föstudagur, 26. mars 2021

Spænska veikin

Ég las fyrir nokkrum árum bókina The Great Influenza eftir John M Barry. Áhugi minn fyrir þessari bók og nokkrum til viðbótar um þetta efni snúa að kjarna hagfræðinnar þ.e.a.s. hegðun mannsins. Það sem sat eftir við lesturinn voru nokkrir magnþrungnir punktar. Í fyrta lagi var verið að glíma við a.m.k. tvær veirur  og var önnur sýnu verri. Þannig sluppu þeir betur sem fengu vægari sýkinguna áður en sú illvíga kom í ljós, vegna þess að þeir höfðu myndað ónæmi. Í öðru lagi hvernig fyrri heimstyrjöldinni 1918 var í raun sjálfhætt vegna mikilla veikinda og hárrar dánartíðni hermanna beggja megin víglínunnar. Í þriðja lagi hvernig samfélög brotnuðu vegna þess að heilbrigðiskerfið, löggæsla og fyrirtæki lokuðu og fólk lá bjargarlaust heima. Í fjórða lagi hverng menn sem voru að leita að mótefni fórnuðu sér við hættulegar aðstæður. Talið er að milli 50 og 60 milljónir manna hafi látist af völdum spænsku veikinnar. Líklegast eru veirusýkingar af því tagi sem við erum að upplifa núna ein mesta ógnin sem mannkyninu stafar hætta af. Aukin ferðalög milli heimshluta og samskipti fólks úr ólíkum áttum veldur því að þessi hætta mun verða enn meiri er fram liða stundir. Plágur af ýmsu tagi hafa fylgt mannkyninu gegnum tíðina. Vissulega hefur mikið áunnist í því að verjast þessum hættulegu sýkingum en samt erum við berskjölduð þegar nýjar sýkingar blossa upp sem við höfum ekkert mótefni gegn. Við skulum vona að þessi veirusýking verði ekki jafn illvíg og í spænsku veikinni.

Engin ummæli: