sunnudagur, 29. mars 2020

Uppáhalds sálmurinn

Leyfi mér hér að birta uppáhalds sálminn hans föður míns Sr Hjartar Hjartarsonar sem er nr. 350 í sálmabókinni. Hann kom þessum sálmi oft að og organistar sem hann vann með vissu það. Skemmtilegt að segja frá því að einn organisti tók sig einu sinni til og spilaði hann sem útgöngspil, vegna þess að hann sá pabba meðal kirkjugesta. Óhætt er að segja um pabba að hann var æðrulaus maður, þótt ekki væri hann skaplaus. Hann þurfti oft á lífsleiðinni að takast á við ýmis áföll. Hann fékk barna- og lömunarveiki sem ungur drengur, missti bróður sinn úr sömu veiki. Þá tókst hann á við krabbamein síðustu 15 ár ævi sinnar af miklu æðruleysi. Vonandi finnið þið styrk og huggun í þessum ljóðlínum líka:
Ó, ást, sem faðmar allt! Í þér
minn andi þreyttur hvílir sig,
þér fús ég offra öllu hér,
í undradjúp þitt varpa mér.
Þín miskunn lífgar mig.
Ó, fagra lífsins ljós, er skín
og lýsir mér í gleði og þraut,
mitt veika skar það deyr og dvín,
ó, Drottinn minn, ég flý til þín,
í dagsins skæra skaut.
Ó, gleði', er skín á götu manns
í gegnum lífsins sorgarský.
Hinn skúradimmi skýjafans
er skreyttur litum regnbogans
og sólin sést á ný.
Ó, ég vil elska Kristi kross,
er kraft og sigur veitir mér.
Að engu met ég heimsins hnoss,
því Herrann Jesús gefur oss
það líf, sem eilíft er.

föstudagur, 27. mars 2020

Spænska flensan uppfærð

Í ársyrjun 1918 voru Íslendingar rúmlega 92 þúsund talsins. Alls er talið að 484 hafi látist hér á landi úr spönsku veikinni. Miðað við sama hlutfall í dag mundi það þýða að um 1888 manns hefðu dáið en við erum um 360 þúsund núna. Við getum því lifað í þeirri von að staðan núna sé töluvert betri miðað við þær spár sem kynntar hafa verið opinberlega frá okkar færustu lýðheilsufræðingum varðandi covid. Ljóstýra í myrkrinu?

miðvikudagur, 25. mars 2020

Covid 19 - heimsfaraldur

Allt í heiminum snýst um þennan heimsfaraldur Covid 19 og er faraldurinn þegar farinn að hafa mikil áhrif á líf okkar. Frá 14. mars erum við búin að vera aðallega heimavið, í sjálfskipaðri sóttkví. Þetta er þrúgandi staða og vonandi gengur þessi faraldur fljótt yfir með sem minnstum skaða fyrir alla. Annars byrjaði þetta ár ágætlega. Við höfðum nóg að gera í janúar og febrúar. Ég var leiðsögumaður og stundum keyrandi sem slíkur. Við fórum til Belgíu í byrjun mars og komum heim 6. mars. Þá var farið að tala um þessa vírusveiki. Ég fór í eina ferð 13. og 14 mars og hafði þá ferðamönnum fækkað til mikilla muna. Með mér í Gullna hringnum voru þrír gestir. Í þar síðustu ferð voru þeir 15 með í ferðinni á 19 manna springer. Nú eru engar skráðar ferðir.