föstudagur, 31. mars 2006

Vorgeislar.


Vorgeislar.
Fyrsta verk Sirrýjar í morgun var að fanga þessi litbrigði ljóssins í reyniviðartrénu okkar. Myndin með þessum pistli er árangurinn af þeirri tilraun. Þannig að nú getur hver og einn dæmt árangurinn fyrir sig. Það léttir nú daginn að byrja hann á því að velta svona nokkru fyrir sér. Annars hefur þetta verið nokkuð hefðbundinn föstudagur. Vinna, leikfimi í hádeginu, píanótími kl. 6.00 og svo er maður kominn fyrir framan sjónvarpið með tölvuna í kjöltunni. Það vorar hratt hér sunnan heiða þessa dagana. Hinsvegar sýna gervihnattarmyndir að landið er víðast hulið hvítri snjóhulu. Veðrið hér hefur verið mjög fallegt í dag. Sól og stillt veður. Synubruni á Mýrum er mjög áberandi og sést vel héðan frá höfuðborgarsvæðinu. Það er æ bjartara á morgnana og dimmir síðar á kvöldin. Ég fór í jarðarför Óskars heitins Vigfússonar fyrrum formanns SSÍ í dag. Við áttum töluvert saman að sælda í Verðlagsráði sjávarútvegsins í denn. Þarna voru mörg kunnugleg andlit úr sjávarútveginum eins og við var að búast margir sem nú eru hættir og maður hefur ekki séð lengi. Ég er að fara með kórnum í helgarferð austur í Grímsnes. Verðum á æfingum á morgun og svo söngur á í kirkjunni í Sólheimum á sunnudaginn.

Engin ummæli: