fimmtudagur, 25. mars 2010

Vorar í dal

Það vorar í dalnum okkar, Fossvogsdal. Sólin hækkar ört og dagurinn lengist dag frá degi. Senn líður að páskum og þess skammt að bíða að sumarið vermi okkur aftur. Við erum þegar farin að velta því fyrir okkur hvernig við verjum best þessum fáu sumardögum. Veturinn sem í raun var enginn vetur er að baki nema páskarnir færi okkur páskahretið sem getur verið illskeytt. En það varir aldrei lengur en þýsk Ardennasókn, stutt og dæmd til að tapast fyrir hækkandi sól. Vorið lífgar við gróandann í náttúrunni. Brumhnapparnir eru að sprynga út á trjágróðrinum, þótt birkið þráist aðeins við. Frost er að fara úr jörðu. Það eru komnir fuglar í dalinn. Fjær og austar er annar dalur, Elliðaárdalur sem er engu síðri og tilvalinn til útivistar. Veturinn í vetur hefur verið nýttur til reglulegrar útivistar. Í öllum afbrigðum vetrarríkisins hefur verið gengið um dalina. Það er svo merkilegt að í minningunni hefur veðrið alltaf verið gott á þessum gönguferðum. Það er sérstakt að þegar maður er búinn að klæða sig vel og lagður af stað virðist veðrið alltaf kjörið til útivistar. Það skiptir ekki máli hvort það sé kvöldstilla, frost og stjörnubjartur himinn eða slydda, snjókoma og lítið skyggni. Aðstæður eru alltaf góðar til útiveru. Þessvegna hef ég nú vingast við veturinn. Kveðja.

Engin ummæli: