sunnudagur, 24. júní 2012

Skemmtilegustu kaupin

Fyrir meira en þremur áratugum keypti ég abstrakt málverk eftir Karl Kvaran listmálara. Gunnlaugur Þórðarson hæstaréttalögmaður stóð fyrir sýningu á verkum hans í matstofu stjórnarráðsins í Arnarhvoli en þar vann ég um tíma. Uppi um alla vegi matstofunnar sem er í kjallara hússins hengdi hann upp myndirnar og lífguðu þær mjög upp á stofuna. Einn daginn var ég seinn fyrir í mat og við vorum aðeins tveir í matstofunni á sitt hvoru borðinu. Við tókum tal saman og ég hafði einhver orð um það að mér þætti sýningin athygliverð, þótt ég væri ekki vanur svona abstrakt verkum. Gunnlaugur upplýsti mig um að verk af þessu tagi krefðust þess að maður tæki afstöðu til þeirra. Það skipti ekki máli hvort manni þætti þau vera falleg eða ljót. Þau mundu ekki láta mann í friði og krefðust ávallt afstöðu. Síðan spurði hann mig hvort ég væri hrifinn af einhverri sérstakri mynd. Ég benti á mynd sem ég var hrifinn af og heitir Nóvember morgunn. Hann bauð mér hana til kaups en ég sagðist ekki hafa efni á að kaupa hana. Þá svaraði hann að bragði að þetta snérist ekki um hvort maður hefði efni á að kaupa, heldur hvernig maður treysti sér til þess að greiða myndina. Ég fór þá í næsta skjól og sagðist ekki "þora" að kaupa svona dýra mynd nema spyrja konuna mína fyrst. Þá hnussaði Gunnlaugur og sagði að hann ætti eitt stærsta einkasafn málverka. "Það get ég sagt þér að ef ég hefði einhvern tíma spurt konuna mína hvort ég mætti kaupa mynd. Þá ætti ég enga mynd," sagði Gunnlaugur. Ég var mát og við fórum að ræða verðið og ég sagði eins og var að ég ætti enga peninga. "Þetta er bara spurning um tíma, hvað viltu langan tíma?" Hann dró upp stóran bunka af víxileyðiblöðum og byrjaði að telja þá. Okkur samdist um að ég mundi greiða myndina á einu ári. Þess má geta að ég á enn þessa víxla til minningar um þessi skemmtilegu kaup. Þeir lentu í eigu manns sem hafði innrammað þessar myndir og var alltaf mjög gaman að koma til hans að greiða þá. Það var ekkert verið að senda þá í banka til innheimtu. Ég var svolítið kvíðinn þegar ég hringdi heim til að segja frá tíðindunum. Við vorum að fjárfesta í íbúð og málverk var ekki efst á innkaupalistanum. Sirrý hefur mjög gaman af að segja frá því þegar ég hringdi í hana úr vinnunni og bað hana að setjast niður, því ég þyrfti að segja henni svolítið. Það er skemmst frá því að segja að hún tók þessum tíðindum mjög vel og við höfum notið þessarar myndar bæði öll árin og erum ekki leið á henni.

sunnudagur, 10. júní 2012

Á Austurvelli.

Eftirminnilegasti atburður vikunnar verður vafalítið samstöðufundurinn á Austurvelli til að mótmæla fyrirliggjandi frumvörpum um veiðigjöld og stjórn fiskveiða. Það segir meira en margt annað að á fundinn mættu tvöþúsund manns og í höfninni voru yfir 80 fiskiskip þennan dag. Það kom óvart að þarna var mættur nokkur hópur fólks, sem lagði sig fram um að yfirgnæfa ræðumenn fundarins. Það tókst ekki að þagga niður í ræðumönnum, þvert á móti juku þeir raddstyrk sinn og fluttu mál sitt skörulega. Það er í raun sorglegt að fólk sé svo rökþrota í andófi sínu að það mæti til þess eins að púa á ræðumenn til að þagga niður í fólki. Hvar er lýðræðið, hvar er hin frjálsa orðræða? Nóg í bili.