mánudagur, 4. nóvember 2019

Upphaf byggingarsögu - óvænt niðurstaða.

Við keyptum lóð, sökkla og teikningar að einbýlishúsi 1983. Sáum auglýsingu í mbl en gerðum ekkert í því í fyrstu, en svo birtist auglýsingin aftur skömmu fyrir jól. Ég hafði samband við kunningja minn sem bjó í þessu hverfi. Hann upplýsti mig um að þetta væri besta lóðin í hverfinu (bótalóð), hvað staðsetningu varðar. Hann ráðlagði mér að bjóða uppsett verð, þá 750 þúsund krónur, það þýddi ekkert að prútta við eigandann. Við fórum að þessu ráði eftir að hafa skoðað teikningar og hugsað málið yfir helgi. Á mánudeginum hafði fasteignasalinn samband við mig og upplýsti að við gætum fengið lóðina og sökkulinn, ef við borguðum 800 þúsund krónur. En við skyldum hafa hraðann á því eigandinn væri að fara úr bænum og óvíst hvenær hann kæmi aftur. Við urðum forviða og ég var sannfærður  um að við hefðum gert mistök að samþykkja uppsett verð. Hringdi í kunningja minn og sagði honum hvernig tilboðinu var tekið. Ég var að sjálfsögðu ósáttur og leiður hvernig fór. Viðbrögð kunningjans komu á óvart. Hann spurði, "Sveinn hafið þið raunverulegan áhuga á þessari eign og þessu verkefni? Ef  þið hafið áhuga þá gangið þið að þessu verði, Það eru margar 50 þúsund krónurnar, sem munu koma til á byggingatímanum sem ekki er búið að gera ráð fyrir." Ég hafði samband við fasteignasalann og gékk að tilboðinu. Frágangur kaupsamningsins var næst á dagskrá og sú stund var ekki síður eftirminnileg. Við höfum nú búið í þessu húsi í 36 ár.