miðvikudagur, 27. júlí 2005

Ferð um Vestfirði.


Silfurtorg á Ísafirði.

Lítið verið skrifað undanfarna dag enda höfum við verið á ferðalagi um Vestfirði og skutumst til Akureyrar í leiðinni til að heimsækja nafna og foreldra hans. Við fórum á fimmtudaginn í síðustu viku. Lögðum af stað seinni partinn og keyrðum um Dali í Reykhólasveit. Við gistum í Djúpadal á Barðaströnd. Þar er þessi fína einkasundlaug sem gott var að heimsækja um miðnættið. Daginn eftir var ferðinni haldið áfram til Ísafjarðar. Þar var dvalið á Hótel Eddu í tvær nætur og tímanum eytt í að skoða nánasta umhverfi og heimsækja ættingja og heilsa upp á kunningja og frændur sem við hittum á Silfurtorgi. Við skruppum yfir á Suðureyri og til Flateyrar. Á Suðureyri skoðuðum við steinda glugga í kirkjunni sem eru afar fagurlega gerðir. Vestfirðir eru enn hin leynda perla Íslands það virðast allavega ekki vera margir ferðamenn sem leggja leið sína þangað. Að ferðast í sól og sumaryl um Vestfirði er engu líkt. Á sunnudaginn fórum við til Akureyrar og áttum góða stund hjá Svenna og foreldrum hans. Vorum í aðallega í miðbænum og nánasta nágrenni í yndislegu sumarveðri. Veðrið í dag hefur verið yndislegt hérna fyrir sunnan þannig að það er ekki hægt að kvarta yfir neinu.

mánudagur, 18. júlí 2005

San Francisco - "my kind of town".


San Francisco - Golden Gate Bridge.

Já þriðji fasinn í Ameríkuferðinni var fjórir dagar í SF. Við áttum góða daga í þessari skemmtilegu borg. Bjuggum á Holliday Inn í Fisherman's Warf hverfinu niður við austurbakkann sem snýr inn að flóanum, nálægt Pier 39 fyrir þá sem þekkja borgina. SF er svolítið Evrópsk að mínu mati með Amerísku ívafi ef það segir eitthvað. Þetta er borg sem maður getur vel hugsað sér að heimsækja aftur. Fórum í skoðunarferð um borgina og sáum helstu kennileiti og borðuðum Alaska krabba, mjög góður. Þegar hér var komið sögu vorum við komin plebbagírinn þ.e. eyddum tímanum í búðar- og sjoppurölt. Verð þó að segja það að California vínin voru ekkert sérstaklega ódýr þarna. Ég segi því SF var "my kind of town" þótt þetta sé í textanum í laginu um Chicago borg. J æja ég læt þá staðar numið í bili með frásagnir úr Ameríkuferðinni. Sýni ykkur kannski seinna mynd af sólsetri yfir Grand Canyon. Annars er það helst að frétta að við erum aftur komin í sumarfrí. Vorum að ditta að húsinu og eigum heilmikið ógert í garðinum. Við sjáum til hverju við áorkum í þeim efnum. Kveðja.

laugardagur, 16. júlí 2005

Stiklur frá Ameríku.


Las Vegas.

Við heimsóttum þrjár borgir: San Francisco, Salt Lake City og Las Vegas. Vorum á þessu margfræga "Stripp" í Vegas með fjölda hótela og spilabúlla. Þarna mátti sjá eftirlíkingu af frelsisstyttunni í NY (sjá mynd) og Eifelturninum í París. Er hægt að biðja um meira? Það sem situr eftir þennan eina dagpart í Las Vegas er;" been there done that". Ég heyrði þó good old Frankie blueboy syngja "May way" af plötu inn á einhverri búllunni. Það er liðin sú tíð þegar "The Rat Pack Gang" tróð þarna á sviðum þ.e. Dean Martin, Sammy Davis, Frank Sinatra, Sirley Maclaine og Peter Lawford eða gamli góði Engelbert Humperdink söng ljúfar ballöður. Nei Las Vegas er örugglega ekki mín borg. Eftir þessa stuttu viðkomu í eyðimerkurborginni í Nevada var flogið til San Francisco og hófst þá síðasti fasi þessarar ferðar sem ég hef verið að segja ykkur nokkur brot úr.

miðvikudagur, 13. júlí 2005

Um Arisona.


Bryce Canyon.

Aðeins meira um Ameríkuferðina. Þessi heimsókn í gilin þrjú Bryce, Zion og Grand Canyon og í Monumental Valley verður lengi minnistæð. Þetta eru þvílík náttúruundur að það duga engin lýsingarorð til þess að lýsa þessum náttúruperlum. Ég set hér eina mynd af Bryce Canyon til þess að reyna að lýsa því gili. Myndin nær þó ekki að fanga þetta fyrirbæri nema að hluta, víddir þess, seiðmagnandi þögul kyrrð og litir verður maður að upplifa á staðnum. Ég kann ekki jarðsögulega myndun þeirra en, held að það sé sorfið í sandstein í gegnum árþúsundin. Gæti verið Colorado árin. Annars lítið í fréttum. Þema lagið úr Good, Bad and The Ugly með Clint Eastwood satt pikkfast í kollinum á leið okkar í gegnum Arisona. Annars er það helst að frétta að nafni og foreldrar hans fóru norður með viðkomu í Borgarnesi. Valdi er á fullu í vinnu svo og við hérna í Brekkutúni. Stella og Sigrún hafa verið að hjálpa til tímabundið í minni vinnu. Við förum í frí aftur 15. júlí en það er allt óákveðið hvað við gerum. Það fer líklega eftir aðstæðum og veðri.

mánudagur, 11. júlí 2005

Helgarferð í Refasveit.


Laxá í Refasveit.

Þessa helgina var farið norður í Laxá í Refasveit með Helga og Ingunni. Við reyndum við laxinn á laugardeginum og áttum sameiginlega veislustund um kvöldið við kertaljós. Sunnudagurinn fór í hvíld og ökuferð um Skagann. Þetta er búin að vera mjög góð helgi. Við erum þó enn að glíma við tímamuninn eftir Ameríkuferðina en þetta hefst allt með kalda vatninu. Veðrið á laugardeginum var þolanlegt ca. 10 °C hiti en á sunnudeginum fór hitinn í 14°C en það var rok.
Eftirminnilegast í sunnudagsbíltúrnum var heimsókn og matur í Kántrýbæ (vöggu íslenskrar kántrýtónlistar!!!) og svo í Kálfshamarsvík, en þar bjuggu allt að 100 manns þegar best lét á fyrri hluta 20. aldar. En um 1940 flutti sá síðasti frá þessum útgerðarstað utarlega á Skaganum. Af upplýsingaskiltum sem voru við gömul húsastæði mátti sjá að ýmsir höfðu haft fyrir því að flytja efnið í húsunum með sér á nýja áfangastaði. Lögðum af stað í bæinn eftir bíltúrinn kl. 17.30.

föstudagur, 8. júlí 2005

Frændfólk meðal mormóna.


Frændfólk í Utah.

Okkur þótti sérstakt í heimsókn okkar til Spanish Fork að hitta fyrsta kvöldið frændfólk Sirrýjar. Þannig var að við sátum til borðs með 14 manns í ca. 400 manna samkvæmi. Það var hrein tilviljun að við sátum einmitt við þetta borð. Sirrý tekur eftir því að maður við borðið er að sýna fólkinu við annan enda þess miða með nafni á. Þetta vekur forvitni hennar og hún kallar eftir miðanum. Á honum stendur: Einar Bjarnason, Hrífunesi, Skaftártunga. Hún varð hvumsa við og sagði strax að þetta væri forfaðir sinn í móðurætt. Þarna var komið nafn eiginmanns Guðrúnar Jónsdóttur sem farið hefði ásamt 3 dætrum og syni til Utah. Maðurinn með miðan reyndist vera amerískur afkomandi Guðrúnar og frændi. Hann hafði svo gaman af þessum endurfundum að hann hló meira og minna allt kvöldið. Daginn eftir kynnti hann okkur fyrir bróður sínum og systur. Á myndinni má sjá frændurna Krage, Kent, Elísabetu(eiginkona Kents) og Kate. Kent hefur komið tvisvar til Íslands og þekkir einhverja af afkomendum sr. Bjarna Einarssonar prests í Álftaveri. Hann býr aftur á móti í Mitchican í USA og var þarna gestur eins og við. Stundum finnst manni veröldin skreppa saman.

miðvikudagur, 6. júlí 2005

Komin heim frá Utah.


Utahfarar við vitann góða.

Við erum komin heim eftir 14 daga ferð til California, Utah, Arisona og Nevada. Með viðkomu í San Francisco, Salt Lake City, Las Vegas og ýmsum öðrum minni bæjum og borgum þ.a.m. Spanish Fork. Við tókum yfir 300 myndir og ferðasagan tæki margar síður. Látum þessa mynd nægja því Utah heimsóknin var hápunktur ferðarinnar þrátt fyrir mörg önnur "highlights" eins og gilin stóru Bryce, Zion Park og Grand Canyon. Siglingu á Lake Powell, heimsókn á verndarsvæði Navaho indjána m.m. Megintilgangur ferðarinnar var að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni 150 ára afmælis þess að fyrstu íslensku mormónarnir komu til Utah. Langalanga amma Sirrýjar var meðal þeirra og er nafn hennar að finna á vitanum góða sem sjá má á myndinni. Við flugum frá San Francisco til Salt Lake City og frá Las Vegas aftur til SFO. Alls munum við hafa keyrt nálægt 2500 km í rútu. Það er frá Próvo til Las Vegas með ýmsum aukaferðum.