þriðjudagur, 24. apríl 2012

Kórferðin í ár.

Kórferðalagið okkar í Söngfélagi Skaftfellinga í ár var til Hafnar í Hornafirði. Farið var af stað föstudaginn 20. apríl og komið heim sunnudaginn 22. apríl eftir frábæra skemmtun á Höfn í Hornafirði. Ég var síðbúinn í þessa ferð þannig að ég fór akandi á eigin bíl en kórinn fór með rútu. Á leiðinni austur og til baka var víða komið við og sungið. Aðaltónleikarnir voru á Höfn í Hornafirði á laugardeginum og var tekið til þess hve vel var mætt. Auk Söngfélags Skaftfellinga söng Samkór Hornfirðinga nokkur lög en kórfélagar í honum tóku vel á móti okkur. Um kvöldið var svo efnt til samsætis og með kvöldverði og söng og skemmtan. Ferðin austur gékk mjög vel. Veður var lengst af fallegt en eftir að komið var framhjá Skaftafelli var ísing í loftinu og rok kviður á köflum. Veðrið á laugardeginum og sunnudeginum var ágætt og heimferðin sóttist vel. Í stuttu máli má segja að þessi ferð verði ógleymanleg fyrir margra hluta sakir. Nóg í bili.

laugardagur, 14. apríl 2012

Þið spjarið ykkur.

Hitti sænskan skólafélaga minn í vikunni. Ræddum allt milli himins og jarðar og rifjuðum upp gamla tíma. Ég ætla ekki að fara yfir allt samtalið sem varði góða stund og var í senn uppgjör við liðinn tíma og vangaveltur um núið og framtíðina. Talið barst að efnahagsvanda Íslands, baltnesku landanna og Svíþjóðar. Hvað annað þegar tveir hagfræðingar koma saman. Hann býr i Svíþjóð og hefur tengingar til Eistlands. Ég dró upp mynd af vandræðum okkar og hann lýsti aðstæðum í Svíþjóð og Eislandi. Niðurstaða hans eftir yfirferðina var að við eins og Eistlendingar mundum vera hæfari að vinna okkur út úr svona vandræðum heldur en t.d. Svíar. Þeir væru svo vanir stöðugleika að þeir mundu hreinlega fara á taugum ef þeir ættu að takast á við svona sveiflur í efnahagslífinu. Við Íslendingar værum hinsvegar vanir þessum miklu sveiflum og værum hæfari til þess að vinna okkur út úr vandanum. Hann var svo upprifinn af þeirri miklu virkni sem er í þjóðfélaginu á svo mörgum sviðum. Það mætti ef til vill reka til þess að sveiflukennt efnahagslíf leiði til frjórri hugsunar og aukinnar sjálfsbjargarviðleitni. Ég spurði út í Eistland og hann áréttaði að skuldir þeirra væru miklar. Þeir væru aftur á móti vanir að herða ólina í gegnum tíðina. Gætu þess vegna lifað eingöngu á kartöflum í heilt ár og jafnvel lengur. Það gæti tekið þá fimm til tíu ár að greiða skuldir til að komast út úr vandanum en þeim mundi takast það fyrr en síðar. Eftir situr sú hugsun hvort þetta sé ekki einmitt punktur saliens í málinu að sveiflunar séu til þess fallnar að halda okkur á tánum í að leita nýrra úrræða og skapa hér jafn fjölbreytilegt og öflugt mannlíf á þessari eyju og raun ber vitni. Glöggt er gests augað.