sunnudagur, 23. ágúst 2015

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Sumarið 1979 vann ég í afleysingum við heimilshjálp í Mölndal. Eitt af verkefnum mínum var að snúa manni kvölds og morgna í rúminu. Hann var lamaður og hafði fengið slæm legusár. Hann var rúmlega 60 ára gamall þegar eitthvað óskilgreint varð þess valdandi að hann lamaðist allur fyrirvaralaust heima fyrir framan sjónvarpið. Hann átti hauk í horni sem var eiginkona hans sem var vakin og sofin yfir velferð mannsins. Í ljósi þess að ég var að hætta hafði hún rætt við félagsþjónustuna um hvaða þjónustu hún fengi í framhaldi. Eitthvað varð henni sundurorða við fulltrúann sem klykkti út með að það væri erfitt að útvega þeim aðstoð vegna þess að hún væri svo erfið. Svo sagði fulltrúinn að meira að segja Sveinn vildi ekki vera lengur hjá þeim. Auðvitað hringdi konan strax í mig á eftir og spurði beint hvort þetta væri satt. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað mér þótti þetta miður því við vorum í ágætis tengslum. Hvers vegna fulltrúinn bar mig fyrir þessu er mér enn í dag hulin ráðgáta og þótti þetta ekki fagmannlegt hvorki þá né nú. Því rifja ég þetta upp til minna okkur á hvað maður getur fyrirvaralaust orðið með öllu ósjálfbjarga í þessu lífi og upp á aðra kominn með astoð.Jafnframt að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

þriðjudagur, 18. ágúst 2015

Taka notað í „fóstur.“



Við lifum á tímum stórmarkaðsvæðingar í húsgögnum og húsbúnaði eða eigum við að kalla það frekar IKEA væðingu heimilishaldsins? Í öllu falli hefur þessi þróun leitt til þess að fólk getur keypt ALLT til heimilishalds nú á dögum á sama stað, í sama stíl og líka á mjög hagstæðu verði. 
Þessi þróun leiðir til mikillar einsleitni og stöðlunar á heimilum. Breytingin virðist leiða til þess að fjöldi fólks hendir gömlum húsgögnum í stórum stíl. Um þetta vitnar m.a. Góði hirðirinn, Bland og svo Facebook síður. Hætt er við að mikil menningarverðmæti í gömlum húsgögnum og munum fari forgörðum.
Í ljósi framansagðs hefur það vakið vaxandi athygli sú vaxandi viðleitni fólks að gefa heimilinu karakter með því að kaupa gömul notuð húsgögn til þess að blanda saman við fjöldaframleiðsluna eða taka í „fóstur“ gamalt af þessum síðum.
Svipað fordæmi er þekkt úr öðrum greinum t.d. þegar plastbátavæðingin hófst og gömlu eikarbátarnir voru að detta úr rekstri. Þá fóru margir eikarbátar á brennu eða voru seldir til útlanda þar sem var fólk sem vildi varðveita þessa báta. Sem betur fer náðist að bjarga nokkrum eikarbátum frá því að vera eytt. Við njótum nú þessa björgunarstarfs með því að njóta þeirra í nýjum hlutverkum eins og hvalaskoðun. Nú við getum tekið gömlu Torfuna í Reykjavík og hvernig tókst fyrir árvekni fólks að standa vörð um þessa gömlu götumynd í borginni.
Sama vakning virðist vera varðandi eldri húsgögn, sem mörg hver eru smíðuð hér á landi. Vaxandi áhugi virðist vera fyrir því að taka í „fóstur“ gömul húsgögn sem fólk vill losna við. Nýleg stílista- og heimilissíða,http://stellavestmann.wix.com/stellar er til marks um þennan vaxandi áhuga. Þar er sagt frá því hvernig gömul húsgögn fá nýtt hlutverk við nýjar aðstæður á skemmtilegan hátt eftir að búið er að fara um þau mjúkum höndum og fríska upp á þær. Gömlu húsgögnin fá nýtt hlutverk og gefa í leiðinni heimilinu að hluta til a.m.k. íslenskan karakter. Auk þess sem þetta er oft á tíðum verndun á menningarverðmætum.

föstudagur, 7. ágúst 2015

No sir to you...

Gísli Jón Hermannsson útgerðarmaður Ögurvíkur hf var þekktur fyrir góðan raddstyrk og gott orðfæri.  Þegar honum var mikið niðri fyrir var í raun óþarfi að ræða saman í síma. Nóg hefði verið að opna gluggana á skrifstofunni í Tryggvagötunni til að fá skilboð hans frá Týrsgötunni. Enginn hafði hinsvegar áhuga á því að allur miðbærinn hlustaði á samtalið.

Jantzen framkvæmdastóri fiskmarkaðarins í Bremerhaven sagði mér fyrir margt löngu þessa sögu af samskiptum við sínum Gísla Jón vegna sölu á fiskmarkaðnum þar, eftir að afar lágt verð fékkst eftir uppboð.

Jantzen markaðsstjóri vissi að hann fengi símtal og orð í eyra frá Gísla Jóni og beið spenntur og hugleiddi hvernig hann ætti að bregðast við skömmum hans. Hann ákvað að vera eins kurteis og formlegur og honum var frekast unnt.

Þegar Gísli Jón hringir er honum heitt í hamsi og fer mikinn. Jantzen nær að koma inn orði og orði til þess að útskýra stöðuna á markaðnum og byrjar hverja setningu á því að ávarpa Gísla Jón með „sir“. Þegar hann er búinn að segja þetta tvisvar þrisvar sinnum þagnar Gísli Jón skyndilega og segir svo: „I am no „sir“ to you. I wan´t my money back!!“ Þar með lauk samtalinu jafn skyndilega og það hafði byrjað.