fimmtudagur, 31. desember 2009

Gleðilegt ár með þökk fyrir hið liðna.

Hjörtur Friðrik. Meðfylgjandi er gömul mynd af Hirti Friðrik á gamlárskvöld. Fáir hafa haft jafn gaman af sprengingum á gamlárskvöld í þessari fjölskyldu. Við Valdimar munum reyna að standa undir væntingum í þeim efnum þótt Hjörtur sé fjarri góðu gamni núna. Fyrir þá Fossvogsbúa sem ekki vita hver blæs stundum í lúðurinn í dalnum á þessu kvöldi þá er rétt að upplýsa að það er hann Valdimar okkar. Vonandi að Svíar fari varlega með sína flugelda svo Hjörtur hafi það rólegt á bráðamóttökunni á nýjársnótt. Óskandi að nýtt ár verði ár endurreisnar og velfarnaðar. Við þökkum ykkur öllum fyrir ógleymanlegt ár sem bauð upp á öll helstu blæbrigði lífsins. Sjáumst heil og fariði varlega með sprengiefni kvöldsins. "Lovja all."

fimmtudagur, 24. desember 2009

Gleðileg jól

Jóhannes Ernir, Hjörtur Friðrik og Sveinn Hjörtur Gleðileg jól. Svona eru nú "Skype" jól haldin í dag. Tók þessa mynd af skjánum þegar drengirnir okkar í Kristianstad höfðu samband til þess að óska okkur gleðilegra jóla. Þessi samskipti minntu mig á gamla daga þegar námsmenn erlendis voru að senda kveðjur í gegnum ríkisútvarpið. Nú hefur tækninni fleygt fram og hægt að eiga þessi samskipti í gegnum tölvu á persónulegum nótum. Við sendum ykkur líka öllum bestu jólakveðjur og vonum að þið eigið góða jólahelgi nær og fjær. Annars hefur jólahaldið hjá okkur verið með hefðbundnu sniði. Við enduðum daginn á heimsókn til Þórunnar systur og hittum þar foreldra mína og systkini. Axel Garðar og fjölskylda voru vestur í Stykkishólmi. Á jólum fögnum við fæðingu frelsarans en hátíðin er ekki síður hátíð fjölskyldunnar. Við viljum hafa okkar nánustu í kallfæri og styrkja böndin og minnast saman liðinna stunda. Á Þorláksmessu fórum við í skötuhlaðborð á Hótel Loftleiðum eins og mörg undanfarin ár. Nóg í bili kveðja.

laugardagur, 19. desember 2009

Víti á jörðu.

Fergus Anckhorn. Ég hlustaði á viðtal við Fergus Anckhorn á Hardtalk hjá BBC í gær. Sama þátt og Geir Haarde var nýlega í viðtali og sagði þessu fleygu orð, "mabe I should have." Nú var viðtalið við aldinn stríðsfanga sem lifði af fangavist Japana í seinni heimstyrjöldinni við byggingu brúarinnar yfir Kwai fljót. Maðurinn lýsir því hvernig hann fyrir hreint kraftaverk lifir af þrjú ár í þessu helvíti Japana og hrottafengna meðferð þeirra á föngunum. Hvað þurfi til að lifa vist í víti á jörð. Þeir sem misstu lífsviljann við þessar aðstæður voru látnir nokkrum dögum síðar. Eins og vinur hans píanóleikarinn sem sagðist ekki geta lifað án tónlistar. Aðspurður hvort hann væri trúaður eftir þessa mannraun sagðist hann ekki trúa á Guð. Ef hann væri til gæti ekki verið að hann mundi láta svona atburð gerast án þess að grípa inn í atburðarrásina. Mikill meirihluti félaga hans hafi látið lífið í fangabúðunum. Ef það væri til almætti hefði það gripið inn í atburðarrásina. Það vakti athygli mína að þrátt fyrir ömulegar aðstæður var það eftirminnilegt í minningu mannsins að slíkar aðstæður kölluðu fram allt hið besta í fari félaga hans. Þrátt fyrir hrottaskapinn gátu Japanirnir ekki kæft æðstu gildi mannlegra samskipta meðal samfanganna. Aðspurður hvort hægt væri að réttlæta stríð svaraði gamli maðurinn því neitandi. Í lok átaka kæmu leiðtogarnir saman og skrifuðu undir pappíra og þar með væri málum lokið. Enginn mundi efitr fórnum hermannanna og hinna fölnu. Hann sagðist ekki skilja af hverju menn gætu ekki komið saman áður en til stríðs kæmi og skrifað undir pappírana. Þá væri hægt að komast hjá sjálfu stríðinu. Langði að horfa á viðtalið aftur en fann aðeins brot af því á vefsíðu BBC. Kveðja.

sunnudagur, 13. desember 2009

Upptaktur í undirbúningi jóla.

Þessari helgi hefur verið varið í heimsóknir og tiltekt. Það var víst orðið nauðsynlegt að takast á við óhreinindin, enda tuskur verið lítt handfjatlaðar hér á bæ um nokkurn tíma. Mikilvægari störf hafa verið tekin fram fyrir svo sem próflestur dótturinnar, söngur með söngfélögum mínum, göngur, tölvuhangs, sjónvarpsgláp og ýmislegt annað. Nú var verkefnið ekki umflúið lengur. Væntanlega kannist þið við þessi átök líka. Ég hef verið að skoða gamla cd diska með gömlum jólalögum. Þess vegna datt mér í hug fyrirsögn þessa pistils upptakur í undirbúningi jóla. Eftir því sem maður eldist aukast tregablandnar minningar og blandast saman við melódíur jólahátíðarinnar, kokteill sem rétt er að dreypa ekki of mikið af. Ætli uppáhaldslagið mitt sé ekki White Christmas með Bing Crosby en svo koma margir þar á eftir. Nú styttist í að Sirrý komi heim en hún hefur dvalist í Jönköping undanfarnar vikur við rannsóknir. Þá eykst umræddur upptaktur örugglega til muna. Jæja nóg í bili. Kveðja.

miðvikudagur, 9. desember 2009

Aðventustund með kórnum

Söngfélag Skaftfellinga.
Síðustu dagar hafa aðallega verið helgaðir sönggyðjunni. Á sunnudaginn hélt kórinn ásamt Skaftfellingafélaginu aðventustund og söng kórinn af því tilefni nokkur jólalög. Í gærkvöldi var farið í heimsókn á tvær sjúkrastofnanir og þessi lög sungin aftur þar. Það er fátt betra fyrir sálartetrið en að tjá sig í söng fyrir þakkláta hlustendur með samstilltum söngfélögum. Nú er kórinn kominn í jólafrí og verða ekki æfingar að nýju fyrr en um miðjan janúar. Pabbi átti 79 ára afmæli í gær og af því tilefni var haldin vegleg veisla hjá Stefaníu systur. Þar var mættur fríður hópur ættingja og vina. Kveðja.
(Mynd: Kristinn Kjartansson)

fimmtudagur, 3. desember 2009

Andlaus

Ég hef verið andlaus undanfarna mánuði og lítið skrifað á þessa heimasíðu. Í kvöld horfði ég út um gluggan og hugur minn fylltist af gleði. Himininn var heiður og stjörnubjartur. Yfir Esjunni var fullt tungl að rísa í öllu sínu veldi og kvöldbirtan var ótrúlega skær. Hverfið mitt, Fossvogur kúrði í dalverpinu og allt var svo friðsælt að sjá. Framundan er viðburðarrík helgi. Á laugardaginn verður Loftsalaættin frá Mýrdal með kynningu á ættartali sínu sem gefið hefur verið út í bókarformi. Á sunnudaginn eru svo Söngfélag Skaftfellinga með aðventuhátið og söngskemmtun að venju. Sigrún hefur verið í próflestri þannig að maður hefur haft hægt um sig heima fyrir. Svo kveikti ég á sjónvarpinu og datt inn í umfjöllun um Icesave. Ég held að þetta sé sjötti eða sjöundi dagurinn sem þessi umræða fer fram. Það verður alvarlegt mál fyrir þá þingmenn sem samþykkja þessa nauðarsamninga vegna þess að sá gjörningur festist við nöfnin þeirra um alla framtíð eins og góður vinur minn orðaði það. Ég var ekki búinn að hlusta lengi þegar andleysið heltist yfir mig að nýju en ég ákvað að láta það ekki ná tökum á mér að nýju og slökkti á umræðunni. Það var auðveld ákvörðun fyrir mig en það er ekki jafn auðvelt fyrir þingmenn að afgreiða þetta mál með sama hætti.

sunnudagur, 29. nóvember 2009

Enn eru jól hjá illum

Illum
"Enn eru jól hjá illum." Þetta var viðkvæði sem maður heyrði oft á aðventunni hér á árum áður. Þetta var hluti af Kúrlandshúmor tengdamóður minnar og gæti hann þess vegna verið ættaður úr Glaðheimunum þar sem tvíburasystir hennar býr. Margur verður fyrst forviða við að heyra þetta. Þannig var allavega um mig. Hva eru jól líka hjá illum? Er verið að vísa til orðatiltækis úr íslenskri menningarsögu? Svo er ekki, þessi orð eru orðaleikur íslenskra námsmanna í Danmörku fyrir langa löngu. Tilvísun í að ekki væri búið að taka niður jólaskreytingarnar í gluggunum hjá versluninni Illum á Strikinu í Kaupmannahöfn. Á annan í jólum 1975 vorum við Sirrý og Hjörtur stödd á Strikinu í Kaupmannahöfn. Það situr eftir í minningunni að einmitt þennan dag voru borgarstarfsmenn að taka niður jólaskrautið. Áþreifanleg minning um að jólin eru helsta vetrarvertíð kaupmanna í skammdeginu. Hvað eru jólin? Okkur er sagt að þau séu fæðingarhátið frelsarans. Stórhátið kristinna manna. Fjölskylduhátíð, hátíð barnanna og tilbreyting í skammdeginu. Máttur fjölmiðlunar er svo mikill að þú skalt í það minnsta fá kerti og spil. Enginn sleppur við neysluokið sem tengist því miður þessari hátíð. Hátíðin veitir sem betur fer ýmislegt annað. Hún er tilefni til að upphefja hugann, styrkja fjölskylduböndin. Lyfta sér upp úr hversdagleikanum leita að fegurðinni í lífinu. Kveikja lifandi ljós og njóta augnabliksins þessara örfáu frídaga sem henni fylgir. Hún er síðast en ekki síst hátíð barnanna. Gleðilega aðventu nóg í bili.

laugardagur, 21. nóvember 2009

Máttur skógarins

Síðustu tvo laugardaga hef ég gengið Græna- og Furulundarhring í Heiðmörk með göngufélagi Skálmara. Þetta er um klukkutíma hringur í röskri göngu. Þegar ég fór í fyrri gönguna var ég búinn að vera frekar slappur og kvefaður. Ég fann það fljótt á göngunni að það var eitthvað í stilltu loftinu sem gerði mér gott. Súrefnið er náttúrulega nýendurunnið og tandurhreint. Það voru einhver bætiefni í angan trjánna sem gerðu mér gott. Nú í dag þegar ég fór þennan sama hring fékk ég þessa sömu tilfinningu. Ég var ekki kvefaður eins og síðast en ég fann að skógarloftið gerði mér gott og mér óx styrkur á göngunni af angan trjánna. Nóg í bili.

laugardagur, 14. nóvember 2009

The Annual Juke Joint Festival 2009.

Ég var mættur á Batteríið í gær til þess að hlusta á þrjár hljómsveitir á tónleikum sem nefndir voru þessa flotta enska heiti: The Annual Juke Joint Festival 2009. Tónleikarnir byrjuðu á Hljómsveit Brynjars Jóhannssonar og Tótu Jónsdóttur. Næst tróð á svið Bergþór Smári og Mood og að lokum mættu The Lame Dudes á svið. Það er merkilegt hvað þessi "petit" kona, Tóta Jónsdóttir, hefur djúpa, sterka og hrífandi rödd. Við Birna Hallsdóttir veltum því fyrir okkur hvort hún minnti meira á Edith Pjaf eða enn suðlægari og þá baltneskar söngkonur. Ég var á Pjaf línunni. Ég vil gjarnan heyra meira í þessari konu í framtíðinni. Um hljómsveit Brynjars er það að segja að það var trommarinn, sem ég veit ekki hvað heitir sem barði saman "beatið" í bandið. Næstur kom á svið Bergþór Smári og Mood. Ég segi nú bara Wow.. eða "walk on water." Þarna er mjög góður söngvari og gítarleikari á ferðinni. Hann náði upp stemmningu enda var "beatið" frábært og tónlistin náði góðum tökum á manni, þar sem bryddað var upp á Jimmy Hendrix töktum. Nú síðasta atriðið á dagskránni voru The Lame Dudes. Það fór ekki milli mála að þar var voru aðalkarlarnir að stíga á stokk. Ég þekki nú orðið lögin þeirra og textana þannig að ég velti svolítið fyrir mér flutningi og spili. Það fer ekki milli mála að sólógítarleikarinn Snorri Björn Arnarson er meðal þeirra bestu sem ég hef hlustað á. Hann er náttúrutalent og skaftfellsk ættareinkenni "i ögon fallande" eins og sænskurinn mundi segja, glaðlindur og velviljaður minnir mig á Eric Clapton á sviði. Það fór ekki hjá því að margar konur í kringum mig veltu þessum hljómsveitarmeðlimi mikið fyrir sér. Ég hef þó séð hann í meira stuði og hann mátti gefa aðeins meira í þetta í gær. Ég hafði það svolítið á tilfinningunni að hann væri að segja okkur að hann þyrfti ekkert á þessu að halda. En hann verður að skilja að við viljum aðeins meira og meira. Hannes Birgir Hjálmarsson er góður og þekkilegur söngvari og textasmiður "easy" going", sá sem ljáir bandinu mestan persónulegan karakter eins og söngvarar gera jafnan. "He means business" eins og Ameríkaninn mundi orða það. Sá þriðji sem ég er farinn að fylgjast með er bassaleikarinn hann Jakob Viðar Guðmundsson. Maður vanmetur alltaf bassana, sérstaklega þegar tenórar eiga í hlut. Þetta er traustur bassaleikari sem styrkir vel "beatið" og taktinn í bandinu. Trommarinn, Kristján Kristjánsson var líka mjög góður. Ég er ekki viss en getur verið að þetta hafi verið sami trommarinn sem barði "beatið" í fyrstu hljómsveitina? Staðurinn var svona á mörkunum, en hljómstyrkur var þægilegur. Ég enda þessa umfjöllun á orðum Júlíusar Valssonar vinar míns sem sendi mér skeyti í dag og sagði: The Lame Dudes eru ekkert lame. Ég segi bara áfram strákar gefið í og þið náið alla leið og takk fyrir mig.

sunnudagur, 8. nóvember 2009

Kristianstad

Ingimundur Við höfum átt góða helgi hér í Kristianstad í tvöföldu afmæli. Þetta er afmælisdagur Hjartar Friðriks þ.e. 8. nóvember og afmæli Jóhannesar Ernis var haldið í dag líka en þann 11. nóvember verður kappinn þriggja ára. Þá vorum við að halda upp á það að Hjörtur er orðinn sérfræðingur í sinni grein. Ingimundur Gíslason læknir sem býr hér í Kristianstad bauð okkur Sirrý að koma í Den heliga trefaldighetskyrkan í dag og hlusta á hann spila á orgelið í kirkjunni. Þetta var sérstkök upplifum að sitja upp í stúkunni hjá orgelinu og hlusta á hann spila fúgu eftir Krebs, sem var lærisveinn Bachs. Þessi kirkja er 400 ára gömul vígð árið 1626 og var byggð af Kristjáni fjórða Danakonungi. Þannig að segja má að endur fyrir löngu hafi þetta verið íslensk kirkja. Það má finna skjaldamerki Íslands við einn bekkinn í kirkjunni.

sunnudagur, 1. nóvember 2009

Tvær stjörnur.

Hlustaði í kvöld á Árna Tryggvason og Flosa heitinn Ólafsson tala um lífshlaup sitt á sitthvorri sjónvarpsrásinni. Báðir þessir kunnu gamanleikarar komu inn á þunglyndi sem þeir hafa átt við að stríða, sviðskrekk, sjálfsgagnrýni og fleira. Árni sagði að það hefði ekki verið fyrr en upp úr 1980 sem almennt var farið að viðurkenna þunglyndi sem sjúkdóm. Árni endaði viðtalið á því að hann vildi að fólk mundi minnast síns þannig: "Mikið askoti árans var hann Árni góður leikari." Það var allt og sumt. Flosi kvaddi með því að segjast vera skoðunarlaus maður. Hefði helst enga skoðun á málefnum líðandi stundar. Það fór ekki heldur mikið fyrir stærilæti hjá þessum stórjöfri leiklistarinnar. Eftir þesssi viðtöl situr maður fullur þakklætis fyrir það að hafa fengið að njóta þessara stórleikara um áratugaskeið, hvílíkir snillingar.

miðvikudagur, 21. október 2009

Melvyn King um bresku fjármálakrísuna.

Melvyn King "Never has so much money been owed by so few to so many. And, one might add, so far with little real reform." Í íslenskri þýðingu: Aldrei áður hafa svo fáir skuldað jafn mörgum mikið fé og án áþreifanlegrar endurbóta til þessa. Hér var breski seðlabankastjórinn að umorða og vísa í fleyg ummæli Winstons Churchills í seinni heimstyrjöldinni, þegar hann bar lof á framgöngu breskra flugmanna í orustunni um Bretland. Frekar ósmekkleg samlíking, en væntanlega dæmi um breskan húmor. Stuðningur breskra skattgreiðenda í formi beinna og óbeinna styrkja og hlutabréfakaupa í bönkum nemur 1.000 milljörðum punda (Ein billjón punda). Þetta er stór tala og í íslenskum krónum er þetta 200 000 000 000 000.- (um 3,3 milljónir króna á hvert mannsbarn í Bretlandi en þeir eru um 61 milljón talsins núna.) Þessi staða segir okkur að það er víðar en hér á landi sem bankar lentu í erfiðleikum og þroti. Í raun þolir enginn banki áhlaup og þess vegna eru Seðlabankar til þess að útvega lausafé við slíkar aðstæður. Vandamál okkar er að bankakerfið óx okkur yfir höfuð. Seðlabankinn hafði enga burði til þess að styðja við bankakerfið eins og til er ætlast. Það skiptir engu máli hvort vinstri eða hægri menn eru við völd þegar bankakrísur verða. Í Bretlandi voru/eru vinstri menn við völd. Hér var samsteypustjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Nú eru vinstri menn við völd og það er enginn trygging fyrir því að ný bankakrísa skelli ekki á aftur. Þvert á móti verðum við að átta okkur á því að viðspyrna okkar við þessar aðstæður felst í getu okkar til þess að efla íslenskt efnahagslíf. Við þurfum að efla atvinnustarfsemi okkar með ráð og dáð til þess að geta greitt skuldir okkar í framtíðinni. Melvyn King telur að það muni taka eina kynslóð í Bretlandi að komast í gegnum þessa erfiðleika. Vafalaust mun taka okkur langan tíma að laga okkar stöðu. Hvort það verða tíu eða tuttugu ár veltur á því hvernig okkur tekst að efla íslenskt efnahagslíf. Bjartsýni, áræðni, skynsemi eru lykilhugtök á þeirri vegferð. Nóg í bili...

þriðjudagur, 13. október 2009

Umfjöllun annálsins.

Ritstjórn annálsins hefur fengið fleiri en eina athugasemd frá dyggum lesendum um að síðan hafi verið of upptekin af pólitískum vangaveltum. Í ljósi þessa hefur verið ákveðið hlé á þeirri umfjöllun. Annállinn hefur ekki efni á því að tapa lesendum. Helstu fréttir af fjölskyldunni eru þær að prestshjónin eru komin frá Tyrklandi en þar hafa þau dvalið í þrjár vikur. Sigrún og Halla frænka skruppu til Jönköping að heimsækja Sirrý. Þetta eru nú helstu fréttir héðan. Kveðja.

fimmtudagur, 8. október 2009

Í eldhúsinu með Rick Stein á BBC Food.

Rick Stein Næstur Nigellu Lawson fallegasta og flottasta matreiðslumeistaranum á BBC Food er matreiðslumeistarinn Rick Stein í miklu uppáhaldi hjá mér. Nú undanfarnar vikur er hann búinn að fjalla um matreiðslu á fiski í nokkrum þáttum. Það sem gleður í þessari umfjöllun Rick Steins er að hann hefur í þremur þáttum fjallað um ágæti þorsksins og matreiðslu hans. Hann minnist jafan á Ísland þegar hann talar um gæða þorsk. Hann er búinn að m.a. matreiða ferskan þorsk í Breltandi og saltaðan þorsk í Katalóníu á Spáni og útskýra af hverju Suður-Evrópubúar vilja saltaðan þorsk en Bretar frekar ferskan. Þá hefur hann útnefnt þorskrétti í fremstu röð meðal uppáhaldsrétta sinna. Þetta er gríðarlega mikilvæg umfjöllun fyrir okkur vegna þess að hún eykur orðspor okkar sem fiskveiðiþjóðar og hjálpar okkur að selja fiskinn. Það veit sá sem allt veit að við þurfum að selja fisk og fá fyrir hann gott verð. Þessi umfjöllun um íslenska fiskinn í BBC Food hjálpar okkur mikið í þeirri viðleitni. Um fjörtíu prósent af útflutningsverðmæti fiskafurða er fyrir þorsk.
Jóhanna Sigurðardóttir. Svo birtist þessi kona líka í kvöld á BBC News og var að útskýra stöðu mála fyrir Bretum. Satt best að segja situr lítið eftir af þeirri umfjöllun. Eitthvað var talað um ESB, mikið af skuldum og atvinnuleysi. Rick Stein dró upp í umfjöllun sinni um íslenska þorskinn mun jákvæðari og áhrifaríkari mynd af okkur Íslendingum: Fólk sem enn getur boðið upp á úrvals þorsk af bestu gæðum. Áform ríkisstjórnar Jóhönnu í sjávarútvegsmálum eru að rústa efnahag greinarinnar og því stjórnkerfi sem hér hefur verið byggt upp við erfiðar aðstæður undanfarna áratugi til að koma á sjálfbærum veiðum úr fiskistofnunum. Eins gott að Rick Stein frétti það ekki. Það er ekki víst að hann mæri íslenska fiskinn í framhaldinu því hann hefur miklar áhyggjur af ofveiði fisks víða um höf. En Jóhanna hefur ekki áhyggjur af því þótt sú lífæð hrynji, allvega ef eitthvað er að marka stefnuskrá hennar.

mánudagur, 5. október 2009

Umræða kennd við eldhús.

Ríkistjórnin ætlar að... og stjórnarandstaðan vill og gagnrýnir. Skuldakreppa. Hækka skatta, lækka skatta, skera niður, byggja upp, taka lán, borga lán, hækka vexti, lækka vexti, hækka gengi, lækka gengi æ maður hefur heyrt þetta allt svo oft áður. Um þetta fjalla stjórnmálamennirnir á meðan þessar línur eru skrifaðar. Huggar þetta þjóðina, sem er döpur, sár, reið og svikin? Það held ég varla því ástandið er illt og margir eiga um sárt að binda. Fjármálin í rúst, húsnæðið yfirskuldsett, bílinn með myntkörfulán sem tvöfaldaðist, hlutabréfasparnaðurinn tapaður og atvinnuleysi framundan. Sárreiðust erum við mörg yfir því að hafa talið að íslenska útrásin væri byggð á traustum grunni. Þetta væri alvöru uppbygging með íslensku hugviti og fjármagni. Blekkingin er sárust - hún lék á skynsemina, gerði það að verkum að tálsýnin varð staðreyndum yfirsterkari. Engin leið er að sjá til lands því skuldahraukurinn byrgir sýn og enginn veit hversu hár hann er. Mestu skiptir þó að standa vörð um fólkið það þarf að byggja og styrkja þjóðarsálina að nýju þannig að hún sé tilbúin að takast á við þennan gríðarlega vanda - byggja upp að nýju. Hver ætlar að leiða okkur af stað, telja í okkur kjarkinn - trúnna og vonina um nýtt og betra Ísland.

fimmtudagur, 1. október 2009

Vestur á firði

Ísafjarðarbær. Var á fundi með vestfirskum útvegsmönnum á Ísafirði í dag. Fórum með morgunvélinni og tókum síðdegisvélina til baka. Fengum gott flugveður báðar leiðir. Mikill mótvindur á leiðinni vestur og vélin haggaðist ekki. Við fengum nokkrar sveiflur þegar vélin lækkaði sig til lendingar á Ísafirði en það tilheyrir nú bara. Annars hið þægilegasta flug í alla staði. Veðrið var svalt fyrir vestan og hvít snjóföl niður í miðjar hlíðar. Það er víst kominn vetur því verður ekki mótmælt. Það er viss hvíld í því að komast út úr bænum og hitta fólk sem er í aðeins meiri fjarlægð frá atinu hér fyrir sunnan. Það er ekki laust við að maður fái aðra sýn á vandræðaganginn við það að skipta um umhverfi. Best að huga að því um helgina.

sunnudagur, 27. september 2009

Þykir þeim ekki lengur vænt um okkur?

"Þykir þeim ekki lengur vænt um okkur?" Þetta voru fyrstu viðbrögð vinar míns við því að Hollendingar og Englendingar sendu okkur til baka Icesave samninginn ósamþykktan. "Jú, ég er allveg viss um það," svaraði ég að bragði og hugsaði til breska tryggingasalans, gamals vinar míns sem sagði mér stoltur frá því hér um árið hvernig hann hefði annast tryggingar á varðskipum okkar á Loyds markaði í síðustu landhelgisdeilu við Breta og sótt bætur eftir að bresk herskip voru búin að sigla á þau. Maður á ekki að setja samansemmerki milli fólks og ríkisstjórna. Þótt Gordon Brown sé illur út af Icesave bullinu, sem ég geri ráð fyrir að sé neðarlega á verkefnalista ríkisstjórnar hans, er ekki þar með sagt að Bretum þyki ekki lengur vænt um okkur. Brown er fyrst og fremst illur yfir því að ultra frjálshyggja breskra jafnaðarmanna og svik þeirra við jafnaðarstefnuna er að hrynja. "New Labor" stefnan var sniðin að því að ná völdum í Bretlandi með öllum tiltækum ráðum. Flestum hugsjónum félagshyggjumanna var varpað fyrir róða til þess að ná þessu markmiði. Þeir félagar Blair og Brown töluðu um nýja tíma og yfirbuðu íhaldsmenn og gerðurst kapitaískari en kapítalistarnir í Íhaldsflokknum. Fyrst fékk Blair að njóta sín í forsætisráðherrastólnum. Hann vann það afrek hefja styrjöld í Írak á fölskum forsendum ásamt George Bush vini sínum. Þá fór að fjara hratt undan honum og félagi hans Gordon Brown knúði á og vildi í aðalstólinn. Lagarefurinn Blair vissi að "new labor" var á fallanda fæti enn ein blaðran sem byggði á sviksemi við hugsjónir hlaut að sprynga fyrr en síðar. Tony Blair ákvað að nýta sér metnað mr. Brown til þess að verða númer eitt í Downing Street. Sagnfræðingurinn Brown sá ekki við lögfræðingnum Blair, sá ekki vatnaskilin nálgast og stóð einn eftir á ísilögðu díkinu þegar örþunnur ísinn brast undan honum. Auðvitað er Gordon Brown sár og reiður. Þetta átti aldrei að verða svona. Blair sleppur frá málinu en hann situr í fastur í díkinu og fær dóm sögunnar um að vera sá er klúðraði málum. Í örvæntingu sinni reynir hann að leika mikilvirkan leiðtoga eins og hann hefur vafalaust lesið um í mannkynsögunni. Það sjá það hinsvegar allir að Brown er enginn Churchill og verður það aldrei. Félagshyggjuöflin munu gera "new labor" dæmið upp og sagan mun ekki fara mildilega um þá félaga Blair og Brown. Reiði Browns snýr ekki að okkur frekar en reiði Breta. Það var ekki íslenska þjóðin sem fór til Hollands og Englands og opnuðu þar innlánsreikninga og sólunduðu milljörðum punda af þessum innstæðureikningum. Það sér allt sómakært fólk. Þess vegna höfum við ekkert að óttast þótt að við stöldrum aðeins við spyrnum við fótum og segjum hingað og ekki lengra. Allt fólk sem ég hef kynnst erlendis og þekkir eitthvað til mála hér ber virðingu fyrir okkur sem þjóð, dugnaði okkar og ósérhlífini. Auðvitað gerir það stundum grín að litla Íslandi sem vill vera jafningi þjóða sem telja margfallt fleiri þegna. Nú ertil dæmis talað um að fólk "reikni" eins og Íslendingar í stað þess að segja að það kunni ekki að reikna. Við hinsvegar þurfum að átta okkur á því að við erum örþjóð. Í framtíðinni eigum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Það er ekki sama og láta minnimáttarkenndina taka völdin. Nóg í bili kveðja.

mánudagur, 21. september 2009

Ísland í Agenda

Agenda Fyrst ég er farinn að segja ykkur frá umfjöllun af okkur í Svíþjóð þá greindi rithöfundurinn Hallgrímur Helgason frá því í fréttaþættinum Agenda þann 13. september að búið væri að gera Ísland að kommúnistaríki, þökk sé bönkunum. Ríkið ætti öll fyrirtæki í landinu. Er þetta nú raunsönn mynd af aðstæðum hér á landi? Af hverju er verið að yfirdrífa aðstæður hér með svo öfgafullum hætti? Er þetta landi og þjóð til framdráttar? Ég veit hinsvegar að þessi fréttaflutningur hefur vakið ugg meðal margra landa okkar sem búa í Svíþjóð vegna þess að þeir eru líklega þeir einu sem láta sig stöðu mála varða einhverju, þó ekki væri nema vegna fjölskyldna sinna hér á landi. Síðan var fylgst með æsifréttastöðinni Sögu og hlustað þar á samtal þar sem ekki var alveg ljóst hvort að þáttastjórnandinn eða viðmælandi í síma voru beinlínis að hvetja til uppþota. Hvaða tilgangi þjónar það að vera með svona málflutning í öðru landi? Spyr sá sem ekki veit.

sunnudagur, 20. september 2009

Sofið á vaktinni?

Geir hjá Skavlan Ég er búinn að horfa fjórum sinnum á þátt norska sjónvarpsmannsins Skavlans og viðtal hans við Geir Haarde nú ári frá því fjármálakrísan skall á með tilheyrandi hruni íslenska bankakerfisins. Skýringin sem Geir gaf var að bankakerfið hafi verið orðið of stórt og við fall Lehmann Brothers í USA hefði legið fyrir að í óefni væri komið. Hann var spurður eftir því hvort hann sæi eftir einhverju. Hann nefndi að breyta hefði átt ESS samningnum varðandi tryggingaábyrgð ríkisins á erlendum umsvifum bankanna. Styrkja Fjármálaeftirlitið og krefjast þess af bönkunum að þeir minnkuðu umsvif sín. Geir sagðist vera reiður og sár bönkunum og útrásarvíkingunum hvernig fór. Hann var aðspurður ekki reiðubúinn að taka á sig alla ábyrgð af hruninu. Það væri ekki hægt að gera einn mann ábyrgan fyrir því. Það var satt best að segja hryggilegt að horfa á beygðan fyrrum forsætisráðherra okkar í viðtali í sænsk/norskum skemmtiþætti með hlátrasköllum og skipulögðum klappinnslögum tíunda ógæfu okkar. Enda var undirtónn þáttarins sá að gera grín að litla Íslandi, sem skuldaði 10 falldar "árstekjur" sínar. Geir var einnig spurður hvort hann hafi sofið með hrotum á vaktinni, eini maðurinn í ríkisstjórninni sem var með hagfræðimenntun. Viðskiptaráðherrann hefði verið heimspekingur, fjármálaráðherrann dýralæknir og seðlabankastjórinn ljóðskáld. Hvenær varð það til siðs að gera lítið úr menntun og hæfileikum fólks? Göran Persson fyrrum forsætisráðherra kláraði ekki nám. Annar fyrrum forsætisráðherra Svía og núverandi utanríksráðherra Carl Bildt er "drop out" úr háskóla. Hef ekki orðið var við það að Svíar væru að hæðast af því í skemmtiþáttum sínum. Koma tímar koma ráð. Við munum vinna okkur út úr þessum erfiðleikum og endurheimta vopn okkar. Nauðsynleg forsenda þess er að við gerum sjálf hreint í okkar húsum. Ef einhver brot hafa verið framin þarf að greiða úr þeim. En við verðum líka að horfast í augu við það að við áttum okkur mörg draum um að hér mundu rísa nýjar stoðir undir íslenskt atvinnulíf, öflugt bankakerfi og umsvifamikil verslunar- og þjónustufyrirtæki með starfsstöðvar í nálægum löndum. Við verðum að kannast við þessa draumsýn og þora að viðurkenna að hún hafi ekki gengið eftir eins og vonir stóðu til. Ef við hverfum til baka í tíma og látum minnimáttarkenndina ná tökum á okkur munum við verða lengur að vinna okkur til baka. Við skulum ekkert vera að bjóðast til að koma fram í erlendum skemmtiþáttum til þess að gefa færi á okkur rétt á meðan við erum að ná okkur eftir áfallið. Heldur skulum við muna að sá hlær best sem síðast hlær. Hér má nálgast þáttinn: Skavlan.

þriðjudagur, 15. september 2009

Í minningu forfeðranna.

Tenórinn í Söngfélagi Skaftfellinga
Í dag hefði afi minn Jón Hjörtur Finnbjörnsson (1909 - 1977) orðið 100 ára. Afi var mikill söngvari, bæði sem einsöngvari og í kórum. Lifibrauð hans var prentiðn og söngurinn. Hann var einn af burðarásum í söng- og leikhúslífi á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar vestur á Ísafirði, sinni heimabyggð. Um það vitna ýmsar greinar og umsagnir í vestfirskum blöðum. Hann tók einnig virkan þátt í kórstarfi eftir að hann ásamt fjölskyldu sinni flutti til Reykjavíkur. Um hann segir í blaðinu Vesturlandi þegar hann var kvaddur af Ísfirðingum árið 1948: "Jón Hjörtur er einn af þeim fáu mönnum, sem ég hef aldrei heyrt leggja annað en gott eitt til manna og málefna, þess vegna mun heldur enginn leggja til hans illt orð, en það er gott veganesti." Þetta voru kveðjuorð frá ísfirskum vini sem var að þakka honum fyrir einsöngstónleika og kveðja hann áður en hann fór suður til Reykjavíkur. Í dag hefði Friðrikka Sigurðardóttir (1897 - 1985) amma Sirrýjar einnig átt 112 ára afmæli. Friðrikka var sköruleg kona og eftirminnleg. Sirrý bjó um tíma hjá henni sem barn og afa sínum Ingvari Pálmasyni (1897 - 1985) skipstjóra. Milli Friðrikku og hennar voru alltaf sterk bönd. Við leituðum töluvert í smiðju hjá Friðrikku á fyrstu hjúskaparárum okkar og veitti hún okkur góðan stuðning með ýmsum hollráðum. Þess má geta að elsta barn okkar ber sömu nöfn og afi minn og amma Sirrýjar og heitir Hjörtur Friðrik. Það er svo önnur saga að hann fékk í dag sérfræðingsréttindi sín sem bæklunarlæknir á afmælisdegi þeirra. Það er vonandi að menntun hans nýtist vel þjáðu fólki með stoðverki, en Jón Hjörtur afi hans átti lengi ævinnar við erfiða stoðkerfisverki að glíma. Við óskum Hirti Friðrik til hamingju með nýfengin sérfræðiréttindi. Önnur tíðindi dagsins eru þau að í dag hófust kóræfingar vetrarins hjá Söngfélagi Skaftfellinga og er þetta sjötti veturinn sem ég tek þátt í starfi kórsins. Ég hef haft af því mikla ánægju og góð kynni við söngfélaga og get vel mælt með þátttöku í kórstarfi af þessu tagi. Kveðja.
(Mynd Kristinn Kjartansson.)

sunnudagur, 13. september 2009

Eitt og annað

Byrjaði daginn á að fara í messu í Dómkirkjunni og svaraði þannig kalli prestsins á facebook.Það er tækni sem er til ýmissa hluta nytsamleg. Síðdegis fór ég í síðbúna afmælisveislu hjá Kára Gunnarssyni. Annars hefur maður mest verið heima og hlustað á gnauðið í vindinum aukast með kvöldinu. Annars lítið í fréttum. Kveðja.

miðvikudagur, 9. september 2009

Nýr liðsmaður í frændgarðinum.

Við óskum Isabelle frænku og Bjarna til hamingju með nýja soninn. Hann hefur þegar verið nefndur Alexander. Drengurinn var rúm 4000 merkur og 52 cm og fæddist síðastliðna nótt á Fjórðungsskjúkrahúsinu á Akureyri. Það er vart hægt að hugsa sér flottari fæðingardag 09.09.09. Aðrar helstu fréttir af fjölskyldunni er að Sirrý er stödd í Jönköping. Vetrarstarf í vinnu og skóla er hafið á fullu og mikið að gera framundan.

föstudagur, 4. september 2009

Gangur EITT - gangi ykkur vel

Gangur EITT kallaðist aðstaða mín á spítaladeildinni á Landsspítalanum sem ég mætti á í morgun í rannsókn. Deildin var yfirfull af veiku fólki. Við vorum tveir sem þurftum að nýta okkar ganginn. Ég undirbjó mig glaður á ganginum undir aðgerðina yfir því að taka ekki herbergisrúm frá veiku fólki. Þjónusta var öll eins og best var á kosið þrátt fyrir þröngan húsakost og það truflaði ekki að verið var að kynna starfsfólkinu miklar sparnaðaraðgerðir og niðurskurð þennan dag. Allstaðar mætti maður hlýleik og veljvilja - "gangi þér vel" voru kveðjuorð allra sem ég átti samskipti við. Ég þurfti á þessari hvatningu að halda því ég var kvíðinn yfir því hvað rannsóknin mundi leiða í ljós. Til að gera langa sögu stutta gékk rannsóknin vel fyrir sig og leiddi ekki til frekari aðgerða. Það eru mikil forréttindi að geta kvatt sjúkrahúsið og gengið heilbrigður út í dagsins önn. Það verður með öllum tiltækum ráðum að tryggja að sú mikilvæga þjónusta sem veitt er á Landspítalanum verði til staðar. Það þarf að standa vörð um starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar. Þessvegna segi ég við starfsfólk og stjórnendur Landspítalans gangi ykkur vel í ykkar mikilvægu störfum. Kveðja.

laugardagur, 29. ágúst 2009

Laxá í Refasveit

Veiðifélagar. Ég skellti mér eftir vinnu í gær norður í Laxá í Refasveit. Áin er rétt norðan við Blönduós og er hún og umhverfi hennar einstök náttúruperla. Ég stoppaði stutt við að þessu sinni og var kominn aftur heim seinni partinn í dag. Annars hefur þetta verið viðburðarrík vika. Hér komu á fimmtudagskvöldið í heimsókn til okkar þrjátíu manna hópur norrænna NordMaG nemanda og kennara í öldrunarfræðum. NordMaG Á fimmtudag og föstudag var ég á ráðstefnu um fiskveiðistjórnun á vegum HÍ. Mjög fróðleg ráðstefna með fjölmörgum áhugaverðum erindum um stjórn fiskveiða. Þarna kom fram að um 20% af fiskveiðum á heimsvísu er nú stjórnað með framseljanlegum veiðikvótum. Farið var ég gegnum fiskveiðistjórnun í ESB og helstu nágrannalöndum okkar.


miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Vinafundur

Sveinn og Ilkka. Upplýsingabyltingin tengir fólk saman frá fjarlægum heimsálfum. Ég kynntist bloggara frá Seattle fyrir nokkrum árum. Eftir að hafa lesið pistla hans um nokkurn tíma sendi ég honum línu og þakkaði honum skrifin sem ég hafði mikla ánægju að lesa. Í framhaldi fórum við að skrifast á og bera saman bækur okkar um ýmislegt m.ö.o. við urðum ágætis kunningjar á netinu. Þessi vinur minn er fiðluleikari og fiðlukennari og er það sýn tónlistarmannsins á lífið og tilveruna sem mér hefur fundist fróðleg. Hvorugur okkar hafði gert ráð fyrir því að við ættum eftir að hittast. Enda hefur Ísland ekki verið í þjóðbraut frá Seattle. Allt er þó breytingum háð. Fyrir nokkrum vikum skrifaði hann mér að hann væri á leiðinni til Finlands. Þar er hann fæddur og uppalinn en er búsettur til margra ára í Seattle. Hann sagði mér að hagkvæmasti ferðamátinn og stytta leiðin til Finlands væri nú með Icelandair með viðkomu á Íslandi. Við mæltum okkur að sjálfsögðu mót og áttum saman ánægjulega kvöldstund þar sem við gátum rætt augliti til auglitis í fyrsta skipti eftir nokkurra ára kynni á netinu. Með honum í ferðinni var yngsta dóttir hans Sarah. Þessi fundur okkar var hinn ánægjulegasti og umræður svo líflegar að við gleymdum að taka myndir í tilefni þessara tímamóta. Við bættum þó úr því daginn eftir rétt áður en hann hélt af landi brott með því að mæla okkur mót við sundlaugarnar í Laugardal til þess að festa fund okkar á mynd. Þetta er enn ein dæmisagan um það hvernig netvæðingin tengir okkur í óvæntar og skemmtilegar áttir. Kveðja.

laugardagur, 22. ágúst 2009

Menningarnótt

Hljómskálagarðurinn. Við fórum í bæinn í kvöld til þess að njóta menningarnætur ásamt tugþúsundum annarra. Fórum víða um og skoðuðum margt. Vorum á Óðinsstorgi og hlustuðum á rímnasöng og drukkum kakó til styrktar Grensásdeild. Fórum á stórtónleikana í Hljómskálagarðinum um kvöldið. Hlustuðum á óperusöng í Dómkirkjunni, hlýddum á stórband í Ráðhúsinu undir stjórn Vignis Þórs Stefánssonar svona til að nefna eitthvað. Þetta mun vera í fjórtánda sinn sem menningarnótt í Reykjavík er haldin eða menningardagur eins og sumir vilja kalla þennan viðburð. Augljóslega hefur margt breyst í ásýnd menningarnætur þessi ár. Í fyrsta skipti sem við tókum þátt í þessari hátið var upplifunin sterkari. Í minningunni er mynd þar sem við vorum á rölti um Þingholtin til þess að skoða gamlan steinbæ og vinnustofu listamanna. Það var þó nokkuð fólk á ferðinni en ekki í jafnmiklu mæli og í gær. Þetta var ekki jafn yfirþyrmandi eins og hátíðin er orðin núna. Þetta er orðinn stórviðburður, massahátíð með breiðsenu og útþvældum slögurum eins og í Hljómskálagarðinum í gær. Eitt "giggið" enn eins og tónlistarmenn mundi segja. Þar sem vel slípaður og greiddur Páll Óskar skemmtir fjöldanum - tugþúsundum ásamt minni spámönnum (undanskil að sjálfsögðu Egil Ólafsson), sem hita upp fyrir hann. Mikill fjöldi fólks gengur um með bjórdósir og er kenndur, sem mér finnst draga úr herlegheitunum. Ef til vill er kominn tími til þess að brjóta þennan dag upp. Jafnvel dreifa atburðum um höfuðborgarsvæðið og leggja minna upp úr breiðsenu tónleikum en draga fram hið sérstaka, smáa og einstaka. Þessir síbylju slagarar er nú meira í ætt við iðnaðar- og fjöldaframleiðslu en menningu eins og ég legg upp úr því hugtaki. Kveðja.

miðvikudagur, 19. ágúst 2009

Dagens blomma - blóm dagsins.

Kveðja til Hjartar. Hjörtur okkar fékk þessa kveðju senda í lesendadálki í sænsku blaði í dag sem ber yfirskriftina "blóm dagsins". Fyrir þá sem ekki skilja sænsku segir í þessari stuttu kveðju: Dr. Hjartarson. Þúsund þakkir fyrir að þú gafst mér dálítið af lífsviljanum aftur. Ingrid með hnéð. Það er ótrúlegt hvað svona kveðja getur glatt (að ég tali nú ekki um foreldrana). Þetta er eitthvað sem við ættum að taka upp í fjölmiðlum hér til mótvægis öllum þeim bölmóði sem helt er yfir okkur daglega. Það þarf ekki rándýrar orður til þess að hvetja og gleða. Örlítil óvænt kveðja gleður jafnvel enn meira. Við eigum að leitast við að vera góð hvort við annað. Kveðja.

laugardagur, 15. ágúst 2009

"Ég er eins og annar krakki"

Ford T módel. Í dag fórum við á "aldamótadaga" á Eyrarbakka. Við vorum sein fyrir og vorum á Bakkanum um hálf sex. Áttum allt eins von á því að dagskráin þennan dag væri tæmd. Það fyrsta sem við rákumst á fyrir austan var þessi fallegi uppgerði Ford T módel. Ég kannaðist strax við þennan bíl. Þetta var gamli Fordinn hans afabróður míns, Guðmundar Gunnarssonar. Ég á yfir fimmtíu ára gamla barnæsku minningu þar sem ég, pabbi og Gunnar afabróðir og bróðir Guðmundar erum að skoða þennan bíl. Það var árið 1958 eða árið sem Þórunn systir fæddist. Bifreiðin var þá ansi lúinn en ég þykist muna að Gunnar hafi sagt við þetta tækifæri að hann væri enn gangfær. Einhver hefur orðið svo fyrirhyggjusamur að gera bifreiðina upp til minningar um liðinn tíma. Eitt virðulegasta verkefni hennar var að keyra fólk á Alþingishátíðina á Þingvöllum 1930. Bifreiðin stóð einmitt fyrir framan Gunnarshús þegar ég sá hana á Bakkanum í dag. En það hús átti langafi minn og langamma. Satt best að segja varð ég eins og annar krakki við að sjá þennan gamla "ættingja" minn. Eins og segir í Eyrarbakkaljóðinu.
Vignir Stefánsson og Guðlaug Ólafsdóttir. Næst lá leiðin í Gónhól en þar er kaffistofa og listagallerí. Þar var boðið upp á gott kaffi og vöflur. Meðan við sátum við á Gónhól mætti Vignir Stefánsson pínaóleikari og góðvinur Söngfélags Skaftfellinga og spilaði á hljómborð og píanó nokkur lög sem Guðlaug Ólafsdóttir söng undurljúft. Þar á meðal voru nokkur lög eftir Sigfús Einarsson tónskáld og fleiri. Sigfús var fæddur á Eyrarbakka árið 1887. Að loknum tónleikunum skoðuðum við safn fornbíla sem voru til sýnis á öðrum stað í þessu húsi. Við enduðum heimsókn okkar á Bakkan með því að fara á veitingastaðinn Rauða húsið áður en við héldum heim á leið. Þetta var óvænt og ánægjuleg síðdegisskemmtun. Takk fyrir okkur. Siðasta lagið sem söngkonan söng á tónleikunum var þetta ljóð:

Elskulegi Eyrarbakki
aftur kem ég heim til þín.
Ég er eins og annar krakki
alltaf þegar sólin skín
(Höf.: Garðar Sigurðsson Eyrarbakka)

þriðjudagur, 11. ágúst 2009

Axel Garðar fimmtugur.

Við fórum í afmæli til Axels Garðars bróður í dag. Hann er fimmtíu ára og óskar annállinn honum til hamingju með þennan áfanga. Annars lítið að frétta af okkur. Kveðja.

mánudagur, 10. ágúst 2009

Gengið á Strandarkirkju

Gönguhópurinn. Í gær fóru afkomendur Helga Ingvarssonar fyrrum yfirlæknis á Vífilsstöðum í árlega Strandarkirkjugöngu sína ásamt vensla- og vinafólki. Ég og Sirrý vorum trússarar í þetta skipti. Ferðin gékk í alla staði vel og var endað á því að heimsækja Strandakirkju en þangað var keyrt frá Hlíðarvatni þegar göngumenn gengu niður af Reykjanessléttunni. Í kirkjunni voru fluttar stuttar hugvekjur en gangan var helguð minningu Grétars Más Sigurðssonar sem lést í síðustu viku.
Helga Adla fyrsta barnabarn Helga og Ingunnar fór í fyrsta skipti þessa leið í bakburðarstól sem pabbi hennar gékk með.

sunnudagur, 9. ágúst 2009

Í minningu Grétars.

Grétar Már Sigurðsson Hvað getur maður sagt þegar góður vinur fellur frá? Í gær lést Grétar Már Sigurðsson ráðuneytisstjóri og sendiherra langt um aldur fram aðeins fimmtíu ára gamll úr krabbameini. Barátta hans við þennan illvíga sjúkdóm stóð stutt eða í eitt ár. Ég þekkti Grétar allt frá barnæsku. Ég hef fylgst með honum í gegnum öll aldurskeiðin. Þegar hann var lítill drengur, yngsti bróðir vinar míns Helga Sigurðssonar. Dúfnabóndi við Kópavogslæk sem stráklingur, unglingur í menntaskóla, lögfræðingur, diplómat, sendiherra, ráðuneytisstjóri. Við höfum átt fjölda samverustunda við veiðar, í gönguferðum á Strandakirkju, í Comessey í Frakklandi og ýmis önnur tækifæri. Grétar var hlýr og góður drengur. Við Sirrý sendum Dóru eiginkonu hans og dætrum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.

fimmtudagur, 6. ágúst 2009

Frændur á fjarlægum slóðum.

Það eru nú fimm ár síðan við tókum þátt í hátíðarhöldum Vestur - Íslendinga árið 2004 í litla bæjarsamfélaginu í Mountain i N - Dakóta í Bandaríkjunum og Gimli í Manitoba í Kanada. Þessir hátíðardagar, Íslendingadagurinn, eins og þeir eru kallaðir beggja megin landamæranna eru haldnir ár hvert um mánaðarmótin júlí, ágúst og eru afar fjölsóttir. Í Mountain í N - Dakóta er talið að um 5000 gestir heimsæki bæjarsamfélagið sem telur um 100 manns. Í Gimli í Manitoba lætur nærri að 30 000 manns sæki þessa hátíðardaga heim. Þetta eru fjölmennustu hátíðir sem fólk af íslensku bergi sækir heim á hverju ári. Ef ég á þess einhverntíma kost mun ég reyna að komast aftur á þessar hátíðir meðal frænda okkar. Þetta var heimsókn sem skilur eftir varanleg áhrif á hvern þann sem kemur á þessa staði og rifjar upp þá miklu landaflutninga sem áttu sér stað upp úr miðri 19. öld og fram á 20.öldina. Vesturfaraferðirnar er þáttur í sögu okkar sem nauðsynlegt er hverjum Íslendingi að kynna sér til þess að skilja hvað þjóðin gékk í gegnum á þessu erfiða tímabili fyrir rúmlega 100 árum. Það er hægt að gera með því að lesa töluvert úrval af bókum um þetta efni og með heimsókn í Vesturfarasafnið á Hofsósi. Einnig eru í boði skipulagðar ferðir til helstu heimkynna Vestur - Íslendinga. Þrátt fyrir mikinn samdrátt í efnahagslífinu var stór hópur sem fór vestur að þessu sinni og hingað koma í vaxandi mæli fólk frá Vesturheimi til að leita að rótum sínum að sögn fjölmiðla. Í stuttu máli má segja að það sem er merkilegt við þessar heimsóknir vestur er að okkur er mætt af velvild og frændsemi öðlast nýja þýðingu á þessum slóðum. Við höfum fulla ástæðu til þess að vera stolt af því að vera Íslendingar. Hér býr gott fólk með stórt hjarta og hér er gott að búa. Við eigum okkur merkilega tungu, menningu og sögu - þetta er fjöreggið sem lyftir okkur upp úr fjöldanum og gerir okkur kleift að segja með stolti: Við erum Íslendingar og erum stolt af því. Vona að þetta sé ekki of hástemmt en nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að halda í það sem skiptir máli í raun. Þannig að eftirmæli okkar kynslóðar verði ekki þau að þegar mest á reið brast okkur kjarkurinn. Það má ALDREI henda. Kveðja.

miðvikudagur, 5. ágúst 2009

Borga, borga ekki, borga, borga ekki.

Þetta er hrikalegt þetta Icesave mál, miklu verra en maður hafði ímyndað sér. Minnist þess þegar DÓ seðlabankastjóri sagði fyrr á þessu ári í Kastljósþætti að við ættum ekki að greiða óreiðuskuldir einstaklinga erlendis. Það virðist ekki halda. Minnist þess þegar fyrrum stjórnarformaður og eigandi LÍ sagði á sama vettvangi fyrir nokkrum mánuðum að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af þessum reikningum, því að það væru nægar eignir á móti. Það virðist ekki halda heldur. Minnist þess þegar talað var um að þessar ábyrgðir Íslendinga vegna Icesave gætu numið allt að einhverjum tugum milljarða. Það hefur ekki staðist heldur. Þá var farið að tala um hundrað til tvö hundruð og fimmtíu milljarða króna. Það hefur ekki staðist. Nú er talað um þrjúhundruð sjötíu og fimm milljarða króna. Skyldi það standast? Seðlabankinn telur að við fáum staðið undir þessum kröfum. Hagfræðistofnun telur vafa á því. Hvað fær staðist í þessu máli? Ýmis gögn málsins eru trúnaðarmál gagnvart okkur almenningi en við eigum að borga. Eitt er víst ég tel það hafi verið af yfirlögðu ráði að Landsbankinn safnaði þessum innlánum í útibúum í stað dótturfyrirtækja. Þeir vildu hafa frjálsar hendur til þess að flytja þetta fjármagn innan bankans og þá milli landa. Ég tel einnig að bresku hryðjuverkalögin hafi verið sett á Íslendinga og Landsbankann til þess að koma í veg fyrir að lánasafn bankans og annað laust fé í Bretlandi yrði flutt úr landi. Er þetta ekki einhvernveginn svona? Hvað ætli hryðjuverkalögin ein og sér hafi valdið okkur miklu tjóni. Nokkra tugi milljarða króna? Hundruðir milljarða króna? Hver talar um slíkt á tímum sem þessum.

mánudagur, 3. ágúst 2009

Umhyggja bræðra.

Hjörtur og Valdimar. Umhyggja bræðra fyrir hvor öðrum getur tekið á sig margvíslega myndir. Í gær þegar við vorum að skröltast Fjallabakið og Valdimar fylgdi fast á eftir okkur á Ford Focus fjölskyldu bifreiðinni sinni segir Hjörtur: "Aumingja Valdi bróðir á dýra myntkörfubílnum sínum á þessum vegi. Evrurnar hljóta að hrynja af bílnum." Þessum orðum fylgdi síðan flaumur krókudílstára. Valdimar var lengi tvístígandi yfir því hvort hann ætti að hætta á að fara þessa leið. Hann varð mikið glaður þegar ferðin var afstaðin og lýsti því yfir að fjölskyldubifreið sem ekki kæmist þessa leið klakklaust stæði ekki undir nafni. Ford Focus óx í áliti hjá okkur öllum. Fordinn hann stendur alltaf undir nafni enda var það Ford T sem 1933 fór fyrstur yfir Sprengisand las ég einhversstaðar. Svona er Ísland í dag. Kveðja.

sunnudagur, 2. ágúst 2009

Hringnum lokað

Við fórum með Hirti og Sveini Hirti, Valda, Stellu og Lilju í Skaftártunguna í gær. Þannig má segja að við Sirrý höfum lokið hringferðinni miðað við að við hófum hana á þriðjudaginn úr Tungunni. Veðrið í gær og í dag var magnað. Tuttugu stiga hiti, heiðskír himinn og logn - svona eins og best verður á kosið. Grilluðum í gærkvöldi og fórum svo yfir um í Höllu bústað og heilsuðum upp á Hringbrautarfólkið, Þór, Marybeth og börn frá Ameríku. Við ákváðum að fara Fjallabak nyrðra heim í dag. Valdimar ákvað að fara með okkur á Ford Focus fólksbíl sínum. Ferðin gékk mjög vel og við lentum ekki í neinum vandræðum. Valdimar kvartaði hinsvegar undan augnaráði útlendinganna á voldugu jeppunum sínum þegar hann mætti þeim. Minnti mann á gamla tíma þegar maður fór þetta sjálfur á fólksbíl. Það er engin hætta á ferðum miðað við það vatn sem er í þessum sprænum við svona aðstæður. Við vorum komin í bæinn um átta í kvöld. Það var virkilega gaman að vera þarna með börnum og barnabörnum. Kveðja.

fimmtudagur, 30. júlí 2009

Skaft - Nesk - Ak - Kóp.

Við skruppum austur á Neskaupstað. Gistum þar á gistiheimili sem heitir Capitano. Neskaupstaður er vinalegur bær en er ekki í þjóðbraut. Áttum þar yndislegan dag í góðu veðri. Keyrðum austur um Suðurland. Gistum fyrstu nóttina í Skaftártungu í góðu veðri. Grilluð og áttum þar góða stund í bústaðnum. Héldum svo áfram austur. Stoppuðum á mörgum áhugaverðum stöðum. Smökkuðum heimatilbúinn rjómaís beint frá býli á Mýrum og sitt lítið af hverju. Fórum frá Neskaupstað með viðkomu í Sænautaseli á Jökuldalsheiði. Athyglisverð ferðaþjónusta stunduð þar í eftirlíkingum af gömlum torfbæjum. Komum við á Mývatni og keyptum reyktan Mývatnssilung. Það er ekki það sama og venjulegur reyktur silingur. Vorum á Akureyri í gær og í dag með Hirti og Ingibjörgu, Sveini Hirti og Jóhannesi Erni. Fór í fjallgöngu með nafna upp í fjall í dag. Í gær hljóp ég með honum upp allar kirkjutröppurnar fyrir framan Akureyrarkirkju til að kveikja á kerti í kirkjunni. Borðað mikið góðan mat og almennt haft það mjög gott. Kveðja.

laugardagur, 25. júlí 2009

Brúðkaup Valdimars og Stellu.


Við höfum verið við brúðkaup Valdimars Gunnars og Stellu í dag. Athöfnin byrjaði með því að sr. Hjörtur Hjartarson afi Valdimars gaf þau saman í Dómkirkjunni í Reykjavík. Brynhildur Björnsdóttir móðursystir hans söng við athöfnina sálminn eftir sr. Hjálmar Jónsson, Nú leikur blær við lífsins vor við lag Marteins Hunger. Að lokinni athöfninni söng hún lögin Ég hef elskað þig frá okkar fyrstu kynnum og Dagnýju. Organistinn við athöfnina var Bjarni Jónatansson. Að lokinni athöfn í kirkjunni var haldið að Félagsheimilinu Dreng í Hvalfirði þar sem veislan var haldin. Veislustjórar voru Brynhildur Björnsdóttir og Hjörtur Friðrik bróðir brúðgumans. Allt gékk upp eins og best verður á kosið. Veðrið lék við brúðhjónin og dagurinn var hinn ánægjulegasti. Kveðja.

miðvikudagur, 22. júlí 2009

Samningur eða sjálfdæmis gjörningur.

Mikið er talað um svokallaðan Icesave samning þessa dagana. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort rétt sé að kalla þetta samning eða sjálfdæmis gjörning. Miðað við það sem maður les og heyrir fjallað um þetta mál í fjölmiðlum hallast ég æ meira að síðari skýringunni. Var íslenska ríkið í einhverri samningsstöðu við Breta og Hollendinga? Bretar settu okkur undir hryðjuverkalög sín 6. október 2008. Það hefur aldrei verið gefin skýring á því. Hollendingar hóta okkur útskúfun í væntanlegum ESB aðildarviðræðum, ef ekki verði staðið við samkomulagið. Það hlýtur að valda ESB sinnum í ríkisstjórninni miklum áhyggjum miðað við ákafa þeirra í að koma okkur inn í sambandið. Þeir sem fóru fyrir samninganefndinni hafa enga eða litla reynslu af samningum sem þessum. Þótt ugglaust séu þetta allt prúðir diplómatar og embættismenn. Enda hefur komið á daginn að þeir hafi ekki einu sinni ýmis hugtök samningstextans á hreinu.

Sumarveður

Ég bara man ekki eftir öðru eins veðri og í sumar. Vorum að byrja í sumarfríi. Mikið stendur til um næstu helgi þannig að við höldum okkur við Reykjavíkursvæðið. Hjörtur og Ingibjörg komu til landsins á mánudagskvöldið með Svein Hjört og Jóhannes Erni. Hér komu einnig í gær Valdimar og Stella með Lilju. Sigrún Huld vinnur og vinnur og vinnur.... Kveðja.

mánudagur, 20. júlí 2009

Horft til himins

Kvöldroði. Norðvesturhimininn skartar rauðbleiku í kvöld á miðnætti, sjálfri Þorláksmessu að sumri. Einn mesti helgidagur ársins fyrir siðaskipti. Höfum verið hér heimavið í frábæru veðri. Hitt nokkra góða vini á förnum vegi í orðsins fyllstu merkingu. Kveðja.

laugardagur, 18. júlí 2009

Tónleikar í Hljómskálagarðinum.

The Lame Dudes Við fórum á hljómleika The Lame Dudes bandsins í Hljómskálagarðinum í dag. Virkilega notaleg stund með áheyrilegri blues tónlist. Hljómsveitin er mjög góð. Hún er orðin meira en "bara efnileg" eins og henni var einhverntíma lýst á þessari síðu. Hún er bara virkilega góð. Hvet alla tónlistarunnendur að kynna sér þetta band. Tónaflóðið og lagaflutningurinn er flottur. Þeir voru með bongótrommu í dag í stað hefðbundins trommusetts. Þessi útfærsla féll mjög vel að lagavali og flutningi og gaf nýja vídd í flutninginn. Sólógítarleikarinn Snorri Björn Arnarson var í stuði og tók nokkur gítarsóló, svona til að minna á snilli sína. Söngvarinn Hannes Birgir Hjálmarsson verður bara betri. Hann hefur hljómþýða baritón rödd sem fellur vel að tónlistinni og nær að skapa þessa "melló" bluestilfinningu líka þegar textinn er á íslensku.

Sólógítaristinn. Læt þessa mynd fylgja af sólógitarleikaranum Snorra Birni Arnarsyni á fína mótorhjólinu sínu fyljga með. Myndin er tekin þegar hann kvaddi eftir tónleikana í Hljómskálagarðinum. Svona ferðast ekki nema alvöru menn og það með 2000 kúbik milli fótanna. Kveðja.

fimmtudagur, 16. júlí 2009

Dapurlegt.

Það fór þá svo að Alþingi vort ákvað að farið yrði á fjórum fótum í aðildarviðræður til Brussel eins og sænska konan hafði spurt mig forviða í síðustu viku hvort við ætluðum að gera. Ég fylgdist með atkvæðagreiðslunni í þinginu í dag. Það var dapurlegt að hlusta á fyrirvara sumra þingmanna VG. Þeir segjast ætla að berjast með öllum tiltækum ráðum gegn ESB aðild, en samt vilja þeir leggja upp í viðræðurnar án nokkurra fyrirvara. Næst munu þessir aðilar væntanlega samþykkja að við alþýða þessa lands tökum að okkur að greiða Icesave "gripdeild" Landsbankans í Bretlandi og Hollandi.

sunnudagur, 12. júlí 2009

Fundurinn var flopp!

Ég fékk að vita það í dag að topp ESB fundurinn hér í Jönköping var víst algert "flopp" frá sjónarhóli Jönköpingbúa. Heimamenn höfðu gert sér vonir um að hingað kæmi fjöldi erlendra blaðamanna og nú ætluðu þeir að sýna umheiminum í hvað þeim bjó. En hingað mættu víst aðeins fimmtíu blaðamenn og þeir höfðu engan áhuga á Jönköping og nenntu ekki einu sinni á helstu ferðamannastaði í nágrenninu. Sveitarfélagið hafði lagt peninga í fjölmiðlakynningu og meira segja ESB setti einhverja aura í þetta líka. Þannig að Jönköping varð ekki sá viðkomustaður Evrópu sem vonast var til með umfangsmikilli fjölmiðlakynningu. Það gladdi Svíann sem sagði mér þetta ósegjanlega og bjargaði deginum þegar þessi bloggari klikkti út til áréttingar upp úr eins manns hljóði. Fimmtíu blaðamenn og einn bloggari frá Íslandi sem bloggar fyrir fjölskyldu sína og vini. Svona er þetta með okkur þessa jaðarbúa við keppumst með öllum tiltækum ráðum að máta okkur í miðju atburða í stað þess að njóta þess og þakka fyrir að búa á þessum svæðum, hvort heldur er í uppsveitum Smålands eða á Íslandi. Kveðja.

laugardagur, 11. júlí 2009

Nammi namm

Prinsessan Einu sinni var ég svangur í Oxford á Englandi og ákvað að fylgja straumi unga fólksins inn á ósjálega knæpu þar sem hægt var að fá sér í svanginn. Þarna fékk ég ágætis skyndibita fyrir lítinn pening. Síðan hefur viðkvæði mitt verið. Ef þú vilt góðan og ódýran mat skaltu fylgjast með því hvert unga fólkið fer. Í Mölndal keypti ég rauðvínsflösku í síðustu viku. Framboðið var mikið og ég vissi ekki hvað kaupa skildi. Inn í búðina kemur þá öldruð kona og gengur rakleitt að ákveðnum rekka og tekur þar rauðvínsflösku. Ég hugsaði með mér að svona gangi enginn til verks nema sá einn sem veit hvað hann vill. Ég ákvað að fylgja dæmi konunnar og keypti sömu tegund og hún. Viti menn þetta var afbragðs ítalskt rauðvín og eitt af því allra ódýrasta í búðinni. Ný kenning hefur nú litið dagsins ljós. Ef þú veist ekki hvernig rauðvín þú átt að kaupa, fylgstu þá með því hvað rosknu konurnar í búðinni gera. Eitt af því allra besta sem ég fæ í Svíþjóð eru svokallaðar Prinsessu tertur. Já, þessar fylltu með gómsætu rjóma vanaillu fyllingunni hjúpuð grænu marsipani. Þær fást um alla Svíþjóð. Ef til vill hefur einhver sem fylgst hefur með mér kaupa þessa tertur búið til kenningu. Ef þú veist ekki hvaða kökusneið þú átt að fá þér skaltu fylgjast með því hvað miðaldra karlar gera. Keyptu þér Prinsessu kökur þær bregðast ekki. Annars höfum við í dag eytt deginum í að rápa með Svíunum á laugardagsmörkuðum hér um kring, með ferskvöru, fötum, dóti og ýmsu öðru. Þetta virðist vera mjög vinsæl laugardagsiðja.

föstudagur, 10. júlí 2009

Í Jönköping

Deginum höfum við varið hér í Jönköping. Hér er margt áhugavert að sjá. Mikill ferðamannastraumur er til Svíþjóðar þessa daga frá Danmörku og Þýskalandi og víðar. Það gerir að gengi sænsku krónunnar er afar hagstætt gagnvart dönsku krónunni og evrunni. Svíþjóð hefur allt það að bjóða sem gott ferðaland þarf að geta boðið. Í dag var hér evrópsk matarkynning í miðbænum. Boðið upp þýska, franska, hollenska, spænska rétti og ýmislegt annað frá öðrum löndum. Sirrý segir að þessi sama kynning hefði verið í Kaupmannahöfn í nóvember og hún og Halla hefðu sótt hana saman þar. Bið að heilsa.

fimmtudagur, 9. júlí 2009

Nú er hún Snorrabúð stekkur

Endalokin. Glergerð hefur alltaf heillað mig. Bæði glerlist og gleriðnaður. Eitt fyrsta verkefnið sem ég fékk í hagfræðinámi mínu fyrir þrjátíu og fimm árum var að kanna út frá ýmsum þáttum áhrif þess að sænski glerframleiðandinn PLM lagði niður glerverksmiðju í litlu samfélagi nálægt Gautaborg þar sem framleidddar voru flöskur. Ég hef farið í nokkur skipti í glerverksmiður í Svíþjóð og víðar: Boda, Costa, Örrefoss, Arabía o.s.fr. Glerblásturinn heillar mig líka og ég hef alltaf jafn mikla ánægju að sjá deigan glerklumpinn á enda blásturspípunnar taka á sig mynd. Hvort heldur er rauðvínsglas, glerfugl eða eitthvað annað. Í dag fórum við í heimsókn í glerverksmiðjuna Rörstrand í Lidköping. Þangað höfðum við ekki komið í þrjátíu ár. Það vakti hjá okkur svolítinn trega þegar okkur var sagt að búið er að slökkva á síðsta ofninum. Það var gert árið 2005 og nú er öll framleiðsla undir Rörstrand merkinu í Asíu. Þetta aldagamla sænska fyrirtæki, sem reyndar var komið í eigu Finna komst í þrot. Eftir stendur Rörstrand "design", sem var hönnunardeild fyrirtækisins. Nú hvað er að því að fyrirtæki fari á hausinn, kann einhver að spyrja. Merkileg atvinnusaga er að baki. Breytt viðhorf neyslusamfélagsins kalla á nýjar framleiðslulausnir, þar sem áherslan er lögð á ódýrari framleiðslu, sem síðan er seld í massavís í lágvörukeðjum á borð við IKEA. Auðvitað er þetta á kostnað gæðanna.Matarstellin eru ekki lengur framleidd til þess að endast mannsaldur eins og gamla Annikan eða Elísabet. Niðurstaða dagasins er að þið sem eigið norræn bollastell skulið halda í þau. Innan tíðar verða þetta verðmætir safngripir. Nóg í bili. Kveðja.

miðvikudagur, 8. júlí 2009

Jkg - Gbg - Jkg.

Gunnebogarðurinn Auðvitað fórum við til Gautaborgar í dag. Veðrið var hið besta til ferða rúmlega 20°C hiti og sólbjartur dagur. Við lögðum bílnum við Heden sem er rétt hjá Avenyn. Fórum á Avenyn og borðuðum þar í hádeginu á ágætis Brarrseríu. Síðan ráfuðum við um miðbæinn í mannþrönginni. Næst lá leiðin um í Johanneberg á fornar slóðir þar sem við bjuggum og svo inn í Möndal þar sem við stoppuðum í miðbænum. Fundum þar ýmislegt frá gömlum tíma sem við höfðum gaman af. Enduðum á því að keyra upp að Gunnebohöll og skoða okkur þar um. Þetta er falleg sveitahöll frá 18. öld sem nú er friðuð ásamt nánasta umhverfi. Reist af ríkum Gautaborgara John Hall. Saga Gautaborgar er samofin ýmsum skoskum kaupahéðnum og ævintýramönnum. Við höllina er bæði listigarður og svo er mikill eikarskógur ásamt ýmsum öðrum gróðurreitum. Lögðum að stað til Jönköping um klukkan sex og vorum komin hingað fyrir átta. Þetta er svona það helsta af afrekum dagsins. Af ESB fundinum hef ég bara ekkert frétt í dag. Lögreglan er hér út um allt og við öllu búin. Helst að félagsmálaráðherrann sænski er frá Jönköping og er borið á hann lof í héraðsfréttablöðum fyrir að hafa "reddað" fundinum í heimabyggð. Stjórnmál breytast ekki. Annars er undirliggjandi óri í Svíþjóð yfir efnahagsmálum og svínaflensku. Fréttir af erfiðleikum fyrirtækja og niðurskurði í heilbrigðisþjónustu er aðalþema fréttanna. En kjaftablöðin velja að velta sér upp úr andláti M. Jackssonar. Svíar eru yndisleg þjóð og þeir bara batna með árunum. Í ár eru þrjátíu ár nákvæmlega síðan við lukum námi og héldum heim eftir fjögurra ára dvöl í Gautaborg. Upp á það var haldið í dag. Verum glöð. Kveðja.

þriðjudagur, 7. júlí 2009

Af "topp fundinum" í Jönköping og fleiru smálegu.

Klaustrið í Vadstena.
Þeir koma sér ekki saman Svíar og Spánverjar hvernig skuli fara með sjúkrakostnað ESB borgara. Svíar vilja að allir ESB borgarar eigi rétt á sjúkraþjónustu í því ESB landi sem þeir dvelja. Spánverjar eru nú ekki tilbúnir að skrifa upp á það. Þeir vita sem er af öllum norrænu ellismellunum sem dvelja á Spáni langtímum saman og ætla ekki að bera af þeim kostnað af hugsanlegri sjúkraþjónustu. Þeir vilja að sjálfsögðu geta sent reikningana til ríku þjóðanna í norðri. Á meðan heilbrigðisráðherrar ESB voru að rífast um þetta í dag í víggirtum háskólanum keyrðum við Sirrý til Motala með viðkomu á ýmsum merkum stöðum á leiðinni meðfram austurströnd Vättern. Sirrý er sérstakur vinur Motala í gegnum árin. Þar sat hún áður við fótskör Barbro Bäck Fris lærimóður sinnar í öldrunarfræðum. Eftirminnilegust er þó altarisgangan með Birgitta nunnunum eftir góðan ferðadag um fallegt hérað og merkar söguminjar í Vadstena. Nú ég gæti talið margt fleira en daginn enduðum við á yndislegum kvöldverði hjá Brahe rústunum með útsýni yfir rústirnar og vatnið stóra. Þegar heim var komið var horft á brot af minningarhátið M. Jacksson. Þar fór mikill poppari og skemmtikraftur. Karlinn aðeins fimmtíu ára gamall. Ég hef löngum haft gaman af tónlist hans. Ætli BAD sé ekki uppáhladsplatan mín með honum. Jæja læt þetta duga í bili. Kveðja.

mánudagur, 6. júlí 2009

Jönköping - EU topp möte.

Jönköping er staðurinn í dag, ef þú hefur áhuga á málefnum ESB. Hér fer fram ráðherrafundur bandalagsins í tilefni þess að Svíar eru að taka við kyndli sambandsins næstu sex mánuði. Búið er að loka af ákveðin svæði í bænum og snyrta og fegra miðbæinn í tilefni þessa atburðar. Hér eru samankomnir allir helstu ráðamenn Evrópu til skrafs og ráðagerða. Væntanlega hljóta viðbrögð við aðsteðjandi efnahagsvanda að vera helsta umræðuefnið, en efnahagslægðin hefur lagst af fullum þunga á meginland Evrópu með vaxandi atvinnuleysi og minnkandi umsvifum. Annars hófum við daginn á því að fara að leika með Svenna og Jóa. Síðan tókum við lestina til Malmö og sóttum bílinn. Komum við í Lundi og reikuðum þar aðeins um og héldum svo til Jönköping. Það voru ansi miklar öfgar í veðrinu á leiðinni hingað. Við keyrðum í gegnum regnskúrabelti en þess á milli var uppstytta og sást jafnvel til sólar. Það er mikill hiti jafnvel þótt víða sé skýjað. Kveðja.

sunnudagur, 5. júlí 2009

Kef - Kaup - Kstad.

Það er ekki oft sem maður nær að sofa megnið af leiðinni til Kaupmannahafnar. Tíminn líður hraðar en þetta er ekkert sérstsaklega þægilegur svefn svona sitjandi. Það var hitabylgja hér í gær. Hitinn var í kringum 30°C. Í Kristianstad eru hátíðardagar kenndir við bæinn. Minnti mig á það að við vorum hér á sama tíma í fyrra. Í miðbænum eru sölutjöld, ferðatívolí og hljómsveitir spilandi tónlist. Við fórum með strákana í tívolí. Þeir skemmtu sér konunglega og hefðu örugglega geta farið í fleiri tæki. Í dag er aðeins svalara 21°C og bærilegra að vera útivið. Kveðja.

þriðjudagur, 30. júní 2009

Við ferðalok.

Geimstöðin Það er ef til vill stílbrot í frásögn af gönguferð á Landmannaafrétti að enda hana með mynd af fimmtíu og sex ára gömlum herjeppa. Það er ekki að ástæðulausu. Bifreiðin og þá sérstaklega eigandi hennar og trússarinn Olgeir Engilbertsson í Nefsholti voru lykilþátttakendur í ferðinni. Fluttu fólk og farangur og Olgeir var óþrjótandi að miðla af mikilli þekkingu sinni um svæðið. Hann er eins og lifandi uppsláttarrit um Landmannaafrétt. Þriðji og síðasti áfanginn í ferðinni var úr Landmannahelli í Landmannalaugar og var farinn á laugardeginum. Ég ákvað að taka mér frí þennan síðasta dag. Ferðalok voru svo í Landmannalaugum síðar um daginn. Þeir sem höfðu áhuga á því skelltu sér í laugina og nutu stundarinnar. Um kvöldið var aftur sameiginleg máltíð við Landmannahelli sem var næturstaður okkar þessa tvo síðustu daga. Ljúfir harmóníkutónar spilaðir af Kristni og fólk naut stundarinnar. Það var komið að leiðarlokum. Hópurinn var glaður en þreyttur eftir erfiði undangenginna daga. Allt hafði gengið áfallalaust fyrir sig. Það var komið að ferðalokum og kveðjustund. Takk fyrir mig.
(Mynd: Kjartan Kjartansson)

mánudagur, 29. júní 2009

Úr Áfangagili að Landmannahelli

Sýnishorn af landslagi á gönguleiðinni. Við Skálmarar og fylgifiskar vorum tilbúin í næsta áfanga stundvíslega klukkan tíu föstudaginn tuttuguasta og sjötta júní. Nú var að standa sig framundan var tuttugu og þriggja kílómetra ganga í Landmannahelli um margt erfiðan veg upp brekkur um dali niður hæðir og yfir skörð. Jarðvegurinn var víða sendinn og mjúkur. Lengst af héldum við hópinn en það dró sundur eftir því sem leið á. Leiðin um Dauðadal var ansi löng og svört ásýndum. Nú var sólin farin að hita mann upp. Ha er þetta Valagjá? Einmitt, áfram nokkur skref. Helliskvíslin hún er köld gruggug jökulá. Ah, vatnið búið. Ég hafði ekki rænu á að notast við jökulvatnið. Blessaður karlinn hann Gísli hennar Kollu sendi mér sandalana sína til þess að ég hefði mýkra undirlag þegar ég óð yfir. Jæja svo þetta er Lambafitjahraun, úfið apalhraun, sem Guðni göngustjóri var að tala um og rann í gosi 1913. Nú það er ekki lengri yfirferðin í hrauninu. Blessaðar rollurnar þær hafa fundið skemmstu leiðina í gegnum hraunið. Nei sko, blöstu ekki Hrafnabjörgin okkar Kolbrúnar við þarna þegar við komum í gegnum Lambaskarðið á hægri hönd. Þetta vissum við en ekki hin. Ég var aðeins hressari því Pétur hafði gefið mér sopa af Jegermeister til að þynna blóðið og það virkaði svona ljómandi vel. Áfram, áfram má ekki gefast upp. Helvítis flugubitin voru farin að plaga mig: "Sveinn handleggirnir á þér eru eins og kjötflykki," hrópaði Lauga upp, sem framan af var síðust og rak tryppin. Mér snarbrá þegar ég leit á handleggina alla í blóðugum bitum og mýið sötrandi úr mér blóðið í massavís. Ég var með flugnaskýlu fyrir andlitinu en hafði gleymt "antybite" vökva til að bera á mig og verjast mýinu á handleggjum. Það er enginn einn upp til fjalla með öllu þessu mýi svo mikið er víst. Mýið var út um allt og í þvílíku magni. Herbjarnarfellsvatn já, já það er nóg af vötnum hér. Er leiðin ekkert að styttast? Lauga hvað segir gps mælirinn góði? Úff ég verð að helga gönguna göfugu markmiði til að allar góðar vættir hjálpi mér. Í þágu lands og þjóðar? Farsæla lausn Icesave? Já,já það hlýtur að vera nógu göfugt. Klukkan var að verða sex enn var spotti í Landmannahelli. Ég var orðinn langsíðustur, en hún Kolbrún brást ekki. Með sínu hæga fasi var hún komin að hlið mér - hvetjandi og styðjandi. Hvað halda þau að ég sé að gefast upp? Það skal aldrei verða. Þreyttur þrekaður en ég var ekki búinn. Þegar komið var að síðasta haftinu milli mín og Landmannahellis birtust nýir aðstoðarmenn, Svandís kórfélagi og Gylfi maður hennar auk Kristins höfðu gengið til móts við hópinn. Gylfi bauðst til að taka pokann minn. Kristinn upplýsti mig ljúfmannlega að við mundum víkja aðeins af leið. Niður næstu brekku. Þar í dalverpinu beið okkar Geimstöðin. Við fengum salibunu í henni síðustu metrana. Þrautum mínum var lokið, fjörtíu kílómetra ganga var afstaðinn. Kappinn var keyrður í síðustu metrana í 1953 árgerð af Weabon jeppa. Nóg í bili meira næst. Kveðja.

Í Áfangagili

Göngufélagarnir. Fyrsti hluti leiðarinnar var að baki. Það heitir í Áfangagili og ber nafn með rentu. Meðfylgjandi mynd er af kofanum í því ágæta gili. Ég þakkaði almættinu, hugsaði til píslargöngu Halgríms. "Upp,upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með." Nýreistur kofinn rúmaði ekki hópinn. Konurnar fengu kojurnar sem voru eins og þekkist í stríðsfangabúðum. Körlunum var vísað í hrútakofa fjær. Ég gisti í fyrsta sinn í fellihýsi hjá Kristni söngfélaga. Kvöldið var blautt, nestið borðað, bornar saman reynslusögur dagsins, spjallað um hitt og þetta, hlegið saman og sötrað á rauðvíni. Úff.. þetta var erfiður dagur og nóttin var líka erfið. Kófsvitnaði í svefnpokanum, svo kom kuldakafli, dormaði pínu, þurfti að pissa um nóttina og kunni ekki að opna fellihýsið, fann ekki gleraugun. Andskotinn ekki veit þetta á gott. Átti ég að segja þetta nóg og sleppa næsta áfanga eða halda áfram. Þetta var hugsunin sem barist var við fram undir morgun. Allt sem mér var í móti lagt fannst mér tala fyrir því að setja lokapunktinn við Áfangagil. Ég ákvað þó að lokum að halda áfram - Hellismannaleiðin var lokatakmarkið. Frá Rjúpnafelli í Landamannahelli var upphaflegt markmið mitt. Ég varð að halda áfram. Nóg í bili... meira síðar. Kveðja.
(Mynd: Kristinn Kjartansson)

sunnudagur, 28. júní 2009

Þrekaður og þakklátur - Sumarganga Skálmara

Rauð ský yfir Heklu. Ferðin að þessu sinni var að Rjúpnavöllum í Landssveit til þess að taka þátt í sumargöngu Skálmara (Félagar í Skaftfellingafélaginu). Þar var gist nóttina áður en ferðin hófst í skála. Þetta miðvikudagskvöld skaust ég upp í Landmannahelli til að selflytja bíl og koma matarbirgðum á staðinn. Þessi mynd var tekin af fjalli fjallanna, Heklu. Veðrið þetta kvöld á Landmannaafrétti var yndislegt, hlítt, heiðskýrt og stilla. Við vorum komin aftur að Rjúpnavöllum undir miðnættið.
Gestir við opnun gönguleiðar. Að morgni fimmtudagsins 25. júní var að lokinni opnunarhátið haldið af stað hina nýstikuðu Hellismannaleið. Meðal opnunargesta voru ýmsir ferðamálafrömuðir og forsvarsmenn Hellismanna. Göngufólk alls nítján félagar héldu af stað klukkan hálf tólf. Göngustjóri var Guðni Olgeirsson ásamt konu sinni Sigurlaugu Jónu Sigurðardóttur. Leiðin lá fyrst upp með Ytri - Rangá með Búrfell á vinstri hönd. Fyrsti áfanginn var um 17 km og var komið í Áfangagil um hálf sjöleytið. Næsta dagleið var úr Áfangagili í Landmannahelli um 23 km leið og lokaáfanginn var úr Landmannahelli í Landmannalaugar. Þennan fyrsta dag var mótvindur og rigning seinni hluta leiðarinnar. Margt fer í gegnum hugann á göngu sem þessari. Smátt og smátt víkur veraldleg hugsun um dægurmálin en spurningin, hversvegna ertu að leggja þetta á þig kallar á svar eftir því sem líður á gönguna. Mín niðurstaða er að maðurinn er að takast á við sköpunina sjálfa, móðir Jörð í öllu sínu veldi. Maðurinn skynjar fljótt að í smæð sinni á hann allt sitt undir þessari sköpun og hann er hluti af öllu verkinu. Efst í huga verður þakklætið fyrir að vera hluti af tilverunni og átökin kalla á lítillæti eftir því sem meira reynir á þrekið. Ég stoppa hér í bili meira síðar..... Kveðja.

þriðjudagur, 23. júní 2009

Skuldaaukningin áhyggjuefni

Viðtal í Mbl. 30. ágúst árið 2000!!! Sjá nánar það sem er leturbreytt. Þær voru þurrar kveðjurnar frá bankamönnunum eftir þessa greiningu. En hver hlustar á varnaðarorð þegar allt leikur í lyndi eða öllu heldur þegar veislan er rétt að byrja.

Skuldaaukningin áhyggjuefni
Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, bendir á að skoða þurfi skuldsetningu greinarinnar í samhengi við eignastöðu. Þannig hafi nýfjárfesting í fiskiskipum verið töluverð að undanförnu. Engu að síður sé skuldaaukning sjávarútvegsins áhyggjuefni. "Fjárfestingin hefur verið mikil og það hlýtur að endurspeglast í skuldastöðunni. Eins og horfur eru núna er það áhyggjuefni hversu afkoma sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur versnað. Kostnaður við útgerðina hefur vaxið gríðarlega að undanförnu. Olíukostnaður vegur þungt í rekstrargjöldum útvegsins en olíureikningur útvegsins hefur hækkað um tvo og hálfan milljarð á síðustu tólf mánuðum þó vissulega komi lækkuð hlutaskipti þar á móti. Almennt hækkandi kostnaðarstig í þjóðfélaginu skilar sér í dýrari aðföngum og þjónustu til útgerðar. Verðbólga upp á rúm 5% er með öllu óásættanleg fyrir sjávarútveginn. Þetta verðbólgustig er hærra en í öllum helstu viðskiptalöndum okkar. Það gengur hins vegar ekki að hver bendi á annan. Það þurfa allir að bregðast við verðbólgunni og draga úr tilkostnaði vöru og þjónustu. Þróun vaxtakostnaðar er eitt stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Ég fæ ekki séð að allt það púður, sem sett hefur verið í uppstokkun á fjármálamarkaðnum hér á landi, hafi skilað sér í betri vaxtakjörum útlána eða innlána. Aukið frelsi á fjármálamarkaði síðustu ár hefur leitt til stóraukins framboðs á lánsfjármagni, á kjörum sem fá ekki staðist til lengdar. Hinn nýi fjármálamarkaður hefur einkennst um of af skammtíma gróðasjónarmiðum og glannaskap. Eftir stendur að fjármálaþjónusta her á landi er of dýr. Atvinnulífið getur ekki til langframa staðið undir þessum kjörum, það eitt er víst."

Óstöðvandi framkvæmdagleði

Grein í Mbl. 1. apríl 2006. Svo er sagt að enginn hafi varað við.

Sveinn Hjörtur Hjartarson spyr hvað ríkisvaldið geri til þess að ná stöðugleika: "Mikilvægt er að gæluverkefni séu sett í bið á meðan þenslan er jafnmikil og raun ber vitni..."

MIKIL þensla einkennir nú íslenskt efnahagslíf. Ástæða þess er öðru fremur mikil bjartsýni í þjóðfélaginu sem birtist í kaupgleði og gríðarlegum framkvæmdum. Við nánast hvern einasta blett á höfuðborgarsvæðinu má sjá heilan skóg af byggingakrönum til marks um þá gríðarlegu fjárfestingu sem er í húsnæði. Svo eru stóriðjuframkvæmdir og álversbyggingar í áður óþekktum stærðarskala sem enn auka á þensluna. Á síðasta ári voru fluttar inn um 25 þúsund bifreiðar til að nefna annað dæmi meira og minna fyrir erlent lánsfé.
Seðlabankinn hefur það hlutverk með höndum að slá á þenslu og halda verðbólgu í skefjum. Það tæki sem hann hefur til þess eru helst stýrivextirnir sem hann hefur nú hækkað oftar en nokkur man í viðleitni sinni til þess að slá á þensluna. Árangurinn hefur því miður látið á sér standa. Ástandið hefur hinsvegar leitt til þess að erlendir aðilar hafa hafið útgáfu skuldabréfa í íslenskum krónum í þeim tilgangi að nýta sér þá háu vexti sem eru á slíkum bréfum. Þessi bréf stuðla aftur að enn frekari hækkun á genginu þegar fram í sækir og aukinni eftirspurn eftir erlendum lánum. Þetta hefur skapað útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegunum mikla erfiðleika. Minna fæst í krónum fyrir afurðirnar og þeim er gert erfiðara fyrir í samkeppni um starfsfólk og að mæta hækkandi innlendu kostnaði. Fróðlegt væri að vita hversu mikinn þátt hátt gengi íslensku krónunnar á í því að Bandaríkjamenn hafa gefist upp við að gera út herstöðina. Það skyldi þó ekki vera að krónan ætti stóran þátt í því.

Á meðan Seðlabankinn hefur leitast við að kæla efnahagslífið hefur ríkisvaldið, þ.e.a.s. sá aðili sem felur bankanum að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu, kynt svo um munar undir. Ekkert lát er á fréttum um hvert stórverkefnið á fætur öðru. Nú síðast var tilkynnt að fyrirtæki á vegum ríkisins og borgarinnar væri búið að gera samning við annað fyrirtæki á Reykjavíkursvæðinu um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar en byggingarkostnaður er áætlaður 12,5 milljarðar króna. Tengt þessu verkefni eru enn frekari framkvæmdir sem þess vegna geta kostað annað eins.

Myndir af skælbrosandi fjármálaráðherra birtast forsvarsmönnum útflutnings- og samkeppnisatvinnugreina í fjölmiðlum við undirskrift á nefndu gæluverkefni þeim til mikillar hrellingar. Þetta gerist á sama tíma og Seðlabankinn, Hagfræðistofnun og aðrir þeir er láta sig varða stöðu efnahagslífsins hvetja eindregið til aðhalds og samdráttar í útgjöldum hins opinbera. Hagfræðistofnun HÍ hefur reiknað út að með tæplega níu milljarða króna lækkun ríkisútgjalda megi lækka stýrivexti um 0,8%. Engin merki eru um að menn taki þessar ábendingar stofnunarinnar alvarlega.

Mikilvægt er að gæluverkefni séu sett í bið á meðan þenslan er jafnmikil og raun ber vitni og í ljósi yfirhlaðinnar verkefnastöðu í þjóðfélaginu í heild. Því miður eru engin merki um slíkan vilja. "Gleðin" heldur áfram með vaxandi hraða og enginn er maður með mönnum nema hann taki þátt í henni. Fyrr en síðar kemur að því að veislunni lýkur og ef óvarlega er farið er hætt við timburmönnum. Allar eru þessar framkvæmdir meira og minna fjármagnaðar með erlendum lánum. Við verðum að geta staðið undir þeim. Verði haldið óhikað áfram miklu lengur í þessum takti er næsta víst að mörgum verði lífið erfitt þegar fram líða stundir. Í ljósi þessa er afar mikilvægt að ríkisvaldið taki sér nú tak og fresti þeim framkvæmdum sem mögulegt er og styðji þannig við þá viðleitni Seðlabankans að slá á þensluna og skapa hér viðunandi starfsumhverfi fyrir undirstöðuatvinnuvegi okkar.

mánudagur, 22. júní 2009

Bláeygðir og plataðir.

Ég var að lesa Tíund í dag, blað Ríkisskattstjóra. Þar er athyglisverð grein um hverjir það voru sem töpuðu hlutafé í bönkunum. Auðvitað voru það við þessir einstaklingar, sem áttum nokkur bréf í þessum bönkum. Hákarlarnir voru flestir með sínar fjárfestingar í félögum "óháðum" eigin efnahag."Við" erum tugþúsundir einstaklinga sem höfum tapað á þessum fjárfestingum í bönkunum. Skrattakollarnir sem vissu hvert stefndi voru svo ýmist búnir að selja og/eða flýja bankana eins og dæmin sýna. Líklega mun taka nýjar kynslóðir og áratugi áður en venjulegir launþegar munu treysta hlutabréfamarkaðnum að nýju hvað þá bönkum. Auðvitað fylgir því aukin áhætta að fjárfesta í hlutabréfum. En að innviðir bankanna væru jafn rotnir og nú hefur komið í ljós hvarflaði ekki að manni. Eins og segir í greininni er þessi staða litlu fjárfestanna sem hafa tapað öllu sem þeir áttu í þessum bönkum smámunir miðað við þá alvarlegu stöðu sem þjóðin er í um þessar mundir.

föstudagur, 19. júní 2009

Sögur af bankaruglinu.

Þegar bankaruglið stóð sem hæst tóku bankarnir upp á því að bjóða helstu viðskiptamönnum sínum í flottar utanlandsferðir. Gárungarnir sögðu að þeir sem væru valdir í svona lúxusferðir væru ýmist þeir sem ættu milljarð króna í bankanum eða skulduðu honum milljarð króna. Í þessum ferðum var boðið upp á allt það flottasta í mat og drykk sem hugsast gat. Í einni ferð til Ítaliu segir sagan að fengin hafi verið íslensk sönkona og píanóleikari til að leika og syngja þrjú lög fyrir gesti bankans. Píanóleikarinn var spurður hvaða tegund hljóðfæris hann vildi fá við undirleikinn. Hún hafði heyrt af flygli sem væri sérstaklega hannaður fyrir konur og nefndi að hana langaði að prófa hann. Vandamálið var hinsvegar það að þessi tegund var ekki til á Ítalíu. Þá var brugðið á það ráð að fá leigðan eitt eintak í næsta landi, Austurríki og bíll með sex píanóflutningsmönnum sendur frá Vín til Mílanó til þess að uppfylla óskir píanóleikarans. Engar sögur fara hinsvegar af því hvernig til tókst við flutning þessara þriggja laga við borðhaldið. Nú skuldum við Íslendingar 700 milljarða króna í Englandsbanka og þá vaknar spurningin hvort samið hafi verið um sömu lúxusferðakjör og hér þekktust fyrir okkur sem skuldum þessa peninga. Mega 700 Íslendingar eiga von á því að vera dregnir úr potti í svona lúxusferðir á næstu árum hjá Englandsbanka eða var þetta enn eitt séríslenska fyrirbærið þessar lúxusferðir?

miðvikudagur, 17. júní 2009

Á þjóðhátíðardaginn.

Mæðgurnar
Við erum búin að fara tvisvar niður í miðbæ í dag. Fyrst fórum við upp úr tvö með Sigrúnu Huld og gengum hring umhverfis tjörnina í öllu mannhafinu. Þekktum að vísu engan. Veðrið var yndislegt þótt víða gæfi að líta skýjabakka fjær. Við gengum Tjarnargötuna til baka til þess að sleppa úr mestu mannþrönginni.
Sirrý og Sveinn Hversu oft hefur maður ekki rölt í niður í bæ á þessum degi. Fjær má sjá mannfjöldann á göngu eftir Fríkirkjuveginum. Þetta var nú á barns- og unglingsárunum sá dagur sem manni þótt hvað mest spennandi að fara í bæinn.
Hjörtur, Unnur, Sirrý og Sveinn Það er enginn 17. júní án þess að skella sér í miðbæinn að kvöldi til og taka stöðuna. Þetta hefur maður gert allt frá barnæsku og engin ástæða að hætta því þótt árunum fjölgi. Það eru nýjar kynslóðir sem hafa tekið við þessu bæjarrölti meira og minna. Við gengum frá Arnarhóli að Ingólfstorgi með viðkomu á Austurvelli. Skoðuðum fallegan blómvöndinn við styttu Jóns Sigurðssonar eftir að hafa gengið í mannhafinu í Austurstræti og hlustað á tónlist við Arnarhól. Nú rölti maður í bæinn með foreldrunum. Það hefði manni nú ekki þótt nógu gott á unglingsárunum en tímarnir breytast og mennirnir með.