miðvikudagur, 29. desember 2021

Gleðileg jól gott og farsælt komandi ár

 Kæru lesendur

Bestu óskir um gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár. Þessi síða hefur nú ekki verið sú virkastsa í netheimum en hún hefur verið starfrækt frá 2004, eða um 17  ár og það 18. anda er að byrja eftir tvo daga.

Vona að þið eigið góð áramót og nýtt ár verði ykkur gjöfult til sjávar og sveita.

Kveðja,

Sveinn


miðvikudagur, 1. desember 2021

Björg Árnadóttir - minning

Unglingsárin líða fljótt. Þetta er tímabil mótunar fyrir það sem koma skal. Leiðir geta skilið en strengur vináttunnar er til staðar og býr í okkur um ókomin ár.  Í dag kvöddum við Björgu Árnadóttur, móður vinar míns Sverris Gauks og Helgu systur hans. Ég var heimagangur hjá Björgu og Ármanni Lárussyni eiginmanni hennar á unglingsárunum.

 Þetta voru góð ár og uppbyggileg. Nærvera og umhyggja fyrir okkur unga fólkinu var einlæg og mildileg. Það var oft glatt á hjalla á Digranesveginum hjá þeim hjónum. Þau voru um margt ólík. Björg var fíngerð kona, glaðlynd og  skemmtileg. Ármann stór og kröftugur, glímukonungur Íslands í 13 ár var hægari í fasi. Það var þó aldrei langt í glettnina.

 Þau hjón voru meðal frumbyggja í Kópavogi, þeirra sem byggðu upp þetta samfélag. Björg var verkstjóri um árabil í frystihúsi Barðans í Kópavogsdal. Þar kynntumst við mörg fiskvinnslustörfum undir hennar verkstjórn og það var ekki slegið slöku við. Verkstjórinn sá til þess að enginn tími fór til spillis og að gæðin væru fyrsta flokks. Ármann var líka mikill verkmaður. Það var sérstakt fréttaefni þegar hann og Davíð á Arnbjarnarlæk byggðu hitaveitulagnir inn í borgina á þessum árum, þvílík voru afköstin og dugnaðurinn.

Björg og Ármann voru bakhjarlar Kefas, óháðs kristins safnaðar í Kópavogi. Söfnuðurinn á glæsilegt guðshús í efri byggðum Kópavogs með fallegu útsýni yfir Elliðavatn og hæðir Heiðmerkur. Það hallar á engan þó að frá því sé sagt að Ármann hafi byggt þetta guðshús fyrir eiginkonu sína eins og presturinn gat um í minningarræðu sinni. Blessuð sé minning Bjargar.

laugardagur, 20. nóvember 2021

Líffræði/hagfræðingur

Ég man þegar ég var sendur úr MR niður á tjörn að skoða vistskerfi hennar. Það var fróðlegt og skemmtilegt. Hugtakið "ecosystem" var nýtt og var að vinna sér sess. Ég man líka samtal við prófessor í líffræði upp til fjalla þegar ég trúði honum fyrir áhuga mínum á líffræði. Svarinu gleymi ég ekki: Sveinn þú hefur unnið að einu mikilvægasta líffræðiverkefni síðustu áratuga, fiskveiðistjórnun. Þú hefur verið einskonar líffræði/hagfræðingur! Það er helst við aðstæður eins og þessar í björtu lygnu veðri að við sjáum skýrar - samhengi hlutanna.  Þá man ég ráðstefnuna fyrir tveimur árum þegar ég stóð frammi fyrir 230 ungum Japönum í Tokyo sem vildu fræðast um stjórnkerfi fiskveiða á Íslandi. Ég minnist þess ekki að margir þeir sem gapa hæst um umhverfismál í dag hafi haft eða komið að því að verja þetta verkefni. Þeirra verkefni er sýnilegra stærra og mikilvægara, bjarga skal öllum heiminum með góðu eða illu. Þeir minna mig stundum á gömlu byltingarsinnana sem döguðu uppi á áttunda áratug síðustu aldar.

laugardagur, 11. september 2021

Af Sigrúnu Jónsdóttur og Vestmönnum


Við fórum á sýningu Sigrúnar Jónsdóttur heitinnar https://kirkjan.is/frettir/frett/2021/08/27/Kirkjulistakonu-minnst/  á höklum í Seltjarnarneskirkju í dag. Afar fróðleg sýning á höklum hennar og ýmsum öðrum listmunum. Áttum þar líka fróðlegt spjall um írska munka sem bjuggu á Íslandi fyrir landnám norrænna manna. Vestmannaeyjar komu upp í umræðunni og sagan af þrælum Hjörleifs sem þangað flúðu. Getur verið að þar hafi verið írskt klaustur sem norrænir menn hafi eytt við komuna til landsins. Allavega er þar í 173 metra hæð kross af keltneskri gerð hogginn í klett. Á Seltjarnarnesi má sjá hringlaga minjar sem gætu verið írskar. Þá komu til tals hellarnir á Suðurlandi sem taldir eru frá Írum. Við rifjuðum upp gamalt samtal við Vilhjálm Eyjólfsson frá Hnausum í Meðallandi . Hann var þess fullviss að hér hafi verið Írar fyrir landnám. Að vísu hafði ég einn fyrirvara um veru Íra hér á landi, sem fræðimaður hafði bent á, að aðeins norrænir víkingar hefðu búið yfir þekkingu og siglingatækni til að sigla á opnu hafi. Viðmælendur mínir blésu á þennan fyrirvara og fullyrtu að Írar hefðu haft þessa þekkingu líka. Hvað haldið þið?

þriðjudagur, 17. ágúst 2021

Af Afgönum

 Afganistan, Talibanar, villimenn, dópsalar og hyski? Nú er svo komið að þeir eru búnir að leggja að velli USA og NATO ríkin eins og Sovétríkin sálugu fyrir 30 árum. Það tók þá um 20 ár. Hvað segir það okkur? Það er ekki hægt að kúga þjóðir til hlíðni með aðstoð leppa. Hélt að heimsbyggðin hefði lært það 1975 í Víetnam! Nei, módelið varð að reyna aftur til að tjékka á því hvort það gengi örugglega ekki. Trump samþykkti að sleppa 5.000 vígamönnum Talibana, sem auðvitað tóku strax til vopna. Við lærðum snemma í sögubókum það ráð breska heimsveldisins fyrr á tímum að farsælast væri að sniðganga þetta fjallasvæði. Þarna væru snarbrjálaðir menn og valmúa bændur til framleiðslu á heróíni. Þeir virðast hafa ákveðna skoðun á jafnrétti kynjanna og menntun kvenna. Það sé eina leiðin í þeim efnum að kúga þær. Er það ásættanlegt 2021?

Stofnþjóð Sþ

 Við Íslendingar fengum að vera ein af stofnþjóðum Sameinuðu þjóðanna þó að við hefðum ekki lýst stríði á hendur Þjóðverjum. Þór Whitehead bendir á þessa staðreynd í umfjöllun um komu Churchill til Íslands fyrir 80 árum. Þetta er þörf ábending nú í ljósi umræðu um okkur sem NATO þjóð. Við fengum inngöngu í þann klúbb af því að þessi eyja var okkar. Það var ekki vegna þess að við værum stríðandi afl. Það er gott að hafa það í huga þegar rætt er um ábyrgð okkar við brotthvarf NATO frá Afganistan. Við höfum ekki farið með hervaldi þar, þótt einhverjir fáir einstaklingar hafi fengið skrifstofustörf gegnum NATO. Við höfum engar skyldur við Afgana umfram aðrar þjóðir í þessu tilliti. Það er mikilvægt að skerpa á friðelsku okkar með jöfnu millibili. Það er illa gert að vera stilla Katrínu forsætisráðherra upp og lýsa yfir einhverri ábyrgð í þessu máli, sjálfum hernámsandstæðingnum. Kommon!

þriðjudagur, 10. ágúst 2021

Ytri - Rauðamelskirkja


Gerðuberg og Ytri-Rauðamelskirkja. Maður þarf að keyra að Gerðubergi til þess að njóta þess. Þessi Stuðlabergshæð er afar sérstök. Sjón er sögu ríkari. Ég horfði til austurs og sá þessa litlu kirkju í kvos framan við háa vikurskál. Sá ekki ástæðu til þess að skoða hana nánar enda í tímaþröng. Viku síðar kom ég aftur á staðinn. Ég hafði aðeins rýmri tíma og ákvað að nota tækifærið og keyra að kirkjunni. Sá engin vegskilti eða nafnskilti til að átta mig á heiti hennar. Ég hugsaði með sjálfum mér: Það skal vera einhver ástæða fyrir því að ég er dreginn að þessari kirkju. Það tók mig nokkura leit að finna út úr því hvaða kirkja þetta væri eftir heimkomu. Rauðamelskirkja heitir hún. Næst var að finna einhverjar upplýsingar um kirkjuna. Í Mbl 16.9.1986 fann ég frásögn af 100 ára afmæli hennar. Hún var vígð 1886 af sr. Eiríki Kúld prófasti. Fyrsti sóknarpresturinn var sr. Árni Þórarinsson afi sr. Árna Pálssonar sóknarprests í Kópavogi sem þjónaði þarna líka um tíma. Svo kom nokkuð athyglisvert. Þarna þjónaði söngfélagi minn í Söngfélagi Skaftfellinga, sr. Einar Guðni Jónsson sóknarprestur um 10 ára tímabil. Hann vígðist til Söðulholts en kirkjan tilheyrði því sóknarkalli. Hann var síðar þjónandi prestur í Árnesi á Ströndum og á Kálfafellsstað í Austur - Skaftafellssýslu, þar sem faðir hans hafði þjónað áður. Í nýlegri minningargrein um sr. Einar í BB á Ísafirði segir um tengsl hans við Rauðamelskirkju: " Sjálfur lék hann oft á harmóníum Rauðamelskirkju þegar hann hafði þar guðsþjónustur um hönd og enginn var organistinn... Sr. Einar var drengur góður, þægilegur í viðkynningu og greiðvikinn. Um margt skemmtilega sérlundaður og sál sveitamannsins var sterkari í honum en borgarbarnsins. Í honum var að finna næma listræna taug sem kom einkar vel fram í tónlistargáfu hans. Hann var skrafhreifinn og glaður í viðkynningu, hafði sig lítt á oddi í fjölmenni en naut sín í litlum hópum, yfirlætislaus maður og spakmenni. Mildur í svörum og orðgætinn. Sr. Einar var fróður um gamla tíð og lét hversdagslegan eril nútímans ekki hreyfa svo mjög við sér. Hann var afar trygglyndur öllum sóknarbörnum sínum sem mátu hann enda mjög mikils." Ógleymanlegar eru stundirnar með kórfélögum þegar sr. Einar spilaði á píanóið eða harmóníkuna sína á góðum stundum. Hann var mjög góður píanisti og hrein unun að heyra hann taka jazz sessionir við ýmis tækifæri. Hann spurði mig oft um föður minn og móðir eftir að þau voru sest í helgan stein af umhyggju. Blessuð sé minning þessa mæta manns.


mánudagur, 5. júlí 2021

Þegar ESB skilar ekki árangri

Þetta mál hefur vakið mikla athygli í sænskum fjölmiðlum undanfarna daga. Fyrirsögn leiðarans er: Bestu þakkir USA fyrir að þið hreinsið til. Undirfyrirsögnin segir: Þegar ESB kerfið skilar ekki árangri gegn spillingu er vel þegið að USA starfi sem heimslögregla í Evrópu. Fjallað er um hvernig FBI hefur beitt sér gegn glæpagengjum í Evrópu með skilvirkum hætti. Sérstaklega eru bófar frá Búlgaríu fyrirferðarmiklir og kræfir. Regluverk ESB hefur verið illa skilvirkt og fjárframlög til þessa málaflokks, drjúgar summur, lent í vösum sjálfra krimmana. Þeir komi sér fyrir í hæstu stöðum eins og í t.d. Búlgaríu. Svíar hafa af því áhyggjur að þeir geti orðið að framselja Svía til landa ESB, þar sem spyllingin er mikil. Til landa sem geta ekki tryggt réttaröryggi fólks eins og í Búlgaríu. Rúsínan í pulsu endanum er að fyrir nokkrum dögum voru handteknir 150 manns í Svíþjóð sem tilheyra ýmsum glæpagengjum og yfir 1000 manns víðsvegar um Evrópu fyrir tilstuðlan bandarísku alríkislögreglunnar FBI. Það var létt yfir lögreglunni í Svíþjóð þegar hún gat tilkynnt þessa niðurstöðu. Hvar ætlum við að draga mörkin í okkar samfélagi? Er ásættanlegt að glæpagengi hreiðri um sig vegna samninga sem stjórnvöld hafa gert um frjálsar ferðir þessa liðs. Ég segi NEI! Hvað segið þið sem bjóðið ykkur fram til að stjórna landinu. Er þögnin besti mótleikurinn?

 

þriðjudagur, 4. maí 2021

Gos á Reykjanesi

 Nú hefur gosið varðað í Fagradalsfjalli rúmlega mánuð eða frá 20 mars. Það hefur verið magnað að fylgjast með gosinu frá Borgarholtinu hér í Kópavogi. Um síðustu helgi keyrðum við á miðnætti til Grindavíkur og áleiðis að gosstöðva bílastæðinu austan við Grindavík. Magnað var að fylgjast með gosinu þessa kvöldstund. Eldtungur náðu óvenju hátt og sáust víða að.Uppfært 3. október. Þessi mynd var tekin fyrrihlutann í september. Nú hefur ekki runnið hraun úr Fagradalsfjalli síðan 18. september sl. Hinsvegar eru mikil jarðskjálftahrina á sprungusvæðinu í kringum fjallið Keili. Vísindamenn eru ekki sammála um hvort þessir jarðskjálftar eru vegna spennubrytinga í jarðskorpunni eða kvikustreymis á svæðinu sem er að leita nýrra leiða upp á yfirborðið. Það er bara að bíða og vona hið besta.

föstudagur, 26. mars 2021

Spænska veikin

Ég las fyrir nokkrum árum bókina The Great Influenza eftir John M Barry. Áhugi minn fyrir þessari bók og nokkrum til viðbótar um þetta efni snúa að kjarna hagfræðinnar þ.e.a.s. hegðun mannsins. Það sem sat eftir við lesturinn voru nokkrir magnþrungnir punktar. Í fyrta lagi var verið að glíma við a.m.k. tvær veirur  og var önnur sýnu verri. Þannig sluppu þeir betur sem fengu vægari sýkinguna áður en sú illvíga kom í ljós, vegna þess að þeir höfðu myndað ónæmi. Í öðru lagi hvernig fyrri heimstyrjöldinni 1918 var í raun sjálfhætt vegna mikilla veikinda og hárrar dánartíðni hermanna beggja megin víglínunnar. Í þriðja lagi hvernig samfélög brotnuðu vegna þess að heilbrigðiskerfið, löggæsla og fyrirtæki lokuðu og fólk lá bjargarlaust heima. Í fjórða lagi hverng menn sem voru að leita að mótefni fórnuðu sér við hættulegar aðstæður. Talið er að milli 50 og 60 milljónir manna hafi látist af völdum spænsku veikinnar. Líklegast eru veirusýkingar af því tagi sem við erum að upplifa núna ein mesta ógnin sem mannkyninu stafar hætta af. Aukin ferðalög milli heimshluta og samskipti fólks úr ólíkum áttum veldur því að þessi hætta mun verða enn meiri er fram liða stundir. Plágur af ýmsu tagi hafa fylgt mannkyninu gegnum tíðina. Vissulega hefur mikið áunnist í því að verjast þessum hættulegu sýkingum en samt erum við berskjölduð þegar nýjar sýkingar blossa upp sem við höfum ekkert mótefni gegn. Við skulum vona að þessi veirusýking verði ekki jafn illvíg og í spænsku veikinni.

miðvikudagur, 24. mars 2021

Lífið er ferðalag

Eythor Edvardsson minntist í gær jarðarfarar sem faðir minn annaðist 1997. Hann spurði mig hvort ég vissi hver sá látni var og hvort ég mundi skilaboðin í ræðunni. Eftir smá umhugsun rifjaðist þessi saga upp: Það hefur verið hann Hagbart Knut Edwald frá Rauðamýri, sem var þar vinnumaður. Efnislega sagði pabbi að lífið væri undarlegt ferðalag. Þegar hann kom 6 ára gamall til Arngerðareyrar til sumardvalar í Tungu var enginn til að taka á móti honum. Þar sem hann stóð þarna vegalaus gaf sig að honum ungur maður, nefndur Hagbart sem sagðist mundi fylgja honum í Tungu. Leið þeirra lá aftur saman 60 árum síðar. Það kom í hlutverk pabba að flytja yfir þessum velgjörðarmanni sínum kveðjuorð og guðs blessun í ferðalok. Inntakið í minningarorðunum var að líf okkar er ferðalag  og á leiðinni mætum við fólki þar sem leiðir krossa. Í þessu tilfelli á unga aldri og svo aftur við ferðalok Hagbarts. Það var æskuvinkona pabba frá Ísafirði sem sá um jarðarförina. Hún hét Borghild Edwald og er móðir Kristjáns Þórarinssonar stofnvistfræðings SFS. Lífið er undarlegt ferðalag.

föstudagur, 5. mars 2021

Kolbrún Hjartardóttir minning

 


Í dag var jarðsungin frá Kópavogskirkju föðursystir mín Kolbrún Hjartardóttir kennari og sagnfræðingur. Kolbrún var fædd árið 1935 á Ísafirði og flutti til Reykjavíkur 11 ára gömul. Hún hóf starfsferil hjá VSÍ en vann lengst af sem kennari við barnaskóla. Síðustu ár starfsferlis síns vann hún í Kópavogi. Kolbrún var mikill náttúru unnandi, elskaði að ferðast og far í gönguferðir um Ísland. Hún ferðaðist líka víða um heim. Hennar er minnst, sem góðrar frænku, sem ræktaði frændgarð sinn. Jarðarförin fór fram í kyrrþey að ósk hennar. Blessuð sé minning Kolbrúnar frænku.


mánudagur, 1. mars 2021

Skjálftahryna á Reykjanesi

 Við upplifum marga skjálfta á bilinu 4 til 5 á Richter skala þessa síðustu daga eða frá 24. febrúar. Sérfræðingar telja að þessa skjálfta megi reka til flekaskilanna. Þeir útiloka þó ekki eldsumbrot á Reykjanesi vegna þessara jarðhræringa. Telja það reyndar frekar ólíklegt. Önnur vá sem okkur gæti verið búin er að þessi hryna leiði úr leysingi stóran skjálfta austur af Brennisteinsfjöllum í átt að Bláfjöllum sem gæti orðið 6,5+ á Richter skala. Það sem hefur vakið óhug minn er hvað tilmæli Almannavarna hafa verið almenns eðlis. Rætt er um að gæta þess að hafa varan á sér varðandi þunga hluti í hillum. Borgarstjóri hefur rætt um að engin rýmingaráætlun sé varðandi höfuðborgarsvæðið! Ég hef undrast hversu lítið hefur heyrst í kjörnum stjórnendum landsins. Umræðan hefur nánast verið í höndum sérfræðinga. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að heyrast meira í kjörnum fulltrúum okkar við þessar aðstæður. Þeir eigi að setja  sig inn í  það hvers  er að vænta  og tala fyrir mismunandi sviðsmyndum. Ef þeir telja  enga hættu í stöðunni eiga þeir að lýsa þeirri skoðun en ekki þegja þunnu hljóði. 

þriðjudagur, 16. febrúar 2021

Engin sorg á herðum, þótt ekkja falli í valinn (Einar Ben.).

Síðasta samtalið sem ég átti við Stefaníu ömmu mína var um lífið og dauðann. Hún kom við í Víðihvamminum, æskuheimili mínu með Árna Byron Njarðvík, tengdasyni sínum eftir jarðarför vinkonu, hann hafði keyrt hana. Við sátum inn í stofu og það ríkti þögn við borðið. Til þess að rjúfa þögnina spurði ég hana hvort þetta hafi verið sorgleg jarðarför. Hún endurtók spurningu mína og sagði svo: Nei, þetta var ekki sorgleg jarðarför. Síðan stendur hún upp gengur að bókaskápnum og tekur ljóðabók Einars Benediktssonar og fer með ljóð sem efnislega fjallar um andlát eldri konu. Í ljóðinu segir skáldið að enginn syrgi andlát aldraðrar konu. Síðar báust mér þessar ljóðlínur frá góðum vini: Og ekki er mikill tregi/ og engin sorg á herðum/ þótt ekkja falli í valinn/ með sjötíu ár á herðum. Þetta hefur verið í apríl/maí 1970 sjálf lést hún um mánuði síðar 66  ára gömul.
Ég var búinn að leita töluvert að þessu ljóði í gegnum árin en fann aldrei. Man ekki heldur hver þessi vinkona hennar var. Þessi atburður kemur endrum og sinnum upp í hugann. Rakst svo í kjölfarið af þessum hugleiðingum mínum á þessa minningargrein eftir föður minn sem ég hafði ekki séð áður. Hann skrifar þessa grein mörgum mánuðum síðar. Hann hefur ekki ráðið við tilfinningar sínar við andlát hennar og tekið sér tíma til að minnast hennar. Veturinn 1969/1970 heimsótti ég afa og ömmu einu sinni í viku á miðvikudögum. Það var hlé í Austurbæjarskóla á miðvikudögum og í stað þess að hanga í skólanum gékk ég upp á Hringbraut til þeirra í hádeginu og borðaði með þeim og spjallaði. Ógleymanlegar gæðastundir fyrir óharðnaðan ungling. (uppfært febrúar 2021)


föstudagur, 5. febrúar 2021

Sæmundur Nikulásson minning

 Í dag vorum við við jarðarför Sæmundar Nikulássonar í Dómkirkjunni í Reykjavík. Sæmi var eiginmaður hennar Elínar Þorsteinsdóttur móðursystur Sirrýjar. Um áratugaskeið var fjölskyldan á Hringbraut 26 fastur punktur í okkar lífi. Mikill samgangur var á milli þeirra systra Sigrúnar tengdamóður minnar og Elínar eða Ellu frænku eins og við kölluðum hana. Sæmi og Ella voru mikið útivistarfólk og minnisstæðar eru ættarferðir og góðar stundir austur í Skaftártungu. Síðasta ferð okkar með Sæma er eftirminnileg. Við fórum Fjallabak syðra suður, sem hann þekkti eins og lófann á sér í blíðskaparveðri líklega 2016, ógleymaleg ferð, fróðleg og skemmtileg. Ég er viss um það að nú verður mikið sungið og spilað á gítar í Sumarlandinu. Blessuðs sé minning Sæmundar.

föstudagur, 29. janúar 2021

Nokkur orð um efnahagsmál og krónuna!

 Þorgerður Katrín talar um “bleika fílinn” sem ekki megi tala um þ.e. að íslenska krónan sé undirót þess verðbólguskots sem hefur orðið. Hún minnist ekki á nýlega kjarasamningshækkun upp á 7% við ríkjandi erfiðleika í efnahagsmálum. Hvað áhrif skyldi nú sú hækkun hafa á verðlag. Við búum við steinrunnið gæslukerfi verkalýðsfélaga, sem eru áratugum á eftir því sem almennt gerist í nálægum löndum í greiningu aðstæðna og ábyrgum vinnubrögðum. Þetta er semipólitískt sjálftökulið, sem hefur komið sér þar fyrir í vel vernduðu umhverfi meira og minna ábyrgðarlaust. Þessir svokölluðu fulltrúar okkar launþega hafa barist með kjafti og klóm í fjörtíu ár gegn afnámi verðtryggingar til þess að tryggja lífeyrissjóðina að eigin sögn. Höfum við notið þessa í lífeyrisgreiðslum? Nei en vísitölutryggingu skulu þeir fá auk 3% raunávöxtunar. Hvað hefur það þýtt fyrir efnahag heimila? Af hverju hafa 50 þúsund Íslendingar kosið að flytja til Norðurlanda? Margir með þeim kveðjuorðum að hér sé ekki búandi.

laugardagur, 23. janúar 2021

48 ár frá gosi í Vestmannaeyjum

 Fjörtíu og átta ár frá gosinu í Eyjum!! Man vel þegar móðir mín vakti mig með látum þennan morgun. Ég rauk upp kjallaratröppurnar heima og settist þar fyrir framan hana efst í stiganum. Orð hennar um að það væri eldgos í Vestmannaeyjum sitja enn greipt í minni mínu. Ég hélt hinsvegar í svefnrofanum að ég væri að missa af viðtali í útvarpinu, sem ég ætlaði að hlusta á. Minningar okkar af þessum atburði eru misjafnar. Sú sem hér er endursögð að neðan er mun dramatískari og er saga vinnufélaga míns, Björns Jónssonar skipstjóra, til margra ára.


Þetta skip, Ásberg RE 22 var síðasta skipið út úr Vestmannaeyjahöfn morguninn eftir að gosið hófst í Eyjum 23. janúar 1973. Um borð voru um 70 manns sem farið var með til Þorlákshafnar. Skipið var statt 10 sjómílur austur af Vestmannaeyjum á leið til loðnuveiða þegar Vestmannaeyjar kölluðu "Mayday, mayday" til allra nálægra skipa. Skipið snéri strax til Vestmannaeyja en skipverjar höfðu orðið varir við þegar eldsumbrotin hófust. Skipstjóri á skipinu var Björn Jónsson ættaður frá Ánanaustum.

þriðjudagur, 19. janúar 2021

Selja banka og hvað svo?

 Það er í lagi að bjóða til sölu banka en ekki sama hverjum er selt svona í ljósi sögunnar. Íslandsbanki er að stofni til Útvegsbanki Íslands, Iðnaðarbankinn, Verzlunarbankinn og Alþýðubankinn. Útvegsbankinn átti að þjóna sjávarútveginum, en varð gjaldþrota vegna Hafskipa sem frægt er úr sögunni. Hinir áttu að þjóna iðnaðinum, versluninni og alþýðu hinna vinnandi stétta. Er ekki rétt að þessum aðilum gefist kostur á að kaupa bankann til baka. Að selja bankann Bjöggum, Jónum eða Ólum líst mér ekkert á og heldur ekki þýskum sparisjóðum sem reka einn eða tvo hraðbanka

fimmtudagur, 7. janúar 2021

"A face in the crowd"

Háttsemi Trumps minnir mig á kvikmynd sem ég sá ungur drengur með Andy Griffith: A face in the crowd. Myndin var framleidd 1957 og fjallar um illa innrættann flæking sem kemst til áhrifa fyrst í svæðisútvarpi og síðar vinsælum sjónvarpsþætti. Hann hvetur fólk til aðgerða gegn ýmsum m.a. stjórnmálamönnum og fyrirtækjum. Fólk flykkist í hópum heim til þeirra, sem útvarpsmaðurinn sigar því á. Þar kemur að framleiðendur á bak við þættina gerir sér grein fyrir því að nauðsynlegt sé að sýna hið rétta andlits þessa siðblinda sjónvarpsmanns. Árið 2008 ákvað Bókasafn bandaríska þingsins að þessi mynd yrði varðveitt í Þjóðarmyndasafni USA vegna menningarlegs, sögulegs og fagurfræðilegs mikilvægis. Andy Griffith varð stjarna eftir þessa mynd. Nú er spurning hvort ekki sé ráð að sýna nýjum kynslóðum þessa mynd. Þannig má ef til vill minnka áhrif komandi lýðskrumara, sem nota fjölmiðla sér til framdráttar. (Heimild: Wikipedia og minni shh)