sunnudagur, 22. mars 2009

Ég er ......

Maðurinn gengur einn með sjálfum sér. Það er undir honum sjálfum komið hvað hann gefur mikið af sér. Einhvern veginn þannig kemst Sigurður Nordal prófessor að orði í bók sinni, Líf og dauði. Þetta er mér hugleikin fullyrðing. Er þetta svona - geng ég einn minn veg. Á ég það undir sjálfum mér hvað ég gef af mér? Get ég gengið einn og óáreittur minn veg? Er ÞAÐ það sem ég vil eða á ég annarra kosta völ? Svari hver fyrir sig. Mitt svar er - NEI. Ég vil ekki og hef engan áhuga á að ganga einn með sjálfum mér. Til þess hef ég gert ýmislegt: Ég á fjölskyldu, á vini, blogga, er í Rótarý, er í kór, er í vinnu, er í stjórnmálaflokki. Ég er og ég hamast við að vera og tilheyra. En hvað þýðir þetta að "ég er", ef ég geng einn með sjálfum mér? Líf mannsins er barátta við sjálfan sig í tíma og rúmi að komast út fyrir skel sjálfsins. Lífið er viðleitni til að ná til annarra og segja ég er - ég vil nálgast þig! Ég er vinur þinn og vil vera það skilyrðislaust! Boðin ná ekki alltaf í gegn og þá grípur örvæntingin um sig. Þeir sem maður vill nálgast eru ekki staddir í sama tíma eða rúmi. Eru þeir þá einir með sjálfum sér? Hugurinn segir: Láttu ekki svona. Öll nálgun þjónar ákveðnum tilgangi. Þú vilt, þú ætlar, ekkert er án tilgangs. Hver var þá tilgangur minn? Var hann að hljóta varanlegt skjól í hugarfylgsni viðkomandi eða snýkja væntumþykju? Viðleitni okkar virðist drifin áfram af sterkum hvötum sem við ráðum illa við eða vitum ekki af hvaða meiði eru sprottnar. Ef til vill þorum við ekki að kannast við þær - því þá förum við hjá okkur. Ha ég, ekki benda á mig. Það hentar ekki - allar aðstæður eru með einum eða örðum hætti skilyrtar - við forðumst ábyrgð. Þessar hvatir eru meðal annars: græðgi, sjálfselska og hroki. Þarna er sem betur fer líka góðvild, örlæti, réttsýni og draumurinn um að ganga í ljósinu. Auðvitað er það undir okkur sjálfum komið svona öllu jafna minnsta kosti hvernig okkur tekst til við að stýra hvötum okkar og engum örðum. Okkar er að greina á milli og velja. Nóg í bili. Kveðja.

Engin ummæli: