miðvikudagur, 29. apríl 2009

Dagurinn í dag

Dagurinn í dag er minn dagur. Rok og rigning skiptir mig engu máli - bara betra. Tilbúinn til að mæta verkefnum dagsins og komast eitthvað áleiðis. Horfi til framtíðar og legg grunn að spennandi tækifærum í næstu framtíð. Læt ekkert hugarvíl ná tökum á hugsun minni þarf á allri einbeitingu að halda. Kveðja.

þriðjudagur, 28. apríl 2009

Flensa úr svínum

Óhugnalegar þessar fréttir af svínaflensu frá Mexico. Það er nú meira óáranið sem gengur yfir heiminn. Vonandi að þetta verði ekki jafn stór "bóla" og ýmsar þær hremmingar sem hafa dunið á okkur undanfarið í efnahagsmálum, bankahrun, olíubóla, fasteignabóla m.m. Annars er söngæfing í kvöld með hljómsveit. Síðasta æfingin fyrir tónleikana um þarnæstu helgi. Kveðja.

mánudagur, 27. apríl 2009

Á virkum degi.

Þetta er bjartur og fallegur dagur segir veðurmaðurinn. Best að eyða restinni utandyra í stað þess að hanga inni og horfa á fréttirnar á ruv 99. Kveðja.

sunnudagur, 26. apríl 2009

Á kosningarkveldi

Jæja þá er niðurstaðan að koma í ljós. Það er í raun frekar fátt sem kemur á óvart í þessum kosningum. Skoðanakannanir eru það nákvæmar og eru það nærri kosningum að þær lýsa hvers er að vænta mjög vel. Sjálfstæðisflokkurinn hefur orðið fyrir áfalli eftir 18 ára stjórnarsetu og slæmt gengi í aðraganda kosninganna sérstaklega varðandi þessi slæmu styrkjamál. En kúrsinn er settur og ég hef fulla trú á því að hann geti unnið sína fyrri stöðu. Ég tel að endurreisnarstarfið muni skila flokknum vel á veg í næstu framtíð verði haldið áfram á sömu braut öflugs grasrótastarfs og gegnsæis í starfseminni. Samfylkingin er orðinn stærsti flokkurinn á Íslandi nú um stundir. Væntanlega hefur hún fylgisaukninguna út á það að vilja skilyrðislausa ESB aðild eins sérstakt og það verður að telja. Það er dálítið einkennandi fyrir tíðarandann að heimta skyndilausnir í öllum málum. Fylkingin virðist ekki þurfa að taka á sig neina ábyrgð af bankahruninu í þessari umferð. Vinstri grænir fá góða kosningu á grundvelli þess að hafa verið utan stjórnar og Framsókn nær að rétta stöðu sína aðeins þrátt fyrir ábyrgð sína á einkavæðingu bankanna. Svo mikil sveifla í pólitíkinni er fyrst og fremst til marks um það ójafnvægi sem er í íslensku samfélagi. Oft er það svo eftir kosningar að þær marka nýtt upphaf. Því miður fær maður ekki slíka tilfinningu nú heldur er þessi niðurstaða frekar staðfesting á þeirri gríðarlegu óvissu sem við munum búa við á næstu árum í ljósi efnahagsaðstæðna okkar. Það er þó óþarfi að leggja árar í bát og byrja að örvænta - koma dagar koma ráð. Jæja læt þetta duga í bili. Óska þeim sem leiða endurreisina í íslensku samfélagi alls hins besta - hverjir svo sem þeir verða. Kveðja.

föstudagur, 24. apríl 2009

Kvöldið fyrir kosningar

Það sló mig þegar ég opnaði þessa síðu nú í kvöld að ég hef ekkert fjallað um kosningarnar og þann slag sem farið hefur fram í fjölmiðlum milli flokkanna um að betra sé að kjósa einn umfram annan. Ég hlustaði á viðræður við formenn flokkanna í kvöld með foreldrunum. Þetta var svona eins og að horfa á kappleik, hver hélt með sínu manni og úthúðaði andstæðingunum. Niðurstaða mín er að við erum ásamt djúpri efnahagslægð/krísu í djúpri stjórnmálakrísu. Stjórnmálamennirnir reyna að höfða til kjósenda með sömu slagorðunum og áður. En gömlu brellurnar sem gengu út á að lofa hinu og þessu eiga augljóslega ekki við lengur. Við þurfum að skera niður 50 - 60 milljarðar króna í ríkisfjármálum í október. Það er ekkert svigrúm til þess að fara í stórfellda niðurfærslu skulda - auðvitað verður að skoða hvert og eitt mál. Við þurfum að semja um gríðarlega skuldapakka í nágrannalöndum okkur. Er trúverðugleiki í málflutningi formannanna? Af hverju telur þetta fólk sig fallið til forystu - gengur það með sjálfhverfar væntingar um að það sé útvalið til þess að leiða þjóðina út úr þessum vandræðum? Getur þetta fólk skapað Íslandi trúverðugleika meðal nágrannaþjóðanna að nýju? Þetta voru spurningarnar sem leituðu á hugann milli þess sem maður lifði sig inn í kappræðurnar til þess að njóta allavega skemmtanagildis þáttarins sem var takmarkað. Slegðið var upp margvíslegum loforðum, mörgum lítt hugsuðum og óljósum sem samin eru upp af spunameisturum og auglýsingastofum - eitthvað sem geti höfðað til kjósenda sem flestir eru ekki í góðu jafnvægi vegna ástandsins. Einhvern veginn hef ég ekki sannfæringu fyrir því eins og forsætisráðherrann sagði að nú væri sögulegt tækifæri til að koma á félagslegum gildum með tveggja flokka vinstri stjórn. Ég held að nú sé lítið svigrúm fyrir hægri og vinstri isma. Ég tel að eigi að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir verði að setja dægurþras stjórnmálanna til hliðar og skipa þjóðstjórn eins og átti að gera strax í október í fyrra næstu tvö til þrjú árin. Tími Jóhönnu er ekkert kominn - hann er löngu liðinn. Þannig er bara staða málsins. Forveri Jóhönnu sagði í fimm dálka viðtali við Viðskiptablaðið 29. ágúst 2008 að það væri engin kreppa á Íslandi. Það vita allir að Samfylkingin hefur varið útrásarvíkingana með kjafti og klóm.Og þjónar enn vilja þeirra með því að berjast fyrir ótímabærri inngöngu í ESB. Nóg í bili. Kveðja.

fimmtudagur, 23. apríl 2009

Gleðilegt sumar!

Kirkjufell Loksins loksins eftir langan vetur er sumarið komið. Dagarnir lengjast, loftið hlýnar og maður fyllist þessari gleði yfir því að geta notið komandi sumardaga: "Þakka ykkur fyrir komuna. Ég vil aðeins biðja ykkur um eitt - haldið áfram að syngja og dansa." Þannig kvaddi hótelstýran okkur kórfélaganna um síðustu helgi þegar við vorum að fara aftur í bæinn. Á göngu okkar um bæinn kom fólk út í dyr og þakkaði okkur fyrir sönginn. Það er ekki til meiri forréttindi en að fá að vera öðrum gleðigjafi - þetta ættum við hafa í huga nú þegar víða kreppir að - lítið bors - velviljuð orð - samhugur þetta er það sem þarf til. Kveðja.

sunnudagur, 19. apríl 2009

Söngfélag Skaftfellinga - söngferðalag

Í Grundarfjarðarkirkju.
Við í Söngfélagi Skaftfellinga höfum verið á söngferðalagi um Vesturland þessa helgi. Hófum ferðina vestur í Grundarfjörð á föstudaginn og æfðum okkur í kirkjunni á staðnum. Kórnum var óvænt boðið í fimmtíu ára afmæli sem stóð fram eftir kvöldi með söng og dansi á föstudagskvöldið. Á laugardag var ekið í Stykkishólm og þar haldnir tónleikar í kirkjunni. Síðan voru tónleikar í Grundafjarðarkirkju í beit. Báðir þessir tónleikar tókust mjög vel en áheyrendur hefðu mátt vera fleiri. Lögin voru fjölmörg og fjölbreytileg - en óhætt að segja að gamlir smellir eins og "Úr fjarlægð" hafi fengið bestar undirtektir. Á leiðinni út í Stykkishólm var komið við í Bjarnarhöfn og þar voru safn og kirkja heimsótt undir leiðsögns Hildibrandar Bjarnasonar. Ferðin tókst í alla staði mjög vel. Kórfélagar minntust sérstaklega Sigurlínu Sjafnar Kristjánsdóttur, formanns kórsins sem lést fyrr í mánuðinum. Þess má geta að Friðirk Vignir Stefánsson kórstjórinn okkar var "Tóni" eða orgelleikari í Grundarfirði í átján ár. Þessi ferð vestur var svona ákveðið "come back" fyrir kórstjórann okkar. Á laugardagskvöldið var sameiginlegur hátíðarkvöldverður með ennmeiri söng og dansi. Mynd Jón Pétur Sveinsson. Kveðja.

miðvikudagur, 15. apríl 2009

Að lokum

Út á Vättern. Svona var útsýnið af tólftu hæðinni í dagsbirtunni. Hér sér út á Vättern eins langt og augað eygir. Í nærmynd er þakið á Tändsticks Museet (Eldspítusafnið). Þetta eru byggingarnar þar sem verksmiðjurnar voru áður til húsa og búið er að breyta þeim í stórmerkilegt atvinnuvegasafn Jönköping bæjar. Þarna eru einnig minni búðir og markaður á laugardögum. Það fer vel á því að óska Valda mínum til hamingju með afmælið. Það var á ljúfum degi sem þessum fyrir 27 árum sem hann fæddist.
Í átt að miðbænum. Þetta er útsýni úr íbúðinni til austurs í átt að miðbænum. Í Jönköping og Huskvarna búa að sögn um 150 þúsund manns. Háskólinn er mjög fyrirferðamikill í samfélaginu og hefur verið lagt mikið fé til uppbyggingar hans á undanförnum árum. Fullt af veitingahúsum eru þar og mikið af fólki á ferli. Upplifun dagsins var þegar afgreiðslumaðurinn í búðinni saup hveljur þegar hann sá kretitkort merkt Landsbankanum. Hún er mikil ábyrgð þeirra sem rændu "okkur" óflekkuðu orðspori.
Jönköping frá hæsta punkti. Keyrðum upp að kirkju og samkomuhúsi sem heitir Fjällstugan. Þar er þessi mynd tekin. Miðbær Jönköping er þar sem bryggjusporðurinn stendur út í vatnið en fjær sér til Huskvarna.

þriðjudagur, 14. apríl 2009

Annar í Jönköping

Sofiakirkjan.
Það er viðeigandi að birta mynd af kirkju í pistli frá Jönköping eða litlu Jerúsalem eins og Svíarnir kalla þennan bæ stundum sín í milli. Hér eru a.m.k. tuttugu og tveir ólíkir trúarsöfnuðir og eins víst að þeir geti verið fleiri vegna þess að þessar upplýsingar mínar eru þrjátíu ára gamlar. Einn besti vinur minn á námsárunum í Gautaborg var frá Jönköping. Á nemandakvöldi í skólanum barst í tal okkar trúmál. Ég hafði einhver orð um Votta Jehóva (VJ)sem gamli biskupinn okkar hafði varað svo sterklega við. Sagði eitthvað í þá veru að með slíku öfgafólki ætti ég enga samleið. Vinur minn horfði óvenju hvasst á mig við þessi ummæli yfir borðið. Skyndilega dró hann hárið í hnút aftan við hnakka og sagði: "Vertu nú ekki of viss um það Sveinn að ég geti ekki sannfært þig um að gerast Votti Jehova." Það fór sannast sagna um mig hrollur við þessi látbrögð. Saga hans var í sú að hann hafði alist upp sem Votti Jehova af strangtrúaðri móðir. Hann hafði meira segja stundað trúboð í húsum hér og þar. Eftir því sem leið á frásögn hans seig haka mín neðar og neðar. Vinur minn - gat þetta verið? Hann var í raun jafn gott sem landflótta frá Jönköping þessi vinur minn. Hann hafði efast og sagt sig úr söfnuðinum. Þar með var hann sem dáinn gagnvart fjölskyldu sinni og genginn djöflinum á hönd. Við höfum svo sem ekkert rætt þetta frekar í gegnum árin. Ég sagði honum í fyrra að ég hefði verið í Jönköping. Þá sagði hann mér að hann hefði komið í fyrsta sinn til Jönköping árið áður eftir meira en þrjátíu ár til þess að vera við jarðarför föður síns, sem hann hafði ekki hitt öll árin og var hann þó ekki VJ. Þetta hafði hann gert að áeggjan konu sinnar. Hann gat ekki fyrirgerfið föður sínum að hafa lokað á sig líka þar sem hann var ekki VJ. Þau mættu með tvö börn sín sem eru um tvítugt til þess að hitta ættingjana í fyrsta skipti. Hann var mjög tortrygginn gagnvart fólkinu í Jönköping og sagðist hafa orðið smeykur þegar börnin hans voru tekin tali án viðveru hans af ættingjum. Aðspurð sögðu þau hinsvegar að þau hefðu aðeins verið að segja þeim hvað væri gaman að hitta þau og hvað þau gleddust yfir því að hann ætti svo myndarlega fjölskyldu og hefði vegnað vel í lífinu: "Sveinn, þetta voru þau ekki tilbúin að segja beint við mig eftir öll þessi ár. Gagnvart mér hafði ekkert breyst. Ég var enn svo gott sem dauður. Enginn þeirra þorði að koma í eigin persónu og taka mig tali og gleðjast með mér yfir því hversu vel hafði ræst úr mínum málum þrátt fyrir allt." Ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa tilfinningumm hans við þessa frásögn, en henni fylgdu mörg velvalin orð. Svo haldið þið að við sem vorum ung á áttunda áratug síðustu aldar hafi aðeins verið að velta fyrir okkur Marx og Adam Smith. Ónei lífið getur verið flóknara en svo að efnahagsmál og pólitík sé það eina sem skipti máli. Kynni mín af Kalla urðu til þess að ég reyni ávallt að spyrja í þaula þegar ég ekki skil og taka engu sem gefnu. Nóg í bili. Kveðja.


mánudagur, 13. apríl 2009

Á tólftu hæð í Jönköping.

Sit hérna á tólftu hæð í háhúsi sem kallast Jätten og horfi til norðurs út í næturmyrkrið sem grúfir yfir Vättern. Einstaka ljóstýru má sjá á stangli sem speglast í sléttum vatnsfletinum. Í austri sér yfir miðbæ Jönköping og fjær sér til Huskvarna. Þar eru framleiddar saumavélarnar og vélbyssur sem byggja meira og minna á sömu tækni. Beint fyrir neðan háhúsið er eldspítusafnið fræga, Tändsticks Museet. Hér sá fyrsta eldspítan dagsins ljós í Jönköping. Mikið framfaraspor fyrir mannkynið en vinnuaðstæður í árdaga framleiðslunnar hafði hræðileg áhrif á fólkið sem vann við þessa framleiðslu. Það þjáðist af fosfóreitrun sem tók langan tíma að komast fyrir og hörmungar þess voru miklar. Við fórum frá Kristianstad í dag um hálfþrjú leytið. Komum við í upprunarlegu IKEA búðinni í Älmhult. Þær eru allar meira og minna eins þessar búðir en þessi er elst og hún er frekar lítil. Vorum komin hingað til Jönköping um sex. Ég er að velta því fyrir mér hvort ég eigi ekki að gerast baráttumaður fyrir því að Svíar hægi á akstrinum á þjóðvegum sínum með tilliti til allra þeirra dýra sem þeir drepa með hraðakstrinum. Í þrjátíu ár hef ég furðað mig á öllum þeim mikla fjölda af dýrum sem liggja eins og hráviði meðfram þjóðvegum landsins. Alldrei minnist ég þess að hafa lesið svo mikið sem eina grein um þessa hræðilegu meðferð á blessuðum dýrunum. Líklega finnst þeim betra að amast við hvaladrápi okkar Íslendinga og halda óbreyttum ofsahraða sínum á þjóðvegum Svíþjóðar enda landið stórt og langt á milli áfangastaða.

sunnudagur, 12. apríl 2009

Legið í bók Greenspans

Ég er búinn að liggja í bók Alans Greenspan, æviminningum fyrrum seðlabankastjóra USA. Bókin heitir "The age of turbulaence" eða upp á íslensku Öld vindhviða. Þessar ríflega 500 síður er skyldulesning fyrir alla þá sem hafa áhuga á efnahagsmálum. Það tekur nokkra daga að lesa sig í gegnum bókina en hún er vel þess virði og maður verður margs fróðari. Skilaboð Greenspans eru í stuttu máli að hafi maðurinn áhuga á því að ná betri "efnislegum gæðum" í þessari veröld þá sé kapítalismi með vel skilgreindann eignarétti besta leiðin til þess á ná árangri sem vitað er um - þetta megi lesa úr sögu mannkyns í gegnum aldirnar. Í raun telur hann að þetta sé eina leiðin til þess að ná langtíma árangri. Það verður fróðlegt að fylgjast með því á næstu árum hvaða árangri íslenskir sósialistar ná í því að afsanna þetta álit Greenspans og niðurstöður hins gamla Adams Smiths á 18.öld komist þeir til valda. Nema þeir taki upp stefnu Blairs og Browns í Breltandi og haldi áfram stefnu Margrétar Tatchers með "labour" ívafi "new labour" eins og þeir kölluðu það. Bestu kveðjur frá Svíþjóð.

Maríuvers

Maríukirkjan í Ystad

Nú máttu´ ekki, María, gráta,
meistarinn er ekki hér,
þar sem þú grúfir og grætur
gröfin og myrkrið er.

Líttu til annarrar áttar,
upp frá harmi og gröf:
Ljóminn af lífsins sigri
leiftrar um jörð og höf.

Sjá, já, nú sérðu, María,
sjálfur er Jesús hjá þér
upprisinn, ætlar að fæða
allt til nýs lífs með sér.

Syng því í sigurgleði.
Syng fyrir hvern sem er:
Kærleikans sól hefur sigrað,
sjálfur er Kristur hjá þér.



Sálmurinn er þýðing dr. Sigurbjörns Einarssonar á sálmi eftir sænsku skáldkonuna Ylvu Eggerhorn.(Heimild mbl.is)Sálumurinn var frumfluttur m.a. í Dómkirkjunni í dag.


Altari kirkjunnar. Kirkjan kallast Maríukirkja eftir ungri stúlku, Maríu sem af auðmýkt opnar hjarta sitt fyrir Guði. "Með umfangi sínu og háum turni vísar Maríukirkjan á vonina. Líttu í kringum þig, réttu úr þér, það er VON." Í turni kirkjunnar hafa meðlimir sömu fjölskyldu staðið vakt í áratugi til þess að vakta Ystad og blásið með vissu millibili í lúður til að gefa til kynna tíma dagsins. Fremst við altarið til vinstri er líkneski af Maríu og til hægri er Jóhannes sem minnir okkur á mikilvægi kærleikans í veröld okkar. Kveðja.

Gleðilega páska

Ystad Páskadagsmorguninn var tekinn með trompi hér í Stjánastað. Mjólkurduftslausu Freyjupáskeggjunum gerðu bræðurnir Jóhannes Ernir og Sveinn Hjörtur góð skil. Ekki laust við að mínir menn væru í sykursjokki næstu mínúturnar á eftir. Við höfum átt hér góða daga. Veðrið hefur verið ágætt og hægt að vera mikið útivið. Fórum niður til Ystad í gær og þræddum "Konstrunduna" sem er svon rúntur á milli antík staða (mest svona glerdót) og vinnustofa listamanna sem voru opnar fyrir gesti. Þetta er afar vinsæll rúntur hér í Skåne á þessum tíma og mikið auglýstur. Vinnustofur og heimili listamannanna eru merkt með áberandi hætti og svo er víða á kaffistofum búið að koma fyrir listmunum/málverkum. Síðan keyrðum við upp með ströndinni til Simrishamn og Kivíkur og Åhus þetta er mjög skemmtileg bíltúrsleið og margt að sjá á leiðinni. Það er værð yfir umhverfinu hérna í Hammar. Ljóst að margir Svíar hafa skotist í sumarhús eða eitthvað annað um páskana. Á morgun er ferðinni heitið til Jönköping og verður dvalið þar í nokkra daga áður en haldið verður heim á leið.

föstudagur, 10. apríl 2009

Páskahelgin

Páskahelgin loksins komin. Í Svíþjóð er vorið komið með sól og sumaryl. Við komum í gærkvöldi til Kristianstad svona um níu. Lögðum af stað að heiman klukkan eitt. Það er kominn sumartími hér þannig að þar er tveggja tíma munur á klukkunni. Ferðin gékk mjög vel. Fórum í loftið um rúmlega eitt. Vorum komin til Kaupmannahafnar um fjögur(sex) og náðum í sjö lestina yfir til Svíþjóðar. Bestu kveðjur og gleðilega páskahelgi.

fimmtudagur, 2. apríl 2009

Skotist til Eyja

Í dag fór ég í stutta ferð til Vestmannaeyja. Keyrðum austur á Bakka og tókum flugvélina þaðan. Flugið tekur sex mínútur. Segja má að stífur austanvindur hafi feygt vélinni yfir sundið út í Heimaey. Þegar fundurinn var búinn var kominn allhvass vindur, stíf austan átt, yfir 30 hnútar og ljóst að ekki yrði flogið í bráð. Þá var eini valkostur dagsins ferjan Herjólfur en áætluð brottför hennar var klukkan fjögur. Við skelltum okkur um borð. Ferðin gékk vel og var þægileg þar sem báturinn var á lensi til Þorlákshafnar. Kominn í bæinn klukkan 20.00. Það ryfjaðist upp fyrir mér að gamall sænskur skólafélagi minn sem fór til Vestmannaeyja í brælu fyrir margtlöngu sagði þegar hann kom til baka: "Sveinn jag har varit i helvete på jorden og átti við Herljólf." Kveðja