mánudagur, 29. janúar 2018

Með hjartað heima.....

Sænskir fjölmiðlar fjalla um Ingvar Kamprad stofnanda IKEA, nú þegar hann er látinn. Þessi frumkvöðull og athafnamaður hefur verið mér oft hugstæður. Fyrsta heimsóknin í IKEA verslun var árið 1975. Við vorum blankir námsmenn í Gautaborg og tókum okkur ferð með strætó inn í Kållered, sem er smábær suður af Gautaborg. Þarna opnaðist fyrir okkur ævintýraheimur IKEA í fyrsta skipti á dimmu vetrarsíðdegi. Uppröðuð húsgögn á skaplegu verði, ýmislegt annað til heimilis, veitingastofa og leikrými fyrir barnið. Minnist þess að við keyptum í þessari heimsókn straubretti sem kostaði 10 krónur sænskar á sérstöku afsláttarverði. Það voru ánægðir og saddir kúnnar, sem fóru með barnakerru og straubretti í strætó heim eftir góðan dag í IKEA. Gaman að segja frá því að straubrettið er enn í fullri notkun og sparað margan skildinginn í straukostnað á t.d. skirtum. Síðan hafa verið reglulegar heimsóknir í þessar verslanir undanfarna áratugi, bæði til að borða og kaupa til heimilis. Ingvar Kamprad var trúr viðskiptavinum sínum. Hann vissi að óánægðir kúnnar koma ekki aftur. Sænsk ráðdeildarsemi var honum í blóð borin og hann sá til þess að alþýðuheimili (folkhemmet, fallegt orð) gætu keypt húsgögn á viðráðanlegu verði. "Með hjartað heima opnaðist fyrir alþjóðleg viðskipti," segir í blaðinu. Það eru orð að sönnu með yfir 400 verslanir í heiminum. Blessuð sé minning hans.