þriðjudagur, 12. febrúar 2008

Enginn veit sinn næturstað.

Á sunnudagskvöld fékk ég allt í einu heiftarleg svima- og uppköst. Ég varð hræddur því ég hef aldrei upplifað svona nokkuð. Sirrý hringdi í 112 og farið var með mig upp á Borgarspítala. Eftir rannsóknir var það niðurstaða læknanna að þetta væru steinar eða flögur í miðeyra. Þeir framkölluðu þessi köst að nýju með ákveðnum hreyfingum til að færa steinana frá jafnvægistauginni. Ég vona að það hafi tekist, allavega hef ég ekki fengið kast síðan ég kom heim í gær. Ég fékk að gista Borgarspítalann aðfaranótt mánudagsins í bráðaherbergi ásamt nokkrum öðrum, bæði konum og körlum. Kaldhæðni örlaganna mundi einhver segja í ljósi síðustu bloggfærslu að ég skyldi sjálfur sama dag fá að upplifa það að liggja á sjúkrastofu með báðum kynum. Satt best að segja var mér alveg sama þótt einhverjir hefðu séð mig á nærbuxunum. Hinsvegar varð mér ekki svefnsamt vegna erils á stofnunni um nóttina. Kveðja.

Engin ummæli: