miðvikudagur, 13. september 2006

Hvað er tímamótaviðburður?

Er það tímamótaviðburður að herinn er á förum? Einhvertíma hefði það þótt það, en satt best að segja finnst mér þetta engin meiriháttar tímamót. Það hlaut að koma að þessu. Vægi þessarar varðstöðvar hlaut að hverfa eftir lok kaldastríðsins. Jafnvel stórveldi hafa ekki efni á því að halda úti varðstöð um ókomna framtíð án skilgreindra verkefna. Þetta hefur rask í för með sér aðallega fyrir þá sem hafa haft lífsviðurværi sitt af vinnu í herstöðinni og ekki skal gert lítið úr því. Efnahagsleg áhrif herstöðvarinnar voru mikil hér áður fyrr þótt þau hafi minnkað mikið síðari ár. Lengi vel var gjaldeyrisöflunin vegna herstöðvarinnar um 10% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar á hverju ári. Aðstaðan á vellinum er mikilvæg fyrir millilandaflugið og án hersíns hefði uppbyggingin verið hægari og mun minni. Þeir hafa byggt upp flugbrautirnar og viðhaldið þeim og drjúgan skylding lögðu þeir í byggingu flugstöðvarinnar. Það fé sem þeir hafa greitt vegna dvalar sinnar hér nemur vafalaust hundruðum milljarða í gegnum tíðina. Við höfum svo notið lendingargjaldanna af vellinum öll árin. Á tímum kaldastríðsins hefðum við vafalaust getað fengið þá til þess að leggja töluvert meira að mörkum en um það var engin samstaða. Hvalfjarðarvegur, Suðurlandsvegur, steyptir flugvellir fyrir norðan og austan. Allt voru þetta framkvæmdir sem maður heyrði talað um en ekkert varð af. Lítið er rætt núna um hin menningarlegu áhrif sem varnarliðið hafði hér á landi. Þau eru vafalaust mikil og hafa hjálpað okkur til þess að ná takti við nútímann og við það sem gerist best á Vesturlöndum. Við sem höfðum Kanasjónvarpið og útvarpið eigum frábærar minningar frá þessum árum. Við fengum innsýn inn í margbreytilega ameríska og vestræna menningu, - tónlist, afþreyingarþætti, kvikmyndir m.m. á sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum. Svo voru það einhverjir menningarvitar sem tóku sig til, sjálfskipaðir og létu loka þessum "glugga" að umheiminum að sögn til varnar íslenskri menningu! Ég get ekki annað en brosað að þessum endurminningum. Ég er með í dag um 50 erlendar stöðvar í sjónvarpinu mínu og Kolli vinur minn með um 150 erlendar stöðvar! Við erum sko ekki verri Íslendingar fyrir það. Raunar kann ég núna að meta allt íslenskt mun betur en áður. Einmitt vegna samanburðar við menningu annarra landa. Svona sjálfskipaðir menningarvitar poppa jafnan upp með jöfnu millibili. Þeir þykjast hafa höndlað einhvern stórasannleika, sem felst aðallega í því að skerða lífsgæði okkar hinna, sem viljum nýta þá skynsömu kosti sem eru í hverri stöðu. Nú sér þetta lið skrattan í þeirri uppbyggingu sem á sér stað á Austfjörðum. Það má ekki nýta hvalinn okkur til matar eða tekna vegna umhverfissjónarmiða sem fá ekki staðist. Það lifa ekki margir af því að skrifa bækur um "Draumalandið" ef engin uppbygging á sér stað og engir kostir landsins eru nýttir fyrir alþýðu manna. Ef allt er drepið í dróma, þá verður að endanum aðeins verkefni fyrir einn mann til þess að skrifa bók um Draugalandið og óvíst hvort einhver sé í stakk búinn til þess að greiða honum verkið. Vonandi verður það aldrei. Kveðja.

Engin ummæli: