föstudagur, 29. september 2006

Í lok vinnuviku.

Akureyri
Hef haft nóg að gera þessa vikuna. Meðal afreka var ferð norður á Akureyri á miðvikudag. Flugum þrír í Dorniervél Landsflugs á Sauðárkrók og tókum svo bílaleigubíl þar og keyrðum til Akureyrar. Málið var að alltaf var verið að fresta fluginu á Akureyri vegna þoku. Svo var tilkynnt um flug á Sauðárkrók og við tókum sjénsinn og flugum þangað í staðinn. Rétt á eftir var svo flogið til Akureyrar þannig að við græddum nú engann tíma á þessu. Við komum hálftíma á eftir Akureyrarvélinni. En þetta var allavega tilraun til þess að spara tíma og bara nokkuð skemmtileg. Við spurðum þann sem leigði okkur bílinn á Króknum hvernig væri að keyra á milli Sauðárkróks og Akureyrar og hvort hætta væri á lögreglumælingum. Það kom okkur á óvart hvað hann var vel að sér um þessi mál. Það kom líka á daginn að hann var lögreglumaður í fullum skrúða undir flíspeysu sem hann var í. Ferðin heim frá Akureyri var tíðindalaus og vorum við komnir í bæinn um sjö leytið.

miðvikudagur, 27. september 2006

Get bara ekki orða bundist

Í lýðfrjálsu landi er umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra mikilvægt. Lýðræðið er vel til þess fallið svo að allir geti tjáð skoðanir sínar og haft sitt að segja í leik og starfi. Þetta er langt í frá fullkomið kerfi. Þrátt fyrir allar hátíðaræður um gildi lýðræðisins sem byrja oft í sama dúr og þessi pistill, hafa langt í frá allir sömu aðstöðu til að koma skoðunum sínum á framfæri. Sumir eru í betri aðstöðu til þess að tjá sig í fjölmiðlum vegna þess að þeir hafa völd, eiga fé og fjölmiðla, eru þekktir einstaklingar, vinna við fjölmiðla, eru fjölmiðlavænir eða hafa "rétt" sambönd. Ómar Ragnarsson fréttamaður fellur í einn eða fleiri af þessum forréttindahópum. Hann hefur haft mjög góðan aðgang að fjölmiðlum. Þótt hann hafi nú komið út út úr "skápnum" varðandi skoðanir sínar á Kárahnjúkavirkjun, hefur það ekki farið milli mála í langan tíma að umfjöllun hans hefur ekki verið af hlutlægni. Maður hefur þó ekki látið það trufla sig mikið því það er væntanlega eins með mig og marga aðra Íslendinga að Ómar á rými í hjarta okkar. Hann er okkur mörgum kær fyrir þær ómetanlegu stundir sem hann hefur veitt okkur í sínum mörgum hlutverkum í gegnum tíðina. Maður hefur svona horft í gegnum fingur sér og hugsað sem svo að nú væri tilfinningar hans að bera rökhyggjuna ofurliði. Það breytir því þó ekki að síðasta útspil hans um að Kárahnjúkavirkjun verði ekki tekin í notkun er svoleiðis út í hött að mér er fyrirmunað að skilja hvert hann er að fara. Svona hugmynd yrði hún að raunveruleika mundi valda okkur gríðarlegu efnahagslegu tjóni og skerða lífskjör okkar til lengri tíma. Mér er til efs að þeir sem samankomnir voru á Austurvelli í gær séu tilbúnir að bera það hundraða milljarða tjón sem þjóðfélagið stæði uppi með. Þetta útspil Ómars er að mínu áliti því miður dæmi um varasama og jafnvel hættulega hugmynd sem fær umfjöllun í fjölmiðlun í þveröfugu hlutfalli við efnisinnihaldið. Svona hugmynd minnir okkur á að við verðum ávallt að halda dómgreind okkar og vöku. Við getum ekki treyst á hlutlægni fjölmiðla til þess að standa vörð um almannaheill í skoðanaskiptum um mikilvæg málefni. Ég held ég láti þetta duga í bili. Kveðja.

sunnudagur, 24. september 2006

Haustferð í Skaftártungu.

Skaftártungan Við fórum austur í Skaftártungu á föstudag. Keyrðum austur í fínu veðri. Stoppuðum í Víkurskála og borðum þar. Héldum svo áfram og vorum komin í Tunguna um klukkan níu um kvöldið. Við vígðum nýja svefnsófann sem við keyptum í bústaðinn og er það allt annað að sofa í honum en kojunum. Nú við fórum svo í mikinn göngutúr á laugardeginum fyrir hádegið og sváfum svo góðan lúr eftir hann. Þá var haldið á Klaustur en þar var búið að loka matvörubúðinni. Maður vill jú styrkja landsbyggðina með öllum ráðum, en það er erfitt að gera það þegar maður kemur að læstum dyrum. Það var þó nokkuð af túristum og veiðimönnum á svæðinu, bæði gæsa- og stangveiðimönnum sem ætluðu að versla. Við gistum svo í nótt og lögðum að stað í morgunsárið heim aftur. Þetta var frábær ferð.
Við hundaþúfuna.













Smakkað á hrútaberjum. Við fórum í þriggja tíma göngu frá bústaðnum upp í Grafarkirkju og aftur til baka. Komum við í réttunum og skoðuðum féð sem þar var saman komið.
Fé af fjalli Hér er verið að koma með fjársafn af fjalli. Líklega eru þetta eftirlegukindur þær voru það fáar og víða komin söfn í heimastún bæjanna.
Við altarið Við komum við í Grafarkirkju og áttum þar góða stund.
Tungurollur Tungukynið eina og sanna.
Sirrý Það má nú láta sig dreyma um það hvernig það væri ef maður hefði orðið rollubóndi í sveitinni.
Skaftafell Við keyrðum austur í Skaftafell á Laugardeginum. Þar voru aðeins nokkrir erlendir túristar á ferð.

Austur í Tungu.

Kvöldstilla Við borðuðum úti á laugardagskvöldið. Að vísu var búið að loka í matvöruversluninni sem við stóluðum á á Klaustri þannig að ekkert fékkst til að steikja, en "Ríkið" var opið bensínsölunni, þannig að rauðvín með matnum var klárt. Komið alla leið frá Australíu.Í staðinn fyrir holusteik var þjóðvegahamborgari í kvöldmatinn. Það verður að redda málunum.

föstudagur, 22. september 2006

Haustblíða

Hér er fallegt haustveður eins og það gerast best. Heiðskýrt,hlýtt og stillur. Svona ekta veður til að njóta. Enn og aftur kominn helgi og um að gera að nýta tímann til þess að vera útivið. Annars lítið í fréttum af okkur. Kveðja.

Tölvan "krassaði"

Ég er búinn að eyða töluverðum tíma í að laga tölvuna mína. Setja í hana nýjan disk og setja upp prógrömmin aftur. Þetta er allt að koma, en einhverjum gögnum og myndum hef ég tapað. Maður á að taka afrit. En svo er ég líka búinn að tapa "linkum" á netinu sem ég heimsótti reglulega. Jæja þýðir ekki að fást um það. Annars allt gott af okkur að frétta. Kveðja.

mánudagur, 18. september 2006

Á söngæfingu.

foto:Kristinn.
Ég fór á fyrstu söngæfingu vetrarins í kvöld með Sköftunum. Það voru tæplega 30 manns mættir og gaman að hitta söngfélagana að loknum sumarfríum. Þetta er fjórði veturinn sem ég æfi með kórnum. Nú er hafin æfing fyrir söngferð sem farin verður á Klaustur í lok október. Annars er lítið í fréttum. Veðrið er orðið haustlegt, rok og rigning og haustlitir farnir að sýna sig. Það er helst í fréttum héðan að búið er að mála húsið að utan. Það er í óbreyttum litum en það er allt annað að sjá það. Búið að laga skellur og sprungur. Lítið heyrt í Valdimar og Stellu þau voru í réttum um helgina. Sigrún og Sirrý á fullu í skólanum. Kveðja.

sunnudagur, 17. september 2006

Sænsku kosningaúrslitin.

Jæja Göran Person er búinn að lýsa sig sigrðan í kosningunum í Svíþjóð. Þrátt fyrir 4% hagvöxt náði hann ekki vopnum sínum. Kosningarloforð hans gékk út á að hann mundi halda áfram á sömu braut. Gaf óskýr skilaboð um hvað hann mundi gera varaðndi m.a. atvinnuleysið og hafði loðna framtíðarsýn. Moderatarnir unnu stórsigur í kosningunum. Leiðtogi þeirra er Fredrik Reinfeldt. Það er augljóst að þarna er kominn leiðtogi af nýrri kynslóð manna, yngri og ferskari en GP. Vonandi tekst nýjum meirihluta að hrista upp í sænsku þjóðfélagi og skapa því ný tækifæri inn í framtíðina. Tími GP var búinn og í raun tóm della að láta hann keppa um endurval eftir 10 ár á ráðherrastóli. En valdamenn láta ekki auðveldlega segjast þegar þeirra tími er búinn og tími til að skipta um forystu. Jæja hef þetta ekki lengra í bili. Af okkur er það helst að frétta að við höfum verið heimavið í dag og í gær aðallega við heimilsstöf. Það veitir víst ekki af að reyna að taka svolítið til við og við. Sirrý skrapp á ráðstefnu sem fjallaði um alzheimer sjúkdóminn. Við höfum verið að passa hundinn hana Sunnu í dag og í gær. Björn skrapp norður. Við litum aðeins við hjá Íu og Kolla. Nú og svo komum við hjá Hildu og Magnúsi og fengum að halda soldið á heimasætunni Valgerði Birnu. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

laugardagur, 16. september 2006

Í leik og starfi.

Við Sirrý fórum í 30 ára afmæli Félagsvísindadeildar í gær. Það var haldið í veislusölum í Lækjargötu. Held að þetta sé húsið sem Hið íslenksa bókmenntafélag lét byggja. Þetta var hin veglegasta veisla og margir kunnir félagsvísindapostular að fagna þessum tímamótum. Þar má nefna fremstan í flokki sjálfan forsetann. Þarna var margt skrafað og maður varð margs vísari af þessum vettvangi. Átti samtal við einn virtan félagsvísindamann og ætla ekki að rekja það að öðru leyti en því að við ræddum um gildi viðurkenningarinnar. Að vera einlæglega viðurkenndur fyrir störf sín og framgöngu af þeim sem eru manni næstir. Þetta skiptir okkur öll svo gríðarlegu máli. Samt sem áður erum við spör á að hrósa hvort öðru þótt tilefnin séu mörg. Samanber að enginn sé spámaður í eigin föðurlandi. Ég held við ættum að hafa þetta huga og muna að hvetja hvort annað meira í leik og starfi. Nú í aðra sálma. Stjórnmálaumræðan mun fara vaxandi á næstu mánuðum og verður spennandi að sjá hvernig hún muni þróast hér á landi. Ég hef aðeins fylgst með umræðunni í Svíþjóð. Kosningabaráttan þar er í algleymingi. Göran Persson virðist eiga í vök að verjast og honum er fundið það helst til foráttu að hann hafi fjarlægst alþýðu manna og skynji ekki lengur kjör hennar. Hann sé orðinn herragarðseigandi og vilji frekar deila geði með auðmönnum en alþýðu manna. Hann verst þessum árásum með því að segja að Svíar hafi framar öðrum þjóðum staðið dyggan vörð um jafnaðarmennskuna og náð góðum árangri. Nú er að sjá hver verður niðurstaða sænskra kjósenda. En þau eru eigi að síður nokkur hneykslismálin tengd ofurlaunum forstjóranna sem nú eru þar til umfjöllunar. Græðgin hefur náð sterkum tökum á Vesturlöndum, auðhyggja er grímulausari en áður og virðist drifin áfram af væntingum um mikinn ávinning á skömmum tíma. Í anda þess að "the winner takes it all." Baráttan í pólitíkinni mun eins og alltaf snúast fyrst og fremst um skiptingu lífskjara. Hugsið ykkur það eru yfir 400 000 þúsund manns án atvinnu í Svíþjóð og þá er ekki tekið með dulið atvinnuleysi sem a.m.k. tvöfaldar þessa tölu. Svíar eru um níu milljónir manna. Ég held að við sem tilheyrum velmegunarkynslóðum eftstríðsáranna (1946 - 1960) höfum misst sjónar af mikilvægum lífsgildum og börnin okkar sem nú eru að hasla sér völl í atvinnulífinu hafi óraunhæfa sín á það hvað þurfi til þess að koma undir sig fótunum fjárhagslega. Þar dugi að verða sér út um skjótfenginn gróða og lifa svo um alla framtíð í góðum efnum. Margir virðast ekki gera sér grein fyrir því aðfyrir allflest okkar er það linnulaus barátta að koma sér upp þaki yfir höfuðið og láta fjárhaginn ekki fara úr böndum. Einn flippferð í kaupstuði getur bundið fólk í áraraðir á fjárhagslegum klafa. Þar fyrir utan leysa peningar langt í frá allar þarfir manna. Þeir geta meira að segja verið til ógagns. Þótt ekki ætli ég að gera lítið úr því að það geti komið sér vel að eiga sparifé þegar þess er þörf. Læt þetta duga. Kveðja.

miðvikudagur, 13. september 2006

Hvað er tímamótaviðburður?

Er það tímamótaviðburður að herinn er á förum? Einhvertíma hefði það þótt það, en satt best að segja finnst mér þetta engin meiriháttar tímamót. Það hlaut að koma að þessu. Vægi þessarar varðstöðvar hlaut að hverfa eftir lok kaldastríðsins. Jafnvel stórveldi hafa ekki efni á því að halda úti varðstöð um ókomna framtíð án skilgreindra verkefna. Þetta hefur rask í för með sér aðallega fyrir þá sem hafa haft lífsviðurværi sitt af vinnu í herstöðinni og ekki skal gert lítið úr því. Efnahagsleg áhrif herstöðvarinnar voru mikil hér áður fyrr þótt þau hafi minnkað mikið síðari ár. Lengi vel var gjaldeyrisöflunin vegna herstöðvarinnar um 10% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar á hverju ári. Aðstaðan á vellinum er mikilvæg fyrir millilandaflugið og án hersíns hefði uppbyggingin verið hægari og mun minni. Þeir hafa byggt upp flugbrautirnar og viðhaldið þeim og drjúgan skylding lögðu þeir í byggingu flugstöðvarinnar. Það fé sem þeir hafa greitt vegna dvalar sinnar hér nemur vafalaust hundruðum milljarða í gegnum tíðina. Við höfum svo notið lendingargjaldanna af vellinum öll árin. Á tímum kaldastríðsins hefðum við vafalaust getað fengið þá til þess að leggja töluvert meira að mörkum en um það var engin samstaða. Hvalfjarðarvegur, Suðurlandsvegur, steyptir flugvellir fyrir norðan og austan. Allt voru þetta framkvæmdir sem maður heyrði talað um en ekkert varð af. Lítið er rætt núna um hin menningarlegu áhrif sem varnarliðið hafði hér á landi. Þau eru vafalaust mikil og hafa hjálpað okkur til þess að ná takti við nútímann og við það sem gerist best á Vesturlöndum. Við sem höfðum Kanasjónvarpið og útvarpið eigum frábærar minningar frá þessum árum. Við fengum innsýn inn í margbreytilega ameríska og vestræna menningu, - tónlist, afþreyingarþætti, kvikmyndir m.m. á sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum. Svo voru það einhverjir menningarvitar sem tóku sig til, sjálfskipaðir og létu loka þessum "glugga" að umheiminum að sögn til varnar íslenskri menningu! Ég get ekki annað en brosað að þessum endurminningum. Ég er með í dag um 50 erlendar stöðvar í sjónvarpinu mínu og Kolli vinur minn með um 150 erlendar stöðvar! Við erum sko ekki verri Íslendingar fyrir það. Raunar kann ég núna að meta allt íslenskt mun betur en áður. Einmitt vegna samanburðar við menningu annarra landa. Svona sjálfskipaðir menningarvitar poppa jafnan upp með jöfnu millibili. Þeir þykjast hafa höndlað einhvern stórasannleika, sem felst aðallega í því að skerða lífsgæði okkar hinna, sem viljum nýta þá skynsömu kosti sem eru í hverri stöðu. Nú sér þetta lið skrattan í þeirri uppbyggingu sem á sér stað á Austfjörðum. Það má ekki nýta hvalinn okkur til matar eða tekna vegna umhverfissjónarmiða sem fá ekki staðist. Það lifa ekki margir af því að skrifa bækur um "Draumalandið" ef engin uppbygging á sér stað og engir kostir landsins eru nýttir fyrir alþýðu manna. Ef allt er drepið í dróma, þá verður að endanum aðeins verkefni fyrir einn mann til þess að skrifa bók um Draugalandið og óvíst hvort einhver sé í stakk búinn til þess að greiða honum verkið. Vonandi verður það aldrei. Kveðja.

sunnudagur, 10. september 2006

Bröns og afmæli Emils.

í morgun heimsóttu okkur Björn og hundurinn Sunna. Hilda, Magnús og Valgerður Birna. Valdimar og Stella. Við fengum okkur saman þessa fínu fiskisúpu. Síðdegis fórum við svo í afmælisveislu til Emils Draupnis en hann varð átta ára í vikunni. Þar hittum við: Sigurð og Vélaugu. Gunnar, Bergstein, Kára og Bryndísi. Baldur Braga, Fjólu, afmælisbarnið Emil Draupni og Maríu Góð. Valdimar Gunnar leit einnig við. Þarna var einnig fjölskylda Fjólu, foreldrar og systkini. Þá fórum við líka á Hlíðarveginn og hittum mömmu og pabba. Ég tók nokkur lög á píanóið og Sigrún söng einsöng í tveimur lögum. Maður stoppar bara ekki þessa dagana. Okkur hefur langað austur í bústað en höfum ekki komist. Á morgun er fyrsta kóræfingin kl. 20.00 ef ske kynni að einhverjir Skaftfellingar læsu þetta pár mitt. Vantar alltaf góða söngmenn í kórinn og Tungufólk hefur verið duglegt að mæta. Læt þetta duga. Kveðja.

laugardagur, 9. september 2006

Strandarkirkjuganga

Strandarkirkja Í dag gengu afkomendur Helga Ingvarssonar fyrrum yfirlæknis á Vífilsstöðum hina árlegu göngu sína á Strandarkirkju í Selvogi. Ég hef oft gengið með þeim þessa göngu en nú gat ég ekki gengið með vegna hnéskaða, sem ég er ekki búinn að jafna mig á að fullu. En ég var í liðinu sem keyrði og sótti. Það jafngildir því að vera "göngumaður" að vera í þessu þjónustu hlutverki. Gangan tekur rúma fjóra tíma frá Grindarskörðum. Í Strandarkirkju tók ég að mér að lesa kafla í ævisögu Helga um þessar göngur hans. Þar segir m.a.: "Alkunnugt er, að trúaðir menn velji sér ýmsa staði, sem þeir telja helgari en aðra,og ferðast þangað sér til sálubótar. Nægir þar að nefna Íslendinga, sem gengu forðum daga suður til Rómaborgar. Helgi átti sér slíkan átrúnaðarstað. Hann gékk að Strandarkirkju ekki sjaldnar en þrjátíu sinnum í þeirri trú, að sú suðurganga yrði sér og sínum til heilla.....() Trú Helga á Strandarkirkju kemur fram í vísum hans í dagbók dóttur hans frá árinu 1939:

Ef hennar gagn í góðri trú
með gjöfum viltu styrkja
þér veitir heill og höppin drjúg
heilög Strandarkirkja."

Stórhöfði Á fimmtudaginn fór ég ásamt stjórn LÍÚ út í Vestmannaeyjar þar sem haldinn var stjórnarfundur og útvegsbændur í Eyjum voru heimsóttir. Þetta var hin skemmtilegasta ferð og meðal tilbreytinga dagsins var heimsókn til vitavarðarins í Stórhöfða, boð á skrifstofur og heimili útvegsmanna og skoðunarferð um Heimaey. Allir kannast við þann vita úr veðurlýsingum fjölmiðlanna. Útsýnið er gríðarlega mikið, þótt það sjáist nú ekki á þessari mynd.

sunnudagur, 3. september 2006

Sólsetursmynd.

Sólsetur Ég ætla að deila með ykkur þessari sýn á myndinni þótt þið séuð mörg fjarri þessari stundu. Það er tilkomumikið og stórkostlegt að sjá sólsetrið héðan úr Fossvogsdal. Veðrið í dag hefur verið mjög gott og góð viðbót við sumardagana. Heyrði í þeim sem eru í Kristianstad og einhversstaðar í sænska skerjagarðinum. Vona að þau öll hafi átt góðan dag líka.

Fallegur dagur.

Guðbjörn, Ingunn og Helgi Byrjaði þennan laugardag á smá tiltekt. Fór svo eftir hádegið upp í Salinn til þess að kynna mér tónleikaröð Tíbrár tónleikanna í Salnum. Fór svo síðdegis til Helga og Ingunnar. Guðbjörn var í heimsókn líka en hann fer til Svíþjóðar í fyrramálið. Borðuðum pönnukökur með rifsberjahlaupi, heilum jarðarberum sem dýpt hafði verið í súkklaði og rjóma. Í aðalrétturinn var blufine túnafiskur. Þvílíkt lostæti. Wow á ekki orð til að lýsa því hvílíkt lostæti þessi réttur var. Píanóstillarinn minn hringdi í mig alla leið frá Kína og sagði mér að hann hefði verið í heimsókn í verksmiðjunni sem framleiddi flygilinn minn. Ótrúlegt hvað heimurinn er lítill. Á heimasíðu Kristins Leifssonar má sjá myndir af verksmiðjunni og starfsemi hennar.

föstudagur, 1. september 2006

Vikumolar.

Var í tvítugsafmæli Unnar Sveinsdóttur frænku minnar í dag 1. september. Sirrý fær bestu kveðjur á afmælisdaginn sinn sem er í dag, en hún skrapp yfir Pollinn í nokkra daga. Nú það er helst annað í fréttum vikunnar að ég hitti Guðbjörn Þór æskuvin minn hjá Helga og Ingunni í gærkvöldi en hann er hér í nokkra daga heimsókn. Mánudag og þriðjudag var ég á auðlindaráðstefnu á Hótel Sögu. Það er alltaf frískandi að heyra í fræðimönnum spá og spekúlera. Fræðimennirnir veltu því fyrir sér hvernig best væri að nýta fiskmiðin í hafinu og hvað skórinn kreppir að í fiskveiðum í heiminum. Í stuttu máli sagt eru verkefnin óþrjótandi á þeim vettvangi. Tema ráðstefnunar var við hvaða aðstæður mætti ná bestum árangri í nýtingu fiskimiða og ýmissa náttúruauðlinda. Ef hægt er að tala um niðurstöðu á ráðstefnu af þessu tagi þá var hún að mínu viti að besta skipulagið er þegar kraftar markaðarins fá notið sín og nýtingar- og eignarréttur er vel skilgreindur. Í dag fór ég í fyrsta leikfimitíma vetrarins og verður að viðurkennast að maður var dálítið stirður, enda varla búinn að jafna mig eftir hnésnúninginn. Nú fara vetrarverkefnin að byrja hvert á fætur öðru. Kveðja