sunnudagur, 24. febrúar 2008

Austurferð á góu.

Hekla í hvítum feldi. Við tókum þá ákvörðun við morgunvarðarborðið að fara austur í Skaftártungu og líta eftir litla Göggubústaðnum. Lögðum af stað kl. 11.00 og vorum komin í Skaftártungu kl. 15.00. Útsýni var að venju ægifagurt. Hér má sjá Heklu í vetarbúningi. Við þreytumst aldrei að keyra þessa fallegu leið.
Hestastóð í vetrarbúningi. Fátt lýsir betur vetrarstemmningu en hross í þéttum hópi í haga. Einn æskudraumurinn var sá að eiga hesta, þótt ekki hafi hann orðið að veruleika enn. Hann er tígulegur þarfasti þjónninn þar sem hann stendur af sér vetrarveðrin í íslenskum frosthaga.

Reynisdrangar. Þeir eru myndrænt kennileiti á austurleið þegar komið er til Víkur í Mýrdal. Rúntuðum um staðinn sem heimasætan hefur orðið sérstakt dálæti á. Nú síðan snæddum við þjóðvegahamborgara í Víkurskála framreidda af pólskum stúlkum sem töluðu hrafl í ensku og íslensku. Eftirtektarvert var hversu mikið var af erlendum túristum í Víkurskála.
Sigrún og Sirrý. Við stoppuðum í rétt um klukkutíma í Tungunni. Nógu lengi til að hita upp bústaðinn og fá okkur kaffisopa. Kyrrðin í sveitinni var mikil, logn og blíða. Hitinn sveiflaðist um 10°C á leiðinni austur. Náðum smá stund til að hlaða batteríin áður en haldið var til baka úr Skaftártungu. Hér má sjá þær mæðgur á pallinum fyrir framan Göggubústað.
Við. Sigrún tók þessa mynd af okkur áður en haldið var til baka heim á leið. Við gátum keyrt bílinn að bakkaflötinni sem bústaðurinn stendur á og þurftum aðeins að ganga síðasta spölin. Það var minni snjór en við höfðum gert okkur í hugarlund. Við höfum nú komið í þennan bústað reglulega síðustu 25 ár. Það er mjög gaman að renna í gegnum gestabókina og rifja upp gamlar minningar frá þessum stað.

Engin ummæli: