mánudagur, 30. mars 2009

Fyrsta sinn til útlanda

Lorelei. Ég hef verið með nokkra "í fyrsta sinn pistla" á þessari bloggsíðu á undanförnum vikum. Þá er komið að því að minnast fyrstu utanlandsferðarinnar. Hún var farin í maí - júní 1975. Við fórum í þriggja vikna ferð til Danmerkur, Þýskalands og Noregs. Í Kaupmannahöfn dvöldum við nokkra daga hjá Elísabetu föðursystur minni og fjölskyldu í Albertslund sem er úthverfi í Kaupmannahöfn. Helstu ferðamannastaðir Íslendinga í borginni voru skoðaðir. Næst fórum við í vikuferð með Tjæreborg ferðaskrifstofunni til Hamborgar, Bremen um Rínar- og Móseldal til Trier og í bakaleiðinni var gist í Hamborg, nánar tiltekið á Hótel Monopol sem var beint á móti hinum fræga Tírólaskemmtistað á Reberbahn - Schillertal. Meðalaldur í rútunni var 70+ og vorum við lang yngst eða rétt rúmlega tvítug. Þetta voru allt frábærir ferðafélagar. Næst okkur í aldri voru íslensk heiðurshjón um fimmtugt Jón og Ólafía sem urðu okkar bestu ferðafélagar í þessari skemmtilegu og eftirminnilegu ferð. Ég minnist kvöldsins í ráðhúskjallaranum í Bremen. Þegar Danirnir sem sumir voru fæddir Þjóðverjar gáfu fiðluleikurunum þjórfé eins og á að gefa þjórfé. Viðkvæðisins að nú væri hægt að leggja af stað því Íslendingarnir væru komnir. Kókdrykkju okkar templaranna fyrir 1DM glasið í Moseldal þegar hvítvínglasið kostaði 20pf. Heimsóknarinnar í Asbach Uralt brandí verksmiðjuna í Rínardal. Siglingarinnar á Rín framhjá Lorilei kettinum. Vínviðarins í þessum frægu dölum. Allra fallegu ferðamannabæjanna og fljótaprammanna. Kyrraðarstundar "An der Ecke" í Koblenz þar sem Rín og Mosel mætast.Þegar við Jón fórum á búlluna og til stóð að ræna okkur þar um hábjartan dag fyrir að bjóða stúlku upp á kampavínsglas. Að lokinni Þýskalandsferðinni fórum við til Osló og dvöldum þar síðustu vikuna. Þar gengum við á Karl Johann og snæddum pizzur. Við lentum fyrir tilviljun í boði ásamt öðrum Íslendingum á 17. júní hjá sendiherranum í Osló. Þennan dag ákváðum við að prófa búsetu erlendis og fara til náms næsta haust og reyndist það farsæl ákvörðun. Við fluttum að vísu til Svíþjóðar en ekki Noregs vegna þess að við vildum vera miðsvæðis í Scandinavíu.

sunnudagur, 29. mars 2009

Leitið að hinu jákvæða...

Þessi fyrirsögn er það sem situr í minni mínu eftir daginn. Ummælin viðhafði félagi minn vestan af fjörðum vegna ámæla gærdagsins um framlag okkar í nefnd um endurreisn atvinnulífsins. Ámælin verða væntanlega til þess að fleiri skoða þessa bók, sem stór hópur lagði töluverða vinnu í og þá er tilganginum náð. Augljóslega hafa orðið kynslóðaskipti í forustu Sjálfstæðisflokksins við kjör Bjarna Beneditkssonar í embætti formanns. Vonandi gagnast það okkur vel en við skulum ekki falla í nýja æskudýrkun vegna þess. Við megum ekki gleyma því að þá fyrst lærir fólk að það lendi í erfiðleikum og þarf með öllum tiltækum ráðum að krafla sig út úr þeim. Fólk með slíkan bakrunn er mikilvægt í okkar þjóðfélagi í dag. Það verða slíkir sem koma munu okkur út úr núverandi vandræðum. Eftir landsfundinn fór ég í fermingaveislu til ungrar stúlku sem heitir Sigrún Eva. Brosandi og sæt mætti hún gestum nýbúin að játast kristinni trú. Þarna var margt frændfólk mitt saman komið til fagna með Sigrúnu Evu. Það minnti mig á það að sterk fjölskyldu- og vinabönd eru grunnurinn í tilveru sérhvers einstaklings. Kveðja

laugardagur, 28. mars 2009

Annar í landsfundi.

Dagurinn byrjaði með líflegri umræðu um sjávarútvegsmálin eins og svo oft áður. Það reyndist góð eindrægni vera um málefnavinnunna og var hún samþykkt með miklum meirihluta. Annars verður í mínum huga þessa dags minnst sem hins mikla ræðudags. Frambjóðendur til formannskjörs og varaformannskjörs kynntu sig fyrir fulltrúum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hélt frábæra ræðu þar sem hún reifaði stöðuna og störf sín sem menntamálaráðherra og síðan fór hún yfir rógburð sem hún og fjölskylda hennar hafa mátt sæta í umrótinu undanfarna mánuði. Það fer ekki milli mála að þar er á ferðinni glæst forystukona flokksins á næstu árum. Ræðan hefði hæft vel frambjóðenda í formannskjöri. Næstir voru þeir Bjarni og Kristján Þór. Báðir fluttu mál sitt afbragðsvel, þótt ég telji að Kristján Þór hafi talað af meiri sannfæringu og þannig að það höfðaði til mín - enda á hann á brattan að sækja í þessum slag. Lokaræðu dagsins flutti fyrrverandi formaður flokksins og fyrrum seðlabankastjóri. Frá mörgu var þar skemmtilega sagt. Málin rædd frá hans sjónarhóli. Mér fannst stundum vanta fyllri skýringa á framvindu einkavæðingarinnar og hans hlutverki og ábyrgð. Illa líkaði mér sú einkunn sem hann gaf Vilhjálmi Egilssyni og vinnu endurreisnarnefndarinnar sem hefði átt að kallast að mínu mati ný sókn eða eitthvað í þá áttina. Hún var ómakleg og rætin. Í einu sparki náði hann til 200 - 300 stuðningsmanna flokksins sem að beiðni flokksforystunnar hafa með vinnu sinni skapað nýtt grasrótarstarrf í flokknum eftir átján ára deyfð. Auðvitað er margt sem kemur fram í slíku grasrótarstarfi sem þarfnast nánari skoðunar. Ég vitna þó um það að sú vinna sem þar fór fram var unnin af hreinskiptni, heiðarleika og einlægni þeirra sem að verkinu komu. Tímarnir eru breyttir við lifum í opnara samfélagi. Tími hins sterka einráða leiðtoga er vonandi lokið - allavega í bili. Fólkið sem víða glímir við mikla efnahags erfiðleika í kjölfar falls bankanna mun verða betur á varðbergi um brýnustu hagsmunamál þjóðfélagsins.

föstudagur, 27. mars 2009

Landsfundurinn í Laugardalshöllinni.

Ég var mættur á landsfund Sjálfstæðisflokksins í dag ásamt 1900 fulltrúum en þessa fundi hef ég sótt samfleytt í meira en aldarfjórðung. Þegar maður lítur yfir hóp fulltrúa dettur manni fyrst í hug hversu mörg ný andlit eru til staðar. Þarna eru einnig margir gamlir kunningjar. Hvað gera menn á landsfundi spurði tannlæknirinn minn í dag. Hann hefur aldrei sótt slíka fundi samt er hann með stofuna í Valhöll. Nú til þess að sýna sig og sjá aðra svaraði ég um hæl. Það er gríðarlega mikil vinna sem liggur á bak við það að skipuleggja fund af þessari stærðargráðu. Ég hef varið töluverðum tíma undanfarna mánuði að fara í gegnum málefnavinnu nefnda um sjávarútvegsmál, evrópumál, endurreisnarmál atvinnulífsins, umhverfis- og auðlindamál.Ég hélt reyndar að svo virkri þátttöku af minni hendi væri lokið í stórum dráttum en svo lætur maður til leiðast þegar tækifærið gefst. Áhugi á pólitík virðist vera í blóðinu á sumu fólki. Nóg í bili.

mánudagur, 23. mars 2009

Dú jú spík inglish......

Ég var að hugsa um að splæsa í þvott á bílnum á þvottastöð sem var búið að mæla með við mig. Þegar ég kom á staðinn var enginn sem talaði íslensku. Boðið var upp á ensku en hún greiddi ekkert fyrir viðskiptunum. Niðurstaðan varð sú að ég ákvað að þvo bílinn sjálfur við betra tækifæri eða leita síðar eftir viðskiptum þar sem ég get notað mitt ástkæra ylhýra móðurmál. Það er ekki að ég hefði eitthvað á móti blessuðum mönnunum heldur hitt að þeir gátu ekki skýrt út fyrir mér hvað fælist í þvotti sem kostaði 9500.- Nú þeir gátu heldur ekki upplýst mig um hvenær þeir ættu lausan tíma. Einu sinni urðu öll fyrirtæki að vera með íslensku nafni og þótt sumum nóg um. Núna þurfa starfsmennirnir ekki einu sinni að kunna íslensku. Á sama tíma les maður fréttir í blöðum um að Nafnanefnd sé að rífast um hvort skrifa beri Skallagrímur eða svona: Skalla - Grímur. Kommon sko!

sunnudagur, 22. mars 2009

Ég er ......

Maðurinn gengur einn með sjálfum sér. Það er undir honum sjálfum komið hvað hann gefur mikið af sér. Einhvern veginn þannig kemst Sigurður Nordal prófessor að orði í bók sinni, Líf og dauði. Þetta er mér hugleikin fullyrðing. Er þetta svona - geng ég einn minn veg. Á ég það undir sjálfum mér hvað ég gef af mér? Get ég gengið einn og óáreittur minn veg? Er ÞAÐ það sem ég vil eða á ég annarra kosta völ? Svari hver fyrir sig. Mitt svar er - NEI. Ég vil ekki og hef engan áhuga á að ganga einn með sjálfum mér. Til þess hef ég gert ýmislegt: Ég á fjölskyldu, á vini, blogga, er í Rótarý, er í kór, er í vinnu, er í stjórnmálaflokki. Ég er og ég hamast við að vera og tilheyra. En hvað þýðir þetta að "ég er", ef ég geng einn með sjálfum mér? Líf mannsins er barátta við sjálfan sig í tíma og rúmi að komast út fyrir skel sjálfsins. Lífið er viðleitni til að ná til annarra og segja ég er - ég vil nálgast þig! Ég er vinur þinn og vil vera það skilyrðislaust! Boðin ná ekki alltaf í gegn og þá grípur örvæntingin um sig. Þeir sem maður vill nálgast eru ekki staddir í sama tíma eða rúmi. Eru þeir þá einir með sjálfum sér? Hugurinn segir: Láttu ekki svona. Öll nálgun þjónar ákveðnum tilgangi. Þú vilt, þú ætlar, ekkert er án tilgangs. Hver var þá tilgangur minn? Var hann að hljóta varanlegt skjól í hugarfylgsni viðkomandi eða snýkja væntumþykju? Viðleitni okkar virðist drifin áfram af sterkum hvötum sem við ráðum illa við eða vitum ekki af hvaða meiði eru sprottnar. Ef til vill þorum við ekki að kannast við þær - því þá förum við hjá okkur. Ha ég, ekki benda á mig. Það hentar ekki - allar aðstæður eru með einum eða örðum hætti skilyrtar - við forðumst ábyrgð. Þessar hvatir eru meðal annars: græðgi, sjálfselska og hroki. Þarna er sem betur fer líka góðvild, örlæti, réttsýni og draumurinn um að ganga í ljósinu. Auðvitað er það undir okkur sjálfum komið svona öllu jafna minnsta kosti hvernig okkur tekst til við að stýra hvötum okkar og engum örðum. Okkar er að greina á milli og velja. Nóg í bili. Kveðja.

laugardagur, 21. mars 2009

Serenatan okkar

Það sló mig í dag að í okkur öllum er líklega hulin laglína, okkar einstaka lag. Þetta gerðist er við vorum að syngja Serenötuna hans Eyþórs Stefánssonar og kórstjórinn lék í kjölfarið lag hans Lindina við texta eftir Huldu til að sýna okkur skyldleika laganna: Hví drúpir laufið á grænni grein? Hví grætur lindin og stynur hljótt? o.s.fr. Það sló mig jafnframt, hvað ef við við gistum þessa jörð og hverfum héðan án þess að nokkurntíma hafa náð að kalla fram laglínuna okkar það er þegar maður hugsar út í það svolítið dapurleg örlög. Ætli það sé ástæðan fyrir því að við eigum öll okkar uppáhaldslög, af því að okkur er ekki öllum gefið að finna okkar eigin laglínu? Lagasmíð annarra sé svona skyndilausn fyrir okkur hin, fjöldann sem ekki finnur laglínuna sína. Ykkur finnst þetta ef til vill ekki skipta máli. Það má vel vera, en ég hefði haft af því gleði af að heyra hvernig mín langlína hljómar. Ég hef þó nokkrar vísbendingar um það hvernig hún myndi hljóma. Hún yrði í hæg, ljúf, tregablandin, en jafnframt kómísk og rómantísk melódía, spiluð og sungin af píanóleikara. Miðað við þessa lýsingu yrði hún örugglega ástaróður til lífsins. Jæja þá er ég búinn að finna enn eitt verkefnið til að grúska í,sem sé hvernig laglínan mín hljómi. Allar ábendingar vel þegnar.

Langur laugardagur

On the road again.
Þá er nú farið að styttst í annan endan á þessum langa laugardegi. Einhverra hluta vegna koma vestfirsk áhrif fram í tungutaki mínu þegar ég ber þessi tvö ell orð fram - ég segi alltaf laaangur upp á vestfirskuna. Deginum var eytt framan af með Skaftfellingum en ekki Vestfirðingum eða öllu heldur með söngfélögum í Söngfélagi Skaftfellinga. Við æfðum fjölmörg lög sem verða á vorprógrammi kórsins. Haldið verður í árlega söngferð föstudaginn 18. apríl og nú verður haldið í vesturátt og Stykkishólmur og Grundarfjörður heimsóttir. Þá vitið þið hvað er langur laugardagur. Það eru þessir dagar á vetrinum þegar kórinn æfir heilan laugardag. Fyrst þegar ég byrjaði í kórnum hélt ég að þetta væru þeir dagar sem kórinn færi að syngja á Laugarveginum. Skyldi eiginlega ekki þessa þörf kórfélaganna að vera syngja þar og mætti aldrei. Þessi misskilningur minn var svo leiðréttur af velviljuðum kórfélögum af skaftfellskri hæversku. En ég gat lesið úr svipnum: Mikill hábölvaður grasasni getur þessi maður verið. Eftir sameiginlegan hádegismat með kórnum stakk ég af og sótti einkadótturina á Keflavíkurflugvöll, en hún var að koma frá Kaupmannahöfn via Jönköping og Kristianstad í Svíþjóð eftir að hafa fylgt móður sinni til Jönköping. En bróðir og fjölskylda búa í K-stad.

föstudagur, 20. mars 2009

Íslenskt hagkerfi - framlag til endurreisnar.

  • Sveinn Hjörtur Hjartarson

    Miðað við verga landsframleiðslu er íslenska hagkerfið að stærð nálægt miðbiki þeirra þjóða sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn birtir upplýsingar um á veraldarvefnum m.ö.o. Ísland er í 92. sæti meðal 172 þjóða hvað varða stærð efnahagskerfisins í heild. Sé miðað við höfðatölu íbúa er íslenskt hagkerfi aftur á móti í allra fremstu röð. Engu að síður er íslenska samfélagið sem heild að stærð á við miðlungsstóra borg á meginlandi Evrópu. Í þessu felst sérstaða hagkerfisins. Landið býr að miklum náttúruauðlindum og mannauði, þótt fámennur sé, sem leggur mikið upp úr aukinni menntun og almennri velferð einstaklinga.

    Ísland skipar sér í fremstu röð meðal þjóða sem velferðarríki. Á nokkrum áratugum snérist dæmið við. Ísland var ein fátækasta þjóðin í vesturálfu um aldir. Landsmenn hafa verið vel meðvitaðir um gildi þess að efla atvinnulífið sem grunn að aukinni velferð í þjóðfélaginu. Unnið hefur verið að því að koma fleiri stoðum undir hagkerfið með uppbyggingu í þjónustu og iðnaði samhliða landbúnaði og sjávarútvegi. Ísland hefur nýtt sér með skilvirkum hætti það samkeppnisforskot sem skapandi hagkerfi á upplýsinga – og tækniöld getur veitt þjóðum. Mikilvægt er að missa ekki sjónar af styrkleika íslensks samfélags þrátt fyrir tímabundin áföll vegna bankakreppunnar og þeirra efnahagslegu áfalla sem fylgt hafa.

    Sú greining sem hér fer á eftir á styrkleikum, veikleikum, ógnunum og tækifærum eða SVÓT greining eins og hún er almennt kölluð er ekki tæmandi. Hafa verður í huga þegar slík greining er gerð að oftar en ekki sjást ekki fyrir mikilvægir vaxtasprotar, ný tækifæri og eins þá nýjar ógnanir sem kunna að bíða í næstu framtíð. Eigi að síður getur komið sér vel að tíunda þessi atriði til þess að leggja raunhæft mat á stöðu hagkerfisins. Íslenska hagkerfið er í þeirri stöðu að horfurnar eru jákvæðar jafnvel svo að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn taldi á síðasta ári að þrátt fyrir versnandi horfur í efnahagsmálum væru langtímahorfur í hagkerfinu um margt öfundsverðar.

    Styrkleikar:

    . Opið hagkerfi með sveigjanleikja til að bregðast við breyttum aðstæðum.

    · Vel menntaðir einstaklingar í upplýstu lýðræðissamfélagi sem byggir á 1100 ára sögu.

    · Mikil og víðfeðm stjórnmála- og viðskiptatengsl við umheiminn.

    · Öflug heilbrigðisþjónusta og lægri meðalaldur en í nágrannalöndum.

    · Háþróað og tæknivætt samfélag. Stuttar boðleiðir innan sem utan stjórnkerfis .

    · Fjölbreytt atvinnustarfsemi og sveigjanlegur vinnumarkaður. Mikil atvinnuþátttaka. Vinnusemi þykir almennt dyggð.

    · Frumkvæði, áræðni og nýsköpun í atvinnulífi, listum og menningu eru ríkir eiginleikar í fari einstaklinga.

    · Öflugar atvinnugreinar; sjávarútvegur, iðnaður og ýmis þjónusta,sem skila gjaldeyristekjum til þjóðarbúsins. Blómleg starfsemi á öllum sviðum þjóðlífs.

    · Arðbær og traustur sjávarútvegur, þar sem aflamarkskerfi hefur reynst grundvöllur hagræðingar, áætlanagerðar, stöðugleika, framfara og arðsemi.

    · Traust framleiðsla landbúnaðarafurða í hæsta gæðaflokki

    · Dýrmætar náttúruauðlindir; fiskur, fallvötn og jarðvarmi.

    · Gott samgöngunet innanlands og greiðar leiðir til útlanda.

    Veikleikar....
    · Hagkerfið í djúpri niðursveiflu eftir hagvaxtarskeið. Óvissa um íslenska efnahagsstjórn.

    · Fjármálastarfsemi á brauðfótum eftir bankahrunið í haust

    · Viðskiptasiðferði orðið fyrir álitshnekki og stofnanir samfélagsins margar rúnar trausti.

    · Skuldir hins opinbera, einstaklinga og fyrirtækja of miklar.

    · Skortur á raunsæi hefur einkennt mat á hagkvæmni margra fjárfestinga.

    · Mikil verðbólga er undirrót hárra vaxta og vaxandi skattheimtu.

    · Fyrirhyggju og sparnaði hefur verið fórnað á báli neyslu og fjárfestinga.

    · Tilraunir til að draga úr umfangi opinberrar starfsemi hafa litlu skilað.

    · Öflugir þrýstihópar knýja fram launahækkanir úr takti við greiðslugetu samfélagsins.

    · Klíkuskapur og flokkadrættir hafa blómstrað í skjóli samfélagssmæðar.

    Tækifæri....
    · Núverandi ástand kallar á endurmat á flestum sviðum samfélagsins.

    · Opna hagkerfið enn frekar og rjúfa endanlega einangrun landsins.

    · Byggja þarf upp nýtt fjármálakerfi og skilvirkt og hagkvæmt bankakerfi. Þar fari saman dýrmæt/dýrkeypt reynsla og heilbrigð framtíðarsýn.

    · Treysta þarf hagstjórn og endurskoða peningamálastefnu Seðlabanka.

    · Aðlaga skipurit stjórnsýslunnar að þörfum nútímans og framtíðarinnar

    · Kanna þarf markvisst möguleika á upptöku annars gjaldmiðils en krónu.

    · Breyta þarf lagaumhverfi sem takmarkar heimildir ríkis og sveitarfélaga til að takast á hendur skuldbindingar.

    · Skuldsetning atvinnufyrirtækja kallar á sameiningu rekstrareininga og aukna hagræðingu.

    · Útflutningsatvinnuvegunum verði búið ábyrgt rekstrarumhverfi til langframa. Með hámörkun arðsemi af framleiðslu þeirra gegna þeir lykilhlutverki við endurreisn íslensks efnahagslífs.

    · Samfélagið opið fyrir vænlegum nýjungum í atvinnuuppbyggingu.

    Ógnanir....
    · Hætta er á að erfiðar aðstæður í samfélaginu leiði til þess að þjóðin skiptist í fylkingar vegna ósættis um áherslur og leiðir í helstu málaflokkum.

    · Hætta er á að ekki takist að skapa traust á stofnunum samfélagsins að nýju.

    · Hætta er á að langtímamarkmið víki fyrir skammtíma gróðasjónarmiðum.

    · Hætta er á að ungt fólk flytji af landi brott og þannig þyngist byrðar á þá sem eftir sitja.

    · Hætta er á að alheimskreppan dýpki enn frekar og stór ríki og ríkjasambönd hverfi til einangrunarstefnu.

    · Við endurskoðun „leikreglna“ í íslensku samfélagi þarf að vera skýr greinarmunur á þeim reglum sem gefist hafa vel og þeim sem hafa gefist miður (fjármálakerfið).

    · Hætta er á að hróflað verði við aflamarkskerfinu sem er grundvöllur arðsemi íslensks sjávarútvegs.

    · Komi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu án varanlegra undanþága í sjávarútvegsmálum mun arðsemi af starfseminni smám saman flytjast úr landi.

miðvikudagur, 18. mars 2009

Júlíus Geir Sveinsson - á píanóinu

Ég fór í Salinn í gær til þess að hlusta á systurson minn spila ungverska rapsódíu. Þetta var loka verkið á nemandatónleikum Tónlistarskóla Kópavogs. Það fer ekki milli hluta að hér er mikill efnispiltur í píanóleik og hefur hann allt það til að bera sem góður píanóleikari þarf. Kveðja.

sunnudagur, 15. mars 2009

Sálarstyrking - daðrað við tóninn.

Mikið er til skrifað um tónlist, gildi hennar og tilgang. Af hverju leitum við í tónlistina? Þetta hefur verið mér hugstæð spurning nokkuð lengi. Ég hef undanfarin áratug eða svo lagt nokkuð á mig í frístundum til þess að grúska í kringum þessa spurningu. Hlustað á tónlist, spilað á hljóðfæri, grúskað í nótum, skoðað samspil texta og tóna, lesið ævisögur tónskálda, rætt og lesið viðtöl við tónlistarfólk og áhugafólk um tónlist, lesið gagnrýni um tónlist. Í stuttu máli má ef til vill segja að ég hafi verið alæta á allt varðandi efnið. Ég hef ekki komist að neinni ákveðinni niðurstöðu á þessari vegferð minni. Eitt er þó víst að tónlistariðkun styrkir sálartetrið og nærir það. Eins og þátttakan í þessum tónleikum í dag sem ég var að segja ykkur frá. Hún hreinsar hugann og hún endurnærir líkamann eins og öll líkamleg iðkun reyndar en hún verkar sterkt á toppstykkið. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég hef haldið mig við tónlistina. Nú síðan er tónlistin félagslegur miðill. Hún tengir saman fólk úr ólíkum áttum með margvíslegum hætti. Líklega er ég kominn nálægt kjarnanum þegar ég segi að tónlistin tengi saman fólk. Það upplifir sameiginleg hughrif, tengist böndum og skapar eitthvað sem skiptir það máli. Það er ákveðin sköpun í því að stemma saman raddir allt eins og að spila lag á hljóðfæri, að ég tali ekki um að fara ótroðnar slóðir og skapa eitthvað alveg nýtt. Ungur piltur, sonur látins æskuvinar míns sem ég missti samband við eins og gengur sagði við mig þegar hann var að segja mér frá lífshlaupi þessa gamla vinar: Tónlistin var líf hans og yndi en vinnan til þess að hafa í sig og á. Það kom á daginn að þessi vinur minn hafði spilað mikið og meira að segja samið tónlist sem ég tel æðsta stig tónlistariðkunar. Það brast í mér strengur við þessa frásögn og ég saknaði þess að við skyldum á okkar æskuárum ekki hafa fundið hvorn annan á þessu sviði. Ef til vill hefðu böndin ekki slitnað svona fjótt. Svona hrærir tónlistin í sálartetrinu. Mýkir það og nærir og skerpir skilvit og tilfinningu. Kveðja.

Skaftfellingamessa - Panis angelicus

Kórarnir. Við í Söngfélagi Skaftfellinga sungum við messu í Breiðholtskirkju (índjánatjaldinu í Mjódd) í dag ásamt Samkór Hornafjarðar. Þetta er í fjórða skipti sem sérstök Skaftfellingamessa er haldin í kirkjunni með þessu sniði. Annað hvert ár koma gestir úr austur sýslunni og milli þess fólk úr vestur sýslunni. Eftirminnilegur var söngur ljóðsins Panis angelicus(Brauð englanna) sem sungið var af ungri stúlku, Sólveigu Sigurðardóttur og kórnum. Annars var messan meira og minna með hefðbundnu sniði nema nýjung var að safnaðarfólk tók á móti friðarboðskap og bar hann til safnaðarins. Þetta lag og þessi athöfn er í ætt við kaþólskan sið sem virðist vera að aukast í kirkjum. Eftir messu var boðið upp á kirkjukaffi í boði kórsins í safnaðarheimilinu og þar sungin nokkur lög. Þar var m.a. sungið Bærinn minn sem er hornfirskt lag í útsetningu söngstjórans okkar Friðriks Vignis.
Sigurbjörg Karlsdóttir formaður Samkórsins afhendir Sigurlínu Kirstjánsdóttur gjöf til kórsins. Að þessu sinni voru það prestar úr Austur-Skaftafellssýslu sem tóku þátt í messunni. Sr. Sigurður Kr. Sigurðsson sóknarprestur á Höfn prédikaði og lagði út af því að nú væri frelsarinn reiður. Ritningarlestur lásu sr. Fjalarr Sigurjónsson og sr. Sigurður Kr. Sigurðsson. Prestar Breiðholtskirkju þjónuðu fyrir altari. Organistar voru Friðrik Vignir Stefánsson og Kristín Jóhannesdóttir. Trompetleik annaðist Steinar Þór Kristinsson. Vel á annað hundrað manns sóttu messuna að þessu sinni en í fyrra voru gestir nær tvöhundruð. Þetta var það helsta. Kveðja
Myndir KK

föstudagur, 13. mars 2009

Flott sýning Katý


Katý Við Sirrý enduðum vinnudaginn á því að fara á útskriftarsýningu Katrínar Jóhannesdóttur í Kraum í Aðalstræti - gamla fógetahúsinu elsta húsi Reykjavíkur. Hvet ykkur öll til þess að skoða prjónlesið hennar sem þar gefur að líta. Þarna var fjölskylda hennar og vinir ásamt öðrum gestum. Ég hef ekki mikið vit á prjónlesi en eftir stutta viðkomu á sýningunni gerði ég mér grein fyrir að mikla hugsun, þekkingu, verkvit, smekkvísi og síðast en ekki síst dugnað þarf til að vinna þær flíkur sem þarna voru til sýnis. Þessi þjóð þarf ekki að örvænta um framtíð sína eigandi svo glæsilegt og velmenntað ungt fóllk sem er tilbúið að leggja mikið á sig. Ég hvet lesendur til að fara inn á heimasíðu Katrínar sem hægt er að skoða með því að smella hér. Til hamingju með þetta Katý.

miðvikudagur, 11. mars 2009

Hnípin þjóð í vanda.

Í dag talaði ég við Færeying sem spurði hvernig ástandið væri á Íslandi. Ég bar mig vel og sagði það væri svona eftir atvikum. Hann spurði hvort við ættum nóg að borða og hvort okkur væri nokkuð kalt. Hann bætti því við til útskýringar að þessa væri jafnan spurt í Færeyjum þegar grenslast væri fyrir um erfiðar aðstæður. Ég játti því að nóg væri að bíta og brenna. Í gegnum huga minn flaug sænskt háð frá liðnum tíma: "Allting ordnar sig om jag får behålla hälsan og frugan jobbet." Í íslenskri þýðingu: Það verður allt í lagi ef ég held heilsunni og konan vinnunni. Svona samtal leiðir til þess að maður finnur fyrir niðurlægingu okkar. Stoltið er sært og það á ekkert skilt við hroka. Hún er mikil ábyrgð þeirra sem leikið hafa íslenskt samfélag svo grátt sem raun ber vitni. Verst er að ég held að þeir sem beri mesta ábyrgðina kunni ekki að skammast sín. Maður reynir að sætta sig við þessa stöðu enda fær maður víst engu breytt. Eigi að síður blossar reiðin upp með jöfnu millibili. Svo vill maður þess í milli fyrirgefa. Talar um skilyrðislausa fyrirgefningu o.s.fr.. Þá birtist allt í einu franskur saksóknari og minnir á að réttlætið verði að hafa sinn gang. Segir nánast það sama og Göran Person fyrrum forsætisráðherra að vinna verði markvisst í þessum málum. Ná verði því til baka sem sjálftökuliðið hefur mulið undir sig. Þessi vika hefur verið kennslustund í því hvað stjórnkerfið í heild sinni er handónýtt og vanmegnugt og eftir stendur eins og í kvæðinu; dauft er í sveitum, hnipin þjóð í vanda.

sunnudagur, 8. mars 2009

Textasmiðurinn fann útgefanda

Ég er líklega búinn að fá áhugasaman útgefanda á samantekt minni um Árna Jónsson verslunarstjóra Ásgeirsverslunar. Þetta getur í besta falli talist samantekt af styttri gerðinni. Ég var búinn að koma henni á framfæri við tvo aðila sem reyndust ekki hafa áhuga á að birta hana. Töldu efnið ekki falla að ritstjórnarstefnu sinni. Annar þeirra, vinur minn, benti á aðila sem gæti haft áhuga og nú er að sjá hvort eitthvað verður úr birtinu. Þetta hefur verið svona eins og maður les um í þegar fólk sendir texta sinn milli útgefandanna. Það er komið rúmt ár síðan ég sendi efnið til fyrri aðilans. Þessi árátta að semja texta er sérstök. Er það ekki svo að það sem maður ræður ekki vel við í æsku getur orðið árátta síðar á lífsleiðinni? Maður fylgdist með föður sínum skrifa mikið af greinum á æskuárunum enda starfaði hann við blaðaútgáfu í áratugi og gott ef hann er ekki enn að. Ég hef fengið staðfest af einum fremsta lesblindu sérfræðingi landsins henni Gyðu Stefánsdóttur vinkonu minni, sem fékk fálkaorðu fyrir störf sín á þessu vettvangi að ég sé dæmigerður slíkur. Reyndar sagði hún að þegar hún hafi einu sinni tekið mig í aukatíma í dönsku sem strák - þá hafi hún í fyrsta sinn gert sér fyrst grein fyrir því að lesblinda væri staðreynd. Hún fer enn að hlæja þegar hún minnist þessa tíma rúmum fjörtiu árum síðar. Ég hugsa að ef einhver einn hafi komið því inn hjá mér að ég gæti sett saman texta þá hafi það verið Þorsteinn Matthíasson rithöfundur og kennari. Ég gékk til hans í aukatíma heilan vetur í landsprófi og hann talaði við mig sem jafningja um textagerð og sýndi mér hvernig hann bæri sig að við ritstörf. Maður er ævilangt þakklátur þeim sem veita manni jákvætt áreiti á lífsleiðinni og segja manni að maður geti líka. Bloggið er ágætis vettvangur fyrir þá sem hafa gaman af að tjá sig í rituðu máli. Auðvitað er undirliggjandi vonin um að eiga sér hóp lesenda sem hafa áhuga á skrifunum. Því miður segir teljarinn æðioft aðra sögu. Auðvitað er það svo að fáir nenna að lesa svona texta í gegn. Hjörtur Friðirk sonur segir að ef maður komi efninu ekki til skila á fimmtán sekúndum sé maður búinn að tapa lesanandanum. Miðað við þessa reglu er ég nú kominn inn á "no mans land". Þetta er dálítill "bummer" fyrir egó textasmiðsins, svona eins og þegar sætu stelpurnar þóttust of góðar til að dansa við mann á böllunum í gaggó. Ég ætla eigi að síður að halda aðeins áfram því maður er nú einu sinni að þjóna lund sinni. Eitthvað verður maður að fá út úr þessu - ekki eru það launin. Það eru fjölmargir Íslendingar sem hafa þessa sömu þörf. Það sér maður af öllum bloggsíðunum. Fjölmargir eru að þessu til þess að vekja athygli á textum sínum, eins og þeir sem eru inn á blaðablogginu og málfundasíðunum nú eða eru í framboði. Aðrir fara fáfarnari leiðir og leiða hjá sér kastljós fjölmiðlanna. Bæði með vali á hýsingaraðila fyrir bloggið og efnisumfjöllun. Bloggið kemur svolítið upp um mann ef það er lesið krítískt. Efnisval, afstaða eða afstöðuleysi, það sést fljótt hvort bloggarinn er samkvæmur sjálfum sér og einlægur. Það er svo einkennilegt að uppáhalds bloggararnir mínir eru flestir kvenkyns. Ég hef velt þessu svolítið fyrir mér og komist að þeirri niðurstöðu að þær eru duglegar að skrifa og þær eru einlæglegri, frakkari og hispurslausari en karlkynsbloggarar. Meira síðar.....

laugardagur, 7. mars 2009

Í fyrsta sinn í Djúpið

Simca. Maður er enn við sama heygarðshornið og í síðustu pistlum að rifja upp minnisstæð ferðalög. Fyrsta sinn sem ég fór ásamt foreldrum og systkinum vestur í Ísafjarðardjúp mun hafa verið í kringum 1960 ég er ekki alveg klár á ártalinu gæti hafa verið 1962 - 1963. Minnissstæðast er að við fórum á bílaleigubíl frá Bílaleigu Batta rauða. Þetta var hvít og rauð Simca (framleiddar fyrst 1961) eins og bíllinn á myndinni með þessum pistli. Ferðin var farin til þess að rifja upp veru pabba í Tungu sem ung drengs og sýna okkur börnunum hvar þessi margumtalaði staður væri. Þegar vestur var komið horfuðum við úr nokkurri fjarlægð heim til Tungu sem þá var í eyði. Bærinn var á hægri hönd þegar komið er niður af Steingrímsfjarðarheiði. Við komumst ekki að bænum þar sem tvær frekar vatnsmiklar ár afgirtu bæinn frá þjóðveginum. Þessar ár eru Hvannadalsá og Lágadalsá sem renna saman fyrir neðan bæinn og renna út í Ísafjörð hjá Nauteyri. Það var ekki fyrr en fjörtíu árum síðar að við fórum alla leið að bænum Tungu á jeppa sem ég átti. Það var líka eins gott því bærinn stendur ekki lengur. Það kveiknaði í honum stuttu seinna. Á leiðinni til baka suður í þessari fyrstu ferð var komið við á Arngerðareyri sem þá var komið í eyði en þar var um tíma verslun, sláturhús og félagsheimili. Við gengum um þennan eyðilega stað og inn í íbúðarhúsið sem minnti einna helst á kastala. Minnisstætt er að það var eins og húsið hafi verið skilið eftir í skyndi því þar inni var ýmis húsbúnaðar og fleira á víð og dreif, þótt enginn byggi þarna. Eftir stutta dvöl í Djúpinu og sögustund um liðna atburði var haldið af stað í bæinn. Við náðum ekki í bæinn á einum degi eins og til stóð. Allir voru orðnir þreyttir þegar myrkva tók. Ákveðið var að tjalda einhversstaðar á leiðinni. Foreldrarnir voru ekki viss í myrkrinu hvar við værum nákvæmlega stödd. Um morgunin þegar viö vöknuðum og fórum út úr tjaldinu sáum við heim að Galtarholti í Borgarfirði. Þetta þótti sérstakt vegna þess að mamma á ættir að rekja til þessa staðar en móðurfólk hennar er ættað frá þessu býli.

fimmtudagur, 5. mars 2009

Fyrsta sinn austur fyrir Jökulsá á Breiðamerkursandi

Við brúarvígsluna 1974 Ég fór á myndakvöld hjá Skaftfellingafélaginu fyrr í vetur. Við það tækifæri rifjaðist upp fyrir mér fyrsta skiptið sem ég fór austur á firði þ.e austur í Lón, lengra var ekki farið í það skiptið. Þetta var í ættarferð með Loftsalasystrum og afkomendum þeirra laugardaginn 13. og sunnudaginn 14. júlí 1974. Loftsalasystur voru móðuramma og ömmusystur Sirrýjar en þær voru tólf og áttu þrjá bræður. Síðari daginn var hringvegurinn opnaður með brúarvígslu á Skeiðarársandi. Ferðin gékk vel í alla staði. Mig minnir að gist hafi verið í tjöldum á Klaustri á laugardeginum. Staldrað var stutt við á Höfn í Hornafirði og eitthvað var stoppað á sandinum enda má sjá hátíðartjaldið í baksýn. Lítið man ég þó eftir hátíðarhöldum nema að Magnús Torfi Ólafsson samgönguráðherra var að halda ræðu. Minnisstæðast úr þessari ferð er hinsvegar þegar Anna Guðbrandsdóttir Kruger sem búsett var í USA og hafði búið þar í áratugi stóð upp og fór með allan Gunnarshólma utanbókar í Fljótshlíðinni á leiðinni til baka til Reykjavíkur. Svona flutning getur sá einn sem dvalið hefur langdvölum erlendis og saknað fósturjarðarinnar - það er ekki hægt að leika svona trega í flutningi ljóðs. Það er ég sannfærður um og trúi því að enginn hafi gleymt þessari stund sem á hlýddi.

þriðjudagur, 3. mars 2009

Hugurinn fyrir vestan

Hugurinn er hjá Vestfirðingum sem bíða þess nú að ofankomunni létti og hættan af snjóflóði líði hjá. Var annars að koma af söngæfingu með Sköftunum. Alltaf gott að syngja í lok dags fyrir svefninn. Við erum að æfa þrjú prógrömm. Í fyrsta lagi fyrir Skaftfellingamessu 15. mars. Söngferðalag á Snæfellsnes í apríl og svo fyrir lokatónleika í maí. Kveðja.

sunnudagur, 1. mars 2009

AGGF tuttugu ára.

AGGF félagar. Í gærkvöldi var ég á 20 ára afmælishátið AGGF, leikfimihópsins míns. Ég er búinn að vera félagi í þessum hópi í 19 ár eða allt frá því mín deild var stofnuð. Lengi vel var minn hópur kallaður sjávarútvegshópurinn vegna þess að við vinnufélagarnir vorum allir í þessum hópi, en okkur hefur því miður fækkað og erum við aðeins tveir eftir. Hátíðarræðuna hélt borgarskáldið okkar Þórarinn Eldjárn af þvílíkri snilld að lengi verður í minnum haft. Ég ætla ekki að rekja ræðuna í smáatriðum en hann kom með nýyrði um allt það sem tengist leikfimi og hreyfingu - búkfræði vill hann kalla það vegna þess að það er svo margt tengt þessari þjálfun. Hann fór einnig ítarlega í gegnum það hvernig einelti er vísindalega beitt af fimleikastjóranum til að hvetja okkur áfram og halda samkeppni milli hópanna. Fimmleikastjórinn hafði t.d. nefnt við mig í vikunni hvort ég tæki því nokkuð illa ef félagar í hópnum mundu mæta með handjárn og myndavél til að sækja mig í leikfimina.Það varð nú ekkert úr því sem betur fer. Hann hefur séð hvað ég tók þetta nærri mér. Fyrr um daginn tók ég þátt í ráðstefnu á vegum Straums í gamla Iðnó um efnahagsmál og ESB. Þetta var fyrsta skipti sem ég steig á hið fræga svið gamla leikhússins. Einnig fyrsta skipti sem ég tala á ensku á innlendri ráðstefnu, þar sem flestir voru Íslendingar. Á föstudagskvöldið var ég í fimmtugsafmæli fram eftir kvöldi. Í gær fór ég austur í Hveragerði að sækja Sirrý en hún hefur stundað endurhæfingu þar síðastlliðnar fjórar vikur. Þar hitti maður fjölda kunningja sem voru að endurhæfa sig. Óhætt er að mæla með þessum frábæra stað fyrir þá sem þurfa á því að halda. Þetta er það helsta þessa vikuna.