fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Í partý hjá AGGF og ,,shashimi" veislu á Þremur frökkum.

Hvala shashimi. Var á þremur Frökkum í kvöld og fékk þessa æðislegu shashimi máltíð, hrátt hvalkjöt með sojasósu og grænni piparrótarsósu og þvílíkt góðgæti. Í millirétt var steiktur þorskur og í aðalrétt var steikt hvalkjötslund í piparsósu. Að lokum var í eftirrétt skyrkaka sem fæst bara á Þremur frökkum. Ég mæli með svona hvalamáltíð og að ég tali nú ekki um þessari skyrköku. Japanirnir sem við borðuðum með voru að vonum glaðir að fá almennilegt kjöt.

AGGF partý. Einstaka sinnum fer maður í fleiri en eina veislu á dag. Í dag var partý hjá leikfimisklúbbnum mínum í tilefni 19 ára afmælis klúbbsins og því var fagnað að nú hefur klúbburinn fengið nýja aðstöðu - sama húsnæði og hann byrjaði í hér um árið. Ég hef verið í þessu leikfimiklúbb í 18 ár og sé ekki eftir því. Annars lítið í fréttum.


sunnudagur, 24. febrúar 2008

Austurferð á góu.

Hekla í hvítum feldi. Við tókum þá ákvörðun við morgunvarðarborðið að fara austur í Skaftártungu og líta eftir litla Göggubústaðnum. Lögðum af stað kl. 11.00 og vorum komin í Skaftártungu kl. 15.00. Útsýni var að venju ægifagurt. Hér má sjá Heklu í vetarbúningi. Við þreytumst aldrei að keyra þessa fallegu leið.
Hestastóð í vetrarbúningi. Fátt lýsir betur vetrarstemmningu en hross í þéttum hópi í haga. Einn æskudraumurinn var sá að eiga hesta, þótt ekki hafi hann orðið að veruleika enn. Hann er tígulegur þarfasti þjónninn þar sem hann stendur af sér vetrarveðrin í íslenskum frosthaga.

Reynisdrangar. Þeir eru myndrænt kennileiti á austurleið þegar komið er til Víkur í Mýrdal. Rúntuðum um staðinn sem heimasætan hefur orðið sérstakt dálæti á. Nú síðan snæddum við þjóðvegahamborgara í Víkurskála framreidda af pólskum stúlkum sem töluðu hrafl í ensku og íslensku. Eftirtektarvert var hversu mikið var af erlendum túristum í Víkurskála.
Sigrún og Sirrý. Við stoppuðum í rétt um klukkutíma í Tungunni. Nógu lengi til að hita upp bústaðinn og fá okkur kaffisopa. Kyrrðin í sveitinni var mikil, logn og blíða. Hitinn sveiflaðist um 10°C á leiðinni austur. Náðum smá stund til að hlaða batteríin áður en haldið var til baka úr Skaftártungu. Hér má sjá þær mæðgur á pallinum fyrir framan Göggubústað.
Við. Sigrún tók þessa mynd af okkur áður en haldið var til baka heim á leið. Við gátum keyrt bílinn að bakkaflötinni sem bústaðurinn stendur á og þurftum aðeins að ganga síðasta spölin. Það var minni snjór en við höfðum gert okkur í hugarlund. Við höfum nú komið í þennan bústað reglulega síðustu 25 ár. Það er mjög gaman að renna í gegnum gestabókina og rifja upp gamlar minningar frá þessum stað.

laugardagur, 23. febrúar 2008

Sitt lítið af hverju.

Við fórum á kaffihúsið Súfistann í dag. Þar hittum við Rakel og Bjarna foreldra Stellu og áttum með þeim góða stund. Hér komu í morgun Björn og hundurinn Sunna og svo Gulla vinkona. Fórum bæði í Kringluna og Smáralind í leit að kjarakaupm og hittum líka fullt af fólki. Í kvöld höfum við verið að horfa á Spaugstofuna og Eurovision. Mér finnst fyrrnefndi þátturinn orðinn svo þreyttur að það ætti að hvíla hann. Þessi þáttur gékk út á það að endurspila gömul Eurovision lög sem þeir hafa afskræmt í gegnum tíðina. Við höfum alltaf verið áhugasöm um þessa sönglagakeppni allt frá Svíþjóðarárunum þar sem þessi keppni er alltaf stórviðburður. Svíar leggja mikið í þessa keppni. Sjáumst. Kveðja.

miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Á nýrri skrifstofu.

Sirrý. Annállinn óskar Sirrý til hamingju með nýjan kontór í Odda. Þetta er hin virðulegasta skrifstofa og vonandi að hún komi að góðum notum. Eins og sjá má á myndinni er lektorinn með dualskjá sem getur komið sér mjög vel í vandasömum verkefnum. Kveðja.

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Tíminn flýgur.

Stóra spurningin í dag er hvort blessuð loðnan sýnir sig. Það er orðið ansi langt liðið af febrúar. Annars fór ég á Rótarýfund í hádeginu og söngæfingu í kvöld. Í dag var fundarefnið staða barna af erlendu bergi í íslensku samfélagi. Áhugavert erindi í því fjölmenningar samfélagi sem Ísland er orðið. Það var sagt frá því hversu erfitt það getur verið fyrir börn að fóta sig í íslensku samfélagi sem eiga erlenda foreldra og hafa sjálf takmarkaða þekkingu á samfélaginu og tungunni. Endaði daginn með því að koma seint á söngæfingu eftir tveggja vikna fjarveru. Svolítið ryðgaður í laglínunni eftir fjarveruna, en það kemur aftur. Nú er það undirbúningurinn fyrir Skaftfellingamessuna 9. mars. Fórum í gegnum messuskránna og æfðum svör safnaðarins - messusöngskrá Sigfúsar Einarssonar tónskálds. Kveðja.

mánudagur, 18. febrúar 2008

Landsliðskappinn Júlíus.

Júlíus Geir Sveinsson. Við óskum Júlíusi frænda til hamingju með sinn fyrsta leik í unglingalandsliðinu 16 ára og yngri. Hann var fyrirliði liðsins eins og sést á fyrirliðabandinu á myndinni. Þeir unnu Norðmenn 4 - 2 í vináttulandsleik sl. laugardag. Þetta er nú það lengsta á íþróttabrautinni, sem einhver í stórfjölskyldunni hefur náð til þessa. Svo má bæta því við að kappinn spilar líka á píanó. Kveðja.

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Norðan heiða.

Úr háloftum. Ég skrapp til Akureyrar í dagsferð. Ætlaði að taka myndir fyrir Stjánastaðabúa en mundi ekki eftir því fyrr en á leiðinni til baka. Þannig að þeir verða að láta sér nægja háloftamynd af norðlenskum heiðum eða á að segja heldur fjallgörðum? Fín ferð báðar leiðir og ekki var jafnvægið að trufla. Horfði töluvert á tölur dagsins 14 - 2 og velti því fyrir mér hvað þær þýddu. Jú nafni minn á afmæli 15 - 2 ekki var það það. Svo allt í einu rofaði til - landsleikurinn hérna forðum daga í Köben og ekki orð um það frekar. Yljaði mér líka við dagana í febrúar 2005 þegar við fórum að skoða nafna í fyrsta sinn árið 2005. Þá var nú mun verra veður en í dag. Sendum okkar bestu afmæliskveðjur til nafna.

miðvikudagur, 13. febrúar 2008

Góður frændi í heimsókn.

Hermann Hjartarson. Hér kom í heimsókn föðurbróðir minn Hermann Hjartarson f.v. framkvæmdastjóri útgerðrar- og fiskvinnslufyrirtækisins Stakkholts hf. í Ólafsvík. Það fyrirtæki var umsvifamikið um áratugaskeið í Ólafsvík og um tíma á Höfn. Stofnandi þess var tengdafaðir hans Halldór Jónsson. Tók þessa mynd af honum í ruggustól afa og langaafa okkar Finnbjörns Hermannssonar verslunarmanns frá Ísafirði. Tilefni heimsóknarinnar fyrir utan það að rækta frændsemi var að ræða störf Finnbjörns hjá Ásgeirsverslun á Ísafirði en þar vann hann lengst af starfsævi sinni. Ég hef verið að grúska í sögu Ásgeirsverslunar, sérstaklega sögu Árna Jónssonar faktors. Afraksturinn af því er í handritinu sem Hermann heldur á. Ef einhver rekst hér inn á þessa síðu með upplýsingar um þetta efni er hann hvattur til að hafa samband.

þriðjudagur, 12. febrúar 2008

Enginn veit sinn næturstað.

Á sunnudagskvöld fékk ég allt í einu heiftarleg svima- og uppköst. Ég varð hræddur því ég hef aldrei upplifað svona nokkuð. Sirrý hringdi í 112 og farið var með mig upp á Borgarspítala. Eftir rannsóknir var það niðurstaða læknanna að þetta væru steinar eða flögur í miðeyra. Þeir framkölluðu þessi köst að nýju með ákveðnum hreyfingum til að færa steinana frá jafnvægistauginni. Ég vona að það hafi tekist, allavega hef ég ekki fengið kast síðan ég kom heim í gær. Ég fékk að gista Borgarspítalann aðfaranótt mánudagsins í bráðaherbergi ásamt nokkrum öðrum, bæði konum og körlum. Kaldhæðni örlaganna mundi einhver segja í ljósi síðustu bloggfærslu að ég skyldi sjálfur sama dag fá að upplifa það að liggja á sjúkrastofu með báðum kynum. Satt best að segja var mér alveg sama þótt einhverjir hefðu séð mig á nærbuxunum. Hinsvegar varð mér ekki svefnsamt vegna erils á stofnunni um nóttina. Kveðja.

sunnudagur, 10. febrúar 2008

Feðgar á ferð.

Axel og synir. Helstu fréttir dagsins eru þær að við fórum á Hlíðarveginn til mömmu. Þar hittum við Axel bróður og syni hans Alexander Garðar og Axel Garðar jr og Rannveigu. Þær eru helstar fréttir af þeim að Alexander á að fermast í 30. mars næstkomandi. Eftir viðkomu á Hlíðarveginum var farið í búðarleiðangur. Síðdegis fórum við á LHS að vitja sr. Hjartar sem lagður var þar inn á föstudaginn. Hann er þar á fjögurra manna stofu þar sem gista bæði konur og karlar saman á stofunni. Hlýtur að vera svolítið sérstakt svo ekki sé meira sagt. Hann hafði þau spakmannlegu orð um þessa skipan að líklega væri litið til aldurs sjúklinga. Allir væru þeir vel yfir sjötugt og því lítil hætta á að þeir rugluðust á rúmum. Húmórinn er nauðsynlegur á stundum sem þessum. Þetta eru svona helstu fréttirnar þessa helgina. Kveðja.

fimmtudagur, 7. febrúar 2008

Einn léttur.

Presturinn var að kveðja heimilisfólkið á bænum eftir húsvitjun. Litli drengurinn hafði orð á því við prestinn að hann sæti öfugur í hnakknum: "Hvað veist þú um það drengur minn í hvaða átt ég stefni?" Kveðja.

þriðjudagur, 5. febrúar 2008

Tómlegt í kotinu.

Það hefur heldur hlýnað í kvöld, snjór yfir öllu og gott skyggni til Perlunar. Ég var að koma af söngæfingu með Sköftunum sem ég reyni að gera á hverju þriðjudags kvöldi. Það verður Skaftfellingamessa í Breiðholtskirkju 9. mars nk. og sálmarnir voru æfðir á fullu. Hjörtur Friðrik og fjölskylda fóru til Svíþjóðar snemma á laugardaginn. Við lögðum af stað með þau til Keflavíkur kl. 4.30 um morguninn. Ferðin gékk vel hjá þeim alla leið til Kristianstad nema hvað þar gékk illa að fá taxa til að keyra þau heim að dyrum. Loksins þegar náðist í taxa, kom babb í bátinn. Jóhannes Ernir ríflega eins árs gat ekki fengið far. Hann var of ungur!!! Hjörtur mátti bíða á lestarstöðinni með barnið þangað til Ingibjörg kom til baka á þeirra bíl. Svona eru nú reglurnar í Svíaríki og þeim skal framfylgt. Hér hefur varðhundurinn Sunna verið í heimsókn yfir helgina og er hún líka farin heim til sín. Þannig að það er hálf tómlegt í kotinu þegar gestirnir eru farnir. Bolludagur í gær og sprengidagur hafa ekki auðveldað baráttuna við vigtina. Maður verður að taka sér tak í þeim málum. Nóg um það í bili. Læt þetta duga. Kveðja.