sunnudagur, 1. mars 2009

AGGF tuttugu ára.

AGGF félagar. Í gærkvöldi var ég á 20 ára afmælishátið AGGF, leikfimihópsins míns. Ég er búinn að vera félagi í þessum hópi í 19 ár eða allt frá því mín deild var stofnuð. Lengi vel var minn hópur kallaður sjávarútvegshópurinn vegna þess að við vinnufélagarnir vorum allir í þessum hópi, en okkur hefur því miður fækkað og erum við aðeins tveir eftir. Hátíðarræðuna hélt borgarskáldið okkar Þórarinn Eldjárn af þvílíkri snilld að lengi verður í minnum haft. Ég ætla ekki að rekja ræðuna í smáatriðum en hann kom með nýyrði um allt það sem tengist leikfimi og hreyfingu - búkfræði vill hann kalla það vegna þess að það er svo margt tengt þessari þjálfun. Hann fór einnig ítarlega í gegnum það hvernig einelti er vísindalega beitt af fimleikastjóranum til að hvetja okkur áfram og halda samkeppni milli hópanna. Fimmleikastjórinn hafði t.d. nefnt við mig í vikunni hvort ég tæki því nokkuð illa ef félagar í hópnum mundu mæta með handjárn og myndavél til að sækja mig í leikfimina.Það varð nú ekkert úr því sem betur fer. Hann hefur séð hvað ég tók þetta nærri mér. Fyrr um daginn tók ég þátt í ráðstefnu á vegum Straums í gamla Iðnó um efnahagsmál og ESB. Þetta var fyrsta skipti sem ég steig á hið fræga svið gamla leikhússins. Einnig fyrsta skipti sem ég tala á ensku á innlendri ráðstefnu, þar sem flestir voru Íslendingar. Á föstudagskvöldið var ég í fimmtugsafmæli fram eftir kvöldi. Í gær fór ég austur í Hveragerði að sækja Sirrý en hún hefur stundað endurhæfingu þar síðastlliðnar fjórar vikur. Þar hitti maður fjölda kunningja sem voru að endurhæfa sig. Óhætt er að mæla með þessum frábæra stað fyrir þá sem þurfa á því að halda. Þetta er það helsta þessa vikuna.

Engin ummæli: