laugardagur, 29. maí 2010

Eurovision enn og aftur.

Hera Björk.
Nú hljótum við að draga langt með þessa flottu söngkonu Heru Björk ef Evrópa kann ekki að meta þessa dívu okkar þá geta þeir bara átt sig og hananú. Annars vorum við í Sköftunum með gig í Skaftafellsskógi í dag í lundi Skaftfellingafélagsins í Reykjavík í Heiðmörk. Þetta er síðasta framkoma kórsins á þessari vertíð. Þetta var hin besta stund og skemmtileg í góðra vina hópi við orðræður og pulsuát. Síðan var farið að kjósa í Smárann. Kveðja.

fimmtudagur, 27. maí 2010

Heillandi land

Ísland er heillandi land. Þetta hafa allir þeir fjölmörgu útlendingar sagt við mig sem ég hef hitt undanfarna daga, ja örugglega þrjátíu fjörtíu manns til að vera nákvæmur. Náttúran, höfuðborgin, Arnaldur Indriðason, Björk, Sigurrós eru nefnd meðal þess sem heillar. Þetta nærir sjálsmynd Íslendingsins í manni sem var orðin æði döpur satt best að segja. Maður finnur fyrir pínulitlu stolti sem er að laumast að nýju inn á auðan akurinn í sálartetrinu þar sem Íslendingsstoltið átti nokkuð stórar breiður áður, sérstaklega í samskiptum við þegna annarra landa. Nú er þetta að koma allt aftur með kalda vatninu. Vegurinn frá því ég ræddi við unga manninn í lestinni í Svíþjóð til Danmerkur fyrir tveimur árum hefur verið langur og strangur. Þá ætlaði ég ekki að fá mig til þess að viðurkenna hvaðan ég kæmi. Þá var stoltið verulega sært. Farið, mér fannst ég rændur því sem fólst í því að vera Íslendingur. Þeir sem töldu sig landsins bestu dætur og synir voru tekin í landhelgi reyndust hafa byggt "hús" á sandi - tómri sýndarmennsku. Þetta fólk hefur nú verið afhjúpuð. Sjálfdæmi í lífskjörum var græði og frekja sem átti aldrei að viðgangast. Samt var það látið viðgangast um tíma, þótt við vissum öll að þetta væri ekki rétt. Nóg í bili.

sunnudagur, 23. maí 2010

Yndisfagur hvítasunnudagur.

Það er komið sumar og heilagur andi hlýtur að hafa svifið yfir deginum því að hann var svo ljúfur. Grasið er orðið iðagrænt og æðir upp úr sverðinum. Deginum var varið við útiverk. Stéttin löguð, runnar klipptir og dyttað að ýmsu smálegu. Við enduðum daginn á pallinum hjá Helga og Ingunni og nutum síðustu sólargeislanna með aðstoð lifandi elds og við ilminn af brennandi íslensku birki sem logaði glatt í kvöldværðinni. Tumi sagði að gosinu í Eyjafjallajökli væri lokið í bili. Mæli hann heilastur og vonandi að því sé lokið. Annars lítið að frétta. Kveðja.

fimmtudagur, 20. maí 2010

Demantsbrúðkaup

mamma og pabbi. Foreldrar mínir héldu upp á sextíu ára brúðkaupsafmæli í dag. Hingað komu vinir þeirra, börn, barnabörn og barnabarnabörn. Áttum hér ánægjulegan eftirmiðdag í spjalli, auk þess sem hér var sungið og spilað á píanó. Veislan tókst í alla staði vel og allir fóru glaðir til síns heima fyrir kl. 9.00.

laugardagur, 15. maí 2010

Söngur, dans og ást.

Östergök kórinn.
Yfirskrift á efnisdagskrá sænska kórsins frá Lundi sem heimsótti okkur dagana kringum uppstigninardag og kom fram á tónleikum með okkur á Kirkjubæjarklaustri var: Söngur, dans og ást. Efnisskráin var byggð á lífshlaupi okkar meðaljónanna. Þegar við förum að heiman, hefjum sambúð, eignumst börn, hefjum hið veraldlega brauðstrit, peningavandræði, íþyngjandi skattbyrði, yndisleika tilverunnar, krísur í lífi okkar, villuráf og nýja möguleika. Þau vonuðu að okkur þætti flutningur þeirra ekki of yfirlætislegur. Lagaval kórsins endurspeglaði þennan þráð sem hér hefur verið rakinn í stuttu máli og voru lögin héðan og þaðan bæði sænsk og ensk. Flutningur kórsins var allsérstakur því að við flutning var beitt leikrænum tilburðurm og dansi við sönginn. Stjórnandi kórsins Karen Källen sagði að ef kórinn gæti orðið til þess að áheyrendur gætu hlegið og fengið tækifæri til umhugsunar væri markmiði flutningsins náð. Óhætt er að segja að þetta var hin besta skemmtun. Tónlistarlega séð leið söngurinn svolítið á kostnað dansins og leiksins, en það var allt í lagi þar sem tilgangurinn var skýr í upphafi. Engum leiddist og allt komst til skila.

föstudagur, 14. maí 2010

Austurför Söngfélags Skaftfellinga og Östergöka.


Við í Söngfélagi Skaftfellinga fórum austur á Klaustur á miðvikudagskvöldið ásamt sænskum gestakór, Östergök og héldum tónleika í Kirkjuhvoli á uppstigningardag. Þetta var um margt eftirminnileg ferð sem seint mun líða úr minni. Ægivald náttúrunnar var okkur ferðafélögum hugstætt strax í upphafi ferðarinnar. Þegar komið var austur að Kambabrún sást vel til öskumökksins úr Eyjafjallajökli. Stoppað var á Hellu og snæddur kvöldverður. Eftir því sem nær dró eldstöðvunum urðu áhrif eldgossins áþreifanlegri. Stórbrotnast var sjónarspilið við bæinn Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum en þar sást mökkurinn og spýjurnar úr fjallinu best. Minna var um öskufall á þessu svæði en hefur verið undanfarna daga en það ræðst af vindáttum hvernig askan dreifist. Þegar komið var á Kirkjubæjarklaustur hófust æfingar kóranna og stóðu þær fram undir miðnætti. Þá var farið að draga þrótt úr mörgum Svíanna sem höfðu verið á ferðinni frá því árla morguns. Á fimmtudeginum var farið austur að Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi. Mikill ís var á lóninu og áhrifarík sjón að sjá þessa stórbrotnu náttúru. Síðan var haldið á Klaustur og hófust tónleikar kóranna kl. 16.00 og stóðu tvo tíma. Að venju var nokkuð góð mæting á tónleikana. Sænski kórinn bæði söng og var með leikræna tilburði í flutningi sínum og verður flutningi hans gerð betri skil síðar. Við í Söngfélagi Skaftfellinga vorum með hefðbundinn flutning og fjölbreytilegt lagaval. Næst var farið á dvalarheimilið Klausturhóla og sungin nokkur lög fyrir heimilismenn þar. Sameiginlegur kvöldverður var á hótelinu á Klaustri og síðan hófst kvöldskemmtun kóranna. Lagt var af stað til Reykjavíkur á föstudeginum með viðkomu á dvalarheimilinu Hjallatúni í Vík í Mýrdal. Þá voru þeir tenórbræður í Söngfélagi Skaftfellinga Kristinn, Kjartan og Sigurgeir Kjartanssynir frá Þórisholti heimsóttir og þegnar veitingar í sumarhúsi þeirra. Við vorum kominn til Reykjavíkur upp úr fjögur eftir stífa keyrslu úr Reynishverfi.

fimmtudagur, 6. maí 2010

Sumarið heilsar.

Fyrsta vor - eða sumarverkinu er lokið. Felldi eina stjóra ösp og trimmaði aðra vel. Tónleikarnir með Sköftunum tókust vel í alla staði en áheyrendur hefðu mátt vera fleiri. Næst á dagsrkánni er austurferð með sænskum kór sem kemur hingað um miðjan mánuðinn. Haldnir verða tónleikar á Klaustri 13. maí nk. Þeir sem misstu af tónleikunum í Seltjarnarneskirkju eiga enn möguleika á að hlusta á kórinn. Sirrý var að fá stöðuhækkun í háskólanum og er nú dósent. Valdimar var að skila inn lokaritgerðinni í lögfræðináminu og Stella í stjórnmálafræðinni. Sigrún Huld er á fullu á þriðja ári í hjúkrunarnáminu og gengur mjög vel. Hún er búin að fá vinnu í sumar sem hlýtur að teljast mikil blessun eins og atvinnuástand skólafólks er í dag. Framundan eru ýmislegt skemmtilegt sem heldur manni gangandi. Hingað eru að koma sænskir félagar Sirrýjar frá Jönköping á ráðstefnu í lok maí. Unnur og Hjörtur eiga 60 ára brúðkaupsafmæli 20. maí. Við erum að fara til Frakklands í júní ef að líkum lætur og eldgosið kemur ekki í veg fyrir það eða annað óáran sem hér hefur herjað á okkur undanfarin ár. Allt er það þó meira og minna sjálfskaparvíti og mannanna verk. Það tekur stundum á að búa í þjóðfélagi þar sem engu líkara er að "djöfullinn" sjálfur hafi farið sem eldibrandur um sviðið og sett sín illu spor á allt samneyti manna. Eina ráðið við því er að halda sig við hið smáa og fagra því engu fær maður ráðið um fortíðina eða framhaldið. Kveðja.

laugardagur, 1. maí 2010

Vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga


Á morgun sunnudag 2. maí verða haldnir í Seltjarnarneskirkju vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga. Allir eru velkomnir á þessa tónleika. Þetta er endapunktur vetrarstarfsins í kórnum. Stjórnandi er Friðrik Vignir Stefánsson. Með kórnum leika á hljóðfæri Vignir Þór Stefánsson á píanó, Jón Rafnsson á bassa og Matthías Stefánsson á fiðlu. Einsöng með syngur Jóna G. Kolbrúnardóttir. Á dagskránni er fjölbreytileg lög þar á meðal Vorlauf eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, afskapalega fallegt lag.