miðvikudagur, 28. apríl 2010

Brynhildur fjörtíu ára


Stórviðburður gærdagsins var afmælisveislan hennar Brynhildar Björnsdóttur í Salnum í Kópavogi í gærkvöldi. Í tilefni tímamótanna bauð hún fjölskyldu sinni og vinum til söngveislu sem verður lengi í minnum höfð. Þjóð sem á að skipa jafn fjölhæfri og góðri söngkonu og leikara og þarna steig á svið þarf ekki að kvarta. Lagavalið spannaði allt frá klassískum söngstykkjum yfir í fallegan vísnasöng og dægurflugur og sungið á fimm tungumálum auk íslenskunnar - allt utanbókar. Það fór ekki milli mála að þarna fór einstaklingur sem býr yfir miklum hæfileikum. Annállinn óskar henni til hamingju með afmælið og þessa tónlistarveislu og óskar henni velfarnaðar á komandi árum í söng og leik. Meira af þessu. Kveðja.

fimmtudagur, 22. apríl 2010

Sumarið er hér að nýju.

Sumarið er komið. Þetta orð sumar vekur manni gleði og von og fyllir mann fögnuði. Veturinn hefur verið langur og strangur en eigi að síður hefur tíminn liðið hratt í starfi og leik. Líklega munu göngur mínar í vetur lifa lengst í minningunni af afrekum vetrarins. Reglulega hef ég gengið með Skálmurum í allan vetur um Elliðaárdal og Grenilund í Heiðmörk þetta fimm til sjö kílómetra í senn tvisvar í viku. Þetta er örugglega mjög heilnæmt að ganga svona fyrir utan hvað það hefur verið skemmtilegt í góðum félagsskap. Miklum tíma og líklega of miklum hefur verið varið í tölvuhangs. Það má segja að tölvan hafi tekið yfir sjónvarpsglápið. Annars berst maður með strauminum og segir lítið af öðrum afrekum en þessum göngum mínum. Nú líður að því að tónleikar Söngfélags Skaftfellinga verði haldnir sunnudaginn 2. maí í Seltjarnarneskirkju. Veturinn með kórnum hefur verið góður að venju. Nóg í bili. Sumarkveðja.

sunnudagur, 18. apríl 2010

Eyjafjallajökull stjórnar flugumferðinni í Evrópu

Maður hefur verið viðloðandi sjónvarpið og horft á SKY, bresku fréttastöðina lýsa áhrifum af þessu gríðarlega öskugosi. Það hefur vafist fyrir mörgum erlendum fréttamönnum að bera fram nafn Hvollsvallar hvað þá að segja Eyjafjallajökull. Á amerísku FOX fréttastöðinni sögðu þeir nafnið vera eins og einnhver hefði fipast á lyklaborðinu þegar nafnið var ákveðið. Þannig að húmorinn hefur ekki verið langt undan þótt alvara málsins sé mikil. Það er ótrúlegt hvernig þetta eldfjall getur komið í veg fyrir nánst alla flugumferð í Evrópu. Enginn virðist í raun hafa reiknað með að svona atburður gæti gerst. Þetta sýnir líka hversu mikilvægar flugsamgöngur eru til þess að flytja fólk og ekki síður vörur milli heimshluta.

fimmtudagur, 15. apríl 2010

Hver atburðurinn rekur annan.

Þorvaldseyri.
Eyjafjallajökull ákvað að hætta þessum túristaspýjum sem við höfum verið að mynda undanfarna daga og sýna okkur alvöru gos. Eyðilegging þjóðvegarins er töluverð og eldfjallið hefur dreift ösku sinni um okkar fallegu sveitir Skaftártungu, Álftaver og Meðalland. Askan hefur líka gert það að verki að stór hluti flugumferðar í Norður - Evrópu liggur niðri vegna hættu af ösku frá gosinu í háloftunum. Nú í vikunni kom svo skýrslan um bankahrunið sem rannsóknarnefnd Alþingis tók saman. Ég á aðeins þrjú orð um hana/þær þetta eru níu hefti: Þetta er skelfilegt. Jæja læt þetta duga í bili. Kveðja. Mynd:Óskar Sigurðsson.

laugardagur, 10. apríl 2010

Hörmulegt slys

Það var sorglegt að heyra í morgun af hörmulegu flugslysi þar sem fórust hátt í 100 Pólverjar ásamt forseta landsins, Lech Kaczynski og eiginkonu hans. Forsetinn og fylgdarlið hans voru á leiðinni til minningarhátíðar í Smolensk í Rússlandi til að minnast tuttugu þúsund liðsforingja í pólska hernum sem Rússar tóku af lífi á fimmta áratug síðustu aldar. Mannkynsagan geymir marga hryllilega atburði um mannvonsku sem aldrei hafa verið gerðir upp og líklega er ekki hægt. Það er skelfilegt að þetta hörmulega slys skuli eiga sér stað einmitt í tengslum við þessa minningarathöfn sem var liður í viðleitni pólsku þjóðarinnar til að heiðra minningu þeirra manna sem voru teknir af lífi í þessu grimmdarverki.

miðvikudagur, 7. apríl 2010

Gengið um Elliðaárdal

Í kvöld gékk ég í fínum félagsskap hringinn góða um Elliðaárdal í hlýnandi veðri. Heiðskír himinn og skýnandi sól í vestri. Við hefjum jafnan gönguna um hálfátta á miðvikudagskvöldum og erum 65 til 70 mínútur á gangi eftir atvikum. Þetta eru um 7 km ganga. Nú um nokkurra mánaða skeið hefur maður arkað þennan heilsubótarhring samviskusamlega. Það sérstaka við þessar göngur er að maður hefur kynnst árstíðunum vel og nú finnur maður að sólin fer hækkandi og það er að koma vor. Til þess að kynnast dalnum betur hefur lestur bókarinnar um Elliðaárdal verið ágætis afþreying. Það fer ekki milli mála að dalurinn og ýmis mannvirki í honum eiga sér merkilega sögu sem hér verða ekki gerð skil en óhætt að mæla með þessari bók til að glöggva sig á dalnum, sögu hans og náttúru.

þriðjudagur, 6. apríl 2010

Eftir páska

Páskafríið búið. Þurfti að púrra mig upp í gírinn að nýju. Það er verst við svona löng frí að erfitt getur verið að koma sér í gang aftur. Maður er í súkkulaði- og sykursjokki eftir ofát á þessum andskotans páskaeggjum. Ágætt að hefja "eftir páska hrotuna" á því að mæta á kóræfingu og fínslípa lögin sem verða sungin á tónleikum 2. maí næstkomandi í Seltjarnarneskirkju. Það er búið að vera mikið gaman í kórnum í vetur og góður hópur sem hefur mætt vel á æfingarnar. Afraksturinn af þessu starfi verður svo kynntur á umræddum tónleikum. Ef nafn kórsins hefur farið fram hjá einhverjum þá er ég að tala um Söngfélag Skaftfellinga.

föstudagur, 2. apríl 2010

Austurferð í samanþjöppuðu máli.

Skírdagur, nýr dagur, frí, indælt, innkaup, matur, kaffi, kökur, bíltúr. Austur, Fljótshlíð, gos, mökkur, spenna, sólin brosir, kaffisopi, kökur, frábært útsýni, áfram austur, yndislegur dagur, gos frá Skógum, meira gos frá Gatnabrún. Vík í Mýrdal aur í kassann, vinningur, tap í sömu andrá. Áfram austur, Mýrdalssandur, góð dagsbirta kl. 20.00. Skaftártunga, kólnandi veður, gasofn, upphitun, kvöldverður, "minnernas kamin", kólnandi veður, svefn, nótt, vakna, enn kólnandi veður, vaxandi norðanátt, nýstandi kuldi. Föstudagurinn langi, kaldur norðan garri, upphitun, samt kalt, morgunverður, lestur, frágangur, gestabókin geymir minninguna, gamlar minningar, gleði og sorg eru systur - boðskapur páskanna? Útvarp, hlustað, horft til jökulsins ógurlega, heimför, Mýrdalssandur, Messa í útvarpi, faðir vor, ægináttúra, maðurinn má sín ekki mikils. Vík, Reynisfjall, Gatnabrún. Gossúlan ekki eins flott og í gær, sól en gluggaveður undir Eyjafjöllum, Eyjarnar í heiðskíru, tilkomumiklar, gossúlur, vangaveltur um jarðfræði,hraungos, sprengigos, vaxandi umferð í austurátt. Eru allir að flýja höfuðborgina? Þorsmörk, Fljótshlíð, Hvolsvöllur, pulsa og kók hinum megin. Áfram í vesturátt, andstreymis við umferðaþungann. Holtin, Þjórsá nei sko snjómugga í vestri og snjór á númerum bíla. Selfoss meiri snjómugga, vaxandi umferð, eitt þúsund bílar, tvö þúsund bílar, þrjú þúsund bílar? Gæti verið. Hellisheiðin, Bláfjallaafleggjari, Lækjabotnar, græna Kópavogsskiltið - Stór Kópavogssvæðið, efri byggðir, hálka, keyra varlega, kominn heim. Þetta gékk nú bara nokkuð vel... og svo komu páskar.

Á föstudaginn langa.

Vorum að koma úr Skaftártungunni. Þar var heiðskírt en í nótt kólnaði mikið og í morgun sagði hitamælirinn að væri fjögurra stiga frost. Við ákváðum að halda heim á leið. Keyrðum í fallegu gluggaveðri áleiðis í bæinn. Á Selfossi var komin hríðarmugga og þannig var veðrið heim á hlað í Kópavoginn. Í gær fórum við aftur inn Fljótshlíðina og virtum fyrir okkur gosið sem nú er öllu kraftmeira. Mikil umferð var í austurátt frá Reykjavík á Suðurlandsvegi.