þriðjudagur, 13. desember 2022

Þögnin er líka góð...

Já, hér ríkir þögnin og hún lengist með hverju árinu sem líður. Þögnin er hverjum manni nauðsynleg til þess að njóta og hugsa, minnast liðinna gæðastunda, sættast og huga að einhverju nýju. Gefa " snilligáfunni" svigrúm það er óhætt  að nefna það. Höfum við ekki öll örlítinn skammt af henni? Við erum öll einstök með einum eða öðrum hætti. Ég hef verið að pára þetta í gegnum árin. Tilraun til þess að gefa af sér út í cosmósið eða út í veraldarvefinn  eitthvað, sem væri allavega fræðandi, upplýsandi, afþreying eða bara einfaldur status nokkur dægurorð.

Ég hef farið í kaffi á Höfnina undanfarin misseri til að hitta gamla kunningja og samferðarmenn. Ég fór þangað í sumar með 3ja ára dótturson minn sem býr í Svíþjóð. Ég bauð honum einn morguninn að koma og "besöka gubbarna." Hann var viljugur til þess en var undrandi á að sjá alla þessa karla á þröngri kaffistofunni. Hann veit eftir þessa reynslu hvar afi er þegar hann segist hafa verið að hitta gubbarna. Möo maður lærir ekkert nema maður upplifi, reyni og auðvitað er  vilji allt sem þarf.

What´s the use of crying?
Smile

fimmtudagur, 29. september 2022

Tvær sprautur

 Þáði í dag bæði fjórðu covid sprautuna og innflúensu sprautu í einni og sömu heimsókninni. Ég fékk svo covid í mars í Gautaborg. Allur er varinn góður. Þetta er fyrsta skipti sem ég  læt sprauta mig gegn inflúensu.

miðvikudagur, 28. september 2022

Á suðurströndinni

 


Ég var á suðurströndinni í gær. Þetta er 400 km akstur fram og til baka. Keyrt á Seljalandsfoss frá Reykjavík og í Reynisfjöru. Viðkoma við jaðar Sólheimajökuls og beðið meðan gestir fara í gönguferð á jökulinn (3 tímar). Síðan keyrt að Skógarfossi. Eftir stutt stopp brunað í bæinn með "tæknistoppi." Vorum komin í bæinn rétt um 20.00 þ.e. 12 tíma ferð. Mikið blaðrað á leiðinni austur en fólkinu gefið frí á leiðinni suður að mestu.

þriðjudagur, 30. ágúst 2022

Sumarið ´22

Sumarið 2022 hefur liðið sem örskotsstund. Verkefnin hafa verið næg heima og heiman. Hæst bar koma Sigrúnar og Malachi með Amelíu í fyrsta skipti og Daníel og koma Valdimars og  Stellu með Lilju og Bjarna. Þetta var eiginlega  fyrsti almennilegi fjölskylduhittingurinn eftir covid fárið. Ég hef verið að vinna í sumar sem leiðsögumaður og bílstjóri. Þrátt fyrir töluvert regn í sumar hefur þetta verið ágætis tími. Þetta er nú svona það helsta  sem á dagana hefur drifið.

föstudagur, 15. apríl 2022

Ég fékk covid

Ég fékk covid 19 í apríl og einhverja kveisu í kjölfarið. Var út í Svíþjóð og lá þar meira og  minna allan tímann í rúminu. Ég tók þetta rapit próf og það staðfesti grun minn. Ég var búinn að fara þrisvar í bólusetningu og gæta fyllstu varúðar en það dugði ekki til. Hef náð mér nokkuð vel að nýju en hef verið frekar slappur eftir þessa leiðinda sýkingu. Kveðja 

föstudagur, 25. febrúar 2022

Rússar fari frá Úkraínu

 Pútín minnir okkur á hversu varnarlaus við erum gagnvart hervaldi. Ég hef takmarkað vit á geopólitík. Veit ekki hvað er rétt eða rangt í þessum kröfum Rússa. Ég er hinsvegar á móti beitingu hervalds. Við höfum nú átt nokkuð friðsæla áratugi í Evrópu. Þá undanskil ég átökin í fyrrum Júgóslavíu þar sem 800 þúsund manns létu lífið! Rússland sem reiddi sig á Vesturveldin til þess lifa af innrás Þjóðverja í WWII! Af hverju beita þeir grannríki slíku ofríki? Vantar þá matvæli? Þegar þeir misstu tökin á Mið-Evrópu misstu þeir stóran hluta af matvæla forðarbúri sínu. Ég hef enga trú á að Rússar geti í skjóli hervalds kúgað milljónir manna um ókomna framtíð. Á einhverju stigi fellur þetta pútínska veldi saman. Fólk vill svigrúm til að lifa sínu lífi óhað svona ofbeldismönnum.

laugardagur, 22. janúar 2022

Sögulegur leikur Íslendinga

 Íslendingar unnu Frakka 29 -  21 í dag  á  EM í handbolta  í Búdapest í Ungverjalandi. Svona leiki sér maður á 10   til 20 ára fresti. Hvílík frammistaða og leikgleði sem OKKAR menn sýndu í þessum leik. Þeir léku samhæfðir eins og einn maður. Er það Covid að þakka að við erum búnir að koma að mönnum í liðinu sem annars hefðu setið meira og minna á varamannabekknum. Er þetta  Ísland í dag? Besta  fólkið situr alltaf á varamannabekknum vegna  þess að fyrir eru einhverjir sjálfskipaðir einstaklingar? Spyr sá sem ekki veit.