fimmtudagur, 6. september 2018

Góður dagur á Grænlandi

Ég átti nokkra góða daga á Grænlandi fyrir tveimur árum. Tilefnið var þátttaka í vestnorrænni ráðstefnu, sem bar yfirskriftina fiskveiðistjórnun, gagnkvæmur ávinningur fyrir atvinnulíf og samfélag. Þátttakendur voru frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Þó að aðstæður séu um margt ólíkar í löndunum var gott að heyra af þeirri umræðu, sem fram fer í hverju landi um þennan málaflokk. Við Íslendingarnir stóðum fyrir þema sem nefndist fiskveiðistjórnun, byggðapólitík og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja. Farið var yfir þann mikla árangur sem náðst hefur í því að ná tökum á skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu fiskimiðanna. Þar liggur að stórum hluta hin samfélagslega ábyrgð fyrirtækjanna þ.e. að vinna að sjálfbærri nýtingu, ásamt fjölþættri ábyrgð á mörgum sviðum gagnvart starfsfólki og samfélagi. Við erum ekki einir um það að ná góðum árangri á þessu sviði, þótt augljóslega höfum við um margt verið brautryðjendur. Danskur prófessor hélt erindi um hversu langt Danir eru komnir í að bæta samkeppnishæfi sjávarútvegsins og hversu hratt nauðsynleg hagræðing hefur gengið fyrir sig þar í landi. Umræða um veiðigjöld var fyrirferðamikil. Færeysk stjórnvöld eru í umdeildri tilraunarstarfsemi með uppboð á veiðiheimildum, sem ekki sér enn fyrir endann á. Það var sannarlega gaman að koma til Grænlands að nýju, en síðast kom ég þangað fyrir 30 árum. Maður nýtur frábærrar náttúru og gestristni heimamanna og endurnýjar gamlan kunningskap við kollega og kynnist nýju áhugaverðu fólki. Ég ætla að gera orð grænlensks gestgjafa okkar að mínum lokaorðum um þessa ferð, þar sem við sátum í "besta" bátnum í skoðunarferð um Ísfjörðinn eftir ráðstefnuna.(Það var boðið upp á bjór í þessum eina bát.) Hann sagði: "Drengir, við bjóðum ykkur allt það besta í dag, sem landið skartar, í eins góðu veðri og hugsast getur. Pabbi minn sagði, að maður ætti að njóta dagsins, því að enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér, skál."