fimmtudagur, 31. desember 2009

Gleðilegt ár með þökk fyrir hið liðna.

Hjörtur Friðrik. Meðfylgjandi er gömul mynd af Hirti Friðrik á gamlárskvöld. Fáir hafa haft jafn gaman af sprengingum á gamlárskvöld í þessari fjölskyldu. Við Valdimar munum reyna að standa undir væntingum í þeim efnum þótt Hjörtur sé fjarri góðu gamni núna. Fyrir þá Fossvogsbúa sem ekki vita hver blæs stundum í lúðurinn í dalnum á þessu kvöldi þá er rétt að upplýsa að það er hann Valdimar okkar. Vonandi að Svíar fari varlega með sína flugelda svo Hjörtur hafi það rólegt á bráðamóttökunni á nýjársnótt. Óskandi að nýtt ár verði ár endurreisnar og velfarnaðar. Við þökkum ykkur öllum fyrir ógleymanlegt ár sem bauð upp á öll helstu blæbrigði lífsins. Sjáumst heil og fariði varlega með sprengiefni kvöldsins. "Lovja all."

fimmtudagur, 24. desember 2009

Gleðileg jól

Jóhannes Ernir, Hjörtur Friðrik og Sveinn Hjörtur Gleðileg jól. Svona eru nú "Skype" jól haldin í dag. Tók þessa mynd af skjánum þegar drengirnir okkar í Kristianstad höfðu samband til þess að óska okkur gleðilegra jóla. Þessi samskipti minntu mig á gamla daga þegar námsmenn erlendis voru að senda kveðjur í gegnum ríkisútvarpið. Nú hefur tækninni fleygt fram og hægt að eiga þessi samskipti í gegnum tölvu á persónulegum nótum. Við sendum ykkur líka öllum bestu jólakveðjur og vonum að þið eigið góða jólahelgi nær og fjær. Annars hefur jólahaldið hjá okkur verið með hefðbundnu sniði. Við enduðum daginn á heimsókn til Þórunnar systur og hittum þar foreldra mína og systkini. Axel Garðar og fjölskylda voru vestur í Stykkishólmi. Á jólum fögnum við fæðingu frelsarans en hátíðin er ekki síður hátíð fjölskyldunnar. Við viljum hafa okkar nánustu í kallfæri og styrkja böndin og minnast saman liðinna stunda. Á Þorláksmessu fórum við í skötuhlaðborð á Hótel Loftleiðum eins og mörg undanfarin ár. Nóg í bili kveðja.

laugardagur, 19. desember 2009

Víti á jörðu.

Fergus Anckhorn. Ég hlustaði á viðtal við Fergus Anckhorn á Hardtalk hjá BBC í gær. Sama þátt og Geir Haarde var nýlega í viðtali og sagði þessu fleygu orð, "mabe I should have." Nú var viðtalið við aldinn stríðsfanga sem lifði af fangavist Japana í seinni heimstyrjöldinni við byggingu brúarinnar yfir Kwai fljót. Maðurinn lýsir því hvernig hann fyrir hreint kraftaverk lifir af þrjú ár í þessu helvíti Japana og hrottafengna meðferð þeirra á föngunum. Hvað þurfi til að lifa vist í víti á jörð. Þeir sem misstu lífsviljann við þessar aðstæður voru látnir nokkrum dögum síðar. Eins og vinur hans píanóleikarinn sem sagðist ekki geta lifað án tónlistar. Aðspurður hvort hann væri trúaður eftir þessa mannraun sagðist hann ekki trúa á Guð. Ef hann væri til gæti ekki verið að hann mundi láta svona atburð gerast án þess að grípa inn í atburðarrásina. Mikill meirihluti félaga hans hafi látið lífið í fangabúðunum. Ef það væri til almætti hefði það gripið inn í atburðarrásina. Það vakti athygli mína að þrátt fyrir ömulegar aðstæður var það eftirminnilegt í minningu mannsins að slíkar aðstæður kölluðu fram allt hið besta í fari félaga hans. Þrátt fyrir hrottaskapinn gátu Japanirnir ekki kæft æðstu gildi mannlegra samskipta meðal samfanganna. Aðspurður hvort hægt væri að réttlæta stríð svaraði gamli maðurinn því neitandi. Í lok átaka kæmu leiðtogarnir saman og skrifuðu undir pappíra og þar með væri málum lokið. Enginn mundi efitr fórnum hermannanna og hinna fölnu. Hann sagðist ekki skilja af hverju menn gætu ekki komið saman áður en til stríðs kæmi og skrifað undir pappírana. Þá væri hægt að komast hjá sjálfu stríðinu. Langði að horfa á viðtalið aftur en fann aðeins brot af því á vefsíðu BBC. Kveðja.

sunnudagur, 13. desember 2009

Upptaktur í undirbúningi jóla.

Þessari helgi hefur verið varið í heimsóknir og tiltekt. Það var víst orðið nauðsynlegt að takast á við óhreinindin, enda tuskur verið lítt handfjatlaðar hér á bæ um nokkurn tíma. Mikilvægari störf hafa verið tekin fram fyrir svo sem próflestur dótturinnar, söngur með söngfélögum mínum, göngur, tölvuhangs, sjónvarpsgláp og ýmislegt annað. Nú var verkefnið ekki umflúið lengur. Væntanlega kannist þið við þessi átök líka. Ég hef verið að skoða gamla cd diska með gömlum jólalögum. Þess vegna datt mér í hug fyrirsögn þessa pistils upptakur í undirbúningi jóla. Eftir því sem maður eldist aukast tregablandnar minningar og blandast saman við melódíur jólahátíðarinnar, kokteill sem rétt er að dreypa ekki of mikið af. Ætli uppáhaldslagið mitt sé ekki White Christmas með Bing Crosby en svo koma margir þar á eftir. Nú styttist í að Sirrý komi heim en hún hefur dvalist í Jönköping undanfarnar vikur við rannsóknir. Þá eykst umræddur upptaktur örugglega til muna. Jæja nóg í bili. Kveðja.

miðvikudagur, 9. desember 2009

Aðventustund með kórnum

Söngfélag Skaftfellinga.
Síðustu dagar hafa aðallega verið helgaðir sönggyðjunni. Á sunnudaginn hélt kórinn ásamt Skaftfellingafélaginu aðventustund og söng kórinn af því tilefni nokkur jólalög. Í gærkvöldi var farið í heimsókn á tvær sjúkrastofnanir og þessi lög sungin aftur þar. Það er fátt betra fyrir sálartetrið en að tjá sig í söng fyrir þakkláta hlustendur með samstilltum söngfélögum. Nú er kórinn kominn í jólafrí og verða ekki æfingar að nýju fyrr en um miðjan janúar. Pabbi átti 79 ára afmæli í gær og af því tilefni var haldin vegleg veisla hjá Stefaníu systur. Þar var mættur fríður hópur ættingja og vina. Kveðja.
(Mynd: Kristinn Kjartansson)

fimmtudagur, 3. desember 2009

Andlaus

Ég hef verið andlaus undanfarna mánuði og lítið skrifað á þessa heimasíðu. Í kvöld horfði ég út um gluggan og hugur minn fylltist af gleði. Himininn var heiður og stjörnubjartur. Yfir Esjunni var fullt tungl að rísa í öllu sínu veldi og kvöldbirtan var ótrúlega skær. Hverfið mitt, Fossvogur kúrði í dalverpinu og allt var svo friðsælt að sjá. Framundan er viðburðarrík helgi. Á laugardaginn verður Loftsalaættin frá Mýrdal með kynningu á ættartali sínu sem gefið hefur verið út í bókarformi. Á sunnudaginn eru svo Söngfélag Skaftfellinga með aðventuhátið og söngskemmtun að venju. Sigrún hefur verið í próflestri þannig að maður hefur haft hægt um sig heima fyrir. Svo kveikti ég á sjónvarpinu og datt inn í umfjöllun um Icesave. Ég held að þetta sé sjötti eða sjöundi dagurinn sem þessi umræða fer fram. Það verður alvarlegt mál fyrir þá þingmenn sem samþykkja þessa nauðarsamninga vegna þess að sá gjörningur festist við nöfnin þeirra um alla framtíð eins og góður vinur minn orðaði það. Ég var ekki búinn að hlusta lengi þegar andleysið heltist yfir mig að nýju en ég ákvað að láta það ekki ná tökum á mér að nýju og slökkti á umræðunni. Það var auðveld ákvörðun fyrir mig en það er ekki jafn auðvelt fyrir þingmenn að afgreiða þetta mál með sama hætti.