laugardagur, 29. nóvember 2008

Enn um efnahagslægðina

JP Morgan Ég var að lesa viðtal í Huvudstadsbladet, hinu virta finnska fréttablaði við greiningaraðila hjá J.P Morgan um efnahagslægðina sem nú skekur heimsbyggðina. Niðurstaða hans er að mannkynssagan geymi ekki lausir á síðari tíma kreppum. Hver efnahagslægð eigi sér sínar eigin forsendur. Hann skrifar ekki undir það að bandarískum húsbréfum sé einvörðungu um að kenna hvernig fór. Önnur skýring sé sú að almenningur um allan heim hafi farið óvarlega. Fólk hafi verið orðið svo vant því að hafa stöðuga vinnu og góðan aðgang að lánsfé til þess að kaupa það sem hugurinn girntist, sem virtist í góðu lagi um tíma. Fólk og fyrirtæki hafi þó ekki hugað að sér og orðið of skuldsett. Nú séu aftur á móti allir farnir að spara í heiminum, þegar fólk ætti í raun réttu að vera eyða peningum til þess að halda hjólum efnahagslífsins gangandi. Hjarðeðli fólks væri einnig orðið alþjóðlegt. Ríkisvaldið yrði nú að beita sér fyrir aðstoð við fjármálakerfið og hefja framkvæmdir til þess að koma hjólunum í gang að nýju. Þetta yrði til þess að pólitísk áhrif í samfélaginu mundu aukast til muna og efnahagslífið ennfrekar stjórnast af pólitískum sjónarmiðum - það væri ókosturinn. Aðspurður taldi hann að botni kreppunnar yrði náð næsta sumar en það yrði ekki staðfest fyrr en um þarnæstu áramót. Verkefnið hér á landi er að leysa bankakreppuna farsællega og ná niðurstöðu við lánadrottna, aðstoða fólk og fyrirtæki sem verða fyrir skakkaföllum og hefja viðreisn efnahagslífsins og hafa gaman af svo metnaðarfullu verkefni.

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Skálmað með skálmurum

Skálmarar Í kvöld lét ég loks verða að því að taka þátt í svokölluðum Skálmhópi, sem skálmar stóran hring í Elliðárdal á miðvikudögum og jafnvel laugardögum líka. Sögnin að skálma mun þýða á skaftfellsku kraftganga. Svo er Skálm einnig nafn á skaftfellskri á. Við vorum fimm að þessu sinni og gengum hratt í 80 mínútur eða þar um bil. Ég hafði áhyggjur af því í byrjun að ég mundi ekki ná að halda í hópinn því göngufélagarnir voru allir léttfetar, sem ekki blésu úr nös. Ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af því vegna þess að öll enduðum við skálmið samtímis. Það er fátt betra en góður göngutúr til þess að hreinsa hugann og líkamann við stress. Óhætt að mæla með skálmi að ég tali nú ekki um í annarri eins náttúruperlu og Elliðárdalnum. Kveðja.

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Aðventuhátíð hjá Söngfélagi Skaftfellinga

Var á söngæfingu í kvöld. Næstsíðsta söngæfing fyrir aðventuhátiðina þann 7. desember hjá Söngfélagi Skaftfellinga og hefst hún kl.15.00 á Laugavegi 178. Hvet alla Skaftfellinga, Mýrdælinga og Skaftártungumenn mér tengda að mæta í kaffi og kökur. Aðgangseyrir er 1000 kr. og ókeypis fyrir börn innan 15 ára aldurs. Enginn verður svikinn af fjölbreytilegu lagavali kórsins að þessu sinni. Kveðja.

laugardagur, 22. nóvember 2008

Sveitin milli sanda

Í vikunni fór ég á myndakvöld hjá Skaftfellingafélaginu í Reykjavík og horfði á sjónvarpsmyndir sem teknar voru árið 1967 í Öræfasveit. Magnús Bjarnfreðsson var þulur í myndunum og tók viðtal við ýmsa fyrirmenn sveitarinnar. Ég man þegar þær voru upphaflega sýndar í sjónvarpinu. Sérstaklega man ég eftir beltadrekanum honum Dreka og svaðilför ferðafélaga úr Ferðafélagi Kópavogs yfir óbrúðar jökulár. Myndirnar eru svarthvítar þannig þær ná ekki að lýsa stórfenglegri náttúru svæðisins. Rödd Magnúsar gefur frásögninni mikilfenglegan blæ sem fangar athygli áhorfandans. Viðtöl hans við menn um málefni sveitarinnar og áhrif þess á sveitinna að einangrun verði afnumin með bættum vegasamgöngum eru eftirminnileg. Meira að segja slíkar breytingar töldu menn geta haft neikvæð áhrif og þá aðallega varðandi umgengni. Eftirminnilegast er viðtal hans við Hannes Jónsson póst á Núpstað um svaðilför hans uppi á Skeiðarárjökli í miðju jökulhlaupi.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Ég var þar....

Í gærmorgun var ég mættur ásamt mörg hundruð manns á ráðstefnu Viðskiptaráðs Íslands sem haldin var til að fjalla um nýja peningamálaskýrslu Seðlabanka Íslands. Ræðumaður dagsins var formaður bankastjórnar SI og hélt hann mikla ræðu til varnar Seðlabanka Íslands og ábyrgðarþátt hans í falli 85% af fjármálakerfinu. Ræðuna má nálgast hér á heimasíðu Seðlabankans. Bankarnir voru einkavæddir fyrir sex árum. Þeir hófu að efla starfsemi sína og tóku til þess gríðarleg lán erlendis til að endurlána erlendis og hér innanlands. Ýmsir höfðu uppi varnaðarorð um að of geyst væri farið. Á þessi varnaðarorð var ekki hlustað eða þá að leikurinn var of langt genginn til þess að hægt væri að snúa við. Viðkvæðið var að bankarnir hefðu trausta stöðu. Svo kom fjárhagskreppan og feykti burtu mörgum bankastofnunum víða um lönd. Í byrjun október féll saman 85% af fjármálakerfi landsins eins og spilaborg. Nánar tiltekið allir þrír helstu viðskiptabankar landsins. Eftir stendur að margir "gíruðu" sig upp og tóku háar lánsfjárhæðir í erlendum myntum og voru með í leiknum. Skuldir fyrirtækja og heimila uxu óheyrilega. Um þetta mátti lesa í opinberum hagskýrslum. Víða er fólk og fyrirtæki í gríðarlegum vandræðum vegna skulda sem ekki ræðst við. Svo eru þeir sem vildu fara varlega og lögðu fé inn á sparnaðarreikninga í stað þess að eyða þeim. Nú eða fólk sem lagði aukalega inn á lífeyrisreikninga. Fólks sem vildi sýna ráðdeild, þrátt fyrir öll gylliboðin. Framundan eru erfiðir tímar sem varið verður í það að greiða skuldir og byggja upp að nýju. Eðlilega eru miklar tilfinningar tendar þessari stöðu. Fólk spyr hverju sé um að kenna, hverjir beri ábyrgð? Enn aðrir segja ekki benda á mig og svona henda menn boltanum á milli sín. Mistókst einkavæðing bankanna, mistókst eftirlit með inn- og útlánum bankakerfisins? Því verður ekki neitað hvernig sem á það er litið. Ábyrgð þeirra sem báru ábyrgð á rekstri bankakerfisins er mikil. Ábyrgð þeirra sem áttu að fylgjast með starfseminni er líka mikil. Ábyrgð stjórnvalda sem eiga að sjá til þess að meðalhófs sé gætt í öllu er varðar almannahagsmuni er mikil. Ábyrgð þeirra sem "gíruðu" sig upp í miklum lántökum og fóru óvarlega er mikil.Hluti af því að gera upp þessi mál er að fólk axli ábyrgð. Þeir sem áttu að gæta almannahagsmuna verða líka að axla ábyrgð. Þannig eru leikreglurnar í siðuðu réttarsamfélagi.

sunnudagur, 16. nóvember 2008

Blákaldur veruleikinn

Sumir geta talað sig í gegnum svona ástand eins og nú er uppi. Fengið útrás fyrir reiði sína og hugsanir. Komið því á framfæri við þjóðina hvað þeir séu klárir og réttlætið sé þeirra. Svo eru það við hin sem viljum helst hlusta og vega og meta stöðuna. Auðvitað erum við öll sár og reið yfir því hvernig komið er. En hvernig vinnum við okkur út úr stöðunni? Við getum ekki endalaust verið reið. Sagði ekki geðlæknirinn að reiðin væri verst fyrir þann sem er reiður. Það leysir heldur enginn úr okkar vanda nema við sjálf. Það kemur enginn stóribróðir og tekur í hönd okkar. En við þurfum mikinn velvilja og skilning til að takast á við vandamálin ekki síst hérna heima og líka erlendis. Þess vegna er eins gott að okkur renni reiðin. G20 hittust í Washington um helgina. Það hefur ekki verið eytt mikum tíma í að fjalla um okkar mál á þeirri samkomu. Það er að taka við ný stjórn í USA þar gerist ekkert fyrr en nýir valdhafar taka við. Eitthvað var þó talað um það að auka þyrfti hjálp þeirra verst stöddu í þróunarlöndunum, þessum sem hafa um og yfir dollara til ráðstöfnunar á dag. Það er eins gott því við erum að skera þar niður.

föstudagur, 14. nóvember 2008

Ferðatöf

Það er sérstakt að vera mættur á Kastrup og standa frammi fyrir því að vera með flugmiða og ákveðinn tíma og dagsetningu á flugi sem er ekki á skjánum og enginn kannast við að sé á þessum tíma. Þessu lenti ég í þegar ég ætlaði heim til Íslands á miðvikudaginn. Flugið var fellt niður og mér sást yfir e-mail frá flugfélaginu. Ferðin frá Kristianstad fór ekki allveg sem skyldi heldur. Ég varð að fara út í Svågertorp og taka rútu á Kastrup. Skýringin var að lestarteinarnir væru ekki í lagi á Eyrarsundsbrúnni. Það var ekki um annað að gera en að snúa við til Kristianstad að nýju eftir þessa fíluferð. Þá var lestin farin að ganga yfir brúnna að nýju, nema hvað rétt áður en komið er að Svågertorp stoppar lestin og lestarstjórinn upplýsir að vegna þess að það sé einhver hlutur á sporinu komist lestin ekki áfram. Eftir nokkra bið heldur lestin áfram, en upplýst er að hún fari ekki nema til Malmö Centralstation. Hluturinn sem lestarstjórinn talaði um reyndist vera manneskja sem var á brautinni. Ég skipti um lest og tek ákvörðun um að hopppa upp í lest til Hässleholm í stað þess að bíða í óvissu um hvort Kristianstad lestin færi klukkutíma síðar. Á leiðinni var í þrígang verið að hvetja þá sem ætluðu til Kristianstad að hoppa af og bíða eftir Kristianstad lestinni. Ég tók ekki þann séns en bað Hjört að sækja mig í Hässleholm, en það er um 20 mínúta akstur að heiman frá honum. Í sænsku fréttunum var sagt frá því í kvöld að áætlanir lestakerfisins yrði tekið til endurskoðunar. Ef þetta er oft svona hjá þeim blessuðum skil ég það mæta vel.

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Hann Jói bróðir á afmæli

Jói bróðir eða "Rói bróðirrr" eins og hann kallar sig er tveggja ára í dag. Við náum að vera í tveimur afmælisveislum á þessum dögum. Það er nafni sem hjálpar samviskumsamlega við að taka upp alla pakka þannig að það má segja að þetta sé afmælisveisla fyrir hann einnig. Nú annars allt gott af okkur að frétta. Veðrið svipað og í gær. Ég legg í hann heim á leið á morgun. Kveðja.

sunnudagur, 9. nóvember 2008

Á Hamri

Höfum að mestu tekið því rólega hér að Hamri í dag. Verið úti með strákunum að leika. Veðrið hefur verið ágæt ca. 10°c skýjað, frekar rakt en að öðru leyti ágætis veður. Maður er hálf hissa hvað það er rólegt yfir öllu hérna. Enginn að mótmæla og fólk að hvíla sig eftir vikuna og safna krafti. Maður er svolítið að gjóa í tölvuna og lesa fréttir að heiman. Þýðir víst ekkert að neita því. Það tekur mann smá tíma að hægja á sér úr stressinu. Kveðja.

laugardagur, 8. nóvember 2008

Dansað með indjánum

Við höfum átt hér góðan dag í Kristianstad í Svíaríki. Vorum í bænum og röltum milli staða. Tók video mynd af bræðrunum Svenna og Jóa taka stríðsdans við s-ameríska indjána söngva. Náði ekki að hlaða henni hérna inn á vefinn en hún er á facebook. Hjörtur Friðrik átti afmæli í dag og hefur því verið fagnað á viðeigandi hátt. Hann þarf þó ekki að taka upp pakka það gera synir hans samviskulega.Hér er Ingibjörg að reyna að festa þá bræður á mynd í bænum. Það getur verið vandkvæðum bundið. Kveðja.

Kominn til Kristianstad

Ferðin gékk vel í gær komum til Kristianstad klukkan tíu um kvöldið. Annars allt gott að frétta. Verðurm í bandi. Kveðja.

fimmtudagur, 6. nóvember 2008

Nokkrar spurningar

1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
a) Starfsmaður í Tax free verslun á Landvätter Gbg
b) Hagfræðingur í fjárlaga- og hagsýslu, fjármálaráðuneyti
c) Rekstarráðgjafi hjá Hagvangi hf
d) hagfræðingur LÍÚ

2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:
a) 79 af stöðinni
b) Hrafninn flýgur
c) Með allt á hreinu - Stuðmenn
d) Tár úr steini - Um Jón Leifs

3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:
a) Víðihvammi
b) Omgången Gbg
c) Engihjalla
d) Brekkutúni

4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
a) Frakkland
b) Kanada
c) USA
d) Mallorka

5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
a) Onidin skipafélagið
b) Band of brothers
c) Friends
d) Fréttir

6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:
a) brekkutúnsannáll
b) m5.is
c) mbl.is
d) liu.is

7. Fernt sem ég held upp á matarkyns:
a) ný ýsa
b) nýr steinbítur
c) lambalæri með hvítlauk
d) Jensínu ömmu ísinn

8. Fjórar bækur sem ég hef oft lesið:
a) Economics
b) Passíusálmarnir
c) Sönglög Sigfúsar Halldórssonar
d) Nýja testamentið

9. Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:
a) Heima
b) London
c) Kristianstad
d) Ísafirði

10. Fjórir bloggarar sem ég klukka:
a) Hjörtur Friðrik
b) Unnur Sveins
c) Valdimar
d) Erla Hlín

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Ná sér í útlenda aura

Fór í bankann í dag til að ná mér í útlenda aura. Veit ekki af hverju, en var svolítið niðurlútur við það að biðja um gjaldeyri á þessum síðustu og verstu tímum. Maður vill nú ekki íþyngja efnahag þjóðarinnar um of. Á miða í anddyrinu stóð að ég mætti fá fyrir 50 þúsund krónur. Þegar ég kom að stúkunni spurði gjaldkerinn mig hvað ég þyrfti mikið. Ég svaraði vandræðalega, ja hvað má ég fá mikið ég er að fara í helgarferð, hélt að þá fengi ég enn minna vegna þess að vinur minn hafði fengið 50 þúsund og hann sem var að fara í hnattferð. Hvað viltu mikið sagði gjaldkerinn brosandi. Nú má ég fá fullan skammt er ekki frekari takmörk? Búið að aflétta skömmtun, sagði gjaldkerinn. Jæja, heyrðu þá fæ ég svona 2000 danskar krónur, óþarfi að hamstra. Gjörðu svo vel sagði gjaldkerinn og rétti mér aurinn. Ég fór glaður út með nýja von um að nú færi þetta allt að lagast. Kveðja.

þriðjudagur, 4. nóvember 2008

Flytja af landi brott.

Í Gautaborg 1977. Við kynntust mörgum löndum í Svíþjóð, sem fóru þangað til þess að byrja nýtt líf á áttunda áratug síðustu aldar. Þeir voru ýmist komnir til að vinna eða fara í nám nema hvortveggja væri. Ég hef fylgst með nokkrum hópi í áratugi og þeim hefur allflestum farnast mjög vel, hvort heldur þeir snéru heim eða settust að í Svíþjóð. Nokkrir komu heim í byrjun níunda áratugarins og fóru út aftur í kreppunni 1983. Ég tel það eitt mesta gæfuspor okkar að hafa farið eftir stúdentspróf og numið þar í landi. Við vorum með eitt barn og hefðum ekki getað farið bæði í nám hér heima á þessum árum. Í Svíþjóð gátum við leigt íbúð, fengið pössun fyrir barnið, unnið á sumrin og þegar tækifæri gafst. Við byggðum okkur upp fyrir framtíðina og við kynntumst annarri menningu, þótt vissulega sé hún lík okkar um margt. Við sáum þó alltaf framtíðina fyrir okkur á Íslandi. Nú er rætt mikið um það að hugsanlega flytji margir úr landi vegna núverandi efnahagsvanda. Það getur verið heillaríkt spor fyrir þá sem fara með réttu hugarfari. Vilja leita nýrra tækifæra, breyta um umhverfi og kynnast menningu annarra þjóða. Ég tel að flestir muni hafa áhuga á því að koma aftur til Íslands - römm er sú taug o.s.fr. En aðstæður breytast og sumir koma ekki aftur. Þannig er því einnig varið með ýmsa félaga okkar. Þeir eru orðnir Svíar og verða það úr þessu. Ástæður þess eru margvíslegar m.a. makaval, vinna og fleira. Ég tel hinsvegar að þeir sem leggja á flótta vegna eigin hræðslu við ástandið verði áfram hræddir hvert svo sem þeir fara. Lykilinn að því að komast í gegnum erfiðleika af því tagi sem við stöndum nú frammi fyrir er að horfast í augu við vandann. Vinna sig í gegnum verkefnin skref fyrir skref, allt eftir aðstæðum hvers og eins. Sjái fólk ekki framtíð sína hér á landi, þá er að taka á því og velja sér nýtt land. Þeir sem fara verða þó að gera sér grein fyrir því að þeir eru og verða Íslendingar, þótt þeir flytji til annarra landa. Næsta kynslóð, börnin þeirra, ná því að aðlagast að fullu nýju landi. Nóg í bili. Kveðja.

sunnudagur, 2. nóvember 2008

Sporðlausi gullfiskurinn

Við keyptum okkur gullfisk fyrir tveim mánuðum á 700.- Hann er svona 20 grömm að þyngd. Uppreiknað kílóverðið á gullfiskum er því 35 þúsund krónur en það er önnnur saga. Einn morguninn var fiskurinn sporðlaus. Hvernig hann fór að því að glata sporðinum er okkur hulin ráðgáta. Hann er eigi að síður hinn sprækasti og syndir sem aldrei fyrr með styrtlunni og raufarugganum. Ef einhver kann skýringu á þessu væri gaman að heyra hana. Varla missa fiskar sporðinn eins og hreindýr hornin eða hvað?

laugardagur, 1. nóvember 2008

Úr einu í annað

Borðhaldið( Mynd KK) Í gær vorum við í aðalfundarhófinu. Í dag var svo söngæfing kórsins og tókum langan laugardag í sex tíma og borðuðum saman góðan kvöldverð og skemmtum okkur saman fram eftir kvöldi við meiri söng. Enduðum svo í kvöld á því að heimsækja foreldranna. Kveðja til Svíþjóðar. Við spjörum okkur þótt móti blási í bili. Öll él styttir um síðir.