sunnudagur, 31. maí 2009

Hvítasunnuhelgin

Við fórum í stúdentsveislu Einars Loga Snorrasonar í gærkvöldi. Áður höfðum við heimsótt Björn og Gunnhildi og vorum í kvöldmat með þeim ásamt Hildu, Völu Birnu og Sigrúnu Ástu, Stellu og Lilju og Sigrúnu. Í dag hafa það verið ýmis heimilsstörf sem setið hafa á hakanum og enn eru næg verkefni eftir. Ætlaði að fara á blues hátíðina á Hellu en varð of seinn fyrir. Þetta er það helsta í fréttum héðan. Kveðja.

miðvikudagur, 27. maí 2009

Veðurblíða.

Það er nú meira hvað veðrið leikur við okkur dag eftir dag. Kveðja.

sunnudagur, 24. maí 2009

´52 árgangurinn í Kópavogi.

Sveinn, Jakob og Sigrún. Hittingurinn í gær var nú ekki jafn dramatískur og í Det forsömte forår sem ég talaði um í síðasta bloggi. Hann tókst mjög vel og þarna mættu rúmlega sextíu manns og sumir voru langt að komnir. Okkur taldist til að allur ´52 árgangurinn í Kópavogi á þessum árum þ.e. ´65 til ´69 hafi verið nálægt 300 manns. Í fyrsta bekk í gaggó voru níu bekkir og miðað við þrjátíu í bekk er það ekki fjarri lagi. Í ræðuhöldum var talað nokkuð um það hvað væri að vera miðaldra. Ég kaupi nú helst skýringu Helga vinar míns sem hélt því fram að það væru þeir sem væru tíu árum eldri en þú sjálfur. Nú annað sem við strákarnir horfum náttúrulega á eru gömlu bekkjasysturnar. Við flesta hefur maður ekki haft neitt samband í gegnum árin. Það er svo sérstakt að við suma getur þú tekið upp þráðinn mörgum árum síðar eins og maður hafi hitt þá síðast í gær. Það sem við eigum sameiginlegt er að hafa gengið þroskaveginn saman sem börn og unglingar í leik og skóla frá barnaskólaaldri og jafnvel búið í sömu götu eða hverfi. Annað sem situr í manni þegar horft er til baka er hvað tíðarandinn kallaði á að æskan mundi fullorðnast fljótt. Margir komnir með börn jafnvel fyrir tvítugt og byrjaðir að ala upp nýjar kynslóðir. Það er allavega þannig með mig og marga í kringum mig að við höfum þörf á að fara í gegnum þetta aldursskeið aftur og gera upp með okkur ýmislegt á þessu þroskastígi. Atburðarrásin var svo hröð á þessum árum og mótunaröflin svo sterk að það er í raun ekki tími til þess að fara yfir, skoða, gagnrýna, sættast og njóta minninganna frá æskuárunum fyrr en maður er kominn á svolítið lygnari sjó í þroska og aldri. Þakka fyrir góða skemmtun. Kveðja. (Mynd: Þórdís Helgadóttir)

laugardagur, 23. maí 2009

Hittingur

Det forsömte forår. Í kvöld ætlar að hittast '52 árgangurinn hér í Kópavogi. Það verður spennandi að hitta fólk og sjá hvort maður muni eftir einhverjum. Flesta hefur maður ekki séð í yfir fjörtíu ár. Við svona endurfundi dettur mér alltaf í hug skáldsagan "Det forsömte forår" eftir Hans Scherfig. Vanrækta vorið samkvæmt hrárri orðabókarþýðingu. Þetta er saga sem hafði varanleg áhrif á mig þegar ég las hana í skóla og segir frá 25 ára stúdentum sem eru að hittast á endurfundi. Í minningunni var skólavistin svo ljúfur tími en þegar farið er að kafa í fortíðina koma ýmsar dökkar hliðar af dvölinni í ljós. Skólinn var hryllingsbúð. Sérstaklega einn kennarinn, herra Blomme, satisti og nemendurnir margir báru varanlegan skaða af dvöl sinni í skólanum. Með því að smella hér má nálgast útdrátt úr sögunni. Ég tengi söguna við dönskutíma í MR hjá Bodil Sahn þegar ég rifja upp þessa sögu nú næstum fjörtíu árum síðar. Þar sem við vorum að staglast í gegnum dönskuna og hefur hún vafalaust verið að velta því fyrir sér hvaða framtíð biði þessara ungmenna sem voru með misjöfnum árangri að nema tungu gömlu herraþjóðarinnar. Ég vona og er þess fullviss að kvöldið í kvöld snúist eingöngu um góðar minningar. Kveðja.

fimmtudagur, 21. maí 2009

Englar og Djöflar

Fór á myndinna Englar og djöflar í kvöld. Ágætis afþreyingarmynd með táknmálsfræðingnum Robert Langdon (Tom Hanks) frá Harvard hinum sama og var aðalpersónan í Da Vinci Code. Þetta var ágætis afþreying með öll helstu atriðin sem góð glæpasaga þarf að búa yfir en ekkert meira en það. Minnir mig á það að ég á eftir að heimsækja Róm einhverntíma. Kveðja.

Athugasemd 11.4.2023 Við fórum til Rómar fyrir fjórum árum. Á pálmasunnudag vorum við á torgi Péturskirkju og hlýddum á messu Fransico páf. Við vorum þarna ásamt ca 50 þúsund öðrum. Ferðin til Rómar var sannkölluð ævintýraferð. Við fórum víða um baorgina og áttum þarna ógleymanlega  daga.

miðvikudagur, 20. maí 2009

Sólardagar

Þetta eru búnir að vera frábærir sólardagar undanfarið. Það er ótrúlegt hvað sólarhiti hefur góð áhrif á allt mannlíf. Það hægist á öllu og hlutirnir virðast viðráðanlegri. Í dag fór ég einn Elliðaárhring með Skálmurum sem er fólk sem hittist kl. 19.30 niður í Fossvogi og gengur saman meira og minna allt árið. Þessar göngur eru á vegum Skaftfellingafélagsins í Reykjavík. Ég er líklega búinn að fara hringinn með þeim tíu sinnum í vetur. Lengsta gönguferðin tók heilar 90 mínútur í vetrarmyrkri, snjó og hálku. Í dag vorum við 50 mínútur vegna þess að við styttum aðeins hringinn og fórum í gegnum skóglendi. Í kvöldgöngunni nú var sólskin, stilla, fuglakvak og allt orðið iðagrænt.

sunnudagur, 17. maí 2009

Af W.H. Auden gleymd minning.

W.H.Auden. Árið 1996 kom út bók í Bretlandi sem heitir Moon Country,further reports from Iceland eftir Simon Armitage og Glyn Maxwell. Tilefni þessarar bókar var að minnast ferðar ljóðskáldsins W.H. Auden og Louis Mac Neice til Íslands árið 1936. Þessir tveir menn, Armitage og Maxwell, sem komu hingað 1994 voru sagðir efnilegustu ljóðskáld Breta á tíunda áratug síðustu aldar. Það var BBC radio í Bristol sem stóð fyrir þessu verkefni og komu þeirra hingað til lands vegna þáttagerðar fyrir BBC útvarpið. Aðkoma mín að þessu máli var sú að koma þessum mönnum um borð í fiskiskip. Vegna þessa hluta verkefnisins átti ég nokkur samskipti við aðstoðarkonu stjórnandans við að koma þeim til Eyja og um borð í fiskiskip. Ég fékk síðar bréf frá þessum starfsmanni BBC fyrir veitta aðstoð. Í bréfinu segir hún að einmitt þessi ferð með fiskiskipinu hafi verið einn af hápunktum ferðasögunnar. Hún sendi mér þennan þátt sem þakklætisvott á spólu svo að ég gæti hlustað á hann. Árið 1996 var ég staddur í London þegar umrædd bók kom út, - merkileg tilviljun. Ég keypti eintök af bókinni og auk þess á ég blaðaumsagnir um bókina m.a. í The Daily Telegraph og var látið mikið með bókina í blaðinu. Á eina fundinum með listrænum stjórnanda þáttarins og aðstoðarkonu í Reykjavík lýstu þær verkefninu og óskuðu eftir aðstoð eins og áður segir. Það skal viðurkennt að ég hafði ekki hugmynd um á þeim tíma hver W.H.Auden var, hvað þá að hann hefði nokkurntíma komið til Íslands. Fyrir fundinn vissi ég aðeins að BBC hefði áhuga á að komast um borð í fiskiskip þannig að ekki gafst tími til að kynna sér hver W.H. Auden var. Ég minnist enn með nokkrum hryllingi svipnum á stjórnanda þáttarins þegar þessi fáfræði mín varð henni ljós. Nú til að gera langa sögu stutta þá ákvað ég að bæta úr þessari fáfræði minni. Las ævisögu hans og keypti helstu ljóðabækur m.a. á ég frumútgáfu Letters from Iceland sem ég keypti fyrir nokkrum árum. Þessi kynni mín af W.H. Auden hafa verið mjög gefandi undanfarin ár og sannfært mig um að mikið skortir á það að uppfræða okkur Íslendinga um þá sameiginlegu menningararfleið sem við eigum með Bretum í verkum og lífi Audens. Ég sendi skeyti til RÚV varðandi það efni sem ég á frá BBC um þessa heimsókn og minningu W.H. Auden ef áhugi væri á því að nálgast spóluna, bókina, ljóðabækurnar til að gera Auden meiri og betri skil en ég fékk ekkert svar. Ég minnist þess ekki að hafa frétt af umfjöllun um þessa ferð Armitage og Maxwell til Íslands í íslenskum fjölmiðlum og þykir það í raun merkilegt sinnuleysi. Svona getur menningararfur okkar legið hér og þar gleymdur. En kannski vaknar einhver upp einhverntíma og kemst að því að þetta sé eitthvað sem þarf að sinna og koma á framfæri. Þangað til geymir þessi bloggsíða þessa frásögn. Ég vona bara að spólan sem ég er með undir höndum verði ekki ónýt. Kveðja.

Andófsmaðurinn Aleksandr Solzhenitsyn

Alexander Solzhenitsyn. Ég datt inn í viðtal í sænska sjónvarpinu við Alexander Solzhenitsyn (1918 - 2008) sem fjallaði m.a. um ummótun Rússlands úr kommúnistaríki í átt til lýðræðis. Það rifjuðust upp gamlar minnngar þegar maður taldi sér skylt að fylgjast með öllu sem þessi frægi rússneski rithöfundur hafði að segja um ástandið í gama Sovét. Gamla Gulagið, fangabúðirnar illræmdu þangað sem fólki var fleygt til að rotna, ef það hafði ekki "rétta skoðun" þóknanlega stjórnvöldum. Sjálfur kynntist hann vist í svona Gulagi. Ég ætla ekki að rekja allt viðtalið en niðurlagið fjallaði um það hvað þyrfti til að reka jafn landfræðilega stórt og víðfemt ríki og Rússland með ólíkum sambandsríkjum, þjóðarbrotum, menningu, trú, náttúruauðlindum og svo mætti lengi telja. Keísaratíminn, kommúnisminn þetta voru stjórnkerfi til þess að halda ríkinu gangandi hafa sterka heildarstjórn en samt reyna að koma til móts við ólíka hagsmuni. Aðspurður um hvernig hann sæi framtíðinna sagði hann ekki sjá það fyrir. Ævi hans sjálfs væri senn á enda  en hann væri sér meðvitaður um að það þyrfti mikið til að halda þessum ólíku hagsmunum saman (11.desember1918 - 3. águst 2008). Í heiminum takist á fólk með mismunandi hugsun. Annarsvegar þeir sem vilja taka til sín og jafnvel stela. Hinsvegar þeir sem vildu vinna á heiðarlegan hátt fyrir framfærslu sinni. Í næsta þætti var viðtal við hljómsveitina frá Georgíu sem var útilokuð frá Eurovision af því að hún söng: "We don´t wanna a put inn" svona til þess að lýsa enn frekar ástandinu í samskiptum þessa fyrrum ríkja kommúnismans. Sá þáttur fjallaði raunar um mótmælasöngva. Allt frá Internationalen eða "Nallanum" að synfóníu Beethovens sem ESB notar til þess að minna á sína tilveru og hlutverk.

laugardagur, 16. maí 2009

Yndislegur dagur í skógarrjóðri

Heiðmörk. Þessi sumardagur er einn af þessum fallegu dögum sem maður gleymir seint. Sól, hiti og hægur andvari í lofti. Ég ákvað að skella mér aðeins út fyrir bæinn og komast í snertingu við náttúruna. Leiðin lá upp í Heiðmörk mig langaði í skandínavíska skógarstemmingu, leita að skógardísum, fá útsýni yfir borgina og nágrenni hennar. Þetta rættist allt saman og í einu skógarrjóðrinu fann ég meira að segja nokkrar skógardísir og þjóna þeirra. Ég gékk inn í rjóðrið og gaf mig á tal við þær þar sem þær voru í óða önn að grisja skóginn. Þær buðu mig velkominn og hvöttu mig til að skoða fallegt umhverfið sem ég og gerði. Þetta var hið fegursta rjóður og á eftir að verða enn notalegra þegar fram líða stundir. Ég hreifst af elju þeirra og dugnaði. Taktfast unnu þær mikilvægt verk sitt. Áður en ég vissi af var ég farinn að grisja með þeim. Draga drumba og greinar í knippi sem þjónarnir drógu burtu. Öllu verður þessu svo breytt í kurl þegar þar að kemur og skilað aftur. Þetta skógarrjóður heitir Skaftafell og er í umsjón Skaftfellingafélagsins í Reykjavík. Kyrrðin þarna uppfrá er einstök, fjölbreytilegur fuglasöngur. Það eina sem truflaði kyrrðina var þéttur niður frá Surðulandsveginum frá bílunum sem voru aðallega á austurleið. En maður leiddi það stílbrot bílismans hjá sér. Ég teigaði í mig sólargeislanna og orkusvið gróðursins og hélt aftur niður í byggðir. Yndislegur dagur. Kveðja.

fimmtudagur, 14. maí 2009

The Lame Dudes.

The Lame Dudes. Í kvöld léku hinir síungu The Lame Dudes á næsta bar. Þema kvöldsins var "Blús fyrir mömmu". Enda voru a.m.k. tvær mæður hljóðfæraleikaranna mættar til að hlusta. Þeim til aðstoðar var ung söngkona Sigríður Erlingsdóttir. Hjómsveitina skipa þeir Hannes Birgir Hjálmarsson /söngvari og gítarleikari, Snorri Björn Arnarson / aðalgítarleikari, Jakob Viðar Guðmundsson / bassagítar, Kristján Kristjánsson / trommur, Pétur Stefánsson / gítar. Hljómsveitinni hefur farið mikið fram undanfarið og er virkilega góð og frumleg. Þarna var mættur sjálfur Blúskóngur Íslands Halldór Bragason til þessa hlusta á þessa ört vaxandi blúsgrúppu og vorum við sammála að þar færi vaxandi hljómsveit.

miðvikudagur, 13. maí 2009

Tveir aðalfundir

Ég var á tveimur aðalfundum félaga í dag. Fyrri fundurinn var aðalfundur Byrs sparisjóðs en hinn síðari sem var ólíkt skemmtilegri var hjá Söngfélagi Skaftfellinga. Þegar ég kom heim fékk ég að vita að meirihluti eldri stjórnar Byrs hafði náð meirihlutakjöri með litlum mun þrátt fyrir nálægt 30 milljarða tap og rekstur sjóðsins í mikilli hættu. Þetta var dramatískur fundur og auðheyrt að fólki var misboðið hvernig rekstrinum var háttað á síðasta ári. Tíu aðilum lánað 30 milljarðar króna sem búið er að afskrifa sem tapað fé. Það var mikill léttir að komast loks á síðari aðalfundinn með söngfélögunum. Vertrrstarfið hefur verið mjög gjöfult og innihaldsríkt og ekki tapast ein einasta króna úr sjóðum félagsins þrátt fyrir efnahagskrísuna. Þvert á móti er til nokkurt fé í sjóði til að mæta ófyrirséðu. Nú er vetrarstarfinu í kórnum formlega lokið og ekki tekið til við söng fyrr en á hausti komanda. Þakka félögum mínum kærlega fyrir veturinn. Kveðja.

þriðjudagur, 12. maí 2009

Enn ein Eurovision keppnin

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir. Einu sinni enn situr maður og horfir á Eurovision í sjónvarpinu og býður eftir að Ísland "meiki" það núna. Að vísu er þetta aðeins forkeppnin þannig að við eigum eftir að komast inn í aðalkeppnina. Lagið sem við keppum með er væminn ástaróður sunginn af ungri stúlku, Jóhönnu Guðrúnu. Lagið sem ég hélt með hérna heima vann ekki einu sinni en það var lagið hans Heimis Sindrasonar, The kiss we never kissed afskaplega falleg ballaða. Sænska lagið er soldið mikið flott, en ég veit ekki hvort það gengur í fjöldann. Sjáum til. -- Já og við fórum áfram sem ein af 10 þjóðum í þessum riðli - auðvitað. Áfram Ísland. (mynd:mbl.is vefur)

mánudagur, 11. maí 2009

Við tímamót - fimm ára blogg afmæli.

Kæru lesendur. Það eru núna fimm ár síðan þessi bloggsíða var opnuð. Alls eru innleggin orðin 911 á þessum árum. Ritstjórnarstefnan hefur ekki breyst. Pistlarnir fjalla í meginatriðum um ýmis efni tengd lífi og starfi bloggarans. Af hverju bloggar fólk? Það má telja ýmislegt til. Þetta er augljóslega leið til að tjá sig, deila ákveðnum hugðarefnum með hópi lesenda. Skrásetja hitt og þetta sem hægt er að ryfja upp síðar. Það er svo mikið af bloggsíðum að það eru yfirleitt einhverjir tengdir bloggaranum sem nenna að lesa. Þó er það ekki algilt. Ég á mér sjálfur nokkra uppáhaldsbloggara sem ég les reglulega. Þeir eru ekkert skyldir mér og ég hef aldrei hitt þá og geri ekkert sérstaklega ráð fyrir því. Er þó kominn í samband við þá. Því á ákveðnum tímapunkti fannst mér rétt að gefa mig upp við þá. Það eru fáir sem skrifa línu inn á bloggið mitt. Það skiptir mig engu máli ég veit að það er þó nokkur hópur sem les það og það nægir mér. Þetta var aldrei hugsað sem umræðublogg dægurmála með eftiráspekingum. Þetta blogg var hugsað í annállsstíl eins og nafnið ber með sér og vettvangur um hugðarefni bloggarans, m.ö.o. sjálfhvert blogg, orð sem ég nota orðið í tíma og ótíma eftir 6. október 2008. En jafnframt er það ætlað þér lesandi góður sem lesefni með uppbyggilegu efni og jákvæðri umfjöllun um hugðarefni sem gætu vakið forvitni. Það er þannig með þennan bloggara að hann vill ekki ræða mikið um bloggið eða efni þess. Þótt að sjálfsögðu sé ekki amast við því ef þig langar að nálgast þennan bloggara. Öllum er velkomið að lesa það meðan það er opið og bloggarinn treystir því lesandi góður að þú virðir þessa persónulegu miðlun upplýsinga og farir drengilega með efni þess. Jæja þetta er orðið nóg í tilefni fimm ára afmælisins. Ég læt þetta duga. Kveðja.

sunnudagur, 10. maí 2009

Að loknu vetrarstarfi.

Söngfélag Skaftfellinga. Hápunktur vetrarstarfsins í kórnum voru að sjálfsögðu tónleikar Skaftanna í Seltjarnarneskirkju í dag undir stjórn Friðriks Vignis Stefánssonar. Í kirkjuna voru mættir á annað hundrað gestir. Ég hef aldrei séð jafn marga gesti á tónleikum okkar áður. Efnisskráin rann í gegn við undirleik tríósins en í því spiluðu þeir Vignir Þór Stefánsson á píanó, Jón Rafnsson kontrabassi og Jón Elfar Hafsteinsson á gítar. Ung efnisstúlka Jóna G. Kolbrúnardóttir, sópran söng tvö einsöngslög. Sigurlínu Kristjánsdóttur, formanns kórsins sem lést fyrir nokkrum vikum var minnst sérstaklega við þetta tækifæri.Allir voru sáttir og glaðir að loknum tónleikunum enda fjölbreytileg dagskrá í boði. Það er mikil vinna sem liggur á bak við það að halda svona tónleika. Æfingar á hverjum þriðjudegi í vetur og svo nokkrir langir laugardagar til þess að skerpa enn frekar á æfingu laganna. Í þessu starfi má finna rætur íslenskrar menningar, átthagatryggðina og útrás fyrir sköpun og góðan félagsskap. Þessi helgi hefur að stórum hluta farið í söngiðkun því við vorum nokkra tíma upp á Akranesi í gær og frá tólf út í kirkju til að verða fimm. Ég er ekki að telja þetta eftir einungis að benda á hvað þarf til að halda gangandi almennri söngiðkun. Að lokum þakka ég félögum mínum í kórnum fyrir yndislegar stundir í vetur. Kveðja. (Mynd: Kristinn Kjartansson)

Söngferð upp á Akranes.

Söngfélag Skaftfellinga fór upp á Akranes í dag og hélt tónleika í Tónborg,tónleikasal tónlistarskólans. Þetta var afar gefandi ferð og aðstæður til tónleikahalds góðar, en áheyrendur hefðu mátt vera fleiri. Eftir tónleikana var komið við að Mógilsá áður en haldið var í bæinn. Veðrið í dag var yndislegt einu orði sagt og útsýni af Skaganum til allra átta frábært. Kveðja.

fimmtudagur, 7. maí 2009

Sumartónleikar Söngfélags Skaftfellinga.

Söngfélagið á æfingu. (Mynd Kristinn Kjartansson) Jæja þá nálgast óðum stóra stundin, sumartónleikar Söngfélags Skaftfellinga. Þeir verða haldnir í Seltjarnarneskirkju næstkomandi sunnudag kl. 14.00. Eftir tónleikana verður Skaftfellingakaffi í safnaðarheimili kirkjunnar. Þeim sem ekki geta beðið til sunnudagsins er bent á að á laugardaginn verða tónleikar í Tónlistarskólanum á Akranesi kl. 14.00. Lagavalið er að venju fjölbreytilegt og bryddað er upp á nýjum lögum í bland við gamalkunnug skaftfellsk ættjarðarlög.

þriðjudagur, 5. maí 2009

Tíminn flýgur

Tíminn hefur verið mér hugleikinn undanfarið. Tíminn líður svo hratt að maður hefur vart undan að njóta hverrar stundar. Eins og öll gæði er tíminn takmarkaður - hver og einn á sinn tíma og honum er misjafnlega skipt. Einhver mesta speki sem ég hef heyrt um veraldlegan auð og verðmæti tíma var þegar tíðindamaður í sjónvarpinu spurði aldurhniginn athafnamann á Eskifirði hvort hann væri ríkur. Athafnamaðurinn svarðaði því til að hann væri ekki ríkur. En sagði þú ungi maður ert ríkur þú átt tímann fyrir þér sem ég á ekki lengur, þessvegna ert þú ríkur. Ég var minntur á það í vikunni að tíminn er það dýrmætasta sem við eigum. Það hvernig þú ákveður að verja honum er mikilvægasta ákvörðun sem þú tekur. Þetta fékk ég sem svar við þeirri staðhæfingu minni úr ranni hagfræðinnar að peningar væru afl þeirra huta sem gera skuli. Viðmælanda mínum fannst lítið til þessarar staðhæfingar koma og vildi meina að aflið væri fyrst og fremst tíminn sem maður væri tilbúinn til þess að verja í verkefnið. Frá sjónarhóli hagfræðinnar mundi þetta teljast marxískt viðhorf. Sá sem minnti mig á gildi tímans er ekki Marxisti heldur læknir - og miðað við sérsvið hans sem við skulum láta liggja milli hluta hefur hann vafalaust næma sýn á gildi tímans eða tímaleysisins eftir atvikum. Við þessa staðhæfingu rifjaðist upp fyrir mér umrætt viðtal við athafnamanninn um gildi tímans. Eigi að síður verður ekki horft fram hjá því að peningar eru nauðsynlegir til síns brúks en þeir duga skammt án vinnuframlags mannsins. Í samandregnu máli gátum við verið sammála um að tveir grundvallarþættir verðmætasköpunarinnar væru fjármagn\peningar og vinnuframlag\tími einsaklingsins. Það er svo önnur pæling hvernig við förum best með tímann og fjármagnið. Nóg í bili. Kveðja.

sunnudagur, 3. maí 2009

Innhverf íhugun

Ég skellti mér út í Háskólabíó í gær til að hlusta á kvikmyndaleikstjórann David Lynch fjalla um innhverfa íhugun. Hann bað um spurningar úr sal og svaraði þeim. Að vísu var stóri salurinn í Háskólabíó yfirfullur þegar ég kom en ég fylgdist með umfjöllun hans af sjónvarpsskjá í andyrinu. Það var fróðlegt að heyra í honum og einnar messu virði. Þessi íhugun sem hann talar fyrir byggir á því að hún sé stunduð kvölds og morgna. Maður kaupir möntru og leiðbeiningar sem kosta 100 þúsund krónur.(ath. hélt þetta væri 10 þúsund kr. en samkvæmt ábendingu er verðið 100 þúsund kr. sem ég sá á líka á miða en trúði ekki!) Leitað sé hinnar fullkomnu lífshamingju sem sé djúpt í manneskjunni sjálfri. Hann lofar góðum árangri með þessari aðferð. Maður losar sig við reiði og víkkar jákvæða hugsun með það að markmiði að losa sig við kvíða, hræðslu og ótta. Þannig opnist betur ýmis svið manneskjunar eins og þáttur sköpunar, skynjunar o.s.fr. Fólk eigi að leitast við að ganga í átt að ljósinu. Aðspurður hvort reiði geti átt rétt á sér sagði hann að það kæmi sér eingöngu vel fyrir listamenn sem væru að reyna við stúlkur. Þetta er svona það helsta sem ég nam af frásögn hans. Þessi samkoma vakti mig aftur á móti til meðvitundar um hversu mikilli þörf við erum fyrir ábyrga og trúverðuga leiðsögn. Hvar eru leiðtogar okkar - veraldlegir og andlegir eru þeir allir í felum eða enn að rífast? Ekkert í þessum fyrirlestri var það fréttnæmt eða nýtt að það gæti ekki rúmast í sunnudagspredikun. Af hverju er kirkjan svona sjálfhverf að hún höfðar ekki lengur til unga fólksins sem var þarna í miklum meirihluta? Af hverju þurfa svona margir kennimenn kirkjunnar að skera sig úr fjöldanum sem "skrítlingar" eins og krakkarnir segja? Hafa þeir enga trú á boðskapnum - eiga þeir ekki til lítillæti - er yfirborðsmennskan orðin svona mikil - eiga þeir eða hafa þeir ekkert að gefa? Spyr sá sem ekki veit. Satt best að segja sat ég inni með þessa hugsun eftir að hafa farið á þennan fyrirlestur hjá leikstjóranum. Eigi að síður margítrekaði hann að þessi aðferð hefði ekkert með trúmál að gera - auðvitað er hún meiður af austurlenskum trúfræðum hinduisma - búddisma? Ég er ekki nógu vel að mér í þeim fræðum til þess að skera úr um það. En margt af því sem hann sagði má einnig finna í kristinni trúariðkun svo mikið er víst og þarf ekki möntru við - nóg að lesa brot úr Nýja testamenntinu, íhuga eða fara með bæn. Nóg í bili. Kveðja.

laugardagur, 2. maí 2009

Málin krufin.

Ég var að horfa á ÍNN sem er sú sjónvarpsstöð sem ég hlorfi orðið einna mest á - sjónvarpsstöð hins talaða orðs. Ótrúlegt hvað þáttagerðin er fjölbreytileg og mikil deigla í henni. Heimastjórnin er þáttur sem ég hef sérstaklega gaman að hlusta á þá Hall Hallsson, Jón Kristinn Snæhólm og Ingva Hrafn kryfja málin. Var að horfa á menningartengdan þátt og svo horfi ég stundum á Elinóru frænku mína tala um frumkvöðlamál. Kveðja.

föstudagur, 1. maí 2009

Fyrsti maí.

Þennan dag tengi ég ávallt minningu afa míns Axels Gunnarssonar sjómanns og hafnarstarfsmanns. Líklega vegna þess að djúpt í minningarbrotum bernskuáranna er mynd af okkur í kröfugöngu niður Skólavörðustíginn. Ég hef verið svona fimm ára gamall. Um afa sagði Guðmundur jaki, formaður Dagsbrúnar einu sinni við mig: "Axel er einn af kreppukynslóðinni sem af harðfylgi komust í gegnum þær hremmingar sem fylgdu Kreppunni miklu á þriðja áratug síðustu aldar." Mér þótti vænt um þessi orð vegna þess að þau vísuðu til karlmennskulundar og ósérhlífni hans. Í fórum mínum á ég einnig lýsingu af honum úr bók Tryggva Ófeigssonar útgerðarmanns þar sem mannkosta hans er minnst sérstaklega í æviminningum Tryggva. Annað minningarbort frá fyrsta maí hátíðarhöldum er töluvert nýrra eða frá Svíþjóðarárunum þegar maður mætti upp á búinn til að hlutsta á Olaf Palme á Götaplatsen árið 1976 halda hátíðarræðu dagsins. Þriðja og síðasta minningarbrotið er frá árinu 1983 þegar eiginkonan dreif alla fjölskylduna niður í bæ til að sýna BHM félögum sínum samstöðu í fyrsta verkfalli háskólamanna hjá ríkinu. Á leiðinni kenndi hún börnum sínum þetta slagorð: Óli er ljóti karlinn - Indriði er illur. Svo vel tókst henni til við kennsluna að við ýmis tækifæri á liðnum áratugum hefur þessi setning skotist upp í huga minn. Fyrir þá sem yngri eru er rétt að geta þess að Óli er núna forseti lýðveldisins og Indriði var yfirmaður launamála hjá ríkinu og síðar ríkisskattstjóri og ráðuneytisstjóri. Hann talar nú um að rétt sé að hækka þannig skatta að þeir bíti. Launþegum þessa lands eru sendar bestu kveðjur í tilefni dagsins.