sunnudagur, 24. maí 2009

´52 árgangurinn í Kópavogi.

Sveinn, Jakob og Sigrún. Hittingurinn í gær var nú ekki jafn dramatískur og í Det forsömte forår sem ég talaði um í síðasta bloggi. Hann tókst mjög vel og þarna mættu rúmlega sextíu manns og sumir voru langt að komnir. Okkur taldist til að allur ´52 árgangurinn í Kópavogi á þessum árum þ.e. ´65 til ´69 hafi verið nálægt 300 manns. Í fyrsta bekk í gaggó voru níu bekkir og miðað við þrjátíu í bekk er það ekki fjarri lagi. Í ræðuhöldum var talað nokkuð um það hvað væri að vera miðaldra. Ég kaupi nú helst skýringu Helga vinar míns sem hélt því fram að það væru þeir sem væru tíu árum eldri en þú sjálfur. Nú annað sem við strákarnir horfum náttúrulega á eru gömlu bekkjasysturnar. Við flesta hefur maður ekki haft neitt samband í gegnum árin. Það er svo sérstakt að við suma getur þú tekið upp þráðinn mörgum árum síðar eins og maður hafi hitt þá síðast í gær. Það sem við eigum sameiginlegt er að hafa gengið þroskaveginn saman sem börn og unglingar í leik og skóla frá barnaskólaaldri og jafnvel búið í sömu götu eða hverfi. Annað sem situr í manni þegar horft er til baka er hvað tíðarandinn kallaði á að æskan mundi fullorðnast fljótt. Margir komnir með börn jafnvel fyrir tvítugt og byrjaðir að ala upp nýjar kynslóðir. Það er allavega þannig með mig og marga í kringum mig að við höfum þörf á að fara í gegnum þetta aldursskeið aftur og gera upp með okkur ýmislegt á þessu þroskastígi. Atburðarrásin var svo hröð á þessum árum og mótunaröflin svo sterk að það er í raun ekki tími til þess að fara yfir, skoða, gagnrýna, sættast og njóta minninganna frá æskuárunum fyrr en maður er kominn á svolítið lygnari sjó í þroska og aldri. Þakka fyrir góða skemmtun. Kveðja. (Mynd: Þórdís Helgadóttir)

Engin ummæli: