sunnudagur, 5. ágúst 2012

Séra Hjörtur Hjartarson


Sr Hjörtur Hjartarson, fyrrverandi sóknarprestur er látinn, 81 árs að aldri.
Hjörtur var fæddur 8. desember 1930 og ólst upp á Ísafirði. Foreldrar hans voru Jensína Sveinsdóttir húsmóðir frá Gillastöðum í Reykhólasveit og Jón Hjörtur Finnbjarnarson prentari á Ísafirði.
Hjörtur lauk sveinsprófi í prentiðn frá Iðnskólanum í Reykjavík 1954 og hlaut meistararéttindi í iðninni 1972. Hann starfaði við prentiðn framan af starfsævinni og var aðalféhirðir hjá Ferðaskrifstofu ríkisins frá 1976 til 1988.
Þá söðlaði Hjörtur um og hóf nám í guðfræði við HÍ. Hann vígðist til prests að Ásum í Skaftártungu 1990 og einnig þjónaði hann sem prestur í Kópavogi og í Grindavík.
Hjörtur var virkur í félagsmálum í Kópavogi og sat í bæjarstjórn þar frá 1974 til 1978. Hann var félagi í karlakórnum Fóstbræðrum og söng á sínum tíma með Fjórtán fóstbræðrum. Hann var ritstjóri Þjóðmála og Framsýnar, blaðs framsóknarmanna í Kópavogi. Þá ritaði hann greinar í blöð og tímarit um stjórnmál og guðfræðileg málefni.
Eftirlifandi eiginkona Hjartar er Unnur Axelsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn, þrettán barnabörn og átta barnabarnabörn. (Mbl.is 28.7.2012)

þriðjudagur, 10. júlí 2012

Hólmsá frá Flögulóni að Strútslaug.

Við gengum fjóra daga með fram Hólmsá í Vestur – Skaftafellssýslu í ár, félagar í gönguhópnum Skálm. Ýmist var gengið um áfrétti Álftvers eða Skaftártungu. Ásamt okkur Skálmurum var fríður hópur helstu náttúrufræðinga landsins með í för. Hann kunni skil á flestu sem fyrir augun bar.  Ónefndur er enn sá er fyrstan skyldi telja sjálfur farastjórinn Vigfús Gíslason frá Flögu í Skaftártungu. Það fór ekki milli mála að þar fór maður sem þekkti leiðina eins og lófann á sér. Jafnt fjalla- og dalasýn, árgil, fossa og dýralíf. Víða mátti sjá helsingja- og grágæsahópa í sárum.

Þetta er fjórða skiptið sem ég fer í óbyggðagöngur með Skálmurum. Mitt helsta vandamál fram til þessa hefur verið að bitmýsvargurinn. Hann hefur lagst á mig og dregið úr mér kraft vegna sterkra ofnæmisviðbragða við þessum kvikindum sem kalla á slævandi ónæmislyf. Nú brá svo við að ég slapp alveg við bit.

Það var gengið um 10 til 18 km á dag og gist í tjöldum þrjár nætur. Björgunarsveit Skaftártungu trússaði í ferðinni og tókst það með ágætum. Veðrið lék við okkur allan tímann og ekki kom dropi úr lofti.   

Fyrsta daginn var gengið þaðan sem Öldufellsleið byrjar. Farið var meðfram Hrífunesheiði á Atlaeyjarmelum norður fyrir Atley og þar farið á gúmmíbáti austur yfir Hólmsá og áð fyrstu nóttina í Villingaskógum. Næsta dag var gengið að Hólmsárfossi áfram upp með ánni að Tjaldgili þar sem við gistum alls rúmlega 17 km. Þriðja daginn var gengið framhjá Axlarfossi. Brytalækir voru skoðaðir og gengið að Svartafellstanga. Fjórða daginn var svo gengið í Rauðbotn meðfram Hómsárlóni og stoppað í Strútslaug þar sem hægt var að skola af sér ferðarykið. Þá var gengið vestur fyrir fjallið Strút. Þangað sóttu björgunarsveitarmenn í Skaftártungu og Álftaveri okkur og skiluðu okkur aftur til byggða. Ferðalaginu lauk svo með sameiginlegri máltíð í Tunguseli á sunnudagskvöldinu. Þetta var í einu orði frábær ferð.

mánudagur, 2. júlí 2012

Laxá í Refasveit opnuð.

Refasveit

Fór norður í Laxá í Refasveit um helgina síðustu. Þetta var opnunarhelgi sumarsins og fengust tveir laxar. Við gengum niður með ánni neðan þjóðvegar og hirtum rusl sem var á vegi okkar á laugardeginum. Grilluðum um kvöldið og fögnuðum sumri. Sunnudaginn renndum við svo fyrir lax. Veðrið var einstaklega gott þessa helgi og fór hitinn í allt að 17°C yfir daginn. Varla sást skýhnoðri á lofti þessa tvo daga. Brunað var í bæinn á sunnudagskvöldið. Þarna var maður í einangrun frá skarkala heimsins og forsetakosningunum. Það fór eins og kannanir höfðu spáð að forsetinn fékk meirihluta atkvæða. Nóg í bili....

sunnudagur, 24. júní 2012

Skemmtilegustu kaupin

Fyrir meira en þremur áratugum keypti ég abstrakt málverk eftir Karl Kvaran listmálara. Gunnlaugur Þórðarson hæstaréttalögmaður stóð fyrir sýningu á verkum hans í matstofu stjórnarráðsins í Arnarhvoli en þar vann ég um tíma. Uppi um alla vegi matstofunnar sem er í kjallara hússins hengdi hann upp myndirnar og lífguðu þær mjög upp á stofuna. Einn daginn var ég seinn fyrir í mat og við vorum aðeins tveir í matstofunni á sitt hvoru borðinu. Við tókum tal saman og ég hafði einhver orð um það að mér þætti sýningin athygliverð, þótt ég væri ekki vanur svona abstrakt verkum. Gunnlaugur upplýsti mig um að verk af þessu tagi krefðust þess að maður tæki afstöðu til þeirra. Það skipti ekki máli hvort manni þætti þau vera falleg eða ljót. Þau mundu ekki láta mann í friði og krefðust ávallt afstöðu. Síðan spurði hann mig hvort ég væri hrifinn af einhverri sérstakri mynd. Ég benti á mynd sem ég var hrifinn af og heitir Nóvember morgunn. Hann bauð mér hana til kaups en ég sagðist ekki hafa efni á að kaupa hana. Þá svaraði hann að bragði að þetta snérist ekki um hvort maður hefði efni á að kaupa, heldur hvernig maður treysti sér til þess að greiða myndina. Ég fór þá í næsta skjól og sagðist ekki "þora" að kaupa svona dýra mynd nema spyrja konuna mína fyrst. Þá hnussaði Gunnlaugur og sagði að hann ætti eitt stærsta einkasafn málverka. "Það get ég sagt þér að ef ég hefði einhvern tíma spurt konuna mína hvort ég mætti kaupa mynd. Þá ætti ég enga mynd," sagði Gunnlaugur. Ég var mát og við fórum að ræða verðið og ég sagði eins og var að ég ætti enga peninga. "Þetta er bara spurning um tíma, hvað viltu langan tíma?" Hann dró upp stóran bunka af víxileyðiblöðum og byrjaði að telja þá. Okkur samdist um að ég mundi greiða myndina á einu ári. Þess má geta að ég á enn þessa víxla til minningar um þessi skemmtilegu kaup. Þeir lentu í eigu manns sem hafði innrammað þessar myndir og var alltaf mjög gaman að koma til hans að greiða þá. Það var ekkert verið að senda þá í banka til innheimtu. Ég var svolítið kvíðinn þegar ég hringdi heim til að segja frá tíðindunum. Við vorum að fjárfesta í íbúð og málverk var ekki efst á innkaupalistanum. Sirrý hefur mjög gaman af að segja frá því þegar ég hringdi í hana úr vinnunni og bað hana að setjast niður, því ég þyrfti að segja henni svolítið. Það er skemmst frá því að segja að hún tók þessum tíðindum mjög vel og við höfum notið þessarar myndar bæði öll árin og erum ekki leið á henni.

sunnudagur, 10. júní 2012

Á Austurvelli.

Eftirminnilegasti atburður vikunnar verður vafalítið samstöðufundurinn á Austurvelli til að mótmæla fyrirliggjandi frumvörpum um veiðigjöld og stjórn fiskveiða. Það segir meira en margt annað að á fundinn mættu tvöþúsund manns og í höfninni voru yfir 80 fiskiskip þennan dag. Það kom óvart að þarna var mættur nokkur hópur fólks, sem lagði sig fram um að yfirgnæfa ræðumenn fundarins. Það tókst ekki að þagga niður í ræðumönnum, þvert á móti juku þeir raddstyrk sinn og fluttu mál sitt skörulega. Það er í raun sorglegt að fólk sé svo rökþrota í andófi sínu að það mæti til þess eins að púa á ræðumenn til að þagga niður í fólki. Hvar er lýðræðið, hvar er hin frjálsa orðræða? Nóg í bili.

þriðjudagur, 24. apríl 2012

Kórferðin í ár.

Kórferðalagið okkar í Söngfélagi Skaftfellinga í ár var til Hafnar í Hornafirði. Farið var af stað föstudaginn 20. apríl og komið heim sunnudaginn 22. apríl eftir frábæra skemmtun á Höfn í Hornafirði. Ég var síðbúinn í þessa ferð þannig að ég fór akandi á eigin bíl en kórinn fór með rútu. Á leiðinni austur og til baka var víða komið við og sungið. Aðaltónleikarnir voru á Höfn í Hornafirði á laugardeginum og var tekið til þess hve vel var mætt. Auk Söngfélags Skaftfellinga söng Samkór Hornfirðinga nokkur lög en kórfélagar í honum tóku vel á móti okkur. Um kvöldið var svo efnt til samsætis og með kvöldverði og söng og skemmtan. Ferðin austur gékk mjög vel. Veður var lengst af fallegt en eftir að komið var framhjá Skaftafelli var ísing í loftinu og rok kviður á köflum. Veðrið á laugardeginum og sunnudeginum var ágætt og heimferðin sóttist vel. Í stuttu máli má segja að þessi ferð verði ógleymanleg fyrir margra hluta sakir. Nóg í bili.

laugardagur, 14. apríl 2012

Þið spjarið ykkur.

Hitti sænskan skólafélaga minn í vikunni. Ræddum allt milli himins og jarðar og rifjuðum upp gamla tíma. Ég ætla ekki að fara yfir allt samtalið sem varði góða stund og var í senn uppgjör við liðinn tíma og vangaveltur um núið og framtíðina. Talið barst að efnahagsvanda Íslands, baltnesku landanna og Svíþjóðar. Hvað annað þegar tveir hagfræðingar koma saman. Hann býr i Svíþjóð og hefur tengingar til Eistlands. Ég dró upp mynd af vandræðum okkar og hann lýsti aðstæðum í Svíþjóð og Eislandi. Niðurstaða hans eftir yfirferðina var að við eins og Eistlendingar mundum vera hæfari að vinna okkur út úr svona vandræðum heldur en t.d. Svíar. Þeir væru svo vanir stöðugleika að þeir mundu hreinlega fara á taugum ef þeir ættu að takast á við svona sveiflur í efnahagslífinu. Við Íslendingar værum hinsvegar vanir þessum miklu sveiflum og værum hæfari til þess að vinna okkur út úr vandanum. Hann var svo upprifinn af þeirri miklu virkni sem er í þjóðfélaginu á svo mörgum sviðum. Það mætti ef til vill reka til þess að sveiflukennt efnahagslíf leiði til frjórri hugsunar og aukinnar sjálfsbjargarviðleitni. Ég spurði út í Eistland og hann áréttaði að skuldir þeirra væru miklar. Þeir væru aftur á móti vanir að herða ólina í gegnum tíðina. Gætu þess vegna lifað eingöngu á kartöflum í heilt ár og jafnvel lengur. Það gæti tekið þá fimm til tíu ár að greiða skuldir til að komast út úr vandanum en þeim mundi takast það fyrr en síðar. Eftir situr sú hugsun hvort þetta sé ekki einmitt punktur saliens í málinu að sveiflunar séu til þess fallnar að halda okkur á tánum í að leita nýrra úrræða og skapa hér jafn fjölbreytilegt og öflugt mannlíf á þessari eyju og raun ber vitni. Glöggt er gests augað.

laugardagur, 25. febrúar 2012

Okkar er að upplifa og njóta.

Seltjarnarneskirkja. Málverkið er eftir Kjartan Guðjónsson (1910 – 2010) listmálara og hangir nú á vegg í Seltjarnarneskirkju. Listamaðurinn er afkomandi sr. Bjarna Einarssonar prests í Álftaveri sem þjónaði Þykkvabæjarklausturskirkju á fyrrihluta 20. aldar. Myndin sýnir Krist lausan undan þjáningu krossins. Í bakgrunni er lítil íslensk sveitarkirkja, sem gæti vel táknað Þykkvabæjarklausturskirkju. Hér er mynd sem samvefur afskekkta sveit og trúarupplifun listamannsins. Þegar kórfélögum var bent á þessa tengingu myndarinnar við Álftaver gat kórstjórinn Friðrik Vignir Stefánsson að kirkjuvörðurinn hefði spurt hvort ekki væru einhverjir hávaxnir í kórnum sem gætu hengt myndina upp á veginn. Það varð úr að Friðriki til aðstoðar voru fengin til verksins þau kórfélagarnir Gísli Þórörn Júlíusson og Sigurveig Þóra Sigurðardóttir, sem bæði eru ættuð úr Álftaveri. Þar með var þetta orðin þríheilög tenging þ.e. við listamanninn, sveitina og söngfélagið. Kjartan hefði kunnað að meta þessa gleðistund. Einum kórfélaga varð að vísu á orði að enginn væri austurglugginn á Þykkvabæjarklausturskirkju. Því er þá til að svara að ekki var Jesús sjálfur heldur krossfestur þar. Myndmálið er eigi að síður skýrt og hughrifin kalla fram þessa hugsun. Gleðin í látbragði þeirra sem önnuðust verkið er einlæg og fölskvalaus. Ef til vill mun listamanninum síðar verða að ósk sinni og austurgluggi settur á kirkjuna. Það er eðli listarinnar að listamaðurinn hefur frjálsar hendur við sköpunina. Okkar er að upplifa og njóta. Kveðja.
(Myndina tók Kristinn Kjartansson frá Þórisholti í Mýrdal.)

fimmtudagur, 23. febrúar 2012

"Lífið er stutt, lifðu því."


Lífið er stutt, lifðu því sagði vinur minn við mig í vikunni. Eftir því sem aldurinn færist yfir gerir maður sér betur grein fyrir því að ef vinna á úr "óskalistanum," þarf að gefa honum aukið gaum. Á mínum lista fyrir svona tíu árum var ýmislegt sem mig langaði, en fannst svolítið fyrir utan ramma hins daglega lífs þá. Syngja í kór, læra á píanó, grúska í nótum, fara í gönguferðir í óbyggðum. Ég ákvað þá að sinna þessum áhugamálum mínum. Nú þegar maður lítur til baka upplifir maður að margt á gamla listanum er orðið hluti af tilverunni.Það þýðir alls ekki að gömul áhugamál hafi öll verið lögð til hlutar. Það er eins og maður auki virkni almennt ef maður bryddar upp á nýjum verkefnum. Það skemmtilegasta við það að fylgja löngun sinni er að maður kynnist fólki sem deilir sömu áhugamálum. Maður öðlast nýja reynslu og eignast nýja vini. Maður má hinsvegar ekki þar við sitja. Það er nauðsynlegt að fara öðru hvoru yfir listann og kanna hvort ekki séu einhver ný atriði á listanum sem vert er að skoða betur. Læt þetta duga í bili. Datt þetta bara í hug, svona í tilefni dagsins. Kveðja.
(Myndin af fötunni er fengin að "láni" af netinu.)

þriðjudagur, 14. febrúar 2012

Heimferðardagur.

Bara svo því sé nú haldið til haga þá hefur hlýnað mikið hér í Hässleholm. Tíminn líður sem örskotsstund og við höfum átt hér fína daga. Afmælið hjá nafna var glæsilegt. Fullorðna fólkið ræddi mikið um dægurmálin svo sem Evrópumálin, kjör lækna heima og heiman, enda fimm slíkir í veislunni, fjármálakrísuna og vanda Grikkja, öryggi lestarferða í Svíþjóð og veiði í íslenskum vötnum. Auðvitað er hugurinn hjá Íslendingum á Íslandi en ekki hvar? Hvað ber yfir sér meiri ævintýrablæ en að liggja úti við Langasjó og vitja netalagna? Ef til vill litla sumarhúsið í sænsku kóloníunni? Við eigum öll okkar drauma og væntingar. Einhver kann að telja það best að lúra á "bréfunum" sínum eitthvað áfram og láta sig bara dreyma um langanir sínar. En aurarnir verða ekki teknir yfir um, svo mikið er víst. Ég hef keypt svolítið af bókum núna. Ævisögu Olavs Palme, ævisögu Per Almark og ævisögu Arju Saijonmaa. Það segir kannski eitthvað um bloggarann þ.e áhugann á stjórnmálasögu, músík og reynslusögum annarra nú eða bara finnskum konum. Líklega best að setja punktinn hér. Kveðja.

sunnudagur, 12. febrúar 2012

Hässleholm í febrúar.

Höfum dvalið hér í Hässleholm yfir helgina. Það ríkir vetrarveður allt að 9 stiga frost og snjóföl yfir öllu. Við fórum til Lundar í gær og áttum þar góðan dagpart. Fórum m.a. í Akademi bokhandeln og á veitingahús. Lestarsamgöngur voru í ólagi þannig að við fórum með rútu frá Hässleholm til Eslöv og þaðan með lest til Lundar. Það var ágætis afþreying að keyra í rútunni um þennan hluta Skåne og sjá aðeins annað landslag og bæi. Í dag vorum við í 7 ára afmæli nafna míns í Kristianstad. Flott veisla með vinum þeirra Stjánastaðarbræðra. Annars höfum við haft það gott í "líunni" okkar og hún er alltaf að verða persónulegri og skemmtilegri. Fréttir eru sagðar frá vaxandi spennu í Grikklandi en þar er við mikla efnahagserfiðleika að stríða og svo eru fréttir af andláti söngkonunnar Whitney Huston fyrirferðamiklar í fréttum. Nú vill F. Reinfeldt forsætisráðherra Svía hækka eftirlaunaladurinn og virkja konur til aukinna dáða í atvinnulífinu. Kveðja.

fimmtudagur, 26. janúar 2012

Vetrarríki í janúar

Undraveröld Elliðaárdals
Vetrarríkið í janúar er orðið slíkt að það er ekki annað hægt en að minnast á það í þessum annál. Þessi mikli snjór og erfiða færð sem af honum hlýst setur strik í tilveruna. Þótt ekki geti maður kvartað með tvo 4x4 á hlaðinu og það á nöglum. Margir samborgararnir eru ekki jafn vel búnir til aksturs og það tefur umferðina. Maður reynir að halda sinni daglegu rútínu. Ein af þessum rútínum hafa verið gönguferðirnar um Elliðaárdal á miðvikudagskvöldum og Heiðmörk á laugardagsmorgnum. Heiðmörk er illfær þessa dagana þess vegna hefur verið gengið um Elliðaárdal tvisvar í viku. Í gærkvöldi gengum við Skálmarar um Elliðaárdal í þæfingi og snjóþungum dalnum. Það var stilla og frábært veður til göngu. Á gróðrinum var drifhvít snjóþekja og svæðið líkast undraveröld. Meðfylgjandi mynd sem einn göngufélagi minn tók lýsir stemningunni betur en þúsund orð.(Mynd Sigurlaug Jóna Sigurðardóttir)

sunnudagur, 1. janúar 2012

Á nýju ári.

Þá er 2012 runnið upp.Við höfum verið hér í Kristianstad í Svíþjóð yfir áramótin. Veðrið í gærkvöldi var stillt en það kólnaði með kvöldinu. Raketturnar hafa sjaldan í mínu minni þotið jafn beint upp í loftið. Afastrákarnir Sveinn og Jóhannes skemmtu sér vel við þessa iðju og afi þeirra líka. Það er stutt í barnið í manni þegar flugeldar eru annarsvegar. Áramótaheitin voru ekki merkileg í ár. Reyndar var ég búinn að ákveða að þetta yrðu áramót án loforða. Við áttum hér indæla kvöldstund með Hirti og Ingibjörgu og strákunum. Hér var líka góður vinur þeirra, Ingimundur ásamt okkur. Meira síðar....