föstudagur, 24. apríl 2009

Kvöldið fyrir kosningar

Það sló mig þegar ég opnaði þessa síðu nú í kvöld að ég hef ekkert fjallað um kosningarnar og þann slag sem farið hefur fram í fjölmiðlum milli flokkanna um að betra sé að kjósa einn umfram annan. Ég hlustaði á viðræður við formenn flokkanna í kvöld með foreldrunum. Þetta var svona eins og að horfa á kappleik, hver hélt með sínu manni og úthúðaði andstæðingunum. Niðurstaða mín er að við erum ásamt djúpri efnahagslægð/krísu í djúpri stjórnmálakrísu. Stjórnmálamennirnir reyna að höfða til kjósenda með sömu slagorðunum og áður. En gömlu brellurnar sem gengu út á að lofa hinu og þessu eiga augljóslega ekki við lengur. Við þurfum að skera niður 50 - 60 milljarðar króna í ríkisfjármálum í október. Það er ekkert svigrúm til þess að fara í stórfellda niðurfærslu skulda - auðvitað verður að skoða hvert og eitt mál. Við þurfum að semja um gríðarlega skuldapakka í nágrannalöndum okkur. Er trúverðugleiki í málflutningi formannanna? Af hverju telur þetta fólk sig fallið til forystu - gengur það með sjálfhverfar væntingar um að það sé útvalið til þess að leiða þjóðina út úr þessum vandræðum? Getur þetta fólk skapað Íslandi trúverðugleika meðal nágrannaþjóðanna að nýju? Þetta voru spurningarnar sem leituðu á hugann milli þess sem maður lifði sig inn í kappræðurnar til þess að njóta allavega skemmtanagildis þáttarins sem var takmarkað. Slegðið var upp margvíslegum loforðum, mörgum lítt hugsuðum og óljósum sem samin eru upp af spunameisturum og auglýsingastofum - eitthvað sem geti höfðað til kjósenda sem flestir eru ekki í góðu jafnvægi vegna ástandsins. Einhvern veginn hef ég ekki sannfæringu fyrir því eins og forsætisráðherrann sagði að nú væri sögulegt tækifæri til að koma á félagslegum gildum með tveggja flokka vinstri stjórn. Ég held að nú sé lítið svigrúm fyrir hægri og vinstri isma. Ég tel að eigi að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir verði að setja dægurþras stjórnmálanna til hliðar og skipa þjóðstjórn eins og átti að gera strax í október í fyrra næstu tvö til þrjú árin. Tími Jóhönnu er ekkert kominn - hann er löngu liðinn. Þannig er bara staða málsins. Forveri Jóhönnu sagði í fimm dálka viðtali við Viðskiptablaðið 29. ágúst 2008 að það væri engin kreppa á Íslandi. Það vita allir að Samfylkingin hefur varið útrásarvíkingana með kjafti og klóm.Og þjónar enn vilja þeirra með því að berjast fyrir ótímabærri inngöngu í ESB. Nóg í bili. Kveðja.

Engin ummæli: