föstudagur, 31. mars 2006

Vorgeislar.


Vorgeislar.
Fyrsta verk Sirrýjar í morgun var að fanga þessi litbrigði ljóssins í reyniviðartrénu okkar. Myndin með þessum pistli er árangurinn af þeirri tilraun. Þannig að nú getur hver og einn dæmt árangurinn fyrir sig. Það léttir nú daginn að byrja hann á því að velta svona nokkru fyrir sér. Annars hefur þetta verið nokkuð hefðbundinn föstudagur. Vinna, leikfimi í hádeginu, píanótími kl. 6.00 og svo er maður kominn fyrir framan sjónvarpið með tölvuna í kjöltunni. Það vorar hratt hér sunnan heiða þessa dagana. Hinsvegar sýna gervihnattarmyndir að landið er víðast hulið hvítri snjóhulu. Veðrið hér hefur verið mjög fallegt í dag. Sól og stillt veður. Synubruni á Mýrum er mjög áberandi og sést vel héðan frá höfuðborgarsvæðinu. Það er æ bjartara á morgnana og dimmir síðar á kvöldin. Ég fór í jarðarför Óskars heitins Vigfússonar fyrrum formanns SSÍ í dag. Við áttum töluvert saman að sælda í Verðlagsráði sjávarútvegsins í denn. Þarna voru mörg kunnugleg andlit úr sjávarútveginum eins og við var að búast margir sem nú eru hættir og maður hefur ekki séð lengi. Ég er að fara með kórnum í helgarferð austur í Grímsnes. Verðum á æfingum á morgun og svo söngur á í kirkjunni í Sólheimum á sunnudaginn.

fimmtudagur, 30. mars 2006

Lupus Loricatus.


Brynjólfur Sveinsson biskup (1605 - 1675) í Skálholti hefur verið ofarlega í huga mér í dag. Væntanlega eru það hughrif frá gærdeginum þegar við hlýddum á Brynjólfsmessu í Grafarvogskirkju. Á sérstökum fræðsluvef (http://www.kirkjan.is/brynjolfur/) má finna ýmsan fróðleik um þennan merka biskup, sem óþarfi er að tíunda hér sérstaklega. Nafn hans á latínu sem hefur verið okkur svo tamt allt frá því í menntaskóla er Lupus Loricatus. Mig minnir að það hafi verið okkar ástsæli kennari Magnús "góði" Guðmundsson sem hafi upplýst okkur um það. Lupus Loricatus eða "brynjaður úlfur". Lupus þýðir úlfur og Loricatus er brynja á latínu. Í lokaorðum Ad Beatam Virginem (Maríukvæðinu), sem notað er í Brynjólfsmessunni segir í þýðingu Sigurðar Péturssonar: "Lifðu heil nú sem fyrr, mærin náðarfulla! Skær fyrir tilstilli sonarins, sólarinnar sem stafar birtu. Rís þú milda stjarna og kom þurfandi mönnum til hjálpar (124-126)! Auk heitum þínum heiðvirðum við raddir sjómanna þegar þú sérð að það er í þágu þjóðar sem velkist og erfiðar í ólgandi hafinu (127-129)! Reyn þú að varna þess með umhyggjusamri bón að mér verði leyft að farast hér og sjá til þess að ég megi þrauka, örmagna af striti og þróttlaus af ógleði, innst í forgarði húss hvíldarinnar (130-132). Halt þú ætíð áfram að vera á verði, þú perla himnabúa, með því að biðja ljúfan son þinn þess að hann gefi skipreka þjónum sínum að bjargast á sundi úr hyldýpi dauðans (133-135). Lof sé Guði föður, syni föðurins og meyjarinnar og anda föður og sonar. Allt sem til er syngi Guðinum eina halelújah (136-138)."

miðvikudagur, 29. mars 2006

Brynjólfsmessa Gunnars Þórðarsonar


Grafarvogskirkja.

Við Sirrý og Sigrún fórum í Grafarvogskirkju í kvöld til þess að hlýða á flutning Brynjólfsmessu eftir Gunnar Þórðarson tónskáld. Eins og segir í efnisskrá tónleikanna er messan samin við hefðbundinn latneskan messutexta að viðbættum kaflanum Virgo Díva. Messukaflarnir eru: Kyrie (Miskunarbæn), Gloria (Dýrðarsöngur), Credo (Trúarjátning), Sanctus (Heilagur), Angus Dei (Lamb Guðs) og Virgo Diva (Mærin guðleg) sem er ákall til Maríu guðsmóður frá Brynjólfi Sveinssyni biskup í Skálholti . Einsöngvarar voru Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenór og Sigrún Hjálmtýsdóttir sópran ásamt kirkju- og barnakórum. Hljómsveit Jón Leifs Camerata lék undir. Stjórnandi var Hákon Leifsson. Kórstjórar voru Hilmar Örn Agnarsson og Hörður Bragason. Flutningur þessa verks er merk samtímasaga í ljósi þess að hér er á ferð tónskáld sem skipar sér á fremsta bekk meðal íslenskra tónsetjara - tónskáld alþýðunnar í fjörtíu ár. Maður er að sjálfsögðu þakklátur fyrir að fá að fylgja tónskáldinu í þessa helgiför gæddum í senn ljúfum og tilfinningaríkum tónum. Það er minningin sem maður vill geyma um heiðarlegan dýrðarsöng; "Allt sem til er syngi Guðinum eina Halelujah." Hefði eitthvað mátt betur fara er það helst að undirspilið var kraftlaust. Það var svona eins og að heyra flutning á verki í hljómlitlu útvarpstæki. Einsöngurinn, kórsöngurinn og barnakórarnir komu ágætlega út. Ég hef heyrt flutning á þessum messusöng í gregorískum búningi í flutningi stúlknakóra undir stjórn Margrétar Pálmadóttur (sjá blogg mitt 4. júní 2004). Það var ógleymanlegur og hátíðlegur flutningur sveipaður mikilli helgi. Þessi flutningur var öðruvísi og ákveðin endurnýjun og uppgötvun sem fólst í honum. Hef þessa hugleiðingu ekki lengri. Kveðja.

laugardagur, 25. mars 2006

Á ferð um Suðurland.


Eyjafjallajökull.

Í dag fórum við austur í Göggubústað í Skaftártungu. Þetta var dagsferð í indælis veðri, heiðskíru og stilltu en andköldu. Birtan var svo góð að við stóðumst ekki mátið og tókum nokkrar myndir á leiðinni til þess að deila með ykkur. Þessi mynd er af Eyjafjallajökli og er tekin á leiðinni í bæinn. Mikil björgunaræfing nefnd Bergrisinn var í kringum Vík í Mýrdal og austur í Skaftártungu til að æfa viðbrögð við hugsanlegu Kötlugosi. Þegar að Álftaversafleggjaranum kom vorum við stöðvuð af formanni björgunarsveitarinnar í Skaftártungu, Dóra í Ytri - Ásum og ferðir okkar skráðar. Áttum við ágætis spjall við stórbóndann.

Pétursey.
Hér má sjá fjallið Pétursey sem er neðan við þjóðveginn. Þessi mynd er líka tekin á suðurleið. Að baki Pétursey má sjá Eyjafjallajökul.

Við bústaðinn.
Sirrý fyrir framan bústaðinn eins og sjá má er allt hvítt. Bústaðurinn kemur vel undan vetri.

Við eldhússtörfin.
Að vísu fór ekki mikið fyrir þeim í þetta skipti enda stoppuðum við aðeins tæpa þrjá tíma.

Sirrý í Skaftártungu.
Lengst í fjarska glittir í Grafarkirkju. Hér erum við að leggja af stað í bæinn upp úr kl. þrjú. Við fórum á nýja/gamla bílnum sem Hjörtur átti. Skruggu kerra svona hraðbrautar drossía.

Skaftártunga í vetrarbúningi.

Hemruheiðin handan Tungufljóts og hér sér í átt að Höllubústað.

Hekla há.

Hér sér til Heklu. Þetta var fyrsta myndin sem við tókum og tókum við hana á austurleið.

föstudagur, 24. mars 2006

Bjórkvöld.


Í kvöld var hið árlega bjórkvöld okkar leikfimisfélaganna í AGGF. Það var búið að vera eftirvænting í loftinu. Á síðsta ári lentu menn á miklu skralli, sem varð skemmtiefni í næstu leikfimitímum á eftir. Ég missti því miður af því, þannig að nú var ég mættur til þess að verða þátttakandi í nýju skralli. Það varð hinsvegar ekkert skrall. Þetta var prúðmannlegt bjórkvöld, sem endaði upp úr klukkan átta. Ég var kominn heim um hálf níuleitið. Maður var pínulítið spældur vegna þess að ég frestaði píanótíma í dag og fór slappur í leikfimi í dag til þess að vera gjaldgengur á björkvöldið. Heyrðum í Hirti í Svíþjóð. Þau eru búin að fá nýja bílinn og eru mjög ánægð með þessa kerru, VW Passat turbó. Nú geta þau keyrt um nágrannahéruðin og farið hvert sem hugurinn girnist. Höfum heyrt í Birni í Afríku hann er núna kominn í góðan gír eftir nokkur veikindi. Við erum að fara til Frakklands í byrjun apríl og hlakkar mikið til. Mikið að gera í kennslu og vinnu. Jæja hef þetta ekki lengra. Kveðja.

fimmtudagur, 23. mars 2006

Heima við.

Ég hef verið heimavið í dag með flensuskít. Hef örugglega fengið þetta með kuldanum sem nú hefur verið hér sunnan heiða undanfarna daga. En þetta er nú að rjátla af mér. Annars lítið að frétta héðan. Kveðja.

mánudagur, 20. mars 2006

Söngfélagið og Varðhundurinn Sunna.


Var að koma af söngæfingu. Kórfélagar voru ánægðir með messuna í gær. Við byrjuðum að æfa nokkur ný lög inn í prógrammið okkar. Næst verður farið 1. apríl í Sólheima og þar verður verið í æfingabúðum einn dag. Síðan verður sungið við messu á sunnudeginum. Hjörtur og Ingibjörg eru búin að fá sér bíl í Svíþjóð, annan Passat. Hann ku víst vera mjög flottur. Björn er í Afríku en Sunna gistir hjá okkur. Við vöknum fyrir allar aldir á morgnana til þess að fara með hana í göngutúr. Hún er afskaplega vitur hundur blessunin. Tilvera hennar gengur þó mest út á það að verða sér úti um aukabita. Hennar eini ókostur er að ef einhver nálgast húsið sem hún þekkir ekki lætur hún ófriðlega og geltir ógurlega og gefur frá sér grimmdarhljóð. Stundum ríkur hún upp ef hún heyrir í einhverjum á göngustígnum fyrir neðan húsið. Mörgum bregður við þetta enda er hún alin upp sem varðhundur í svörtustu Afríku. Það dugir nú engin hálfvelgja við gæslustörfin þar og það veit Sunna. Hún er ekkert að breyta um taktík þótt hún búi nú hér uppi í norðrinu. Annars er hún mjög meðfærileg blessunin og vel upp alin. Hér komu í heimsókn í gær Hilda og Vala Birna, Halla og Örn.

sunnudagur, 19. mars 2006

Skaftfellingamessa í Breiðholtskirkju.


Sr. Hjörtur ásamt kollegum.
(Myndir Sigrún Huld)

Í dag rann upp stóra stundin í kórstarfinu hjá Sköftunum. Skaftfelsk messa var haldin í Breiðholtskirkju með sex prestum sem á einu eða öðru stigi hafa þjónað í Vestur - Skaftafellssýslu. Sr. Hjörtur hélt predikun og stóð sig með sóma. Predikun hans fjallaði um nauðsyn þess að standa vörð um kristna trú, kristin gildi, Skilaboð Eíríks Björnssonar heitins úr Svínadal og Vestur Skaftafellssýslu, Við í Sköftunum(Söngfélag Skaftfellinga í Reykjavík) sáum um kórsöng ásamt fólki úr sóknarkórum fyrir austan. Alls voru um 220 manns við þessa messu.

Hirtirnir tveir.

Hér má sjá þá nafnana sr. Hjört Hjartarson fyrrum prest að Ásum í Skaftartúngu og Hjört Hannesson (Hjört fyrrum bónda á Herjólfsstöðum í Álftaveri) hlusta á Skaftana taka nokkur lög. Báðir eru þeir rútineraðir söngmenn, tenorar, sem oft hafa tekið lagið saman við ýmis tilfelli.

Frú Unnur og Frú Vigdís.

Hér má sjá þær Unni og Vigdísi eiginkonur sr. Hjartar og Hjartar frá Herjólfsstöðum í kaffisamsætinu eftir messuna.

Friður sunginn.

Hér eru Skaftarnir að syngja Friðinn, úr óratoríu Björgvins Guðmundssonar tónskálds Vestur - Íslendinga og Norðlendinga/Akureyringa eftir predikun séra Hjartar.

Sungið við raust.
Í messukaffinu tóku Skaftarnir nokkur vel valin lög fyrir kirkjugesti: Skaftárþing, Öræfasveit, Ástarsælu, Funiculi, Fuglinn í fjörunni, Heima og Sardasfurstinnan. Gerður var góður rómur að söng kórsins og hann klappaður upp. Heyra mátti húrrahróp milli laga. Ekki slæmt það.

fimmtudagur, 16. mars 2006

Tíðindi af Suðurnesjum.


Þá er stundin runnin upp. Herinn á Miðnesheiði er að kveðja okkur eftir sex áratuga viðveru. Maður hefur nú alltaf verið stuðningsmaður þess að hér væri her og við værum í Nato. Heimsmyndin breyttist með hruni Sovétríkjanna og kommúnismans í Austur - Evrópu. Það var engin ógn þaðan lengur og það var við því að búast að herinn færi. Þessi herstöð er búin að kosta bandaríska skattgreiðendur gríðarlega fjármuni. Þeir hljóta líka að þurfa að nota þessi hernaðartæki þar sem meiri þörf er á þeim. Það verður nú mest eftirsjáin af þyrlusveitinni. Hún veitti mikilvæga og þakkarverða þjónustu. Þau eru mörg afrekin sem þyrlusveitin á að baki við erfiðar aðstæður og vandséð hvernig það skarð verður fyllt í næstu framtíð. Eftirminnileg er fyrsta heimsókn mín á Keflavíkurflugvöll á sjöunda áratugnum. Ég var í hópi 25 söluhæstu þeirra barna er seldu Vikuna og verðlaunin voru þessi heimsókn. Þetta var mjög eftirminnileg ferð. Við fengum að prófa að setjast í sæti flugmanns í orustuþotu, heimsóttum sjónvarpsstöðina, keiluspilasal og fengum að borða svakalega góðan mat í einhverju mötuneyti. Maður hefur verið svona tíu til 11 ára gamall. Manni þótti það svo skrítið að hermaðurinn sem fylgdi okkur um stöðina talaði reiprennandi íslensku. Síðar átti maður eftir að koma þarna nokkrum sinnum aftur en of langt mál að segja frá því. Hef þetta ekki lengra að sinni. Kveðja.

miðvikudagur, 15. mars 2006

Vortónleikar Fóstbræðra.

Okkur var boðið á tónleika Karlakórsins Fóstbræðra í Langholtskirkju í gærkvöldi. Kórinn var stofnaður 1916 og er því 90 ára í ár. Þetta voru frábærir tónleikar þar sem fram komu bæði yngri og eldri Fóstbræður. Yngri kórinn taldi 68 félaga og sá eldri um 20 félaga þannig að þegar best lét voru um 90 kórfélagar að syngja, góður tónn það. Stjórnandi var Árni Harðarson. Lagavalið var fjölbreytt, bæði þekkt og óþekkt karlakórslög. Lög eftir Sigvalda Kaldalóns, Árna Thorteinsson og Alþingisrapp Atla Heimis Sveinssonar var skemmtilegt. Tveir félagar sungu einsöng í amerískum slögurum. Pabbi er í eldri Fóstbræðrum núna en hann er búinn að vera 50 ár í Fóstbræðrum og hefur fengið gullmerki kórsins. Maður hefur fylgst með þessum kór frá því maður mann eftir sér. Margir eru þeir söngfélagar pabba sem maður man eftir og kynntist: Jón Pálsson, Jói Gúmm., Árni Jóhanns., Óskar Ágústss., Garðar Jökuls., Þorleifur Páls., Magnús Guðmundsson og fl. og fl. Ég fékk vinnu hjá Árna við brúarsmíði á Kópavogshálsi og Óskari við múrhandlang í sumarvinnu þegar ég var strákur. Nú síðan bauð pabbi mér á hin frægu þorrablót Fóstbræðra í mörg ár þegar maður hafði aldur til. Maður sótti tískusýningar Fóstbræðrakvenna hér áður fyrr og fylgdist náttúrulega af athygli með söngferðum og söngsigrum kórsins. Hver mann ekki eftir Cardiff förinni og öllum hinum söngferðunum í austur og vesturveg. Aðrar fréttir eru þær að hingað komu Valdimar og Stella í gærkvöldi. Hjörtur Friðrik hringdi frá Svíþjóð. Sigrún er á grímuballi í Kvennó. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

sunnudagur, 12. mars 2006

Skattframtal og kratar.

Skattframtalið.
Dagurinn í dag var skattaskýrsludagur hjá okkur. Týndi saman pappírana og kláraði skattframtal okkar á netinu. Það getur ekki verið þægilegra, en það er samt eitthvað sem gerir að maður verður að taka sér tak áður en maður getur byrjað á þessu árlega verki. Annað svipað verkefni sem maður tekur með löngu tilhlaupi er að fara með bílinn í skoðun. Það er nú að mínu mati eitthvað sem gera á á verkstæðum landsins. Það fer vel á því að fjalla um jafnaðarmenn eftir að búið er að kvitta undir skattframtalið.
Alþýðuflokksmenn.
Það er helst í fréttum að kratar fagna 90 ára stofnun Alþýðuflokksins. Mbl. segir frá hátíðardagskrá á vefsíðu sinni í tilefni að því að Alþýðuflokkurinn og Alþýðusamband Íslands voru stofnuð í Bárubúð í Vonarstræti þann 12. mars árið 1916 og hófst stofnfundurinn kl. 15.30, á sama tíma og afmælishátíðin hófst í dag. Ráðhúsið stendur nú þeim stað sem Bárubúð áður stóð. Það er í raun sorglegt hvernig fór fyrir Alþýðuflokknum. Burtséð frá pólitískum skoðunum er íslensk stjórnmálaumræða flatari en áður. Ég set ekki samasemmerki milli Alþýðuflokksins og Samfylkingarinnar. Það verður að skrifast á þá sem voru í forystu fyrir A-flokknum hvernig fór. Þeir náðu ekki að afhenda kyndilinn í tíma og treysta þannig viðgang flokksins. Ég hef verið að lesa greinar eftir dr. Gylfa Þ Gíslason fyrrum formann Alþýðuflokksins. Það hefur verið uppbyggileg lesning og ég hef fengið nýja sýn á þennan mikilhæfa stjórnmálamann. Það er eftirtektarvert hvernig hann fjallar um menn og málefni af yfirvegun, jákvæðni og velvild. Fékk sjálfur einu sinni svona "velvildarvink" frá honum þótt ekki værum við sammála um auðlindagjaldið. Hann á sér ekki marga jafningja meðal stjórnmálamanna á síðari hluta 20. aldarinnar. Maðurinn var afburðamaður á mörgum sviðum: hagfræðingur, tónskáld, stjórnmálamaður og kennari. Lífsviðhorf Gylfa grundvölluðust á kristinni trú og siðfræði sem hann samóf af víðsýni við pólitísk gildi jafnaðarstefnunnar. Það þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess að hann var einn af lærisveinum sr. Friðriks Friðrikssonar æskulýðsleiðtoga. Ég tel að Gylfi skipi sér á bekk meðal fremstu stjórnmálaleiðtoga Norðurlanda á 20. öld. Læt þessar hugleiðingar duga í bili. Kveðja.

laugardagur, 11. mars 2006

Sitt lítið af hverju.

Við höfum bara verið að leika okkur í dag. Fórum í nokkrar búðir og keyptum ýmislegt smálegt til heimilisins ekkert merkilegt. Við fórum í þrjúkaffi til Íu og Kolla þar var m.a. rætt um lifshlaupið og hin ýmsu hlutverk á þeirri leið, barn, foreldri og síðast en ekki síst afa og ömmu hlutverkið. Vorum svo heima við en fórum á átta bíó á myndina The Indian með Antony Hopkins sem sýnd er í Háskólabíó. Þetta er hugljúf og skemmtileg mynd sem ég hvet fólk til að sjá. Þetta er enginn hryllingsmynd eins og maður á að venjast Hopkins í. Ég ætla ekki að segja ykkur frekar frá myndinni. Við urðum að ryðjast inn í kokteilpartý hjá Íslandsbanka nú Glitni til þess að kaupa miðana. Annars lítið annað í fréttum. Kveðja.

föstudagur, 10. mars 2006

Tíðindi vikunnar.

Aftur komið föstudagskvöld. Dagarnir æða áfram einn af öðrum. Maður hefur varla undan að draga andann það er svo mikil ferð á manni. Helstu tíðindi vikunnar eru hræringarnar í efnahagsmálunum lækkun hlutabréfaverðs og lækkun sem var á gengi krónnunnar. Þetta var aðeins orðið tímaspursmál, enda hafði bæði gengið og hlutabréfin hækkað gríðarlega. Vonandi finnst fljótlega nýtt jafnvægi. Nú svo er ferðin norður í land á þriðjudaginn, fundur um sjávarútvegsmál í Þjóðmenningarhúsinu. Þetta er svona það helsta. Var í leikfimi í dag eins og flesta föstudaga. Píanótíminn minn féll niður vegna samæfingar yngri nema. Hjörtur er væntanlega farin til Danmerkur að hitta Ingibjörgu og nafna. Hef ekkert frétt af Valdimar og Stellu. Geri ráð fyrir að þau séu á fullu í sínu. Sigrún er úti á lífinu með vinkonum sínum. Helgi vinur og Ingunn hafa verið í Brasilíu það hlytur að líða að því að þau komi heim til Íslands. Af öðrum hef ég litlar fréttir. Kveðja.

miðvikudagur, 8. mars 2006

Heimsókn á Krókinn.


Á Sauðárkróki.

Hér má sjá Örvar HU nýkominn að bryggju á Króknum. Var þar í heimsókn í gær ásamt vinnufélögum. Skoðuðum kröftuga atvinnustarfsemi FISK Seafood og vorum viðsaddir þegar opnað var nýtt fræðasetur, Verið, sem rekið verður af Hólaskóla. Þarna var margt um manninn og fróðlegt að fylgjast með þeirri útvíkkun á starfsemi skólans sem þarna er verið að fara af stað með. Hólaskóli á 900 ára afmæli í ár, það merka menningarsetur þjóðarinnar. Miklar vonir eru bundnar við framtíð þessa fræðaseturs og frekari uppbyggingu þess. Gaman að skynja þann kraft og þann metnað sem heimamenn hafa gagnvart sínu héraði. Kaupfélagið er öflugt í sjávarútveginum á staðnum. Þetta er eini staðurinn á landinu fyrir utan Fáskrúðsfjörð þar sem kaupfélagið er enn virki aðilinn í sjávarútvegsstarfseminni. Hitti marga þarna þ.a.m. Steina frænda (Þorsteinn Sæmundsson) Sirrýjar. Annars lítið í fréttum héðan. Kveðja.

Floti Fisk Seafood.

Hér má sjá Málmey, Örvar og aðeins sést í Hegranesið. Í bagsýn má sjá Blönduhlíðarfjöllin glæsilegu. Það var iðandi mannlíf við höfnina þennan dagpart. Fallegt veður 5°C og stilla. Mun betra veður en fyrir sunnan eða á leiðinni. Einn af þremur ráðherrum sagði í inngangsorðum sínum í kokteilboði sem við voru í. "Maðurinn er undarleg skepna. Hann drekkur án þess að vera þyrstur, hann borðar þótt hann sé ekki svangur og hann talar án þess að hafa neitt að segja" Þið megið geta upp á því hver hann var. Fyrsti stafurinn er G.

sunnudagur, 5. mars 2006

Bækur og diskar.

Við Brekkutúnsbúar höfum verið upptekin í vinnutengdum verkefnum í dag og að hluta í gær. Hingað komu Valdimar og Stella í gærkvöldi og Sunna og Björn litu við í morgun. Við litum við hjá Hildu, Magga og Völu Birnu í gær. Fórum á bókamarkaðinn í gær og á danska daga í Hagkaupum. En enduðum á því að kaupa mest íslenskar vörur. Það eru CD diskar á útsölu í Hagkaupum sem kosta 99 kr. stk. Stóðst ekki mátið að næla mér í nokkra enda lög við skemmtileg ljóð eftir Þórarinn Eldjárn samin og útsett af Jóhanni G Jóhannsyni kapellmeistara. Við erum sem sé vel birg af bókafróðleik og músik. Af Hirti, Ingibjörgu og nafna er það helst að frétta að nafni og Ingibjörg eru í Danmörku að heimsækja Karínu systur Ingibjargar og Hjörtur var í Hässleholm að kaupa íslenkan fisk og kjöt. Í kvöld fórum í mat til Björns og hittum þar Hildu, Magga og Völu Birnu. Síðar komu þangað Valdimar og Stella. Aðrar fréttir hef ég nú ekki tiltækar. Jæja hef þetta ekki lengra í bili. Kveðja.

föstudagur, 3. mars 2006

Á glerhálu svelli.

Ég fór í leikfimi í dag eins og ég reyni ávallt að gera á föstudögum. Í dag sagði fimleikastjórinn okkur frá rannsókn á afreksmönnum í íþróttum varðandi muninn á þeim sem væru í fyrsta sæti og öðru sæti. Hann felst ekki í náttúrulegum yfirburðar styrkleika sigurveranna heldur hugarfarinu. Þeir eru með markmið sín á hreinu og stunda æfingar af kostgæfni og eru sjálfsöruggir fram í fingurgóma. Þeir sem eru númer tvö eru aftur á móti ekki með jafn skýr markmið, mæta verr á æfingar og vantar sjálfstraust samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. "Þú hoppar ekki hærra en hugurinn leyfir." Þannig summeraði einn félaginn umrædda niðurstöðu. Það er mjög í tísku um þessar mundir að vitna í svona klisjur til þessa að drífa fólk áfram og hjálpa því að missa ekki móðinn í lífsgæðakapphlaupinu. Það er svo sem gott og blessað eins langt og það nær. Ég held hinsvegar að það sé enn mikilvægara að finna gott sálarjafnvægi þannig að maður skaði sig ekki á glerhálu svelli hins daglega lífs. Ég þekki enga svona afreksmenn sem aldrei efast eitt augnablik á vegferð sinni. Hef lesið um Supermann en aldrei hitt hann. Það er alltaf verið að telja fólki trú um að allir eigi og geti "meikað" það. Ég þekki einungis fólk sem er að berjast við sjálft sig og sinn breiskleika hvern einasta dag. Þetta er auðvitað ekki réttur hugsunarháttur í samfélagi sigurvegaranna, þar sem "the winner takes it all." Nú segir einhver að ég sé að opinbera svona "tapara" hugsunarhátt. Við höfum gott af því Íslendingar minnast þess að við höfum oft orðið undir á mörgum sviðum. Sagan kennir okkur að oft höfum við verið í botni á flestum sviðum mannlífsins. Talandi um íþróttir. Hver man ekki 14 - 2 hérna um árið gegn Dönum. Í mótlætinu verða menn oft sterkastir og þeir herðast í lífsbaráttunni, þroskast og eflast í jákvæðri merkingu þessara orða. Sá sem aldrei hefur orðið undir eða misstigið sig kann ekki að njóta sigurstundarinnar, segir einhvers staðar. Sérhver verður að takast á við sjálfan sig og gera eins vel og honum er unnt í ófullkomleika sínum. Jæja ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili góða helgi.