Að þessu sögðu má ljóst vera að pólitískt umhverfi á Íslandi er breytt eins og við höfum þekkt það undanfarna áratugi og segir í gamla pistlinum mínum. Löggjafinn stendur frammi fyrir því að lagasetningu þess má leggja beint í dóm þjóðarinnar. Búast má við að á komandi árum verði málum vísað oftar í þjóðaratkvæði. Það á eftir að breyta pólitísku landslagi líklega í þá átt að hið flokkslega vald á eftir að minnka og þingmenn muni taka afstöðu til mála meira eftir eigin sannfæringu en flokkslegum línum. Þetta mál sýnir okkur hversu hættulegt það getur verið að afgreiða lög frá Alþingi á eingöngu grundvelli flokkspólitískra lína.

þriðjudagur, 2. mars 2010

Kóræfingar.

Þetta verður mikil kóræfingarvika. Í kvöld var venjuleg tveggja tíma æfing. Á laugardaginn er langur æfingadagur og þá verður öllum laugardeginum meira og minna varið i enn frekari æfingar. Um miðjan mánuðinn verður hin árlega Skaftfellingamessa í Breiðholtskirkju, sunnudaginn 21. mars nk. Hvet alla Skaftfellinga og vini þeirra til að mæta. Óhætt er að segja að kórinn hafi verið vel mannaður í vetur. Um þrjátíu félagar hafa mætt reglulega á æfingar og nokkuð gott hlutfall milli radda. Því miður vantaði nokkuð margar sópran raddir í kvöld en tenórar bættu það upp og voru ríflega helmingi fleiri eða ellefu talsins. Afrakstur vetrarstarfsins er alltaf að koma betur og betur í ljós og renna lögin orðið nokkuð vel í gegn á æfingum. Kveðja.