sunnudagur, 30. apríl 2006

Fylgst með afmæli konungs Svía.


Konungurinn 60 ára.
Við Brekkutúnsbúar eyddum góðri stund í morgun í að fylgjast með afmælis serimóníu í sænska sjónvarpinu í tilefni þess að Carl Gustaf Folke Hubertus konungur Svía var 60 ára í dag. Hringdum í Hjört í Svíþjóð og hann var líka að fylgjast með þessu. Konungurinn hefur unnið á með árunum og hefur náð töluverðri hylli landa sinna. Sagt er að hann hafi skorað marga punkta með framkomu sinni þegar Svíar syrgðu vegna Sunami atburðarins í Indlandshafi um þar síðustu áramót. Á námsárunum okkar í Svíþjóð 1975 - 1979 var CG ekki vinsæll. Fólk gerði gjarnan grín að honum og því að hann væri orðblindur. Skrifaði m.a. nafnið sitt við vígslu virkjunar í Trollhättan,"Cal Gustv". Svo komust Svíar að því á sinn vísindalega hátt sem þeim er einstaklega lagið að 500 þúsund Svíar ættu við þetta vandamál að stríða. Þá sáu menn ekki lengur ástæðu til þess að hæðast að orðblindu hjá konungi sínum, sem hafði viðurkennt þetta vandamál sitt opinberlega. Annars hafa þeir haft gaman af að hneykslast á ýmsum ummælum hans í gegnum tíðina. Hann hefur helst aldrei mátt segja neitt, en hefur nú ekki alltaf látið segjast í þeim efnum. En sem sagt Carl Gustaf fær bestu árnaðaróskir í tilefni dagsins. Hér komu í heimsókn í kvöld Valdimar og Stella. Annars verið mest heimavið skruppum aðeins á Hlíðaveginn til pabba og mömmu. Kveðja.

Viktoría prinsessa.
Árið 1977 fæddist svo Viktoría prinsessa. Hjörtur hafði mikinn áhuga frá fyrstu tíð af velferð Viktoríu prinsessu.Væntanlega hefur barnaheimilið séð fyrir því að börnin hefðu vakanadi áhuga á öllu er varðaði prinsessuna.

"Det sa bara klick"


Brúðkaupið 1976.

Brúðkaup Carls Gustafs konungs og Silvíu drottningar er einn af þessum minnisstæðu atburðum sem maður man alltaf eftir. Þetta var 19.júní 1976. Eftir vagnferð og bátsferð voru brúðhjónin hyllt við konungshöllina í Stockhólmi. Maður fylgdist með þessu brúðkaupi í beinni í sjónvarpinu og dagana og vikurnar áður voru öll blöð full af umfjöllun um væntanlegt brúðkaup. Þessi setning konungsins "Det sa bara klick" er ein af hans eftirminnilegu setningum í gegnum tíðina þegar hann var að útskýra fyrir fjölmiðlum af hverju hann væri að giftast þessari þýsku/brasilísku stúlku. Á íslensku: Það small til. Silvía vakti strax mikla athygli og vinsældir konungsins fóru að aukast með þessum ráðahag.

laugardagur, 29. apríl 2006

Frambjóðandinn.


Frambjóðandinn.
Ritstjórn annálsins tók meðvitaða ákvörðun um að birta þessa mynd af frambjóðanda Framsóknarflokksins í 19. sæti listans, þó að hann eigi ekki að vera pólitískur vettvangur. Það er ekki svo oft sem aðstandendur ritstjóra Brekkutúnsannáls fara í framboð og hvað þá í svo virðulegu sæti. Það er hafið yfir alla flokkadrætti þótt því sé hér haldið fram að samstarf Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafi verið bæjarfélaginu heilladrjúgt. Kópavogur er glæsilegasta bæjarfélagið á landinu og þótt víðar sé leitað. Samstarf þeirra Gunnars I. Birgissonar og Sigurðar Geirdals heitins er vafalaust sá þáttur sem mestu hefur varðað í þeim efnum. Þótt slíkt samstarf hljóti ávallt að byggja á breiðari grundvelli mikils fjölda fólks. Nú er bara að sjá hvernig framvinda kosninganna verður og hvaða niðurstöðu þær færa okkur næstu fjögur árin. Sr. Hjörtur hefur örugglega unnið vel fyrir þessu sæti á lista flokksins. Enda vandfundinn jafn eindreginn Framsóknarmaður. Hvernig á annað að vera þegar það er haft í huga að í tuttugu ár setti hann leiðara Þórarins Þórarinssonar og annarra framsóknarforkólfa á Tímanum. Auk þess sem hann hefur stýrt málgagni þeirra, Framsýn um árabil.

Heimsókn á Skagann.


Hús Haraldar Böðvarssonar á Akranesi.
Ég hef verið innan við 10 ára þegar ég fór með pabba upp á Skaga með Akraborginni og gékk framhjá þessu tilkomumikla glæsihúsi. Við vorum að fara horfa á Matta spila með Val gegn Skagamönnum. Þeir kunnu ekkert í fótbolta og spörkuðu miskunarlaust í fætur þeirra Valsara sem eitthvað gátu. Þannig var nú boltinn spilaður á sjötta áratugnum. Ég man þegar við vorum að fara á völlinn þá gengum við fram hjá þessu húsi. Ég held ég hafi bara aldrei gengið fram hjá húsi sem mér hefur þótt tilkomumeira.

Merkishjón.
Hér má sjá styttu af merkishjónunum Haraldi Böðvarssyni útgerðarmanni og eiginkonu hans Ingunni Sveinsdóttur. Hann stofnaði fyrirtæki sitt Harald Böðvarsson árið 1906. Fyrirtækið hefði orðið 100 ára í ár. Fyrirtækið var sameinað HB Granda hf árið 2004.
Rakst á eftirfarandi ummæli Haraldar tekin úr útvarpsviðtali 1964, sem lýsa vel frumkvöðlaanda og upphafi útgerðarinnar 1906: "Seldi hrossin og keypti bát."
"Sem ungur maður átti ég hryssu og hún eignaðist folöld. En svo seldi ég öll hrossin fyrir 200 krónur og keypti mér sex manna far með árum og útbúnaði. Svo var ég búinn að græða á þessum bát á stuttum tíma einar 400 krónur og þá langaði mig til að kaupa annan bát, en þá var ekki um að ræða róinn bát heldur mótorbát."

Kirkjuhvoll.
Við fórum á myndlistarsýningu Kjartans Guðjónssonar á Akranesi í dag. Sýningin er í uppgerðum prestsbústað sem heitir Kirkjuhvoll. Það er önnur sýning með verkum Kjartans í Seltjarnarneskirkju við eigum eftir að sjá hana. Á Akranesi sýnir Kjartan 22 málverk "typískur" Kjartan, konur, fiskar sjór,abstrakt. Sirrý var hrifinn af einni mynd sem hann nefndi Móna Lísa á Laugarveginum. Aðra mynd sáum við sem við vorum hrifin af kona,blóm,fiðrildi ef ég man rétt. Við eigum tvær myndir eftir Kjartan. Vona að hann verði ekki illur þótt ég tali um "typískan" Kjartan þar sem ég hef ekki löggiltan myndlistarsmekk. Eins og kunnugt er þolir hann illa ummæli lærðra listfræðinga.

Á haf út.
Séð út á haf, Faxaflóa, úr vesturglugga Kirkjhvols á Akranesi.

miðvikudagur, 26. apríl 2006

Tvö fróðleg erindi um RÚV og hnattvæðingu.

Ég hef hlýtt á tvo áhugaverða en ólíka fyrirlestra í þessari viku reyndar báða á þriðjudaginn. Sá fyrri var í Rótarý þar sem útvarpsmaðurinn góðkunni Jónas Jónasson gerði grein fyrir starfi sínu og fyrstu kynnum að RÚV. Hann sagði okkur hvernig RÚV hefur þróast frá árdögum þess og til dagsins í dag. Lýsti ýmsum þjóðkunnum starfsmönnum útvarpsins í gegnum tíðina og lék þá suma og upplýsti hversu frábærir listamenn margir þeirra hefðu verið. Lokapunktur í erindi hans var að RÚV geymdi mikil menningarverðmæti sem mættu ekki glatast. Hinn ræðumaðurinn var Englendingur, mr. Q. Peel sem vinnur við Financial Times, sem hélt erindi á aðalfundi SA. Hann fjallaði um hnattvæðinguna, kosti hennar og galla og mikilvægi fyrir þjóð eins og okkur Íslendinga. Hann kom víða við í erindi sínu og er of langt mál að tíunda það allt saman. Hann minnti á að hnattvæðingin væri ekki sjálfgefin. Það gæti farið svo að bakslag kæmi í hana ef þjóðir heims yrðu hræddar´við þessa þróun. Mikil hætta væri á því að USA mundi draga sig í skel og loka sig af gagnvart umheiminum. Erfið staða þeirra í Írak væri vatn á millu þeirra sem töluðu fyrir einangrunarstefnunni. USA ætti óuppgert um afstöðu sína til Kína þótt viðskipti hefðu aukist mikið og þeir hefðu ótvírætt hagnast á þeim viðskiptum. Evrópusambandið væri valkostur sem Íslendingar ættu að skoða. Smáþjóðir virtust njóta þess að vera innan sambandsins. Þó væru blikur í ýmsum aðildarlöndum vegna þess að hagvöxtur í þeim væri ekki nógu mikill sbr. Þýskaland og Frakkland. Ákveðinn ótti væri við það á vesturlöndum að fólk frá Austur - Evrópu færi að flæða inn á vinnumarkaðinn og gerði stöðuna á vinnumarkaðnum enn erfiðari. Niðurstaða hans var sú að í hnattvæðingin væri staðreynd hún væri aðeins að byrja og væri drifin áfram af nýjustu fjarskiptatækni, símum og netinu. Hnattvæðingin væri langt í frá sjálfgefin aðstæður gætu breyst snögglega og leitt til þess að hún stöðvaðist. Það væri óheppilegt vegna þess að hún leiddi ótvírætt til aukinnar hagsældar í heiminum, líka í hinum fátækari löndum heims. Nefndi hann dæmi um það hversu hlutfall þeirra sem lifa á einum dollara á dag hefði fækkað mikið á síðastliðnum árum. Með því að fara inn á eftirfarandi slóð má hlusta á erindið: http://sa.is. Jæja hef þetta ekki lengra. Kveðja.

mánudagur, 24. apríl 2006

Dutlungafullt veður, eldgosumræður og kóræfing.

Það er óhætt að segja það að veðrið getur verið dutlungafult á Íslandi. Við erum nýbúin að fagna sumri þegar vetur konungur tekur aftur völdin. Í morgun var alhvít jörð með 5 cm snjólagi. Maður byrjaði morgunstörfin á því að skafa snjó af bílnum. En það er ekkert frost í jörðu og svo hlýnaði þegar leið á daginn og snjórinn var horfinn er líða tók á daginn. Skaftárhlaup er í rénun í dag. Jarðfræðingar velta því fyrir sér og telja sig hafa vísbendingar um það að aukin eldvirkni í Vatnajökli gæti leitt til þess að eldgos verði á því sigkatlasvæði þar sem jökulhlaup í Skaftá eiga upptök sín. Þetta minnir okkur á hversu mikil eldvirkni er víða á Suðurlandi. Hekla er talin vera í ham til þess að geta gosið svo og Eyjafjallajökull, Katla og víða í Vatnajökli. Nú að maður minnist ekki á Lakagíga. Sagt er að jökulhlaup við Kötlugos séu allt að fimmfalt kröftugri en Skeiðarárhlaup eins og við upplifðum það fyrir nokkrum árum. Áhrif þess gæti náð allt til Kanaríeyja og valdið þar flóðbylgjuáhrifum. Þetta var nú umræðuefnið í hléi á æfingu með Sköftunum í kvöld. Enda stendur þetta umræðuefni nærri Skaftfellingum. Niðurstaðan var engin "what will be will be." Annars var þetta síðasta æfing vetrarins. Næst verða haldnir tónleikar og sunnudagskaffi fyrir eldri eldri Skaftfellinga þann 7. maí næstkomandi og eru allir Skaftfellingar hvattir til þess að mæta og hlusta á kórinn og spjalla við gamla sveitunga sína. Ég hef haft mikla ánægju af kórstarfinu í vetur. Tenórinn hefur verið öflugur og mætt vel en því miður hafa aðrar raddir átt í vandræðum vegna mætina. Þetta þykir óvenjulegt því yfirleitt eru vandræði með tenórraddir í svona blönduðum kórum. Hápunktar vetrarstarfsins eru að sjálfsögðu tónleikar fyrir jól á heilbrigðisstofnunum og svo æfingahelgin í Sólheimum. Hef þetta ekki lengra í bili. Kveðja.

sunnudagur, 23. apríl 2006

Í fermingarveislu.

Við fórum í fermingarveislu tveggja yngismeyja í dag, þeirra Agnesar og Andreu tvíburasystra hennar Stellu. Fallegar og stórglæsilegar stúlkur. Þetta er eina fermingaveislan sem við förum í í ár þar sem við misstum af þremur fermingum í fjölskyldu Sirrýjar helgina sem við fórum til Frakklands. Við höfum verið heimavið í dag. Fylgst með fréttum af Skaftárhlaupinu sem nú er sagt í rénun. Mun hlaupið hafa verið um 636 rúmmetrar á sekúndu þegar best lét. Maður er búinn að hlusta á Dóra stórbónda að Ásum í hverju viðtalinu á fætur öðru. Einng hefur verið rætt við Flögubændur, þá syni Sveins og Gísla. Mikið er nú fróðlegt og ánægjulegt að fylgjast með fréttum af þessu jökulhlaupi og fá smá frí frá vígvallafréttum heimsins. Þessu Skaftárhlaupi hefur verið gerð mjög góð skil í fréttum allra fjölmiðla.

Skaftárhlaup

Við höfum mest verið heimavið í dag. Höfum fylgst með fréttum af Skaftárhlaupi sem nú stendur yfir. Mikið vatn rennur í Skaftá og kemur það úr kötlum Vatnajökuls. Skaftá rennur niður Skaftártungudal og fer vatnshlaupið í Eldvatnið sem rennur fram með Ásum í Skaftártungu og rennur svo í Kúðafljótið. Prestshjónin og Þórunn og Svenni eru á Klaustri. Annars ekkert að frétta af okkur. Skruppum aðeins í búðir í dag. Jú ég gleymdi því að við fengum skoðun á Súbban okkar. Þannig að við erum með ársskoðun á báðum bílunum. Það er merkilegt hvað þessi tæki endast vel. Kveðja.

Mynd:mbl.is

fimmtudagur, 20. apríl 2006

Á sumardaginn fyrsta.

Höfum verið heimavið í dag. Maður hefur verið í ýmsum smáverkefnum. Tók aðeins til í bílnum. Ég fór með jeppann í skoðun í gær og fékk skoðun á hann. Það létti nú á manni að klára það verk. Ég er með svona " fóbíu" gagnvart því að fara í skoðun með bíla. Fæ alltaf kvíðaköst yfir því hvort maður komist í gegn um skoðunina og fái miða. Nú fer Súbbinn á verkstæði á morgun og í skoðun á eftir. Það verður fróðlegt að sjá hvernig honum vegnar. Hann er orðinn lúinn greyið. Maður hefur ekki verið í stuði til þess að fara í að fjárfesta mikið í bílum. Nennum ekki að skuldsetja okkur vegna þess. Hingað litu við í dag Björn og hundurinn Sunna og Valdi og Stella. Við heyrðum frá Ingibjörgu og Hirti í Svíþjóð. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

miðvikudagur, 19. apríl 2006

Gleðilegt sumar!


Nafni minn.
Já gleðilegt sumar allir bloggvinir. Ég fann nú ekkert sumarlegra en þessa fínu mynd af honum nafna mínum í Svíþjóð og við sendum honum og fjölskyldu hans sérstaka sumarkveðju. "Nú er sumar, gleðjist gumar, gaman er í dag. Brosir veröld víða, veðurlagsins blíða. :,:Eykur yndishag. :,: " segir í ljóðinu. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvaða minningar væru tengdar sumardeginum fyrsta. Hér áður fyrr var þetta dagurinn sem kom manni alltaf svolítið á óvart, svona "semi" sautjándi júní. Maður undraðist það að þennan dag var yfirleitt aldrei komið neitt sumar. Það átti jafnvel til að snjóa þennan dag. En dagatalið lætur ekki að sér hæða hvernig svo sem veðrið er þennan ágæta dag. Sagt er að þegar vetur og sumar frjósi saman viti það á gott sumar. Þetta er sannarlega í anda bjartsýnismanna að halda einhverju svona á lofti þegar veðrið er ekki í takt við þetta fallega nafn "sumardaginn fyrsta". Þessi dagur tilheyrir leifum hins gamla bændasamfélagas og markar tímamót vonar og hækkandi sólar og endalok vetrarhokursins í torfbæunum. Hann er ekki ómerkilegri fyrir það en hefur samt ekki sömu merkingu og þá. Það er eins með lokadaginn á vetrarvertíð sem venjulegast miðast við 11. maí, ef ég man rétt. Hann hefur heldur ekki sömu þýðingu og áður. Það var dagurinn sem sveitamennirnir héldu heim á leið til þess að sinna skyldum sínum við bústörfin í sveitunum. Sigrún sagði reyndar í kvöld að það væri vorlykt í loftinu. Vonandi veit það líka á gott sumar. Einvhernveginn er það í mínu langtímaminni að ég hafi farið á fæðingardeildina að skoða Þórunni systur í fyrsta skipti á sumardaginn fyrsta. Allavega poppar það stundum upp í hugann. Ég tengi það því að þegar ég var á leiðinni á fæðingardeildina í heimsókn sá ég sveit skáta ganga með íslenska fánann nálagt Hafnarfjarðarveginum Fossvogsmeginn. Þar sem búðin stóð og nú eru brýrnar yfir Nýbýlaveginn. Það er nú svona ein sterkasta minningin frá uppvaxtarárunum. Þetta er skrifað að kvöldi 19. apríl en sumardagurinn er á morgun 20. apríl. Kveðja.

mánudagur, 17. apríl 2006

Í afmælisveislu hjá Þórunni Ingibjörgu.


Þórunn systir og vinnufelagi.
Við Sigrún Huld fórum í afmælisveislu til Þórunnar systur í dag og óska aðstandendur Brekkutúnsannáls henni til hamingju með afmælið. Einnig var haldið upp á afmæli Júlíusar frænda, yngsta sonar Þórunnar fyrir þá sem ekki vita það, en hann á afmæli 21. apríl næstkomandi. Að vanda var margt manna að fagna með henni. Þarna voru auk fjölskyldumeðlima hennar, foreldra og systkina hennar(vantaði að vísu Axel), Kolla og Sveingerður föðursystur okkar og svo Claus sonur Betu föðursystur okkar og sonur hans Hermann. Einnig leit Edda móðursystir okkar við. Annars höfum við verið mest heimavið hér í dag.

Sr. Hjörtur.

Svenni mágur, Hjörtur, Sunneva, Unnur og Árni.

sunnudagur, 16. apríl 2006

Á páskum.


Í Commessey.
Það kom okkur á óvart í Frakklandi að á föstudaginn langa voru allar búðir opnar. Við höfðum búist við því að allt væri lokað og helgin mikil eins og við eigum að venjast. Við keyrðum til Dijon þennan dag, sem er nú höfuðborg Búrgúndí og röltum þar um hluta af miðbænum. Enduðum á að fara þar inn í kirkju og vera við messu í nokkurn tíma. Þarna voru hundruðir manna í messunni og fólk var svona að koma og fara. Heilmikið var að gerast við altarið meðan við stoppuðum þarna við. Sungnir sálmar, spilað á orgel, kysst á krossa og presturinn sem talaði hafði einstaklega róandi rödd og góðan tón. Nú í gær fór allur dagurinn í að koma sér heim. Við vorum svolítið smeik við að finna ekki leiðina á flugvöllinn í París en það gékk allt eins og í sögu. Umferðin var öll út úr París og má segja að á hraðbrautinni í gagnstæða átt hafi verið bíll við bíl. Helstu kennileyti á leiðinni til Parísar eru þessi: (Commissey - Tonnerre - A6 hraðbrautin -A104 hraðbrautinn - Skylti sem segja Charles de Gulle aðeins inn á A1 hraðbrautina og bingó). Hér má sjá mynd sem Sirrý tók af okkur vinunum ásamt Inger og Ingunni eiginkonum Guðbjörns og Helga. Inger og Guðbjörn keyrðu 1400 km frá Svíþjóð til þess að vera með okkur þessa daga. Í gærkvöldi kom hér við Valdimar Gunnar hann átti 24 ára afmæli í gær blessaður. Í dag höfum við aðallega verið heima við. Byrjuðum á að borða páskaegg og hlusta á boðskap biskups um brandara guðs! Síðan höfum við unnið að því að eiga gleðilega páska. Hjörtur hringdi frá Svíþjóð. Hér komu í dag Hilda, Magnús og Vala Birna. Seinni partinn skruppum við í heimsókn til Höllu og Arnar og hittum þeirra fólk smá stund og Ellu og Sæma sem voru þar gestkomandi. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

laugardagur, 15. apríl 2006

Frakklandsferðin.


Miðaldahús.
Við erum komin úr Frakklandsferðinni eftir vikudvöl í húsi vina okkar Helga og Ingunnar í Commessey í Búrgúndí með tilheyrandi ferðum um héraðið. Ferðin tókst í alla staði mjög vel. Þessi mynd er frá Noyers í Búrgúndi en þar er að finna heillega þorpsmynd frá miðöldum. Þetta var ótrúleg upplifun að ganga um krákustíga í slíku þorpi og láta hugann reika aftur í aldir. Annars gékk ferðin út á það að smakka vín, borða góðan mat og kætast með góðum vinum. Ferðirnar í vínsmökkunarleiðangrum voru margar og spennandi.

Myllan.
Hér eru Sirrý og Helgi fyrir utan Mylluna í Commessey í Frakklandi. Ótrúlega heillandi staður.

Vínsmökkun.
Hérna eru ferðafélagarnir að hefja enn eina vínsmökkunina í ferðinni. Þau sem voru með okkur fyrir utan Helga og Ingunni voru Inger og Guðbjörn frá Svíþjóð, Sirrý og Villi sonur hennar frá Koblenz í Þýskalandi, Vinnufélagar helga Þóra og hennar maki Júlíus og Nanna og hennar maður Smári (frændi). Frábær og vel samstilltur hópur.

Véseley.
Þetta er kirkja heilagrar Maríu Magdalenu í Véseley í Frakklandi. Í þessari kirkju eru geymd bein Maríu Magdalenu og þetta er einn af upphafsstöðum pílagríma sem fara í pílagrímaferðir til Santiago de Componstella á Spáni. Meira um þær síðar.

föstudagur, 7. apríl 2006

Ungfrúin í þjóðbúningi.


Sigrún Huld.
Langt síðan maður hefur skrifað nokkrar línur. Mikið verið að gera í vinnu þessa vikuna. Dagarnir líða einn af öðrum. Var á Fiskiþingi í dag og hlustaði á umræðu um umhverfismál. Sigrún Huld tók þátt í peysufatadegi Kvennaskólans í dag. Mætti í dans og húll um hæ niðri í bæ í þjóðbúningi með öllu tilheyrandi. Valdimar fékk að vita að hann yrði ráðinn sumarmaður í lögreglunni í Reykjavík í dag. Sunna er farin heim til sín. Þetta eru nú helstu fréttir nú um stundir. Kveðja.

mánudagur, 3. apríl 2006

Sólheimar í Grímsnesi.


Sólheimakirkja.
Ég fór með Sköftunum í kórferðalag um helgina austur í Sólheima í Grímsnesi. Farið var á laugardeginum. Æft um daginn og sungið fyrir opnu húsi í lok dags. Farið í göngutúr eftir æfingar, sameiginlegur kvöldverður og kvöldvaka að honum loknum. Gist var um nóttina, æfðir um morgunin nokkrir sálmar og sungið í messu á sunnudeginum í Sólheimakirkju. Að loknu kirkjukaffi var svo brennt í bæinn um kl.17.00 eftir skemmtilega og gefandi stund með kórfélögum. Meðfylgjandi mynd er tekin upp á hæðardraginu sem skýlir þorpinu niðri í kvosinni. Efst á hæðardraginu fyrir ofan þorpið er Sólheimakirkja. Enn bætist í kirkjumyndasafnið mitt á þessum vef. Veður var heiðskírt, norðan gjóla á köflum frekar kalt á laugardeginum en hlýnaði aðeins á sunnudeginum. Þarna búa um 110 manns í þessu þorpi. Rekin eru heimili og vinnustaðir fyrir þroskahefta. Aðstaða er einnig fyrir einstaklinga sem eru að afplána fangelsisdóma og eru að undirbúa sig undir það að fara út í lífið að nýju.

Kirkjusöngur í annað skipti


Kórfélagar við undirbúning messu.
Hér má sjá kórfélagana raða nótum sínum rétt áður en messan hófst. Allir klárir í söngkjólum og smóking.